Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hver er Míkael höfuðengill?

Hver er Míkael höfuðengill?

Sjónarmið Biblíunnar

Hver er Míkael höfuðengill?

SAMKVÆMT Biblíunni lifa milljónir engla í andaheiminum. (Daníel 7:9, 10; Opinberunarbókin 5:11) Og í henni eru hundruð umsagna frá upphafi til enda um engla sem sýndu Guði hollustu. Þó er aðeins tveggja þessara andavera getið með nafni. Annar er engillinn Gabríel sem í eigin persónu flutti þremur manneskjum skilaboð frá Guði á um 600 ára tímabili. (Daníel 9:20-22; Lúkas 1:8-19, 26-28) Hinn engillinn, sem nafngreindur er í Biblíunni, er Míkael.

Míkael er greinilega í fremstu röð engla. Dæmi um það er að finna í Daníelsbók þar sem sagt er frá því þegar hann berst við illa anda fyrir hönd þjóðar Jehóva. (Daníel 10:13; 12:1) Í innblásnu bréfi Júdasar á Míkael í orðadeilum við Satan um líkama Móse. (Júdasarbréfið 9) Í Opinberunarbókinni berst hann við Satan og illa anda hans og varpar þeim niður frá himni. (Opinberunarbókin 12:7-9) Engum öðrum engli er lýst svo að hann hafi meiri mátt og vald yfir óvinum Guðs. Það er því ekki að undra að Biblían skuli kalla Míkael ‚höfuðengil‘ eða ‚erkiengil‘ (NW) en forskeytið „höfuð“ eða „erki“ þýðir „höfðingi“ eða „sá æðsti.“

Deilan um persónu Míkaels

Trúfélög kristna heimsins, gyðingdómurinn og íslam hafa ólíkar hugmyndir um engla. Sumar skýringar eru óljósar. Til dæmis segir í biblíuorðabókinni The Anchor Bible Dictionary: „Það gæti verið um einn æðri engil að ræða og/eða smáhóp erkiengla (venjulega fjóra eða sjö).“ Samkvæmt biblíuorðabókinni The Imperial Bible Dictionary er Míkael „nafn á ofurmannlegri veru, en um hana hefur almennt verið haldið fram tveim ólíkum skoðunum, ýmist að hún sé Drottinn Jesús Kristur, sonur Guðs, eða ein hinna svokölluðu sjö erkiengla.“

Samkvæmt gyðingahefðinni eru þessir sjö erkienglar Gabríel, Jeremíel, Míkael, Ragúel, Rafael, Saríel og Úríel. Hins vegar trúa múslímar á fjóra erkiengla, þá Jibríl, Míkal, Izraíl og Israfíl. Kaþólskir menn trúa einnig á fjóra erkiengla: Míkael, Gabríel, Rafael og Úríel. Hvað segir Biblían? Eru til margir erkienglar eða höfuðenglar?

Svar Biblíunnar

Biblían minnist ekki á neinn erki- eða höfuðengil fyrir utan Míkael og fleirtölumyndin af ‚höfuðengill‘ er ekki heldur notuð í Ritningunni. Í Biblíunni er Míkael kallaður höfuðengillinn og bendir það til þess að honum einum beri þetta nafn. Það er því skynsamlegt að álykta að Jehóva Guð hafi fengið í hendur einum, og aðeins einum, af himneskum verum sínum full yfirráð yfir öllum öðrum englum.

Að frátöldum sjálfum skaparanum er aðeins talað um eina trúfasta persónu sem hefur engla í umsjá sinni en það er Jesús Kristur. (Matteus 13:41; 16:27; 24:31) Páll postuli minnist sérstaklega á ‚Drottin Jesú‘ og ‚engla máttar hans.‘ (2. Þessaloníkubréfið 1:7) Og Pétur lýsir Jesú eftir upprisuna á þessa leið: ‚Jesús Kristur, sem uppstiginn er til himna, situr Guði á hægri hönd, en englar, völd og kraftar eru undir hann lagðir.‘ — 1. Pétursbréf 3:22.

Þótt hvergi sé fullyrt í Biblíunni að höfuðengillinn Míkael sé Jesús þá er einn ritningarstaður sem tengir Jesú við stöðu höfuðengils. Í bréfi sínu til Þessaloníkumanna spáði Páll postuli: „Því að sjálfur Drottinn mun stíga niður af himni með kalli, með höfuðengils raust og með básúnu Guðs, og þeir, sem dánir eru í trú á Krist, munu fyrst upp rísa.“ (1. Þessaloníkubréf 4:16) Í þessari ritningargrein er Jesú lýst svo að hann hafi tekið sér valdastöðu sem messíasarkonungur Guðs. Eigi að síður talar hann með „höfuðengils raust.“ Tökum einnig eftir því að hann hefur vald til að reisa upp dána.

Þegar Jesús var maður á jörðinni reisti hann ýmsa upp frá dauðum. Hann beitti þá röddinni til að gefa fyrirmæli. Hann sagði til að mynda þegar hann reisti upp látinn son ekkju í borginni Nain: „Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!“ (Lúkas 7:14, 15) Síðar, rétt áður en Jesús reisti upp vin sinn, Lasarus, „hrópaði hann hárri röddu: ‚Lasarus, kom út!‘“ (Jóhannes 11:43) Í þessi skipti var rödd Jesú rödd fullkomins manns.

Eftir að Jesús var sjálfur upprisinn var hann ‚hátt upp hafinn‘ á himni sem andavera. (Filippíbréfið 2:9) Hann hafði nú raust höfuðengils þar sem hann var ekki lengur mennskur maður. Þegar svo básúna Guðs hljómaði til að kalla fram ‚þá sem dánir eru í trú á Krist‘ og reisa þá upp til himna, þá ‚kallaði‘ Jesús, í þetta skipti, „með höfuðengils raust.“ Það er eðlilegt að álykta að eingöngu höfuðengill kalli „með höfuðengils raust.“

Það eru til aðrar háttsettar englaverur svo sem serafar og kerúbar. (1. Mósebók 3:24; Jesaja 6:2) Ritningin bendir samt sem áður á að hinn upprisni Jesús Kristur sé æðstur allra engla —  erki- eða höfuðengillinn Míkael.