Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig getur bænin hjálpað mér?

Hvernig getur bænin hjálpað mér?

Ungt fólk spyr . . .

Hvernig getur bænin hjálpað mér?

„Það var bænin sem hjálpaði mér að koma lífi mínu aftur á réttan kjöl.“ — Brad. *

MARGT ungt fólk biður til Guðs — kannski miklu oftar en maður heldur. Gallupkönnun, sem gerð var meðal 13 til 17 ára unglinga í Bandaríkjunum, leiddi í ljós að um 56 prósent þeirra fer með borðbæn. Könnun meðal fólks í kringum tvítugt gaf til kynna að 62 prósent þeirra biðja á hverjum degi.

Þrátt fyrir það finnst mörgu ungu fólki bænin bara vera innantóm siðvenja eða vanaverk. Fáir unglingar hafa það sem Biblían kallar nákvæma „þekkingu á Guði.“ (Kólossubréfið 1:9, 10) Þar af leiðandi skipar Guð veigalítinn sess í lífi þeirra. Í einni könnun voru unglingar spurðir hvort þeir hefðu nokkurn tíma beðið Guð að hjálpa sér að taka mikilvæga ákvörðun. Ung stúlka svaraði: „Ég leita alltaf til Guðs og bið hann að leiðbeina mér svo að ég velji réttu brautina.“ Samt viðurkenndi hún: „Ég man ekki eftir neinni ákvörðun í augnablikinu.“ Það er því engin furða að margt ungt fólk treystir ekki að bænin hafi mátt eða geti hjálpað því.

Þrátt fyrir það hafa þúsundir unglinga fundið fyrir mætti bænarinnar líkt og Brad sem vitnað var í hér í upphafi. Og þú getur það líka. Í fyrri grein í þessum greinaflokki var sýnt fram á hvers vegna við getum verið fullviss um að Guð heyrir bænir okkar. * En núna er spurningin þessi: Hvernig getur bænin hjálpað þér? Fyrst skulum við skoða hvernig Guð svarar bænum okkar.

Hvernig svarar Guð bænum?

Á biblíutímanum fengu sumir trúfastir menn bein eða jafnvel yfirnáttúruleg svör við bænum sínum. Þegar Hiskía konungur frétti að hann væri með banvænan sjúkdóm grátbað hann Guð um að hjálpa sér. Guð svaraði: „Ég hefi heyrt bæn þína og séð tár þín. Sjá, ég mun lækna þig.“ (2. Konungabók 20:1-6) Aðrir guðhræddir menn og konur fundu á svipaðan hátt fyrir beinni íhlutun Guðs. — 1. Samúelsbók 1:1-20; Daníel 10:2-12; Postulasagan 4:24-31; 10:1-7.

Á biblíutímanum var ekki einu sinni venja að Guð hefði bein afskipti af fólki. Guð svaraði bænum þjóna sinna yfirleitt ekki með kraftaverki heldur með því að hjálpa þeim að „fyllast þekkingu á vilja Guðs með allri speki og skilningi andans.“ (Kólossubréfið 1:9, 10) Já, Guð hjálpaði fólki sínu með því að styrkja það andlega og siðferðilega og með því að veita því visku og þekkingu til að taka viturlegar ákvarðanir. Þegar kristnir menn stóðu frammi fyrir erfiðleikum, fjarlægði Guð ekki endilega erfiðleikana heldur veitti hann þeim „ofurmagn kraftarins“ til að þeir gætu staðist. — 2. Korintubréf 4:7; 2. Tímóteusarbréf 4:17.

Það er eins nú á tímum og þess vegna bænheyrir Guð þig sennilega ekki á einhvern tilþrifamikinn hátt. En hann getur á svipaðan hátt og hann gerði til forna gefið þér heilagan anda sinn og styrk til að takast á við hverjar þær aðstæður sem þú stendur frammi fyrir. (Galatabréfið 5:22, 23) Til að skýra þetta nánar skulum við líta á fjögur mismunandi svið þar sem bænin getur hjálpað þér.

Hjálp til að taka ákvarðanir

Karen átti kærasta sem virtist hafa háleit andleg markmið. „Hann var alltaf að segja mér að hann vildi verða öldungur í söfnuðinum,“ segir hún. Þetta hljómaði allt mjög vel en „hann talaði líka mikið um fyrirtækið sem hann var að koma á fót og um allt það sem hann gæti keypt handa mér. Ég fór að efast um að hann væri hreinskilinn.“ Karen gerði þetta að bænarefni. „Ég sárbað Jehóva að opna augu mín fyrir því sem ég þurfti að vita um hann.“

Stundum gæti það eitt að biðja verið mjög gagnlegt því að það hjálpar okkur að staldra við og hugleiða málin vandlega frá sjónarhóli Jehóva. En Karen þurfti líka á gagnlegum leiðbeiningum að halda. Ætli hún hafi fengið yfirnáttúrulegt svar? Við skulum í því sambandi líta á frásögu í Biblíunni um Davíð konung. Davíð átti vin sem hét Akítófel og bar mikið traust til hans. En þegar Davíð frétti að svikull sonur sinn, Absalon, fengi ráð frá Akítófel bað hann: „Gjör þú, [Jehóva], ráð Akítófels að heimsku.“ (2. Samúelsbók 15:31) En Davíð breytti líka í samræmi við bæn sína. Hann fól Húsaí, vini sínum, það verkefni að ‚ónýta ráð Akítófels fyrir sig.‘ (2. Samúelsbók 15:34) Á svipaðan hátt breytti Karen í samræmi við bæn sína með því að tala við þroskaðan kristinn öldung sem þekkti kærastann hennar. Hann staðfesti að áhyggjur hennar hefðu við rök að styðjast; Kærasti hennar hafði varla tekið nokkrum andlegum framförum.

Karen segir: „Þetta sýndi mér greinilega fram á mátt bænarinnar.“ Því miður sóttist fyrrverandi kærasti hennar eftir peningum og hætti að þjóna Guði. „Ef ég hefði gifst honum,“ segir hún, „kæmi ég kannski ein á samkomur.“ Bænin hjálpaði henni að taka skynsamlega ákvörðun.

Hjálp til að hafa stjórn á tilfinningum

„Heimskinginn úthellir allri reiði sinni,“ segir Biblían í Orðskviðunum 29:11, „en vitur maður sefar hana að lokum.“ Vandamálið er að margir nú á dögum eru undir gífurlegu tilfinningaálagi og missa oft stjórn á skapi sínu — stundum með hrikalegum afleiðingum. Unglingur sem heitir Brian segir: „Ég átti í samskiptaörðugleikum við vinnufélaga minn. Einn daginn dró hann upp hníf.“ Hvað hefðir þú gert? Brian bað til Jehóva. Hann segir: „Jehóva hjálpaði mér að halda rónni og ég náði að tala við vinnufélaga minn og fá hann til að hætta við. Hann henti hnífnum frá sér og labbaði í burtu.“ Brian hafði stjórn á tilfinningum sínum og gat þar með sefað reiðina. Það bjargaði líklega lífi hans.

Þó að þér verði sennilega aldrei ógnað með hnífi eiga samt oft eftir að koma upp aðstæður í lífi þínu þar sem þú þarft að hafa stjórn á tilfinningunum. Bænin getur hjálpað þér að halda rónni.

Hjálp til að takast á við áhyggjur

Barbara minnist þess að hafa „gengið í gegnum erfiðleikatímabil“ fyrir nokkrum árum. Hún segir: „Mér fannst allt ganga illa, sama hvort það tengdist vinnunni, fjölskyldunni eða vinunum. Ég vissi ekki hvað ég átti að gera.“ Ósjálfrátt bað hún Guð um hjálp. En það var eitt vandamál. „Ég vissi ekki hvað ég átti að biðja Jehóva um,“ segir hún. „Að lokum bað ég um hugarfrið. Á hverri nóttu bað ég hann að hjálpa mér að hafa ekki áhyggjur af öllu.“

Hvernig hjálpaði bænin henni? Hún segir: „Nokkrum dögum síðar áttaði ég mig á því að þó að vandamálin væru enn til staðar þá hafði ég ekki eins miklar áhyggjur af þeim.“ Biblían lofar: „Gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.“ — Filippíbréfið 4:6, 7.

Hjálp til að nálgast Guð

Hugleiddu frásögu unglings sem heitir Páll. „Ég var nýfluttur til ættingja minna,“ segir hann. „Eitt kvöldið varð ég ótrúlega niðurdreginn. Ég var nýútskrifaður úr framhaldsskóla og saknaði allra vina minna. Ég táraðist næstum því þegar ég rifjaði upp allar góðu stundirnar sem við höfðum átt saman.“ Hvað gat Páll gert? Í fyrsta sinn á ævinni bað hann heitt og innilega til Jehóva. Hann segir: „Ég úthellti hjarta mínu fyrir Jehóva og bað hann um styrk og hugarfrið.“

Hver var árangurinn? Páll segir: „Mér hefur aldrei verið jafn létt og þennan morgun þegar ég vaknaði. Ég var ekki lengur angistarfullur því að ég hafði ‚frið Guðs, sem er æðri öllum skilningi.‘“ Þegar hann var orðinn rólegur gat hann litið á málin frá sjónarhóli sem olli honum ekki eins miklum kvölum. Og fljótlega áttaði hann sig á því að ‚gömlu góðu dagarnir‘ höfðu ekkert verið svo góðir þegar allt kom til alls. (Prédikarinn 7:10) Í rauninni höfðu „vinirnir“ sem hann saknaði svona mikið, ekki haft góð áhrif á hann.

En það sem mestu máli skipti var að Páll kynntist því af eigin raun að Jehóva bar umhyggju fyrir honum. Hann skildi sannleiksgildi orðanna í Jakobsbréfinu 4:8: „Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður.“ Þetta markaði tímamót í lífi Páls og fékk hann til að setja Jehóva framar öllu öðru og vígja líf sitt honum.

Talaðu við Guð

Þessi dæmi sanna að bænin getur hjálpað þér. Auðvitað á það bara við ef þú vilt í raun kynnast Guði og byggja upp vináttusamband við hann. Því miður láta margir unglingar ekki verða af því. Carissa var alin upp á kristnu heimili og hún viðurkennir: „Ég held að það sé bara núna á síðustu árum sem ég hef skilið að fullu hvað samband okkar við Jehóva er ótrúlega þýðingarmikið.“ Brad sem minnst var á í byrjun greinarinnar fékk kristið uppeldi en hann féll frá sannri tilbeiðslu í nokkur ár. „Ég leitaði ekki til Jehóva fyrir en ég sá hvað ég hafði misst,“ segir hann. „Núna veit ég hvað lífið getur verið kalt og innantómt þegar sambandið við Jehóva vantar.“

En ekki bíða eftir að eitthvað alvarlegt gerist áður en þú nálægir þig Guði. Byrjaðu að tala við hann núna — reglulega. (Lúkas 11:9-13) „Úthellið hjörtum yðar fyrir honum.“ (Sálmur 62:9) Þú kemst fljótt að raun um að bænin getur hjálpað þér.

[Neðanmáls]

^ Sumum nöfnum hefur verið breytt.

^ Sjá greinina „Ungt fólk spyr . . . Heyrir Guð bænir mínar?“ í Vaknið! október-desember 2001.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 15]

Bænin getur hjálpað þér

● Að taka skynsamlegar ákvarðanir.

● Að halda rónni á álagstímum.

● Að losna undan áhyggjum.

● Að nálgast Guð.