Heimur þar sem allir eiga samastað
Heimur þar sem allir eiga samastað
„Þar sem flóttamannavandinn er alþjóðlegur þarf að leita alþjóðlegrar lausnar á honum.“ — Gil Loescher, prófessor í alþjóðasamskiptum.
UNGU hjónin flúðu í skjóli nætur. Eiginmaðurinn var uggandi um öryggi fjölskyldunnar og beið ekki boðanna, þó að þau væru með lítið barn. Hann hafði frétt að einræðisherra landsins, sem var grimmlyndur maður, ætlaði að ráðast á borgina með morðum og manndrápum. Þau komust loks yfir landamærin eftir langa og stranga ferð, rösklega 150 kílómetra leið.
Þessi alþýðufjölskylda varð síðar heimsfræg. Barnið hét Jesús og foreldrarnir María og Jósef. Þau flúðu ekki land í leit að bættum efnahag og afkomu heldur var um líf og dauða að tefla. Einræðisherrann ætlaði að myrða barnið!
Jósef og fjölskylda hans sneru heim um síðir þegar stjórnmálaástandið batnaði, líkt og algengt er um flóttamenn. En vafalaust björguðu þau lífi barnsins með því að flýja í skyndingu. (Matteus 2:13-16) Þau leituðu hælis í Egyptalandi sem var þekkt fyrir að taka bæði við pólitískum flóttamönnum og þeim sem flúðu land af fjárhagsástæðum. Öldum áður höfðu forfeður Jesú leitað hælis í Egyptalandi er hungursneyð herjaði á Kanaanland. — 1. Mósebók 45:9-11.
Öruggir en ekki ánægðir
Dæmi frá biblíutíma og nútíma sýna mætavel að nauðsynlegt getur verið að flýja úr landi til að bjarga lífi sínu. Það er engu að síður þungbær reynsla fyrir hvaða fjölskyldu sem er að yfirgefa heimili sitt. Þótt heimilið sé fábrotið hefur fjölskyldan trúlega lagt margra ára vinnu og fjármuni í það. Kannski er heimilið sú arfleifð sem tengir fjölskylduna við land sitt og menningu. Og flóttamenn geta sjaldnast tekið með sér mikið af eigum sínum, ef nokkrar. Flóttamenn steypast því óhjákvæmilega niður í algera örbirgð, hver sem staða þeirra var áður.
Þótt það sé viss léttir í fyrstu að komast á öruggan stað er það fljótt að breytast ef ekkert er í sjónmáli annað en flóttamannabúðir. Og það verður ákaflega þjakandi til lengdar að búa í flóttamannabúðum, einkum ef flóttamennirnir samlagast ekki heimamönnum. Flóttamenn vilja festa rætur einhvers staðar, líkt og allir aðrir. Flóttamannabúðir eru tæplega besti staðurinn til að ala upp börn. Kemur einhvern tíma að því að allir menn eignist fast og öruggt heimili?
Er lausnin sú að senda fólk til baka?
Um níu milljónir flóttamanna sneru aftur til síns heima á síðasta áratug nýliðinnar aldar. Fyrir suma var heimkoman ánægjuleg og þeir tóku til óspilltra málanna við að hefja nýtt líf. Fyrir aðra var heimkoman eins konar uppgjöf. Þeir sneru heim af því að ástandið í dvalarlandinu var orðið óbærilegt. Vandamál útlegðarinnar voru slík að þeir töldu sig betur setta ef þeir sneru heim, þrátt fyrir öryggisleysið sem eflaust biði þeirra.
Jafnvel þegar best lætur fylgja því ýmsar þrengingar að snúa aftur heim, því að það
kostar að taka sig algerlega upp á nýjan leik. „Með hverjum flutningi missa menn viðurværi sitt, svo sem land, atvinnu, heimili og bústofn,“ segir í bókinni The State of the World’s Refugees 1997-98. „Og með hverjum flutningi hefst erfitt uppbyggingarstarf.“ Í rannsókn á stöðu heimfluttra flóttamanna í Mið-Afríku kom í ljós að fyrir „flóttamenn, sem fengu aðstoð í útlegðinni, gat heimkoman orðið erfiðari en sjálf útlegðin.“Enn verri eru bágindi þeirra milljóna flóttamanna sem neyðast til að flytja aftur heim gegn vilja sínum. Hvað bíður þeirra í heimalandinu? „Flóttamenn, sem snúið er heim, þurfa að komast af þar sem lög og regla eru varla til, þar sem stigamennska og ofbeldisglæpir eru daglegt brauð, þar sem fyrrverandi hermenn níðast á almennum borgurum og þar sem langflestir íbúar hafa aðgang að handvopnum,“ segir í skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum. Það er augljóst að fjandsamlegt umhverfi sem þetta fullnægir ekki einu sinni sjálfsögðum öryggisþörfum þessa uppflosnaða fólks.
Að byggja upp heim þar sem allir eru óhultir
Flóttamannavandinn verður aldrei leystur með því að senda flóttamenn nauðuga eða hálfnauðuga heim, nema því aðeins að komist verði fyrir rætur sjálfs vandans. Sadako Ogata, fyrrverandi flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, sagði árið 1999: „Atburðir þessa áratugar — og reyndar síðasta árs — sýna mjög greinilega að það er ekki hægt að ræða um flóttamannavandann án þess að ræða jafnhliða um öryggi fólks.“
Og milljónir manna um allan heim búa við algert öryggisleysi. Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir: „Sums staðar í heiminum hafa þjóðríki hrunið vegna innri átaka og samfélagsátaka þar sem borgarar hafa verið sviptir allri vernd. Annars staðar hafa ríkisstjórnir teflt öryggi fólks í tvísýnu með því að neita að standa vörð um hagsmuni almennings, með því að ofsækja andstæðinga sína og refsa saklausu fólki sem tilheyrir minnihlutahópum.“
Styrjaldir, ofsóknir og ofbeldi gegn þjóðernishópum er yfirleitt sprottið af hatri, fordómum og ranglæti en þetta eru þær meginorsakir öryggisleysis sem Kofi Annan lýsir hér að ofan. Það er engan veginn auðvelt að uppræta þetta böl. Hlýtur flóttamannavandinn þá að versna enn frá því sem nú er?
Ef það væri undir mönnum komið að leysa vandann yrði raunin eflaust sú. Hins vegar lofar Guð í Biblíunni að ‚stöðva styrjaldir til endimarka jarðar.‘ (Sálmur 46:10) Fyrir munn spámannsins Jesaja lýsir hann þeim tíma er menn munu „reisa hús og búa í þeim, og þeir munu planta víngarða og eta ávöxtu þeirra. . . . Eigi munu þeir erfiða til ónýtis og eigi börn geta til skammlífis, því að þeir eru kynslóð manna, er [Jehóva] hefir blessað, og niðjar þeirra verða hjá þeim.“ (Jesaja 65:21-23) Ef þetta gæti orðið myndi það óneitanlega leysa flóttamannavandann. En getur þetta orðið að veruleika?
„Þar eð styrjaldir hefjast í hugum manna er það í hugum manna sem reisa þarf varnarvirki Jesaja 11:9.
um friðinn,“ segir í inngangsorðum að sáttmála Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Skaparinn veit mætavel að það þarf að breyta hugsunarhætti manna. Spámaðurinn, sem vitnað er til hér rétt á undan, lýsir því hvers vegna allir jarðarbúar muni einn góðan veðurdag búa við öryggi: „Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra, því að jörðin er full af þekkingu á [Jehóva], eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.“ —Vottar Jehóva hafa komist að raun um að þekkingin á Jehóva getur yfirunnið fordóma og hatur. Í alþjóðlegu boðunarstarfi sínu leitast þeir við að halda á loft kristnum lífsgildum sem hvetja til kærleika í stað haturs, jafnvel í stríðshrjáðum löndum. Jafnframt bjóða þeir flóttamönnum hverja þá aðstoð sem þeir geta með góðu móti veitt.
Þeim er hins vegar ljóst að endanleg lausn flóttamannavandans er í höndum Jesú Krists sem Guð hefur skipað konung. Hann skilur mætavel hvernig hatur og ofbeldi getur sundrað lífi fólks. Biblían fullvissar okkur um að hann muni dæma nauðstadda með réttlæti. (Jesaja 11:1-5) Þegar hann stjórnar af himnum ofan verður vilji Guðs gerður á jörð eins og á himni. (Matteus 6:9, 10) Þá þarf enginn framar að flýja land sitt eða heimili. Og allir eiga sér öruggan samastað.
[Rammi á blaðsíðu 12]
Hvað þarf til að leysa flóttamannavandann?
„Það er margfalt flóknara að fullnægja þörfum allra flóttamanna — bæði erlendis og í eigin landi — en að veita aðstoð og öryggi til skamms tíma. Lausnin er fólgin í því að taka á ofsóknunum, ofbeldinu og átökunum sem eru undirrót þess að fólk flosnar upp. Hún er fólgin í því að viðurkenna þau almennu mannréttindi að allir karlar, konur og börn eigi tilkall til friðar, öryggis og sæmdar án þess að þurfa að flýja heimili sitt.“ — The State of the World’s Refugees 2000.
[Rammi á blaðsíðu 13]
Hvaða lausn veitir ríki Guðs?
„Réttvísin [skal] festa byggð í eyðimörkinni og réttlætið taka sér bólfestu í aldingarðinum. Og ávöxtur réttlætisins skal vera friður, og árangur réttlætisins rósemi og öruggleiki að eilífu. Þá skal þjóð mín búa í heimkynni friðarins, í híbýlum öruggleikans og í rósömum bústöðum.“ — Jesaja 32:16-18.