Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Te gegn veirum

Samkvæmt fréttavefnum Reuters Health Information sýna forrannsóknir fram á að „stór hluti tetegunda á markaði virðist annaðhvort drepa veirur eða gera þær óvirkar.“ Nokkrar tegundir af grænu og svörtu tei, bæði venjulegu og ístei, voru prófaðar á dýravefjum sem sýktir voru af veirum eins og áblásturssóttarveirum 1 og 2 og T1 bakteríuveirunni. Rannsóknarmaðurinn Dr. Milton Schiffenbauer við Paceháskólann í New York segir að „íste eða venjulegt te eyði [áblástursóttarveirunni] eða geri hana óvirka á aðeins nokkrum mínútum.“ Svipaður árangur náðist með T1 bakteríuveiruna. Þó að enn sé ekki ljóst hvernig teið tálmar þessum veirum komust rannsóknarmenn að því að teið var enn þá áhrifaríkt eftir að hafa verið verulega útþynnt. Svart te reyndist hafa nokkuð sterkari áhrif á veirurnar en grænt te.

Símaskuldum hlaðnir

Að sögn dagblaðsins The Sunday Telegraph eru ungir Ástralir, „allt niður í 18 ára gamlir, að lýsa sig gjaldþrota vegna himinhárra farsímareikninga.“ Ágeng auglýsingamennska og auðfengið lánsfé hefur gert að verkum að sumir unglingar hafa safnað farsímaskuldum upp á hundruð þúsunda króna. John Watkins, ráðherra heiðarlegra viðskipta í Ástralíu, segir um þessa óheillaþróun: „Sum ungmenni hafa lélegt lánstraust og eru skuldum hlaðin þegar þau ljúka skóla. Það er virkilega sorgleg byrjun á fullorðinsárunum.“ Blaðið kemur með þessar tillögur til að hjálpa unglingum að forðast skuldasnöruna: Gakktu úr skugga um hvað símtölin kosta. Íhugaðu hvort þú getir keypt fyrir fram greitt símakort svo að þú komist hjá því að hlaða upp skuldum. Reyndu að nota símann utan álagstíma til að draga úr kostnaði.

Unglingadrykkja

„Evrópskir unglingar verða ölvaðir æ oftar og æ yngri að árum,“ segir þýska dagblaðið Süddeutsche Zeitung. Athygli heilbrigðisráðherra Evrópusambandslandanna var nýlega vakin á þessari óhugnanlegu þróun. Hversu alvarlegt er vandamálið? Könnun frá árinu 1998 leiðir til dæmis í ljós að milli 40 og 50 af hundraði 15 ára drengja í sumum löndum drekka bjór að staðaldri, og stúlkur á sama aldri í Englandi, Skotlandi og Wales slá drengjum við í neyslu léttvína og brenndra drykkja. Meira en helmingur 15 ára unglinga í Danmörku, Finnlandi og Bretlandi hafa orðið ofurölvi oftar en einu sinni. Áfengi er einnig kennt um dauða nokkurra þúsunda manna á aldrinum 15 til 29 ára í löndum Evrópusambandsins ár hvert. Ráðherraráðið hefur mælt með áfengisfræðslu til að vekja ungt fólk til vitundar um áhrif drykkju.

Fáðu þér blund

Breski svefnfræðingurinn Jim Horne, prófessor við Loughborough-háskóla, segir að besta ráðið við síðdegishöfga sé „einfaldlega að fá sér tíu mínútna blund.“ Þetta kemur fram í Lundúnablaðinu The Times. Horne segir: „Þetta er eins og hver önnur meðferð: Því fljótar sem hægt er að veita hana, þeim mun áhrifaríkari verður hún.“ Nokkur fyrirtæki í Bandaríkjunum hafa komið sér upp blundherbergjum fyrir starfsfólk. Þar eru rúm, teppi, koddar og róandi tónlist ásamt vekjaraklukkum sem hringja á 20 mínútna fresti. Hins vegar varar Horne við að blunda of lengi, til dæmis í 25 mínútur, því að þá gæti manni liðið verr þegar maður vaknar. „Þegar blundurinn fer yfir tíu mínútur heldur líkaminn að það sé komin nótt og svefnferlið fer af stað.“

Hættur samfara blóðgjöfum

„Þriðja hver blóðgjöf í [New South Wales] var gefin í trássi við heilbrigðisreglur,“ að sögn ástralska dagblaðsins Sydney Morning Herald. „Reglurnar kveða á um blóðgjöf ef blóðrauði sjúklings fer niður í sjö eða minna.“ Læknirinn Ross Wilson hefur gert rannsókn á notkun blóðs og bendir á að „óþörf blóðgjöf geti valdið hjartastoppi og kostað sjúkling lífið.“ Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar, sem hann gerði sex árum áður, „dóu um 18.000 [Ástralir] á ári vegna aukakvilla sem voru bein afleiðing af læknismeðferðinni sem þeir fengu.“ Wilson leggur til að læknar séu minntir á viðmiðunarregluna um blóðgjafir í hvert sinn sem þeir vilja gefa sjúklingi blóð, og að sjúklingar séu upplýstir um viðmiðunarreglurnar svo að þeir geti spurt lækninn beint.