Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Í leit að öruggu skjóli

Í leit að öruggu skjóli

Í leit að öruggu skjóli

„Tuttugasta öldin er á enda runnin en það er enginn endir á þeim blóðsúthellingum og ofsóknum sem neyða fólk til að flýja heimili sín. Tugir milljóna manna hafa heilsað nýrri árþúsund í flóttamannabúðum eða einhverju öðru athvarfi, og óttast um líf sitt ef þær voga sér að snúa heim.“ — Bill Frelick, flóttamannanefnd Bandaríkjanna.

JAKOB átti sér draum. Hann dreymdi um stað þar sem fólk gæti búið í friði, þar sem geitur fjölskyldunnar yrðu óhultar fyrir sprengjum og þar sem hann gæti gengið í skóla.

Aðrir bæjarbúar sögðu honum að slíkur staður væri til en það væri óralangt þangað. Faðir hans sagði að sumir hefðu dáið úr hungri og þorsta á leiðinni þannig að það væri of hættulegt að fara þangað. En þegar grannkona, sem hafði orðið fyrir því að eiginmaðurinn var myrtur, lagði af stað ásamt börnum sínum tveim ákvað Jakob að leggja land undir fót einn síns liðs.

Hann tók hvorki með sér nesti né föt og hljóp látlaust fyrsta daginn. Leiðin í öruggt skjól var stráð líkum látinna. Daginn eftir hitti hann konuna frá heimabæ sínum og hún sagði að hann mætti slást í för með sér og samferðafólkinu. Þau gengu dögum saman fram hjá yfirgefnum þorpum. Dag einn urðu þau að fara yfir jarðsprengjusvæði. Einn úr hópnum fórst. Þau höfðu laufblöð til matar.

Tíu dögum síðar fór fólk að deyja úr hungri og örmögnun. Skömmu síðar var gerð loftárás á hópinn. Að lokum náði Jakob til flóttamannabúða handan landamæranna. Nú gengur hann í skóla og hræðist ekki lengur flugvélagný. Þær flugvélar, sem hann sér, flytja matvæli en ekki sprengjur. En hann saknar fjölskyldunnar og langar til að snúa heim.

Jakob á sér milljónir þjáningabræðra víða um lönd. Margir eru í losti eftir stríðshörmungar og búa við hungur og þorsta. Fáir hafa kynnst eðlilegu fjölskyldulífi og margir eiga aldrei afturkvæmt heim. Þeir eru snauðasta fólk veraldar.

Flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna skiptir þessu allslausa fólki í tvo hópa. Annars vegar eru landflótta menn sem af rökstuddum ótta við ofbeldi eða ofsókn flýja heimaland sitt. Hins vegar eru innlendir flóttamenn sem neyðast til að yfirgefa heimili sín vegna styrjaldar eða annars alvarlegs hættuástands en búa eftir sem áður í heimalandi sínu. *

Enginn veit með vissu hve margir flóttamenn í eigin landi eða erlendis draga fram lífið í skammtímabúðum eða hversu margir eigra hjálparvana stað úr stað í leit að öruggu skjóli. Sumar heimildir herma að talan geti verið um 40 milljónir á heimsmælikvarða og þar af sé helmingurinn börn. Hvaðan kemur allt þetta fólk?

Nýlegt vandamál

Flóttamannavandinn magnaðist til muna við lok fyrri heimsstyrjaldarinnar. Í kjölfar hennar voru stórveldi limuð sundur og þjóðernislegir minnihlutahópar ofsóttir. Milljónir Evrópumanna lögðu á flótta og leituðu hælis utan heimalands síns. Síðari heimsstyrjöldin olli enn hrikalegri eyðileggingu en sú fyrri og lentu þá milljónir manna til viðbótar á vergangi. Frá 1945 hafa styrjaldir verið staðbundnari en ekkert síður ægilegar fyrir óbreytta borgara sem lent hafa í eldlínunni.

„Þó að stríð hafi alltaf hrakið einhverja á flótta var það fyrst á tuttugustu öld sem allir íbúar heilla landa urðu fyrir barðinu á alþjóðlegum átökum,“ segir Gil Loescher í bók sinni Beyond Charity — International Cooperation and the Global Refugee Crisis sem kom út árið 1993. „Þegar hætt var að gera greinarmun á hermönnum og óbreyttum borgurum lagði gríðarlegur fjöldi fólks á örvæntingarfullan flótta undan ofbeldinu og tortímingunni.“

Stríðsátök okkar tíma eru að stórum hluta borgarastríð og þau leggjast ekki síður þungt á konur og börn en karlmenn á herskyldualdri. Oft eru þessi átök sprottin af djúpstæðri þjóðernis- og trúarsundrungu og það virðist borin von að þau taki enda. Í einu Afríkulandi hefur staðið yfir borgarastríð í 18 ár. Þar hafa fjórar milljónir manna hrakist frá heimilum sínum og eru á vergangi innanlands, og hundruð þúsunda manna að auki hafa flúið til annarra landa.

Vilji stríðsþreyttir borgarar umflýja ofbeldið eiga þeir ekki annars úrkosti en að flýja að heiman. „Það er ekki í þægindaskyni sem flóttamenn yfirgefa heimaland sitt og reyna að fá landvist annars staðar heldur er það af algerri nauðsyn,“ segir í bókinni The State of the World’s Refugees 1997-98. En það getur verið þrautin þyngri nú orðið að fá dvalarleyfi í öðru landi.

Á síðasta áratug nýliðinnar aldar fækkaði landflótta fólki í heiminum úr hér um bil 17 milljónum í 14. En þessar tölur eru villandi því að það er áætlað að á sama áratug hafi þeim sem eru á flótta í eigin landi fjölgað upp í 25 til 30 milljónir. Hvað er á seyði?

Það er orðið erfiðara en áður að hljóta opinbera viðurkenningu sem flóttamaður og kemur þar margt til. Þjóðir geta verið tregar til að taka við flóttamönnum, annaðhvort vegna þess að þær eru ekki í stakk búnar til að taka við miklum straumi flóttamanna eða vegna þess að þær óttast að mikill fjöldi búfastra flóttamanna geti valdið alvarlegri röskun á efnahagslífi eða stjórnmálum innanlands. En stundum hafa skelkaðir borgarar ekki einu sinni úthald, mat né fjármuni til að komast alla leið til landamæranna. Þá er ekki um annað að velja en að leita á öruggari slóðir í heimalandinu.

Vaxandi straumur fólks í leit að bættum lífskjörum

Auk raunverulegs flóttafólks reyna milljónir fátækra að bæta hlutskipti sitt á þann eina veg sem þeim virðist fær — að flytjast til lands þar sem lífsskilyrði eru mun betri en heima fyrir.

Hinn 17. febrúar 2001 strandaði gamalt, ryðgað flutningaskip við strönd Frakklands. Innanborðs voru um það bil þúsund karlar, konur og börn sem höfðu verið á siglingu í næstum viku án matar. Þau höfðu greitt jafnvirði 200.000 króna á mann fyrir farið og ekkert þeirra vissi hvert þessari hættulegu för var heitið. Skipstjórinn og áhöfnin voru á bak og burt skömmu eftir að skipið strandaði. Sem betur fór tókst að bjarga skelkuðum farþegunum og franska stjórnin hét því að kanna hvort hún gæti veitt þeim hæli. Milljónir manna leggja upp í svipaðar ferðir á ári hverju.

Alla jafna leggur þetta fólk fúslega út í óvissu og miklar þrengingar. Einhvern veginn skrapar það saman fyrir fargjaldinu því að heima fyrir er fátæktin slík, ofbeldið, mismununin eða kúgun stjórnvalda — og stundum allt samanlagt — að lífið virðist vonlaust.

Ófáir týna lífinu í leit sinni að betri lífskjörum. Á síðasta áratug drukknuðu eða týndust um 3500 manns á Gíbraltarsundi á leið frá Afríku til Spánar. Árið 2000 köfnuðu 58 Kínverjar sem verið var að flytja leynilega með flutningabíl frá Belgíu til Englands. Ótal manns deyja úr þorsta í Sahara þegar ofhlaðnir og úr sér gengnir flutningabílar bila í miðri eyðimörkinni.

Þrátt fyrir hætturnar fjölgar þeim linnulaust sem flýja land í leit að betri lífskjörum. Um hálfri milljón manna er smyglað til Evrópu á ári hverju og um 300.000 til Bandaríkjanna. Árið 1993 áætlaði Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna að þessir ólöglegu innflytjendur væru á að giska 100 milljónir um heim allan, þar af rúmlega þriðjungur í Evrópu og Bandaríkjunum. Talan hefur eflaust hækkað talsvert síðan.

Margt af því fólki, sem flytur í leit að betri lífskjörum, finnur aldrei hið örugga skjól sem það er að leita eftir. Og fáir flóttamenn hljóta öruggt og varanlegt hæli. Allt of margir fara einungis úr öskunni í eldinn. Í greininni á eftir lítum við nánar á sum af þeim vandamálum, sem þeir eiga við að glíma, og á undirrót þeirra.

[Neðanmáls]

^ Á bilinu 90 til 100 milljónir manna hafa verið fluttar nauðugar frá heimilum sínum vegna stíflugerðar, námuvinnslu, skógarhöggs eða landbúnaðaráætlana víða um lönd. Þessi hópur er ekki meðtalinn þegar rætt er um innlenda flóttamenn í þessari greinaröð.