Sebradýrið — afríski villihesturinn
Sebradýrið — afríski villihesturinn
EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í AFRÍKU
ÞÚSUND sebrahestar geysast um afrísku gresjuna. Röndóttir skrokkar og fextir makkar rísa og hníga í takt við kröftugar hreyfingarnar. Hófadynurinn berst um skrælnaða sléttuna. Rautt reykský þyrlast upp á eftir þeim og sést í margra kílómetra fjarlægð. Þeir geysast um frjálsir og villtir og ekkert virðist halda aftur að þeim.
Allt í einu hægja þeir á sér og stoppa, rétt eins og eitthvert ósýnilegt merki hafi verið gefið. Með sterkum og þykkum tönnum rífa þeir í þurrt grasið. Hjörðin er vör um sig og annað slagið líta sebrarnir upp, hlusta og þefa út í loftið. Þeir stífna upp þegar vindurinn ber þeim fjarlægan óm af ljónsöskri. Þetta er hljóð sem þeir þekkja vel. Þeir horfa í áttina að þessu fjarlæga öskri, eyrun eru sperrt og grasið hangir hreyfingarlaust úr munnvikum þeirra. En þeir skynja enga aðkallandi hættu og beygja hálsinn því aftur að jörðinni og halda áfram að bíta.
Þegar hitinn af sólinni magnast halda þeir af stað á ný. Nú er það lyktin af vatni sem dregur villihestana í átt að ánni. Þeir nema staðar á brekkubrún fyrir ofan ána, fnæsa og krafsa í þurra moldina og horfa niður á brúnt vatnið. Þeir hika af því að þeir vita af hættunni sem hugsanlega leynist undir lygnu yfirborði vatnsins. En þorstinn er mikill og nokkrir fara að fikra sig nær. Að lokum fer öll hjörðin af stað og sebrarnir hlaupa niður að ánni. Einn af öðrum svala þeir þorstanum og síðan snúa þeir aftur út á víðáttumikla sléttuna.
Þegar degi hallar töltir hjörðin rólega í háu grasinu. Það er stórfengleg sjón að horfa á skuggamyndir
þeirra í dökkrauðum bjarma kvöldsólarinnar þar sem þeir eru umvafðir fegurð afrísku gresjunnar.Röndóttar félagsverur
Dagleg önn sebrahestanna er alltaf eins. Þeir eru stöðugt á ferðalagi í leit að mat og vatni. Þeir eru hreinir og feitir á að líta þar sem þeir standa á beit á opinni sléttunni og röndótt húðin strekkist utan um vöðvastæltan skrokkinn. Sebrarendurnar eru einstakar og sumir segja að engin tvö munstur séu eins. Þessar áberandi svörtu og hvítu rendur stinga í stúf við útlit hinna dýranna á sléttunni. En yfirbragð sebranna er hrífandi og tilheyrir villtri náttúru Afríku.
Sebrahestar eru sérstaklega félagslyndir og mynda sterk tengsl sín á milli sem geta varað ævilangt. Þó að í stórri hjörð séu kannski mörg þúsund sebradýr skiptist hjörðin í margar minni fjölskyldueiningar sem samanstanda af stóðhesti og hryssunum hans. Þessi litla fjölskyldueining viðheldur röð og reglu með því að raða sér eftir tign. Valdamesta hryssan er fremst og leiðir fjölskylduna. Á eftir henni koma hinar hryssurnar og folöldin þeirra í lækkandi tignarröð. Stóðhesturinn er þó valdamestur. Ef hann vill að fjölskyldan breyti um stefnu fer hann til forystuhryssunnar og ýtir við henni í aðra átt.
Sebradýrin njóta þess að láta snyrta sig og það er algengt að sjá þau nudda og narta í síður, herðakamb og bök hvers annars. Böndin milli dýranna virðast styrkjast þegar þau snyrta hvert annað og þetta byrjar þegar folöldin eru aðeins nokkurra daga gömul. En ef enginn í fjölskyldunni getur snyrt þau, klóra þau sér með því að velta sér í moldinni eða nudda skrokknum upp við tré, termítaþúfur eða einhvern annan kyrrstæðan hlut.
Lífsbaráttan
Í lífi sebrahestsins eru hættur á hverju strái. Ljón, villihundar, hýenur, hlébarðar og krókódílar telja þetta 250 kílóa dýr vera hæfilega bráð. Sebrahesturinn getur hlaupið á allt að 55 kílómetra hraða á klukkustund en stundum koma klók rándýr honum að óvörum. Ljón liggja í launsátri, krókódílar leynast í gruggugu vatninu og hlébarðar læðast um í skjóli náttmyrkurs.
Varnir sebrahestanna byggjast á árvekni og samvinnu hjarðarinnar. Þó að flestir sofi á nóttunni eru alltaf einhverjir sem vaka til þess að standa vörð og hlusta. Ef sebrahestur verður var við að rándýr sé að nálgast gerir hann allri hjörðinni viðvart með því að fnæsa. Og ef einn sebranna er
veikur eða gamall og getur ekki haldið í við hina hægja þeir oft á sér eða bíða þangað til hann nær hjörðinni aftur. Þegar hætta steðjar að setur stóðhesturinn sig óttalaust á milli rándýrsins og hryssnanna og bítur og sparkar í óvininn til að gefa hjörðinni tíma til að komast undan.Náttúrufræðingurinn Hugo van Lawick varð vitni að merkilegu atviki á Serengettisléttunni í Afríku sem lýsir þessari samheldni sebranna einstaklega vel. Hann segir frá því að hópur villihunda hafi farið að elta sebrahjörð og tekist að króa af eina hryssu, folaldið hennar og veturgamlan sebra. Hjörðin hljóp í burtu en móðirin og vetrungurinn börðust hugrökk við hundana. Hundarnir gerðust æ ágengari og hryssan og vetrungurinn tóku að þreytast. Endalokin virtust liggja ljós fyrir. En van Lawick lýsir því sem gerðist næst: „Skyndilega fann ég jörðina titra. Ég leit í kringum mig og mér til mikillar furðu sá ég tíu sebrahesta nálgast á fleygiferð. Andartaki síðar röðuðu sebrarnir sér þétt í kringum móðurina og afkvæmi hennar tvö og síðan sneri allur hópurinn við og hljóp til baka. Hundarnir eltu hópinn 50 metra en gátu ekki komist á milli sebranna og gáfust því fljótt upp.“
Uppeldið
Hryssan verndar nýfætt folald sitt og til að byrja með heldur hún því frá hinum í hjörðinni.
Á þessum einangrunartíma eru folaldið og móðirin mjög náin og tengjast sterkum böndum. Hið unga folald leggur svartar og hvítar rendur móður sinnar á minnið og eftir þennan tíma þekkir það kall hennar, lykt, og munstur og viðurkennir enga aðra hryssu.Nýfædd folöld eru ekki með áberandi svartar og hvítar rendur eins og foreldrar þeirra. Rendurnar eru rauðbrúnar en verða síðan svartar með tímanum. Í stóru hjörðunum safnast folöldin úr hinum ýmsu fjölskylduhópum saman og leika sér. Þau fara í kapp, elta hvert annað og sparka og hlaupa um á meðal hinna fullorðnu sem stundum taka þátt í ærslaganginum. Folöldin hoppa um á renglulegum löppunum og hafa gaman af því að elta fugla og önnur smádýr. Lappirnar á þessum litlu sebradýrum eru langar og mjóar, augun stór og svört og feldurinn mjúkur og gljáandi. Þetta eru falleg lítil dýr sem er gaman að fylgjast með.
Frjálsir og fallegir
Það má enn sjá stórar sebrahjarðir hlaupa frjálsar og villtar um gullnar gresjur Afríku og það er svo sannarlega tilkomumikil sjón.
Svartar og hvítar rendurnar, órjúfanleg tryggð við fjölskylduna og villt og frjálst lundernið vitnar óneitanlega um fegurð og tign þessarar tilkomumiklu skepnu. Þegar við lærum um slíkt dýr fáum við svar við spurningu sem borin var fram fyrir þúsundum ára: „Hver sleppti sebrahestinum lausum?“ (Jobsbók 39:5, NW ) Svarið er augljóst. Það er skapari allra lifandi vera, Jehóva Guð.
[Rammagrein á blaðsíðu 14]
Af hverju er sebrahesturinn röndóttur?
Þeir sem trúa á þróun eiga erfitt með að útskýra af hverju sebrahesturinn er röndóttur. Sumir hafa talið að rendurnar séu rándýrum til viðvörunar. En það liggur hins vegar ljóst fyrir að hvorki ljón né önnur stór rándýr eru hrædd við sebrarendurnar.
Aðrir hafa bent á að rendurnar gætu haft kynferðislegt aðdráttarafl. En það virðist ekki líklegt þar sem öll sebradýr eru með svipaðar rendur og þær eru ekki einkennandi fyrir annað kynið.
Önnur kenning er sú að þetta svarta og hvíta munstur hafi þróast til að dreifa hitanum af heitri Afríkusólinni. En af hverju eru önnur dýr þá ekki röndótt?
Ein ríkjandi kenning er sú að rendurnar á sebrahestinum hafi þróast sem eins konar felubúningur. Vísindamenn hafa komist að því að hitinn, sem stígur upp af afrísku gresjunum, gerir útlínur sebrahestsins óskýrar og því er erfitt að sjá þá úr fjarlægð. En slíkur felubúningur kemur ekki að miklu gagni þar sem ljónin, helstu óvinir sebrans, gera aðeins árás af stuttu færi.
Því hefur líka verið haldið fram að þegar heil hjörð af röndóttum sebradýrum styggist og fer að hlaupa um rugli það ljónin í ríminu og geri það að verkum að þau eigi erfitt með að einbeita sér að einstökum dýrum. Hins vegar sýna dýralífskannanir fram á að ljónum gengur alveg jafn vel að veiða sebrahesta og önnur dýr.
Það gerir málið enn þá flóknara að stundum virðast rendurnar meira að segja vera dýrinu í óhag. Þegar tunglsljósið lýsir upp slétturnar að nóttu til gera svörtu og hvítu rendurnar sebradýrið mun sýnilegra en einlit dýr. Og þar sem ljónin veiða venjulega á nóttunni lítur út fyrir að þetta sé mikill ókostur fyrir sebrahestinn.
En hvar fékk sebrahesturinn þá rendurnar? Lykilinn að svarinu er að finna í þessari einföldu yfirlýsingu: „Hönd [Jehóva] hefir gjört þetta.“ (Jobsbók 12:9) Já, skaparinn hannaði lífverur jarðarinnar með ákveðin einkenni og eiginleika sem búa þær undir lífið, þó að maðurinn skilji ekki alveg til fulls hvernig. Stórkostleg hönnun hinna lifandi vera þjónar líka öðrum tilgangi. Hún er manninum til yndis og ánægju. Sökum fegurðar sköpunarverksins hefur mörgum verið innanbrjósts eins og Davíð var endur fyrir löngu: „Hversu mörg eru verk þín, [Jehóva], þú gjörðir þau öll með speki, jörðin er full af því, er þú hefir skapað.“ — Sálmur 104:24.