Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Bjartari dagar — betri nætursvefn

Bjartari dagar — betri nætursvefn

Bjartari dagar — betri nætursvefn

ÁTTU erfitt með svefn? Skýringin gæti verið sú að þú fáir of litla birtu yfir daginn, einkum ef þú ert kominn á efri ár. Rannsóknarmenn í Japan hófu nýverið að rannsaka íbúa elli- og hjúkrunarheimilis sem þjáðust af svefnleysi. Þeir komust að því að svefnleysi þátttakenda mátti rekja til þess hversu litla birtu þeir fengu yfir daginn. Jafnframt sýndu blóðprufur að þetta aldraða fólk hafði lítið af hormóninu melatónín.

Melatónín er framleitt í heilakönglinum. Dægursveiflan í framleiðslu melatóníns veldur því að við eðlilegar aðstæður er magn þess í blóðinu „mikið á nóttunni en varla greinanlegt á daginn,“ segir í frétt í The Journal of Clinical Endocrinology & Metabolism. Þegar aldraðir fá hins vegar ekki næga birtu yfir daginn minnkar melatónínið í blóðinu. Þetta virðist gera það að verkum að líkaminn geri minni greinarmun á degi og nóttu. Rannsakendurnir telja að þetta hafi áhrif á gæði svefnsins.

Þegar hinir öldruðu, sem þjáðust af svefnleysi, voru látnir vera í skæru rafljósi um miðjan dag (frá klukkan tíu til hádegis og frá tvö til fjögur) í fjórar vikur, jókst melatónínframleiðslan og varð „svipuð og hjá unga samanburðarhópnum,“ segir í fréttinni. * Á sama tíma varð svefninn betri.

Rannsakendurnir drógu þá ályktun „að aldraðir, einkum þeir sem þjást af svefnleysi, fái ef til vill ekki nægilega sterkt ljós til að stilla líkamsklukkuna þar sem þeir eru mestan hluta dagsins við herbergisbirtu.“ Þar sem sumt aldrað fólk tekur inn melatónín til að auðvelda sér svefn segir fréttin: „Miðað við mögulegar aukaverkanir samfara langtímanotkun melatóníns getur hádegisbirtan verið mun æskilegri, áhrifaríkari og öruggari meðferð fyrir aldrað fólk sem þjáist af svefnleysi og það getur stjórnað henni sjálft.“

Hvers vegna ekki að vera aðeins meira úti við ef þú ert innandyra mestallan daginn og þjáist af svefnleysi — eða að minnsta kosti að hleypa eins mikilli birtu og hægt er inn til þín yfir daginn og hafa myrkur í svefnherberginu á nóttunni. Þú gætir komist að raun um að bjartari dagar stuðla að betri nætursvefni.

[Neðanmáls]

^ Í rannsókninni voru tveir samanburðarhópar: tíu ungmenni og tíu hraustir vistmenn á sama elli- og hjúkrunarheimili og þeir sem þjáðust af svefnleysi.