Trúarofsóknir í Georgíu — hve miklu lengur?
Trúarofsóknir í Georgíu — hve miklu lengur?
GEORGÍA er fagurt land af náttúrunnar hendi, frá hlýrri Svartahafsströndinni til hinna ísköldu Kákasusfjalla. Þéttir skógar, fossandi lækir og gróskumiklir dalir prýða þetta fjöllótta land sem liggur á mörkum Evrópu og Asíu. Tbílísí, hin þysmikla höfuðborg Georgíu, er sambland af nútímabyggingum og fornum minnismerkjum byggingarlistarinnar. En mesta prýði landsins er fólkið sem er þekkt fyrir sterk fjölskyldubönd og innilega gestrisni.
Georgíumenn hafa mátt þola kúgun frá upphafi vega sinna. Rómverjar, Persar, Býsansmenn, Arabar, Tyrkir, Mongólar, Rússar og aðrir hafa ráðist inn í land þeirra. Samkvæmt einni heimild hefur Tbílísí verið eyðilögð 29 sinnum! * En þrátt fyrir þetta hafa Georgíumenn viðhaldið ást sinni á lífinu, listum, söng og dansi, og jafnframt þeim orðstír sínum að vera umburðarlynt þjóðfélag.
En því miður er ekki hægt að segja þetta lengur um alla íbúa Georgíu. Síðustu tvö ár hefur lítill hópur Georgíumanna spillt orðspori landsins með því að ráðast gegn hundruðum samborgara sinna. Hamstola skríll hefur misþyrmt saklausum körlum, konum og börnum, og einnig öldruðu og fötluðu fólki. Árásarmennirnir hafa veist að fórnarlömbunum með járnstöngum og naglakylfum, marið þá, rifið andlit þeirra og rist höfuðleðrið. Hvers vegna er meinlausum Georgíumönnum misþyrmt svo hrottalega? Vegna þess að þeir eru vottar Jehóva — kristið samfélag sem var til staðar í landinu áður en flestir árásarmannanna fæddust.
Fyrst fordæmingar, síðan árásir
Rit Votta Jehóva hafa oft verið gerð upptæk þótt trúfrelsi eigi að vera tryggt í Georgíu. Í apríl 1999 lýstu tollverðir því yfir að ritin fengust einungis leyst út með leyfi patríarkans, yfirmanns georgísku rétttrúnaðarkirkjunnar. * Mánuði síðar bar rétttrúnaðarkirkjuna aftur á góma — í þetta sinn í salarkynnum héraðsdóms Isani-Samgori þegar varaþingmaðurinn Guram Sharadze, leiðtogi stjórnmálahreyfingarinnar „Georgía yfir öllu!,“ höfðaði mál til að reyna að banna starfsemi þeirra lögaðila sem Vottar Jehóva nota. Hann sakaði Vottana um að vera andþjóðernislega og hættulega. Hver studdi kröfu Sharadzes? Áfast ákæruskjölunum var bréf frá ritara patríarka Georgíu.
Hinn 20. maí 1999 gerðist Georgía aðili að Evrópusáttmálanum um verndun mannréttinda og mannfrelsis og skuldbatt sig þar með til að hlíta ákvæðum hans. Tíunda grein hljóðar svo: „Allir hafa rétt til tjáningarfrelsis. Skal sá réttur fela í sér skoðanafrelsi og frelsi til að taka við og miðla upplýsingum og hugmyndum án afskipta yfirvalda og án tillits til landamæra.“ Varð þetta til að stöðva tilraunir andstæðinganna til að banna trúarrit Vottanna? Alls ekki.
Í bréfi frá skrifstofu patríarka Georgíu til yfirmanns tolleftirlitsins 21. júní 1999 var þess krafist að „dreifing erlendra trúarrita yrði bönnuð.“ Giorgi Andriadze, opinber talsmaður georgísku rétttrúnaðarkirkjunnar, lýsti auk þess yfir að Vottar Jehóva væru hættulegir og að það ætti að banna starfsemi þeirra. Formælingarnar féllu í frjóan jarðveg. Trúarofstækismenn, sem áður höfðu brennt rit Vottanna, þóttust nú öruggir um að geta ráðist á þá beint og komist upp með það. Sunnudaginn 17. október 1999 létu þeir aftur til skarar skríða.
Skrílslæti látin óátalin
Þennan umrædda sunnudag voru um 120 vottar Jehóva frá Tbílísí — karlar, konur og börn — staddir á trúarsamkomu. Skyndilega ruddist 200 manna hópur inn í samkomusalinn með rétttrúnaðarprestinn Vasili Mkalavishvili í broddi fylkingar en hann hafði verið sviptur hempunni. * Þeir umkringdu vottana og slógu þá hvað eftir annað með trékylfum og járnkrossum. Fjórir árásarmenn þrifu í handleggi og háls eins þeirra, þrykktu höfði hans niður og byrjuðu að raka af honum hárið meðan skríllinn hlakkaði yfir auðmýkingunni. Þegar æstur múgurinn loksins fór þurftu 16 vottar að fá aðhlynningu á sjúkrahúsi. Einn var með þrjú brotin rifbein. Fertugur vottur, kona að nafni Phati, sagði síðar: „Þeir byrjuðu að öskra á mig og einn þeirra sló mig af öllum mætti. Hann kýldi mig í andlitið og augun. Ég reyndi að hlífa andlitinu með höndunum og blóðið rann niður fingurna.“ Þegar þrjóturinn hætti að berja Phati sá hún ekkert með vinstra auganu. Hún hlaut varanlegan augnskaða vegna árásarinnar.
Þessi blygðunarlausa árás var sýnd í sjónvarpi og kom Eduard Shevardnadze forseta til
að láta í sér heyra. Næsta dag sagði hann: „Ég fordæmi þetta atvik og tel að löggæslumenn eigi að meðhöndla það sem glæpamál.“ Á myndbandsupptökunni mátti sjá hver forsprakki skrílsins og hinir árásarmennirnir voru og því átti að vera leikur einn að sakfella þá. Síðan hafa liðið tvö ár og enginn árásarmannanna hefur verið sakfelldur.Árásarmenn færa sig upp á skaftið
Það kemur ekki á óvart að aðgerðarleysi yfirvalda — bæði veraldlegra og trúarlegra — skyldi senda árásarmönnunum þau skilaboð að ofbeldi yrði liðið. Þeir gerðust djarfari af því að þeim var ekki refsað og þeir æddu um, rændu, börðu og spörkuðu í vottana á götum úti, í heimahúsum og á tilbeiðslustöðum þeirra. Meira en 80 árásir gegn rösklega 1000 vottum Jehóva voru skjalfestar frá október 1999 til ágúst 2001. Þrátt fyrir þetta tilkynnti saksóknari í Tbílísí fréttamönnum hinn 9. febrúar 2001 að rannsóknin á Vasili Mkalavishvili „stæði enn yfir.“ Það er miður að yfirvöld Georgíu halda enn að sér höndum þegar þetta er skrifað og leyfa andstæðingum Votta Jehóva að halda hatursglæpum sínum áfram. — Sjá rammagreinina „Áframhaldandi skrílsárásir.“
Hvaða þátt á lögreglan í málinu? Fréttir fjölmiðla og myndbandsupptökur sýna að hún hefur ekki einasta leyft árásirnar gegn Vottum Jehóva heldur tekið þátt í þeim! Sem dæmi má nefna að 8. september 2000 leysti hópur lögreglumanna vopnaður kylfum upp friðsamt mót 700 votta Jehóva í borginni Zugdidi. Sjónarvottar segja að grímuklæddir
lögreglumenn hafi „rutt sér braut með látum“ og barið meira en 50 votta. „Þetta var átakanlegt,“ segir eigandi mótsstaðarins er hann minnist skelfingarsvipsins á andliti barnanna þegar tómum skriðdrekakúlum var skotið yfir höfuðið á þeim. Lögreglan gerði áhlaup á mótsstaðinn og brenndi hann til grunna. Engum hefur verið refsað enn sem komið er.Þetta ódæðisverk er ekkert einsdæmi. (Sjá rammagreinina „Þátttaka lögreglu.“) Hinn 7. maí 2001 lýsti þess vegna Nefnd Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum réttilega yfir áhyggjum sínum af „sífelldum pyndingum og annarri grimmri, ómanneskjulegri eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu af hendi löggæslumanna í Georgíu; af því að í engu tilfelli er gerð skjót, hlutlaus og full rannsókn hverju sinni á hinum fjölmörgu ásökunum um pyndingar.“ * Ekki ein einasta af meira en 400 kærum, sem Vottar Jehóva hafa skráð hjá lögreglunni, hafa leitt til þess að hinir þekktu misyndismenn hafi verið sakfelldir. Umboðsmaður Georgíuþings sagði því: „Mannréttindi eru fótum troðin af þeim sem eru skyldugir, starfs síns vegna, til að standa vörð um þau. Í augum þeirra eru mannréttindi aðeins orð á blaði.“
Úrskurður hæstaréttar skapar ringulreið
Ofan á ólöglegar skríls- og lögregluárásir bættist svo nýlega úrskurður hæstaréttar Georgíu sem
skapaði mikla óvissu um réttindi Votta Jehóva.Aðdragandi úrskurðarins var sá að stjórnmálamaðurinn Guram Sharadze höfðaði mál til að reyna að leysa upp lögaðila Votta Jehóva. Málsókninni var vísað frá 29. febrúar 2000, en Sharadze áfrýjaði og vann. Vottar Jehóva áfrýjuðu síðan til hæstaréttar sem úrskurðaði þeim í óhag 22. febrúar 2001, aðallega vegna lagalegra formgalla. Rök hæstaréttar voru þau að stjórnarskráin tæki sérstaklega fram að skrá skyldi trúflokka samkvæmt stjórnarfarsrétti í samræmi við skráningarlög trúfélaga sem voru enn ekki til. Rétturinn ályktaði að fyrst þessi lög voru ekki fyrir hendi væri ekki hægt að lögskrá Votta Jehóva með öðrum hætti. Engu að síður hafa um 15 önnur félög af trúarlegum meiði verið lögskráð í Georgíu.
Mikheil Saakashvili, dómsmálaráðherra Georgíu, sagði í sjónvarpsviðtali eftir úrskurð hæstaréttar: „Úrskurðurinn er æði vafasamur í lagalegu tilliti. Ég held ekki að þetta sé merkasti viðburður í sögu hæstaréttar.“ Zurab Adeishvili, starfandi formaður laganefndar georgíska þingsins, sagði við Keston-fréttastofuna að hann væri „mjög áhyggjufullur“ vegna úrskurðarins af því að ‚hann hvetti öfgahópa innan [georgísku rétttrúnaðarkirkjunnar] til að bæla niður trúarlega minnihlutahópa.‘ Áhyggjur hans reyndust því miður á rökum reistar. Nokkrum dögum eftir birtingu úrskurðarins hófst ofbeldið gegn Vottum Jehóva á nýjan leik. Árið 2001 réðust götuskríll, lögregla og rétttrúnaðarprestar á vottana hinn 27. febrúar, 5. mars, 6. mars, 27. mars, 1. apríl, 7. apríl, 29. apríl, 30. apríl, 7. maí, 20. maí, 8. júní, 17. júní, 11. júlí, 12. ágúst, 28. september og 30. september. Og ofbeldið er enn í gangi.
Mitt í þessari nýju ofsóknaröldu greip hæstiréttur til þess óvenjulega ráðs að skýra úrskurðinn opinberlega og sagði: „Almenningur hefur því miður rangtúlkað ógildingu hæstaréttar á lögskráningu Samfélags votta Jehóva . . . Þegar rétturinn ógilti lögskráningu sakborninganna, sem lögaðila samkvæmt stjórnarfarsrétti, var hugsana-, samvisku- og trúfrelsi þeirra hvorki beint né óbeint skert eða fótum troðið. Frelsi þeirra til að breyta um trú, hvort heldur persónulega eða í félagi við aðra, opinberlega eða í einrúmi, var ekki skert. . . . Réttarúrskurðurinn hefur ekki skert rétt sakborninganna til að taka við og miðla hugmyndum og upplýsingum. Hann bannar þeim ekki að halda friðsamlegar samkomur.“
Þúsundir Georgíumanna andmæla ofsóknum
Þótt þessi yfirlýsing hæstaréttar virðist hafa haft lítil áhrif á þá sem taka þátt í skrílsárásum er hughreystandi að vita til þess að
þúsundir Georgíubúa hafa þegar fordæmt ofsóknirnar sem í gangi eru. Hinn 8. janúar 2001 byrjuðu Vottar Jehóva að dreifa bænarskrá þar sem farið var fram á vernd gegn skrílsárásum og þess krafist að þátttakendur í ofbeldisárásum gegn ríkisborgurum Georgíu yrðu sóttir til saka. Innan tveggja vikna höfðu 133.375 manns frá öllum héruðum landsins undirritað bænarskrána. Í ljósi þess að aðeins 15.000 vottar Jehóva eru í Georgíu má ætla að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem skrifuðu undir tilheyri georgísku rétttrúnaðarkirkjunni. En 22. janúar sama ár hvarf bænarskráin. Hvað gerðist?Þennan dag var haldinn fréttamannafundur á skrifstofu umboðsmanns Georgíuþings, Nönu Devdarian, í tilefni af afhendingu bænarskrárinnar. Meðan á fundinum stóð ruddist Vasili Mkalavishvili við ellefta mann skyndilega inn á skrifstofuna til að ná bænarskránni sem var í 14 bindum. Fulltrúi Kákasísku friðar- og lýðræðisstofnunarinnar reyndi að verja bænarskrána en innrásarmennirnir réðust á hann. Meðan Mkalavishvili jós fúkyrðum yfir viðstadda náðu fylgjendur hans 12 af bindunum 14 úr höndum skipuleggjendanna og hurfu á braut með þau. Erlendur ríkiserindreki varð vitni að atvikinu og kvaðst ekki „trúa eigin augum.“ Til allrar hamingju komu vottarnir höndum yfir bænarskrána á ný 6. febrúar og 13. febrúar 2001 var hún afhent forseta Georgíu.
‚Allar árásir . . . verða kærðar‘
Vottar Jehóva í Georgíu og um heim allan treysta því að Shevardnadze Georgíuforseti grípi til aðgerða í samræmi við bænarskrána. Hann hefur áður hvað eftir annað fordæmt ofsóknirnar gegn Vottum Jehóva. Hinn 18. október 1999 líkti hann til dæmis árásunum á þá við „skipulagðar ofsóknir“ sem voru „ólíðandi.“ Hinn 20. október 2000 skrifaði hann einum meðlimi hins stjórnandi ráðs Votta Jehóva og sagði: „Við munum gera okkar besta til að uppræta ofbeldi.“ Hann bætti við: „Ég fullvissa yður um að stjórnvöld Georgíu eru áfram staðráðin í að standa vörð um mannréttindi og samviskufrelsi.“ Og í bréfi til Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, 2. nóvember 2000, sagði hann: „Þetta mál [staða trúarlegra minnihlutahópa í Georgíu] hefur líka valdið landsmönnum og ríkisstjórninni alvarlegum áhyggjum.“ Hann fullvissaði stofnunina um að ‚allar árásir og allt líkamlegt ofbeldi yrði kært og árásarmennirnir dregnir til ábyrgðar að lögum.‘
Þeir sem með málinu fylgjast, bæði í Evrópu og annars staðar í heiminum, vona að einörð ummæli Shevardnadzes forseta verði brátt að veruleika. Uns það gerist biðja Vottar Jehóva um heim allan staðfastlega fyrir trúbræðrum sínum í Georgíu sem halda hugrakkir áfram að þjóna Jehóva þrátt fyrir hatrammar ofsóknir. — Sálmur 109:3, 4; Orðskviðirnir 15:29.
[Neðanmáls]
^ Nánari upplýsingar um Georgíu er að finna í greininni „Georgia — An Ancient Heritage Preserved“ í Vaknið! (enskri útgáfu), 22. janúar 1998.
^ Árið 2001 hætti tolleftirlitið að gera rit Votta Jehóva upptæk.
^ Vasili Mkalavishvili var rekinn úr georgísku rétttrúnaðarkirkjunni um miðjan tíunda áratuginn eftir að hann gagnrýndi hana harðlega fyrir aðildina að Alkirkjuráðinu. (Georgíska rétttrúnaðarkirkjan hefur síðan sagt sig úr Alkirkjuráðinu.) Hann gekk til liðs við hóp manna undir forystu Kýpríanusar erkibiskups sem aðhyllist gamla gríska tímatalið.
^ Georgía er eitt 123 ríkja sem á aðild að sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmri, ómanneskjulegri eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu. Georgía hefur því skuldbundið sig til að „banna pyndingar.“
[Innskot á blaðsíðu 24]
„Allar árásir og allt líkamlegt ofbeldi verður kært og árásarmennirnir dregnir til ábyrgðar að lögum.“ — Eduard Shevardnadze, forseti Georgíu, 2. nóvember 2000.
[Innskot á blaðsíðu 24]
„Við vonum að þetta mál [ofbeldi gegn trúarlegum minnihlutahópum] verði leyst og að allir trúflokkar í Georgíu njóti óhefts frelsis til að tjá trúarskoðanir sínar.“ — David Soumbadze, háttsettur ráðunautur hjá sendiráði Georgíu í Washington, D.C., í Bandaríkjunum, 3. júlí 2001.
[Rammi/mynd á blaðsíðu 20]
ÁFRAMHALDANDI SKRÍLSÁRÁSIR
Vottar Jehóva hafa verið ofsóttir áfram vegna þess að stjórnvöld í Georgíu hafa ekkert aðhafst til að sakfella árásarmennina.
Hinn 22. janúar 2001 ruddist rétttrúnaðarpresturinn fyrrverandi, Vasili Mkalavishvili, og skríll hans inn á trúarsamkomu 70 votta í Svanetis Ubani umdæmi í Tbílísí. Árásarmennirnir kýldu, spörkuðu og slógu þá með tré- og járnkrossum. Einn skellti stórum viðarkrossi í höfuð votts af slíku afli að þvertréð brotnaði af. Sumir vottar voru dregnir inn í dimmt herbergi þar sem nokkrir árásarmannanna misþyrmdu þeim. Rosknir vottar voru neyddir til að ganga svipugöngin meðan þeir voru barðir með hnefum og krossum. Tveir menn eltu uppi 14 ára dreng og kýldu og spörkuðu í hann þar sem hann lá ósjálfbjarga. Þrítugur árásarmaður elti 12 ára dreng og lamdi hann í höfuðið með gríðarstórri georgískri biblíu. Meðan þetta var að gerast hljóp vottur út úr húsinu til að kalla á lögregluna en var gripinn. Skríllinn lét höggin dynja á andlitinu á honum uns munnur hans fylltist blóði og hann byrjaði að æla. Loks hvarf illþýðið á braut. Árásarmönnunum hefur enn ekki verið refsað.
Hinn 30. apríl 2001 leystu fylgjendur Mkalavishvilis aftur upp trúarsamkomu hjá sama söfnuði votta Jehóva. Árásarmennirnir drógu vottana út og börðu þá með naglaspýtum. Gaddarnir tættu hægri handlegg, vinstri hönd, vinstri fót og vinstri kinn votts að nafni Tamaz. Það þurfti einnig að sauma á hann fimm spor til að loka djúpu höfuðsári. Múgurinn braut allt og bramlaði á heimilinu, þar sem samkoman var haldin, mölvaði húsgögnin, raftækin og alla glugga. Síðan brenndu þeir rit, sem Vottar Jehóva gefa út, á stórum bálkesti. Hinn 7. júní 2001 óskuðu mannréttindasamtökin Human Rights Watch formlega eftir upplýsingunum frá Kakha Targamadze, innanríkisráðherra Georgíu, og Gia Mepharishvili, ríkissaksóknara Georgíu, um hvaða ráðstafanir hefðu verið gerðar til að sækja þá til saka sem þátt tóku í árásinni og öðrum nýlegum árásum. Enn sem komið er hefur enginn árásarmannanna verið lögsóttur.
[Rammi á blaðsíðu 21]
ÞÁTTTAKA LÖGREGLU
Hinn 16. september 2000 setti lögreglan frá borginni Marneuli upp vegartálma til að varna því að 19 rútur með vottum Jehóva kæmust á mótsstað. Við einn vegartálmann hentu tilræðismenn grjóti í rúturnar með vottunum og hittu farþega í höfuðið. Nokkrir vottar voru dregnir út úr rútunum og barðir en aðrir vottar voru rændir. Á sama tími hleypti lögreglan í gegn fullum rútum af fylgismönnum Mkalavishvilis sem voru staðráðnir í að eyðileggja mótsstaðinn. Múgurinn brenndi hálft annað tonn af trúarritum. Lögregla á vettvangi tók þátt í að misþyrma vottunum.
Caucasus-fréttastofan greindi frá því að innanríkisráðherrann ætlaði að rannsaka þessa árás og grípa til „viðeigandi ráðstafana.“ Rannsóknarmenn hafa traustan lagagrunn til að kæra illvirkjana. Í 25. grein stjórnarskrár Georgíu er kveðið á um rétt allra manna til að safnast opinberlega saman. Þrátt fyrir þetta hefur enginn árásarmannanna verið sóttur til saka. Fimm mánuðum eftir árásina greindi Keston-fréttastofan frá því að lögfræðingur Gurams Sharadzes, leiðtoga hreyfingarinnar „Georgía ofar öllu!,“ hafi viðurkennt að Sharadze hafi þrýst á borgaryfirvöld í Marneuli og Zugdidi til að koma í veg fyrir að tvö umdæmismót Votta Jehóva yrðu haldin.
[Rammi á blaðsíðu 21]
STJÓRNARSKRÁ GEORGÍU KVEÐUR Á UM VERND
Stjórnarskrá Georgíu frá 24. ágúst 1995 kveður á um trúfrelsi og vernd gegn hrottafengnum árásum eins og eftirfarandi úrdrættir sýna:
17. grein — (1) Heiður manna og reisn eru friðhelg. (2) Pyndingar, ómannúðleg, hrottafengin eða niðurlægjandi meðferð eða refsing er óleyfileg.
19. grein — (1) Allir skulu frjálsir máls síns, hugsana, sannfæringar, trúar og skoðana. (2) Óheimilt er að ofsækja mann vegna hugsana hans, skoðana eða trúar.
24. grein — (1) Allir hafa frjálsræði til að taka við og dreifa upplýsingum, til að tjá sig og útbreiða skoðanir sínar munnlega, skriflega eða með einhverju öðru móti.
25. grein — (1) Allir, að undanskildum þeim sem eru í hernum, lögreglunni og öryggisþjónustunni, hafa rétt til að koma opinberlega saman án vopna, annaðhvort innandyra eða undir beru lofti, án þess að fá leyfi fyrir fram.
[Rammi á blaðsíðu 22]
HEIMURINN FYLGIST MEÐ
Hvernig lítur alþjóðasamfélagið á það að Georgía skuli ekki stöðva ofsóknirnar gegn Vottum Jehóva?
Ríkisstjórnir Bandaríkjanna og Bretlands sögðu í sameiginlegri yfirlýsingu: „Samkoma votta Jehóva var leyst upp, stórum hópi manna var misþyrmt illa og aðrir voru hindraðir í að komast á samkomuna. Sendiráð Bandaríkjanna og Bretlands eru mjög slegin yfir þessu og öðrum alvarlegum brotum á rétti manna til trúfrelsis í Georgíu . . . Við skorum á ríkisstjórn Georgíu að rannsaka þessi atvik og gera gangskör að því að trúarleg réttindi allra verði virt.“
Ursula Schleicher, formaður fulltrúa Evrópuþingsins í samstarfsnefnd Evrópusambandsins og þjóðþings Georgíu, sagði: „Fyrir hönd fulltrúanefndar Evrópuþingsins vil ég lýsa yfir undrun minni og skelfingu vegna nýjustu ofbeldishrinunnar gegn blaðamönnum, mannréttindasinnum og Vottum Jehóva . . . Hún er að mínu mati svívirðileg árás á þau grundvallarmannréttindi sem Georgía hefur skuldbundið sig til að virða með því að undirrita Evrópusáttmálann um verndun mannréttinda og mannfrelsis.“
Bandarísk nefnd um öryggi og samvinnu í Evrópu segir í bréfi til Shevardnadze forseta um árásirnar gegn Vottum Jehóva: „Nýjustu atburðir eru einkar ógnvænlegir og vekja ótta við að ástandið í Georgíu sé að fara úr böndunum. Sé ekkert aðhafst er það talsmönnum ofbeldis gegn trúarlegum minnihlutahópum hvatning til að halda árásum áfram. Við vonum að þú, sem ríkisleiðtogi, setjir almenningi og embættismönnum Georgíu fordæmi og gefir tvenn skýr skilaboð: óháð því hver afstaða manna til annarra trúarbragða er þá sé óleyfilegt að beita iðkendur þeirra ofbeldi í nokkurri mynd; og þeir sem beita slíku ofbeldi — sér í lagi lögreglumenn sem annaðhvort greiða fyrir eða taka bókstaflegan þátt í þessari svívirðu — verði lögsóttir af öllum þeim þunga sem lög leyfa.“ Undir bréfið skrifuðu sjö þingmenn á þjóðþingi Bandaríkjanna.
Varaformaður nefndarinnar um öryggi og samvinnu í Evrópu, bandaríski fulltrúadeildarþingmaðurinn Christopher H. Smith, sagði: „Hvers vegna virðir Georgía ekki trúfrelsi og mannréttindi eins og það sagðist ætla að gera? . . . Það gengur algerlega í berhögg við Helsinkisáttmálann að brenna bækur og rit og minnir suma nefndarmenn á bókabrennur nasistaáranna.“
Starfandi framkvæmdastjóri Evrópu- og Asíudeildar mannréttindasamtakanna Human Rights Watch skrifar: „Human Rights Watch hefur miklar áhyggjur af hættunni á frekara ofbeldi þar eð ríkisstjórn Georgíu hefur hingað til ekki lögsótt þá sem tóku þátt í fyrri ofbeldisárásum gegn trúarlegum minnihlutahópum. Við krefjumst þess tafarlaust að þið farið fram á að árásunum linni og dragið ábyrgðarmennina fyrir dómstóla.“
Heimurinn fylgist með. Ætlar Georgía að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar? Orðstír landsins er í veði.
[Rammi á blaðsíðu 23]
ÁFRÝJAÐ TIL EVRÓPUDÓMSTÓLSINS
Hinn 21. júní 2001 sendu Vottar Jehóva formlega beiðni til Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem þeir mótmæltu aðgerðarleysi löggæsluyfirvalda í Georgíu. Svar barst frá Evrópudómstólnum stuttu seinna, 2. júlí 2001. Dómsritarinn skrifaði að forseti dómstólsins væri þeirrar skoðunar að málinu „skyldi hraðað.“
[Kort á blaðsíðu 18]
(Sjá uppsettan texta í ritinu)
RÚSSLAND
GEORGÍA
SVARTAHAF
TYRKLAND
[Mynd á blaðsíðu 18]
13. MAÍ 2001 – Shamoyan-fjölskyldan missti heimili sitt þegar brennuvargur kveikti í því.
[Mynd á blaðsíðu 18]
17. JÚNÍ 2001 – Giorgi Baghishvili varð fyrir grimmilegri árás þegar hann var staddur á samkomu Votta Jehóva.
[Mynd á blaðsíðu 19]
11. JÚLÍ 2001 – Ráðist var á David Salaridze á samkomu Votta Jehóva og hann barinn í höfuðið með kylfu og sleginn í bakið og rifbeinin.
[Mynd á blaðsíðu 23]
28. JÚNÍ 2000 – Brennuvargar eyðilögðu bóka- og ritageymslu Votta Jehóva í Tbílísí.
[Mynd á blaðsíðu 23]
16. ÁGÚST 2000 – Stuðningsmaður Mkalavishvilis réðst á Warren Shewfelt, kanadískan vott, í Gldani-Nadzaladevi réttarsalnum.
[Credit line]
AP Photo/Shakh Aivazov.