Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hlustum og lærum

Hlustum og lærum

Hlustum og lærum

„VIÐ höfum lært 85 prósent af því sem við vitum með því að hlusta,“ segir í grein í dagblaðinu Toronto Star. Þótt við verjum miklum tíma í að hlusta, þá erum við annars hugar eða utan við okkur eða gleymum um 75 prósent af því sem við heyrum. Þessar eftirtektarverðu tölur sýna fram á að við þurfum að temja okkur að hlusta með athygli.

„Undirrót margra vandamála þjóðfélagsins er sú að fólk hlustar ekki nógu vel,“ segir í greininni. Rebecca Shafir, talmeinafræðingur og sérfræðingur í tjáskiptum, telur að þetta eigi oft sinn þátt í sjálfsvígum, ofbeldi í skólum, sundrungu fjölskyldna og eiturlyfjaneyslu.

Félagsfræðingar hafa komist að því að fólk hlustar á mismunandi vegu. Sumir hlusta eftir öllu sem tengist fólki og vilja heyra öll litríku smáatriðin í frásögninni. Aðrir hlusta eftir atburðarásinni og vilja að strax sé komið að efninu. „Þess vegna getur svo farið þegar hlustandi, sem hefur áhuga á fólki, og hlustandi, sem hefur áhuga á atburðarásinni, tala saman að þeir nái ekki að skilja hvor annan,“ segir Toronto Star.

Það var því ekki að ástæðulausu að Jesús benti á hve mikilvægt sé að ‚gæta að hvernig við heyrum.‘ (Lúkas 8:18) Að hlusta vel ber vott um góða mannasiði. Og það er mjög þýðingarmikill þáttur í innihaldsríkum samræðum. Gott ráð er að leiða hjá sér allt sem getur valdið truflunum, halla sér örlítið fram og sýna viðbrögð með augnasambandi og með því kinka kolli. Þar sem þekking okkar er að miklu leyti háð því að við hlustum af athygli er mikilvægt fyrir okkur öll að halda áfram að leggja okkur fram um að taka vel eftir.