Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sameinað bræðrafélag stóð óhaggað

Sameinað bræðrafélag stóð óhaggað

Sameinað bræðrafélag stóð óhaggað

Eftir Fréttaritara Vaknið! Í El Salvador

KLUKKAN 11:34 AÐ MORGNI 13. JANÚAR 2001 VARÐ JARÐSKJÁLFTI Í EL SALVADOR SEM MÆLDIST 7,6 STIG Á RICHTERKVARÐA OG SKÓK ALLT LANDSVÆÐIÐ Á MILLI PANAMA OG MEXÍKÓ. FÁUM MUN NOKKURN TÍMA LÍÐA ÚR MINNI HVAÐ ÞEIR HÖFÐUST AÐ ÞEGAR HANN REIÐ YFIR.

„ÞEGAR versta hrinan var um garð gengin litum við upp og sáum fjallstindinn klofna og síðan virtist hann standa kyrr í nokkrar sekúndur,“ segir Miriam Quezada er hún minnist atburðanna. „Dóttir mín öskraði: ‚Mamma! Hlauptu! Hlauptu!‘“ Síðan skreið yfirborð fjallsins fram og steyptist niður í áttina til þeirra. Um það bil 500 manns fórust í bænum Las Colinas í Nueva San Salvador eða Santa Tecla og um 300 hús eyðilögðust.

„Ég var nýfarin að heiman og beið á strætisvagnabiðstöðinni þegar jarðskjálftinn dundi yfir,“ segir Roxana Sánchez. „Þegar skjálftinn var liðinn hjá hjálpaði ég konu að taka upp pokana sína og hugsaði: ‚Ég ætti að fara aftur heim því að annars hefur fjölskyldan áhyggjur af mér.‘“ Þegar Roxana fór fyrir hornið sá hún að aurskriða hafði lokað götunni þar sem hún átti heima. Húsið hennar var horfið!

Skjót viðbrögð

Í El Salvador eru alls rúmlega 28.000 vottar Jehóva og þúsundir þeirra búa á hamfararsvæðinu — við sjávarsíðu landsins. Margir fóru strax að huga að þörfum annarra þó að sjálfir væru þeir ráðvilltir vegna eigin áfalla. Marion Suarez, farandumsjónarmaður Votta Jehóva sem starfar í Santa Tecla, segir svo frá: „Um það bil einni klukkustundu eftir jarðskjálftann barst mér hjálparbeiðni. Sagt var að nokkrir kristnir bræður og systur væru innilokuð í húsum sínum. Hópur sjálfboðaliða var samstundis kallaður út.

Við bjuggumst við nokkrum hrundum veggjum og héldum að við þyrftum aðeins að fjarlægja grjóthnullunga til að mynda útgönguleið fyrir þá sem voru í sjálfheldu. En enginn okkar hefði getað ímyndað sér þvílíkar hörmungar. Við spurðum reyndar hvar húsin væru þegar við komum á svæðið. Við urðum skelfingu lostin þegar okkur var sagt að við stæðum ofan á þeim. Þriggja metra djúpur jarðvegur náði upp á aðra hæð húsanna. Þetta var hrikalegt!“

Þegar á daginn leið streymdu um það bil 250 vottar frá nálægum söfnuðum inn á svæðið til þess að hjálpa. Með prikum, skóflum, plastskálum og berum höndum reyndu sjálfboðaliðarnir í örvæntingu sinni að ná til þeirra sem voru með lífsmarki. Aðeins fáeinir fundust þá á lífi í Santa Tecla. Meðal þeirra hundruða sem fórust — köfnuðu eða krömdust undan þessum gífurlega jarðvegsþunga — voru fimm vottar Jehóva.

Skipulagt hjálparstarf

Söfnuðir vottanna hvaðanæva af landinu tóku þátt í hjálparstarfi. Margir vottar í Comasagua, Ozatlán, Santa Elena, Santiago de María og Usulután höfðu misst heimili sín. Ríkissölum og einkaheimilum var breytt í miðstöðvar þar sem tekið var á móti samskotum. „Aðstoðin var gríðarlega mikil,“ segir Edwin Hernández farandumsjónarmaður. „Bræðurnir komu með matföng, klæðnað, dýnur, læknislyf og jafnvel reiðufé fyrir útfararkostnaði.“

Hjálparnefnd frá deildarskrifstofu Votta Jehóva á svæðinu gerði ráðstafanir til þess að hópar frá söfnuðum, sem höfðu orðið fyrir minni háttar áföllum, sinntu aðkallandi þörfum safnaða sem voru ver leiknir. Vinnuhópar með 10 til 20 vottum voru myndaðir og sáu þeir um nauðsynlegar viðgerðir.

Svæðisbygginganefndir Votta Jehóva, sem sjá venjulega um byggingu ríkissala, skipulögðu þar að auki hópa sem áttu að reisa bráðabirgðahúsnæði fyrir þá sem höfðu algerlega misst heimili sín. Í El Salvador rauk verðið á bárujárni upp úr öllu valdi sem varð til þess að deildarskrifstofa Votta Jehóva í Gvatemala gaf drjúgar birgðir af því. Timbrið í skýlin kom frá deildarskrifstofunum í Bandaríkjunum og Hondúras.

Á meðan á þessari vinnutörn stóð héldu skjálftarnir áfram. Íbúar heilu bæjar- og byggðarlaga sváfu á götum úti undir plastdúkum og gömlum ábreiðum. Taugarnar voru spenntar til hins ítrasta. Tólfta febrúar höfðu mælst 3486 eftirskjálftar.

Annar stór jarðskjálfti

Þrettánda febrúar 2001 klukkan 8:22 að morgni, einum mánuði eftir fyrsta skjálftann, reið annar jarðskjálfti yfir miðbik El Salvador sem mældist 6,6 stig á Richterkvarða. Enn einu sinni fór björgunar- og hjálparstarf Votta Jehóva í gang. Noé Iraheta, safnaðaröldungur, segir: „Hver einasti safnaðarbóknámsstjóri gekk úr skugga um að allir vottar í bóknámshópi sínum væru óhultir.“

Borgirnar San Vicente og Cojutepeque og úthverfi þeirra urðu illa úti. Bæirnir San Pedro Nonualco, San Miguel Tepezontes og San Juan Tepezontes voru í rúst. Í Candelaria í Cuscatlán, sem nærri gereyddist, hrundi sveitaskóli og fleiri en 20 börn létu lífið. Votturinn Salvador Trejo, sem bjó þar, segir: „Um klukkustundu síðar heyrði ég að einhver á götunni kallaði: ‚Bróðir Trejo!‘ Í fyrstu sá ég ekkert fyrir rykinu. En skyndilega birtust vottarnir frá Cojutepeque. Þeir voru komnir til að sjá hvernig okkur liði.“

Nágrannasöfnuðir fóru aftur af stað til að útvega nauðsynjar handa fórnarlömbum þessara síðari hamfara. Þeir fylgdu fordæmi kristinna manna í Makedóníu á fyrstu öld sem báðu um að mega gefa þó að þeir sjálfir lifðu við skort. Þeir sem voru í söfnuðunum í borginni Santiago Texacuangos og höfðu misst mikið í fyrri jarðskjálftanum, útbjuggu til dæmis heitan málsverð til að færa bræðrunum í nærliggjandi borg, San Miguel Tepezontes.

Það er áætlað að alls hafi meira en 1200 manns týnt lífi í jarðskjálftunum í El Salvador og til viðbótar fórust átta í Gvatemala að því er fréttir herma.

Hjálparstarfið metið mikils

Aðrar björgunarsveitir kunnu að meta skipulagða viðleitni Vottanna til að aðstoða fórnarlömbin. Flutningabíll frá neyðarþjónustu ríkisins kom með hjálpargögn í ríkissal sem notaður var fyrir athvarf. Fulltrúinn sagði: „Af öllum þeim athvörfum sem við höfum heimsótt er þetta það fyrsta sem er skipulagt. Ég óska ykkur til hamingju!“ Þarna flykktust menn ekki að flutningabílnum, ráku á eftir eða tróðust eins og gerst hafði við aðrar miðstöðvar. Eldra fólkið fékk enn fremur að taka fyrst á móti framlögunum.

Vottarnir hjálpuðu ekki bara trúsystkinum sínum. Í San Vicente leituðu fjölmargir úr nágrenninu, sem ekki voru vottar, skjóls á lóð ríkissalarins svo dæmi sé tekið. Regina Durán de Cañas sagði: „Hér, í ríkissal Votta Jehóva, hefur fólkið hjartað á réttum stað. Þeir opnuðu dyrnar og sögðu: ‚Komið inn!‘ og því erum við hér. Á næturnar skiptast þeir meira að segja á að vaka yfir okkur.“

Ráðstafanir í húsnæðismálum

Þegar skaðinn hafði verið metinn bárust tillögur til deildarskrifstofunnar um að útvega nauðsynlegt húsnæði. Byrjað var á að reisa bráðabirgðahúsnæði handa þeim sem misst höfðu heimili sín. Viðgerðir voru einnig hafnar á húsum sem höfðu aðeins skemmst að hluta til. Með atorku sinni og afköstum drógu vinnuflokkarnir að sér töluverða athygli þar sem fólk í nágrenninu kom til að horfa á þá vinna.

Kona nokkur, sem hélt að verkamennirnir væru frá bæjaryfirvöldunum eins og henni hafði verið lofað fyrir löngu, kom og kvartaði undan því að enginn hefði komið sér til hjálpar að fjarlægja grjóthnullunga. Börn úr nágrenninu hrópuðu: „Nei, þeir eru ekki frá bænum. Þeir eru frá Guðsríkinu!“ Moisés Antonio Díaz, sem er ekki heldur vottur, sagði: „Það er dýrmæt reynsla að sjá hvernig Vottar Jehóva hjálpa þeim sem eru í nauðum staddir. Þetta er mjög samhent skipulag og ég þakka Guði fyrir að þeir vilja hjálpa okkur sem eigum um svo sárt að binda. Ég hef unnið með þeim og ætla mér að gera það áfram.“

Kristin systir, sem hafði fengið bráðabirgðahúsnæði, sagði grátandi: „Við hjónin eigum ekki orð til að lýsa þakklæti okkar — fyrst af öllu til Jehóva og síðan til þessara trúbræðra sem komu svo fljótt til hjálpar þótt þeir þekktu okkur ekki neitt.“

Um miðjan apríl höfðu vottarnir reist 567 bráðabirgðahús handa fórnarlömbum jarðskjálftanna og að auki fengu nærri því 100 fjölskyldur efni til að endurbæta heimili sem höfðu skemmst. Þegar hinar bágstöddu fjölskyldur höfðu fengið dyr til að læsa og þak yfir höfuðið beindu vottarnir athygli sinni að þeim 92 ríkissölum sem þörfnuðust viðgerðar eða endurbyggingar.

Lífið byggt upp á ný

Margir voru sérstaklega þakklátir fyrir að þann andlega og tilfinningalega stuðning sem þeir höfðu fengið, svo að ekki sé talað um endurbyggingu húsa og heimila.

Miriam, sem fyrr er getið, sagði: „Af því að skjálftarnir héldu áfram komu þau augnablik að mér fannst ég yfirbuguð en stöðug hlýja og uppörvun streymdi frá bræðrunum. Hvar værum við stödd án bræðranna?“

Kærleiksrík umhyggja Jehóva fyrir atbeina safnaðarfyrirkomulagsins hefur haft óvænt áhrif á fórnarlömb jarðskjálftanna. Í fyrsta skjálftanum í Comasagua skemmdust eða eyðilögðust nærri því öll heimili vottanna. Samt skráðu sig 12 af 17 vottum þar til að þjóna sem boðberar í fullu starfi í apríl og maí og síðan hafa tveir orðið boðberar í fullu starfi.

Söfnuðirnir í Cuscatlán, einu af þeim svæðum sem verst urðu úti í síðari jarðskjálftanum, héldu sérstaka mótsdaginn í mars. Þar var metaðsókn, 1535 manns, og 22 voru skírðir. Þrátt fyrir að margir viðstaddra hefðu nýlega misst heimili sín gáfu þeir töluverða peningaupphæð til samkomuhússins, mótsnefndinni til undrunar.

Vottur einn frá San Vincente endurómaði þakklætistilfinningu margra þegar hann sagði: „Ég hafði lesið í ritunum hvernig skiplagið bregst við stórslysum en nú hef ég sjálfur kynnst því og komist í snertingu við hjálpsemi bræðrafélagsins. Við höfum orðið vitni að kristnum kærleika í verki. Það eru mikil sérréttindi að tilheyra þessu sameinaða fólki.“

[Mynd á blaðsíðu 23]

Aurskriðan í kjölfar jarðskjálftans gróf meira en 300 hús í Las Colinas.

[Credit line]

Neðst á bls. 23-5: Með góðfúslegu leyfi El Diario de Hoy.

[Mynd á blaðsíðu 24]

Þorpsbúar notuðu prik, skóflur og skálar við björgunarstörfin.

[Credit line]

Með góðfúslegu leyfi La Prensa Gráfica (ljósmynd: Milton Flores/Alberto Morales/Félix Amaya).

[Mynd á blaðsíðu 25]

Rústir ríkissalarins í Tepecoyo.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Bræðurnir í Tepecoyo reistu þegar í stað skýli til samkomuhalds.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Vottarnir endurbyggðu fljótt ríkissali og reistu meira en 500 bráðabirgðahús.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Þakklát einstæð móðir og dóttir hennar horfa á þegar verið er að reisa heimili þeirra úr rústunum.