Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að finna nýjan samastað

Að finna nýjan samastað

Að finna nýjan samastað

„Er heimilið bezt, hversu lágt sem það er.“ — John Howard Payne (Íslensk þýðing: Páll Bjarnason. Flísar. 1964.)

FYRST kom stríðið, stríð sem aldrei lauk. Síðan komu þurrkarnir, þurrkar sem aldrei tóku enda. Í kjölfar þurrkanna kom svo hungursneyðin. Og fólk gerði það eina sem það gat gert — það yfirgaf heimili sín í leit að vatni, mat og vinnu.

Það streymdi þúsundum saman að landamærastöðinni. Á liðnum árum hafði milljónum flóttamanna verið hleypt inn í þetta nágrannaríki en nú þótti yfirvöldum nóg komið. Landamæralögregla vopnuð kylfum sá til þess að enginn kæmist í gegn.

Embættismaður hjá innflytjendaeftirlitinu á staðnum var ómyrkur í máli er hann útskýrði hvers vegna lokað hefði verið fyrir flóttamannastrauminn. „Þeir greiða ekki skatta. Þeir eyðileggja vegina. Þeir höggva niður trén. Þeir klára vatnið. Við viljum ekki fá fleiri.“ *

Átakanleg atvik af þessu tagi verða æ algengari. Fólk flosnar upp frá heimilum sínum en uppgötvar að það er sífellt erfiðara að finna nýjan samastað. „Eftir því sem fleiri leita hælis verða ríki heims tregari til að veita hæli,“ segir í nýlegri skýrslu mannréttindasamtakanna Amnesty International.

Þeir sem eru svo heppnir að komast í flóttamannabúðir finna einhvers konar öryggi þar en það jafnast sjaldan á við heimili. Og oft vantar mikið upp á að ástandið í flóttamannabúðunum sé viðunandi.

Í flóttamannabúðum

„[Heima] á maður á hættu að falla fyrir byssukúlu en hérna [í flóttamannabúðunum] deyja börnin úr hungri,“ sagði afrískur flóttamaður mæðulega. Eins og þessi örvilnaði faðir uppgötvaði er oft þrálátur skortur á matvælum og drykkjarvatni í flóttamannabúðum, og auk þess er hörgull á hreinlætisaðstöðu og viðunandi húsaskjóli. Ástæðurnar eru einfaldar. Þróunarlöndin eiga mörg hver fullt í fangi með að brauðfæða eigin þegna, að ekki bætist við holskefla flóttamanna. Þau eiga litla möguleika á að liðsinna þeim þúsundum sem leita skyndilega inngöngu. Og auðugu ríkin eiga við eigin vandamál að stríða og eru stundum treg til að hlaupa undir bagga með flóttamönnum í öðrum löndum.

Þegar rúmlega tvær milljónir manna flúðu frá einu af ríkjum Afríku árið 1994 voru reistar flóttamannabúðir handa þeim með hraði en þar vantaði auðvitað vatn og viðunandi hreinlætisaðstöðu. Þetta olli því að kólerufaraldur braust út í búðunum og þúsundir manna létust áður en tókst að ráða niðurlögum hans. Ekki bætti úr skák að vopnaðir hermenn komu sér fyrir meðal óbreyttra borgara og tóku dreifingu hjálpargagna í sínar hendur. En þetta var ekkert einsdæmi. „Vopnaðar sveitir meðal flóttamanna hafa skapað aukna hættu fyrir óbreytta borgara. Þeir eru berskjalda fyrir hótunum og áreitni eða eru þvingaðir til hermennsku,“ að því er segir í skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum.

Heimamenn bera líka skarðan hlut frá borði þegar flóttamenn streyma að hópum saman. Sumir embættismenn á vatnasvæðinu mikla í Afríku hafa kvartað undan flóttamönnum: „[Þeir] hafa eyðilagt matvælaforða okkar, eytt akra og þjóðgarða, tortímt nautgripum og valdið hungursneyð og farsóttum . . . [Þeir] fá matvælaaðstoð en við fáum ekkert.“

Torveldasti vandinn er þó kannski sá að flóttamannabúðir verða gjarnan að varanlegri nýlendu þótt þær séu upphaflega hugsaðar til skamms tíma. Svo dæmi sé tekið er um 200.000 manns troðið í flóttamannabúðir í Miðausturlöndum sem voru upphaflega gerðar til að hýsa um fjórðung af þeim fjölda. „Við eigum ekki í önnur hús að venda,“ sagði einn þeirra biturlega. Þessir langþjáðu flóttamenn fá mjög takmarkaða heimild til að vinna í viðtökulandinu, og allt að 95 af hundraði teljast hafa of litla vinnu eða eru atvinnulausir. „Ég veit satt að segja ekki hvernig [þeir] ná endum saman,“ segir flóttamannafulltrúi.

En þótt ástandið sé slæmt hjá þeim sem eru landflótta er það oft enn verra hjá þeim sem eru flóttamenn í eigin landi og komast ekki burt.

Neyð flóttafólks í eigin landi

Flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna segir að „þessi innlendi flóttamannavandi sé svo stórfelldur og umfangsmikill, þjáningarnar sem að baki búa svo ógurlegar og áhrif hans á frið og öryggi í heiminum svo alvarleg að það verði að skoða hann í alþjóðlegu samhengi.“ Fólk sem er á flótta í eigin landi er af ýmsum ástæðum verr sett en þeir sem eru landflótta.

Engin alþjóðastofnun liðsinnir fólki sem er á flótta í eigin landi og neyð þess er yfirleitt lítill gaumur gefinn í fjölmiðlum. Stjórnvöld heima fyrir eru oft upptekin af einhvers konar hernaðarátökum og eru ýmist ófús til að vernda þá eða ófær um það. Fjölskyldur tvístrast iðulega á flótta af hættusvæði. Margir eiga ekki annars úrkosti en að ferðast fótgangandi og sumir lifa það ekki að komast þangað sem hættan er minni.

Margt af þessu uppflosnaða fólki leitar hælis í borgum þar sem það dregur fram lífið í hreysahverfum eða yfirgefnum húsum. Aðrir þyrpast saman í bráðabirgðabúðir sem verða stundum fyrir árásum vopnaðra sveita. Dánartíðnin er yfirleitt hærri en hjá nokkrum öðrum þjóðfélagshópi í landinu.

Hjálparstarf, sem hugsað er til að lina þjáningar flóttafólks í eigin landi, hefur stundum þveröfug áhrif. Bókin The State of the World’s Refugees 2000 segir: „Hjálparstofnanir hafa bjargað þúsundum mannslífa og lagt sitt af mörkum til að lina þjáningar manna í stríðshrjáðum löndum á síðasta áratug 20. aldar. Einn mikilvægasti lærdómurinn, sem hægt er að draga af þeim áratug, er þó sá að hin stríðandi öfl eiga auðvelt með að misnota sér neyðaraðstoð þannig að hún getur óviljandi haft þær afleiðingar að styrkja stöðu þeirra yfirvalda sem fremja mannréttindabrot. Neyðarhjálp, sem hjálparstofnanir láta í té, getur einnig virkað hvetjandi á stríðshagkerfi og þar með stuðlað að stríðsátökum og framlengt þau.“

Í leit að betri lífskjörum

Auk erlendra og innlendra flóttamanna fjölgar þeim jafnt og þétt sem flýja bág lífskjör í heimalandi sínu. Ástæðurnar eru margar. Bilið breikkar sífellt milli ríkra þjóða og fátækra og sjónvarpið veifar því daglega fyrir augum sumra af fátækustu íbúum þessa heims hve ríkmannlega fólk lifir í ýmsum öðrum löndum. Það er orðið auðveldara en áður að ferðast um heiminn og landamæravarsla hefur minnkað. Þar við bætist borgarastríð og mismunun af völdum þjóðernis eða trúar sem eru mörgum sterkur hvati til að flytjast til annars lands þar sem efnahagur er betri en heima fyrir.

Sumum þessara innflytjenda vegnar vel í nýju landi — ekki síst þeim sem eiga ættingja búsetta í einhverju af iðnríkjum heims. Örlög annarra eru öllu dapurlegri. Þeim sem lenda í klónum á glæpamannahópum, sem smygla fólki á milli landa, er sérstök hætta búin. (Sjá meðfylgjandi rammagreinar.) Fólk ætti að hugleiða þessar hættur vel áður en það flyst búferlum af fjárhagsástæðum.

Árið 1996 drukknuðu 280 manns á Miðjarðarhafi er gömlum báti hvolfdi. Hinir látnu voru frá Indlandi, Pakistan og Srí Lanka og höfðu greitt á bilinu 600.000 til 800.000 krónur fyrir fargjaldið til Evrópu. Áður en báturinn fórst höfðu þeir mátt þola hungur, þorsta og misþyrmingar vikum saman. Ferðin til „fyrirheitna landsins“ breyttist í martröð og endaði með harmleik.

Nálega allir flóttamenn, bæði í eigin landi og erlendis, og ólöglegir innflytjendur hafa mátt þola sína martröð. Hver sem ástæðan var fyrir því að þetta fólk tók sig upp — hvort heldur það var stríð, ofsóknir eða fátækt — vekja þjáningar þess eftirfarandi spurningar: Verður þessi vandi nokkurn tíma leystur? Eða heldur flóttamannastraumurinn áfram að vaxa?

[Neðanmáls]

^ Atvikið, sem hér er lýst, átti sér stað í Asíulandi í marsmánuði 2001, en áþekk staða hefur einnig komið upp sums staðar í Afríku.

[Rammagrein/mynd á blaðsíðu 8]

Neyð ólöglegra innflytjenda

Til viðbótar innlendum og erlendum flóttamönnum eru einhvers staðar á bilinu 15 til 30 milljónir ólöglegra innflytjenda í heiminum. Flest af þessu fólki er að flýja fátækt heima fyrir— og kannski líka fordóma og ofsóknir — og reyna að skapa sér betri lífsafkomu í ríkari löndum.

Þar sem það er orðið erfiðara en áður að flytja með löglegum hætti milli landa hefur sprottið upp ólögleg „verslun“ með innflytjendur. Reyndar er það orðin gróðavænleg starfsemi hjá alþjóðlegum glæpasamtökum að flytja fólk með ólöglegum hætti milli landa. Sumir rannsakendur áætla að hagnaðurinn af þessari verslun nemi um 1200 milljörðum íslenskra króna á ári og áhætta glæpamannanna sé sáralítil. Pino Arlacchi, einn af aðstoðarframkvæmdastjórum Sameinuðu þjóðanna, segir að þessi „starfsemi vaxi örar en nokkur önnur glæpastarfsemi í heiminum.“

Ólöglegir innflytjendur njóta nánast engrar lagaverndar og þeir sem sjá um flutninginn hirða alla jafna af þeim vegabréfin. Hinir ólöglegu innflytjendur vinna oftast langan vinnudag við slæman aðbúnað og bág kjör, ýmist í verksmiðjum, fiskvinnslu eða landbúnaði eða þá við heimilisstörf. Sumir lenda í vændi. Ef yfirvöld hafa hendur í hári þeirra eru þeir að jafnaði sendir til síns heima, slyppir og snauðir. Kvarti þeir undan kjörum og aðbúnaði mega þeir búast við misþyrmingum eða kynferðisofbeldi eða þá að fjölskyldunni heima er hótað ofbeldi.

Glæpagengi lokka oft til sín væntanlega innflytjendur með því að lofa þeim hálaunuðum störfum. Fátækt fólk veðsetur gjarnan allar eigur sínar til að geta sent einn úr fjölskyldunni til Evrópu eða Bandaríkjanna. Geti innflytjandinn ekki greitt skuld sína með peningum er til þess ætlast að hann greiði hana með vinnu. Skuldin getur verið allt að 4.000.000 króna. Hið ‚nýja líf,‘ sem heitið var, er oft einna líkast þrælkunarvinnu.

[Rammagrein/mynd á blaðsíðu 9]

Rænd sakleysi

Siri bjó með fjölskyldu sinni á hæðóttu svæði í Suðaustur-Asíu þar sem foreldrarnir ræktuðu hrísgrjón. Dag nokkurn kom kona að máli við foreldrana og sagðist geta útvegað Siri vel launað starf í borginni. Það var erfitt að hafna boðinu — óbreytt bændafólk munaði um minna en 200.000 krónur. En innan skamms var Siri fangi í vændishúsi. Eigendurnir sögðu að hún yrði að endurgreiða þeim 800.000 krónur til að hljóta frelsi. Hún var þá 15 ára.

Siri hafði engin tök á að greiða skuldina. Hún var barin og beitt kynferðisofbeldi uns hún lét undan. Meðan hún kom að gagni átti hún enga von um frelsi. Mörgum stúlkum, sem hnepptar eru í kynlífsþrælkun, er reyndar sleppt um síðir — en aðeins til að deyja úr alnæmi heima í þorpinu sínu.

Stunduð er blómleg verslun af þessu tagi víða um heim. Árið 1999 kom út skýrsla sem nefnist International Trafficking in Women to the United States. Þar er áætlað að á bilinu 700.000 til 2.000.000 kvenna og barna séu seld ár hvert, mörg í kynlífsþrælkun. Sum eru blekkt, öðrum hreinlega rænt, en næstum öll eru þvinguð til vinnu gegn vilja sínum. Unglingsstúlka frá Austur-Evrópu, sem var bjargað úr klóm vændisgengis, sagði um fangara sína: „Ég gat ekki ímyndað mér að þetta væri hægt. Þetta fólk er skepnur.“

Sum ólánsöm fórnarlömb hafa jafnvel verið sótt í flóttamannabúðir þar sem loforð um vinnu og góð laun í Evrópu eða Bandaríkjunum getur verið ómótstæðilegt. Ótal konur í leit að betra lífi hafa endað í kynlífsþrælkun.

[Mynd]

Ólöglegir innflytjendur á Spáni.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 10]

Er skynsamlegt að flytja til að bæta kjör sín?

Í ljósi þess hve algengt það er að glæpasamtök taki að sér að smygla fólki milli landa, og hversu erfitt það er að flytja með löglegum hætti frá hinum fátækari löndum til hinna efnameiri, eru eiginmenn og feður hvattir til að skoða hug sinn alvarlega áður en ákvörðun er tekin og spyrja sig eftirfarandi spurninga:

1. Er fjárhagur okkar virkilega svo bágborinn að einn úr fjölskyldunni eða allir þurfi að flytja til lands þar sem laun eru hærri?

2. Til hve hárrar skuldar þarf að stofna fyrir ferðakostnaði og hvernig á að endurgreiða hana?

3. Er það þess virði að sundra fjölskyldunni í von um fjárhagslegan ávinning sem er kannski óraunhæfur? Margir ólöglegir innflytjendur eiga nánast enga möguleika á því að fá fasta vinnu í hinum efnameiri löndum.

4. Á ég að leggja trúnað á sögur af háum launum og góðum félagslegum aðbúnaði? Biblían segir að ‚einfaldur maður trúi öllu en kænn maður athugi fótmál sín.‘ — Orðskviðirnir 14:15.

5. Hvaða trygging er fyrir því að við séum ekki að ganga í gildru glæpasamtaka?

6. Ef glæpasamtök skipuleggja ferðina er rétt að spyrja: Geri ég mér grein fyrir því að eiginkona mín — eða dóttir — verður hugsanlega neydd til að stunda vændi?

7. Er mér ljóst að ef ég fer með ólöglegum hætti til annars lands er óvíst að ég fái fasta vinnu og að hægt er að senda mig heim aftur og þá tapa ég öllu því fé sem ég lagði í flutninginn?

8. Vil ég vera ólöglegur innflytjandi eða beita óheiðarlegum aðferðum til að komast til auðugra lands? — Matteus 22:21; Hebreabréfið 13:18.

[Skýringarmynd/kort á blaðsíðu 8, 9]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

Helstu straumar flóttamanna og innflytjenda.

Svæði þar sem mikið er af erlendum og innlendum flóttamönnum.

→ Helstu straumar innflytjenda.

[Credit lines]

Heimildir: The State of the World’s Refugees; The Global Migration Crisis og World Refugee Survey 1999.

Mountain High Maps® Copyright © 1997 Digital Wisdom, Inc.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Flóttamaður bíður flutnings til nýrra heimkynna.

[Credit line]

UN PHOTO 186226/M. Grafman