Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Heimsfriður er ekki aðeins draumur!

Heimsfriður er ekki aðeins draumur!

Heimsfriður er ekki aðeins draumur!

ÆTLI Alfred Nobel væri vongóður um frið í heiminum ef hann gæti litið yfir sögu nýliðinnar aldar? Eflaust myndi hann fagna einlægri viðleitni margra til að binda enda á stríð og átök. Engu að síður myndi blákaldur veruleikinn blasa við honum. Hugh Thomas, prófessor, lýsir stöðunni stutt og laggott: „Þó að tuttugasta öldin hafi almennt einkennst af félagslegum umbótum og vaxandi umhyggju stjórnvalda fyrir kjörum fátækra, hefur vélbyssan, skriðdrekinn, B-52 sprengjuflugvélin, kjarnasprengjan og flugskeytið stjórnað öldinni að miklu leyti. Hún hefur einkennst af blóðugari og skaðlegri styrjöldum en nokkurt annað tímaskeið.“ Thomas bætir við að það sé því „álitamál hvort hægt sé að kalla þetta framfaratíma eða ekki.“

Virðist heimsfriður líklegri núna, við upphaf 21. aldar? Síður en svo. Tímaritið Newsweek vísar til hryðjuverkaárásanna í New York og Washington, D.C., hinn 11. september á síðasta ári og segir: „Í heimi þar sem hægt er að breyta Boeing 767 í stýriflaugar virðist ekkert óhugsandi, fáránlegt eða, það sem verst er, afstýranlegt.“

Sumir segja að heimsfriður geti því aðeins orðið að tveim skilyrðum sé fullnægt: Í fyrsta lagi þurfi að eiga sér stað róttækar breytingar á hugsunarhætti og hegðun manna, og í öðru lagi þurfi allar þjóðir að sameinast undir einni stjórn. Biblían boðar þann tíma er friður kemst á — en ekki fyrir tilstilli manna. Sálmur 46:10 segir um skaparann, Jehóva Guð: „Hann stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar.“ Guð mun nota ríki sitt til að koma þessu til leiðar, en margir einlægir menn hafa beðið þess margsinnis í bænum sínum að þetta ríki kæmi. Guðsríki er ekki eitthvert óljóst ástand í hjörtum manna heldur raunveruleg stjórn sem Guð beitir til að koma á friði til endimarka jarðar. Jesaja spámanni var innblásið að segja fyrir að þegnar þessarar stjórnar myndu ‚ekki temja sér hernað framar.‘ (Jesaja 2:4) Gert verður öflugt fræðsluátak um heim allan til að kenna fólki að búa saman í sátt og samlyndi og „smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum.“

Vottar Jehóva gera þetta nú þegar. Þó svo að þeir tilheyri ótal þjóðernishópum og búi í meira en 200 löndum neita þeir að taka sér vopn í hönd gegn náunga sínum. Hlutleysi þeirra í stríðandi heimi sannar að friður er ekki draumsýn heldur raunhæfur möguleiki.

Langar þig til að fá nánari vitneskju um þessa friðarvon sem Biblían gefur? Hafðu þá samband við Votta Jehóva í þínu byggðarlagi eða við útgefendur þessa tímarits. Þú finnur heimilisfangið á blaðsíðu 5.