Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Öld ofbeldis

Öld ofbeldis

Öld ofbeldis

ALFRED NOBEL trúði að hægt væri að viðhalda friði ef þjóðir ættu nógu hættuleg vopn. Þá gætu þær tekið höndum saman í skyndingu og gersigrað hvern þann sem gerði árás. „Þetta afl myndi gera styrjaldir óhugsandi,“ skrifaði hann. Að hans mati myndi engin heilvita þjóð stofna til átaka ef þau hefðu hrikalegar afleiðingar fyrir hana sjálfa. En hvað hefur síðastliðin öld leitt í ljós?

Fyrri heimsstyrjöldin braust út tæplega 20 árum eftir að Nobel lést. Þá voru tekin í notkun ný drápsvopn, þar á meðal vélbyssur, eiturgas, eldvörpur, skriðdrekar, flugvélar og kafbátar. Nærri tíu milljónir hermanna féllu og meira en tvöfalt fleiri særðust. Villimennska fyrri heimsstyrjaldarinnar endurvakti áhuga manna á friði. Þjóðabandalagið var stofnað í kjölfarið. Woodrow Wilson Bandaríkjaforseti gegndi þar stóru hlutverki og hlaut friðarverðlaun Nobels árið 1919.

En vonir manna um að styrjaldir myndu hætta fyrir fullt og allt brustu er síðari heimsstyrjöldin braust út árið 1939. Að mörgu leyti var hún enn hryllilegri en sú fyrri. Meðan á stríðinu stóð stækkaði Adolf Hitler verksmiðju Nobels í Krümmel svo að hún varð ein af stærstu vopnaverksmiðjum Þýskalands með rösklega 9000 starfsmenn. Í loftárás, sem Bandamenn gerðu undir lok stríðsins, var varpað meira en þúsund sprengjum og verksmiðja Nobels var gereyðilögð. Það má kaldhæðni kalla að þessar sprengjur voru byggðar á uppgötvunum Nobels sjálfs.

Öldin, sem leið eftir að Nobel var allur, varð ekki aðeins vitni að tveim heimsstyrjöldum heldur einnig ótal stríðsátökum sem voru smærri í sniðum. Mikil gróska hljóp í gerð vopna á þessu tímabili og sum þeirra, sem fundin voru upp, eru hin hryllilegustu. Við skulum líta á nokkur af þeim stríðsvopnum sem hafa verið áberandi á þeim árum sem liðin eru frá dauða Nobels.

Handvopn og létt vopn. Þetta eru vopn á borð við skammbyssur, riffla, handsprengjur, vélbyssur, sprengjuvörpur og önnur handbær vopn. Handvopn eru létt og ódýr, auðvelt er að viðhalda þeim og enn auðveldara að nota þau.

Hafa þessi vopn — og ógnunin sem óbreyttum borgurum stafar af þeim — fyrirbyggt stríð? Sannarlega ekki! Michael Klare segir í fréttaritinu Bulletin of the Atomic Scientists að létt vopn hafi verið „helstu bardagavopnin í langflestum stríðsátökum eftir lok kalda stríðsins.“ Allt að 90 prósent fallinna í stríðsátökum síðustu ára féllu fyrir handvopnum og léttum vopnum. Yfir fjórar milljónir manna féllu fyrir slíkum vopnum á síðasta áratug einum saman. Oft á tíðum eru þessi vopn í höndum unglinga sem hafa enga þjálfun fengið í hermennsku og eru ófeimnir við að brjóta hefðbundnar stríðsreglur.

Jarðsprengjur. Undir lok 20. aldar létust eða særðust að meðaltali 70 manns á dag af völdum jarðsprengna! Flestir voru óbreyttir borgarar en ekki hermenn. Jarðsprengjur eru gjarnan notaðar til að limlesta en ekki drepa. Tilgangurinn er sá að valda ótta og skelfingu meðal þess fólks sem horfir upp á miskunnarlaust manntjón og örkuml af völdum þeirra..

Vissulega hefur margt verið gert á síðustu árum til að fjarlægja jarðsprengjur. Sumir segja hins vegar að 20 nýjum jarðsprengjum sé komið fyrir á móti hverri einni sem fjarlægð er, og að hugsanlega liggi 60 milljónir jarðsprengna grafnar í jörð í heiminum. Jarðsprengjur gera ekki greinarmun á fæti hermanns og fæti barns að leik á akri, en það hefur ekki aftrað mönnum frá því að framleiða og nota þessi viðurstyggilegu vopn.

Kjarnavopn. Með tilkomu kjarnavopna var í fyrsta sinn hægt að þurrka út heila borg á örfáum sekúndum, án þess að hermenn skiptust á einu einasta skoti. Hin hryllilega tortíming, sem átti sér stað þegar kjarnasprengjum var varpað á borgirnar Hírósíma og Nagasaki árið 1945, er talandi dæmi um það. Sumir blinduðust af óbærilegum ljósblossanum. Sumir urðu fyrir geislaeitrun. Og margir létust af völdum elds og hita. Talið er að samanlagt hafi fallið næstum 300.000 manns í borgunum tveim!

Sumir halda því auðvitað fram að sprengjuárásirnar á þessar borgir hafi bjargað mörgum sem hefðu að öðrum kosti fallið ef stríðsátökin hefðu haldið áfram með hefðbundnum hætti. Hið hrikalega manntjón varð sumum hins vegar hvati til þess að hefja áróður fyrir alþjóðlegri takmörkun þessa ógnarvopns. Margir óttuðust nú að mannkynið hefði fundið upp aðferð til að tortíma sjálfu sér.

Hefur tilkoma kjarnavopna aukið friðarlíkurnar? Sumir halda því fram. Þeir benda á að þessi öflugu vopn hafi ekki verið notuð í hernaði í meira en hálfa öld. Sú skoðun Nobels að gereyðingarvopn myndu koma í veg fyrir stríð hefur hins vegar ekki ræst því að enn er barist með hefðbundnum vopnum. Auk þess eru þúsundir kjarnasprengna hafðar í viðbragðsstöðu öllum stundum, að sögn rannsóknarsamtaka sem kallast Kjarnorkustefnunefndin. Og hættan á hryðjuverkum er ofarlega á baugi um þessar mundir og margir eru uggandi um afleiðingar þess ef efni, sem nota mætti til að smíða kjarnavopn, féllu í „rangar“ hendur. Jafnvel þegar kjarnavopn eru í „réttum“ höndum eru menn uggandi um að eitt slys gæti steypt heiminum út í allsherjar kjarnorkubál. Ljóst er að gereyðingarvopn eru ekki sá friðarstillir sem Nobel sá fyrir sér.

Efna- og sýklavopn. Sýklahernaður er fólginn í því að beita í hernaðarskyni banvænum bakteríum, svo sem miltisbrandi, eða veirum svo sem bólusóttarveiru. Bólusóttin er sérlega skæð sökum smitnæmis. Svo eru það efnavopnin, svo sem eiturgas. Þessi eiturefni eru til í mörgum myndum og þótt þau hafi verið bönnuð um áratugaskeið hefur það ekki komið í veg fyrir að menn noti þau.

Hafa þessi hryllilegu vopn og ógnunin, sem þau valda, framkallað þau viðbrögð hjá fólki sem Nobel spáði — að það ‚hrylli við tilhugsuninni og leysi upp hersveitir sínar‘? Síður en svo. Þau hafa einungis magnað óttann við að vopnunum verði beitt einhvern tíma — jafnvel af viðvaningum. Fyrir rúmum áratug sagði Bandaríska afvopnunarstofnunin: „Næstum hver sem er getur framleitt efnavopn í bílskúrnum hjá sér, svo framarlega sem hann hefur lært svolitla efnafræði á framhaldsskólastigi.“

Það er ljóst að 20. öldin einkenndist af ógurlegri styrjöldum en nokkurt annað tímabil sögunnar. Núna í upphafi 21. aldar virðast friðarhorfurnar enn fjarlægari en áður — ekki síst eftir hryðjuverkaárásirnar sem gerðar voru í New York og Washington, D.C., hinn 11. september 2001. „Það þorir tæplega nokkur maður að spyrja hvort tæknin kunni að snúast um of á sveif með illu öflunum,“ skrifar Steven Levy í tímaritinu Newsweek. „Hefur nokkur maður nokkra einustu hugmynd um hvernig hægt væri að taka á þessum vanda? Mennirnir eru þekktir fyrir að elta allt sem þeir halda vera framfarir og spyrja spurninganna eftir á. Við neitum að hugsa um að hið óhugsanlega gerist og sköpum í leiðinni þau skilyrði að það geti gerst.“

Fram til þessa hefur mannkynssagan kennt okkur að tilurð öflugra sprengiefna og stórhættulegra vopna færir heiminn ekki spönn í friðarátt. Er heimsfriður þá ekkert annað en draumsýn?

[Rammagrein/mynd á blaðsíðu 8]

Nítróglýserín tamið

Ítalski efnafræðingurinn Ascanio Sobrero uppgötvaði nítróglýserín árið 1846. Nítróglýserín er þungur, olíukenndur og sprengifimur vökvi sem reyndist stórhættulegur. Sobrero skarst illa í andliti af völdum glerflísa í sprengingu og hætti að lokum að vinna við efnið. Og það var galli á þessu efni sem Sobrero tókst ekki að leysa: Ef því var hellt niður og slegið var á það með hamri sprakk aðeins hluti af því, það er að segja bletturinn þar sem hamarinn hitti það.

Nobel leysti þennan vanda er hann fann upp þá aðferð að nota lítið magn af einu sprengiefni til að kveikja í miklu magni af öðru sprengiefni. Síðan, árið 1865, fann Nobel upp hvellhettuna — lítið hylki með sprengiþræði og sprengiefni úr kvikasilfurssalti sem stungið var niður í ílát með nítróglýseríni.

En það var eftir sem áður hættulegt að vinna með nítróglýserín. Árið 1864 varð til dæmis sprenging á verkstæði Nobels skammt frá Stokkhólmi með þeim afleiðingum að fimm fórust, þeirra á meðal Emil, yngsti bróðir hans. Verksmiðja Nobels í Krümmel í Þýskalandi sprakk tvisvar í loft upp. Og sumir notuðu nítróglýserín sem ljósaolíu, skóáburð eða smurolíu fyrir vagnhjól — með hinum alvarlegustu afleiðingum. Jafnvel þegar efnið var notað við sprengingar í fjöllum gat eitthvað af olíunni seytlað niður í sprungur og valdið slysum síðar.

Árið 1897 batt Nobel nítróglýserínið í fast form með því að blanda því í kísilgúr sem er óvirkt, gropið efni. Nobel kallaði efnið dínamít eftir gríska orðinu dínamis sem merkir „afl.“ Síðar fann hann upp enn háþróaðri sprengiefni, en dínamít er þó talið ein af mikilvægustu uppfinningum hans.

Sprengiefni Nobels hafa auðvitað líka verið notuð í friðsamlegum tilgangi. Til dæmis komu þau mjög við sögu við gerð St. Gotthards-jarðganganna (1872-82), sprengingu kletta í Austurá í New York (1876 og 1885) og gerð Korintuskurðarins í Grikklandi (1881-93). En strax eftir að dínamítið var fundið upp tóku menn að setja það í samband við dauða og tortímingu.

[Mynd]

Lögreglustöð í Kólombíu sem eyðilögð var í dínamítsprengingu.

[Credit line]

© Reuters NewMedia Inc./CORBIS

[Mynd á blaðsíðu 4]

Ný drápsvopn voru tekin í notkun í fyrri heimsstyrjöldinni, innan við 20 árum eftir dauða Nobels.

[Credit line]

Ljósmynd: U.S. National Archives

[Myndir á blaðsíðu 6]

Fórnarlömb jarðsprengna í Kambódíu, Írak og Aserbaídsjan.

[Credit lines]

UN/DPI Photo 186410C: P.S. Sudhakaran

UN/DPI Photo 158314C: J. Isaac

UN/DPI Photo: Armineh Johannes

[Mynd á blaðsíðu 6]

Þúsundir kjarnasprengna eru hafðar í viðbragðsstöðu öllum stundum, að sögn Kjarnorkustefnunefndarinnar.

[Credit line]

UNITED NATIONS/LJÓSMYND: SYGMA

[Myndir á blaðsíðu 7]

Heimurinn vaknaði til vitundar um tortímingarafl efnavopna þegar sarín-árásin var gerð í neðanjaðarlestakerfi Tókíó árið 1995.

[Credit line]

Asahi Shimbun/Sipa Press

[Mynd credit line á blaðsíðu 5]

UN/DPI Photo 158198C: J. Isaac