En ef ég hitti skólafélaga?
Ungt fólk spyr . . .
En ef ég hitti skólafélaga?
„Það var algjör pína að fara í skólann á mánudögum. Ef einhver vina minna hafði séð mig var ég vanur að búa til þessar úthugsuðu sögur. Til dæmis sagði ég þeim að ég hefði verið að safna peningum fyrir Verkamannaflokkinn.“ — James, Englandi.
„Þeir sem höfðu séð til mín gerðu grín að mér í skólanum. Það var mjög erfitt.“ — Débora, Brasilíu.
HVERS vegna voru þessir unglingar svona hræddir við að félagarnir sæju til þeirra? Voru þeir að taka þátt í einhverri ólöglegri starfsemi? Þvert á móti, þeir voru að taka þátt í virðingarverðasta og mikilvægasta starfi sem unnið er á jörðinni nú á tímum. Þeir voru að vinna það verk sem Jesús fyrirskipaði þeim að vinna er hann sagði: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum . . . og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ — Matteus 28:19, 20.
Samkvæmt Gallupkönnun, sem gerð var í Bandaríkjunum, trúa 90 prósent unglinga á Guð og um helmingur sækir kirkju í hverri viku. En þrátt fyrir að margir unglingar taki þátt í trúarlegri starfsemi eins og það að syngja í kirkjukór, tala fáir um trúmál við skólafélagana. Hins vegar eru vottar Jehóva þekktir um heim allan fyrir boðunarstarf sitt hús úr húsi. Þúsundir ungmenna í söfnuði Votta Jehóva taka þátt í þessu starfi.
Ef þú ert ungur vottur Jehóva tekurðu án efa nú þegar þátt í boðunarstarfinu. En ef til vill er það ekki auðvelt fyrir þig. Líkt og unglingarnir, sem vitnað var í hér að ofan, getur þú fyllst kvíða við tilhugsunina um að hitta skólafélaga í boðunarstarfinu. Bresk unglingsstúlka, Jennie að nafni, viðurkennir: „Eitt af því versta sem ég gat hugsað mér var að einn af skólafélögunum sæi mig uppáklædda, í pilsi, með skjalatösku, miklu fínni en í skólanum.“
Óttinn við að hitta skólafélaga getur verið svo mikill að sumir kristnir unglingar reyna ýmis undanbrögð. Unglingur að nafni Leon
segir: „Ég þekki ungan vott sem klæðist hettujakka þegar hann fer í starfið svo að hann geti dregið hettuna yfir andlitið ef hann rekst á skólafélaga.“ Enn aðrir unglingar forðast hreinlega að starfa í vissum hverfum. „Ég man þegar ég bað þess að við myndum ekki starfa í ákveðinni götu því að ég vissi að þar var allt fullt af fólki frá skólanum mínum,“ segir unglingspiltur sem heitir Símon.Það er eðlilegt að vera svolítið órólegur yfir því að hitta einhvern sem þú þekkir þegar þú ert í boðunarstarfinu. En að láta slíkan ótta ráða ferðinni gerir þér aðeins mein. Þýsk unglingsstúlka, Alicia, viðurkennir: „Ég hugsaði svo neikvætt um boðunarstarfið að það hafði slæm áhrif á andlegt hugarfar mitt.“
En hvers vegna þarftu þá að prédika — sérstaklega ef þér finnst það erfitt? Til að svara því skulum við skoða hvers vegna Guð hefur falið þér þessa ábyrgð. Síðan athugum við hvernig þú getur komist yfir óttann með góðri viðleitni og einbeitni.
Skyldan að prédika
Það getur verið gagnlegt að hugsa fyrst um þá staðreynd að það er ekkert nýtt eða óvenjulegt við það að tala við aðra um trú sína. Frá alda öðli hafa bæði guðhræddir karlar og konur gert það. Nói er til dæmis víðfrægur fyrir að smíða gríðarstóra örk. (1. Mósebók 6:14-16) En samkvæmt 2. Pétursbréfi 2:5 var hann einnig „prédikari réttlætisins.“ Honum fannst hann verða að vara aðra við væntanlegri eyðingu. — Matteus 24:37-39.
Síðar meir sögðu margir Gyðingar heiðingjum frá trú sinni þó svo að þeir væru ekki skyldugir að gera það. Þannig lærði útlend kona, sem hét Rut, um Jehóva. Hún var þakklát Naomí, tengdamóður sinni, og sagði við hana: „Þitt fólk er mitt fólk og þinn guð er minn guð.“ (Rutarbók 1:16) Salómon konungur gaf síðar til kynna að margir heiðingjar myndu heyra hið „mikla nafn“ Jehóva og tilbiðja í musteri hans. — 1. Konungabók 8:41, 42.
Fyrst þessir fortíðarþjónar Guðs töluðu við aðra án þess þó að vera skyldugir til þess, ætti kristnum mönnum nú á dögum miklu fremur að finnast sér skylt að boða trú sína. Okkur er meira að segja fyrirskipað að boða ‚fagnaðarerindið um ríkið.‘ (Matteus 24:14) Við eigum það sameiginlegt með Páli postula að það hvílir á okkur sú skyldukvöð að boða fagnaðarerindið. (1. Korintubréf 9:16) Hjálpræði okkar er í húfi. Rómverjabréfið 10:9, 10 segir: „Ef þú játar með munni þínum: Jesús er Drottinn . . . muntu hólpinn verða. Með hjartanu er trúað til réttlætis, en með munninum játað til hjálpræðis.“
Hvar geturðu gert þessa opinberu ,játningu‘? Þó svo að óformleg boðun gegni sínu hlutverki er boðunin hús úr húsi enn áhrifaríkasta leiðin til að ná til fólks. (Postulasagan 5:42; 20:20) Ert þú undanþeginn þátttöku í þessu starfi þar sem þú ert ungur að árum? Varla. Í Sálmi 148:12, 13 er að finna þessa fyrirskipun: „Bæði yngismenn og yngismeyjar, öldungar og ungir sveinar! Þau skulu lofa nafn [Jehóva].“
Þrautin að vitna fyrir jafnöldrum
Það getur óneitanlega verið vandræðalegt og komið þér úr jafnvægi að vera í boðunarstarfinu og rekast á einhvern sem er í sama skóla og þú. Auðvitað er eðlilegt að vilja njóta viðurkenningar annarra. Enginn vill láta stríða sér, móðga sig eða svívirða. Og eins og Tanja segir „geta krakkarnir í skólanum verið svo grimmir.“ Ef til vill veltirðu fyrir þér hvernig skólafélagarnir bregðist við ef þeir sjá þig uppáklæddan með biblíu í hendinni. Því miður eru miklar líkur á því að þeir geri gys að þér. Unglingspiltur í Brasilíu, Filipe að nafni, segir: „Einn bekkjabróðir minn bjó í sama húsi og ég. Hann sagði oft við mig: ,Þarna ertu, með þessa biblíu! Hvað ertu með í töskunni?‘“
Það er ekkert grín að vera strítt á þennan hátt. Í Biblíunni er sagt frá því að Ísak, sonur Abrahams, hafi orðið fyrir illgjarnri stríðni Ísmaels, hálfbróður síns. (1. Mósebók 21:9, Biblían 1912) Páll postuli gerir ekki lítið úr þessari illu meðferð og kallar hana réttilega ‚ofsókn‘ í Galatabréfinu 4:29.
Jesús varaði við því að sumir yrðu líka fjandsamlegir í garð fylgjenda sinna. Hann sagði: „Ef heimurinn hatar yður, þá vitið, að hann hefur hatað mig fyrr en yður. Væruð þér af heiminum, mundi heimurinn elska sitt eigið. Heimurinn hatar yður af því að þér eruð ekki af heiminum, heldur hef ég útvalið yður úr heiminum.“ — Jóhannes 15:18, 19.
Þú verður því að vera undir það búinn að þola einhverjar ofsóknir. (2. Tímóteusarbréf 3:12) Þó svo að þú segir ekki stakt orð um Biblíuna við jafnaldrana gætu sumir af þeim samt ofsótt þig, einfaldlega vegna þess að þú lifir eftir öðrum lífsreglum en þeir og tekur ekki þátt í slæmu hátterni þeirra. (1. Pétursbréf 4:4) En taktu eftir hughreystandi orðum Jesú: „Sælir eruð þér, þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna.“ (Matteus 5:11) Hvernig í ósköpunum getur háð og spott gert þig glaðan? Jú, þú veist að þú ert að gleðja hjarta Jehóva. (Orðskviðirnir 27:11) Og með því að þóknast honum ert þú að gera þig hæfan til að hljóta eilíft líf að launum. — Lúkas 10:25-28.
Það er sem betur fer ólíklegt að allir eða flestir skólafélagar þínir verði fjandsamlegir ef þú hittir þá í boðunarstarfinu. Bresk unglingsstúlka, Angela að nafni, segir: „Þegar maður hittir skólafélaga í starfinu eru þeir oft hræddari en maður sjálfur.“ Reyndar gætu sumir verið nokkuð forvitnir um það sem þú hefur að segja. Að minnsta kosti gengur mörgum kristnum unglingum mjög vel að vitna fyrir skólafélögum sínum. Í næstu grein verður fjallað um það hvernig þú getur einnig gert það.
[Mynd á blaðsíðu 25]
Margir unglingar óttast að hitta skólafélaga sína þegar þeir eru í boðunarstarfinu.
[Mynd á blaðsíðu 27]
Láttu stríðni annarra aldrei verða til þess að þú skammist þín fyrir trúna.