Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Óbeinar reykingar eru skaðlegar

„Heilbrigður maður, sem reykir ekki, getur orðið fyrir hjartaskaða ef hann andar að sér tóbaksreyk frá öðrum í aðeins 30 mínútur,“ segir í frétt í kanadíska blaðinu Globe and Mail um nýlega rannsókn í Japan. Rannsakendur við háskólann í Osakaborg gátu með nýrri ómtækni mælt beint þau slæmu áhrif sem reykur frá öðrum hefur á innanþekjufrumur hjartahólfa og æða. Þegar þessar frumur eru heilbrigðar stuðla þær að góðri blóðrás með því að draga úr hættu á blóðtappa og skellumyndun á æðaveggjum. Rannsakendurnir uppgötvuðu að blóðstreymið í hjarta þeirra sem reyktu ekki „var um það bil 20 prósent meira en hjá þeim sem reyktu. En eftir að þeir höfðu andað að sér reyk frá öðrum í 30 mínútur“ minnkaði blóðstreymið og varð það sama og hjá þeim sem reyktu. Að sögn læknisins Ryo Otsuka eru „þetta afdráttarlausar sannanir fyrir þeim skaða sem óbeinar reykingar geta valdið á kransæðum þeirra sem ekki reykja.“

Gleymdu ekki að brosa

„Einfalt bros er besta leiðin til að eignast vini og hafa áhrif á aðra,“ að sögn Lundúnablaðsins The Times. Í könnun fyrir bresku póstþjónustuna Royal Mail kom fram að það fyrsta, sem flestir taka eftir hjá öðrum, er bros þeirra. Næstum helmingur þátttakenda sagði að þeir myndu ekki eiga viðskipti við neinn sem liti óvingjarnlega út. Konur í stjórnarstöðu eru líklegri en karlar til að veita starfsmönnum sem brosa stöðuhækkun. Brian Bates, meðhöfundur bókarinnar og sjónvarpsþáttanna The Human Face, segir: „Þessi rannsókn sýnir hversu mikilvægt brosið er í samfélaginu. Oft erum við fúsari til að deila peningum okkar með þeim sem brosa mikið og segja þeim frá trúnaðarmálum og vonum okkar en þeim sem brosa síður.“ Hann bætir við að bros stuðli að myndun líkamans á verkjastillandi endorfínum og þeim sem brosa mikið „gangi betur í einkalífi sínu og í vinnunni.“

Sumarleyfisgremja

Dagblaðið Die Welt í Hamborg birti eftirfarandi viðvörun: „Ef þú ert farinn að pakka niður fyrir skemmtilegustu vikur ársins skaltu sýna aðgát.“ Deilur og þras eyðileggja sumarfríið fyrir mörgum fjölskyldum. Þýsk könnun leiddi í ljós „að sótt er um þriðja hvern hjónaskilnað eftir sameiginlegt sumarleyfi.“ Hvernig stendur á því? Ein ástæðan gæti verið sú að fjölskyldan er óvön að vera mikið saman og í svona miklu návígi, sem veldur því að fjölskyldumeðlimir fara í taugarnar hver á öðrum. Til að koma í veg fyrir vandamál mæla sálfræðingar með því að fólk skipuleggi sumarfríið fyrir fram, ráðgeri hvað það geti gert í sameiningu en sé þó sveigjanlegt og taki tillit til óska hvers og eins. „Óhóflegar væntingar hafa líka sitt að segja,“ segir Die Welt. „Fólk er í vinnu og lífið gengur sinn vanagang ellefu mánuði ársins. Þess vegna bindur það vonir við að þriggja til fjögurra vikna sumarleyfi bæti þeim upp allt sem það hefur vanrækt á árinu.“

Að skilja geðræna sjúkdóma

„Einn af hverjum fjórum jarðarbúum fær tauga- eða geðraskanir einhvern tíma á ævinni,“ að sögn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Margar geð­raskanir eru læknanlegar en þrátt fyrir það leitar aðeins rúmur þriðjungur sjúklinga til læknis. „Geðsjúkdómar eru ekki merki þess að fólk sé misheppnað,“ segir Gro Harlem Brundtland, framkvæmdastjóri stofnunarinnar. Ef eitthvað hefur misheppnast eru það viðbrögð okkar við fólki með geðraskanir og heilabilun.“ Hún heldur áfram: „Ég vona að þessi skýrsla eyði langstæðum efasemdum og kreddum og boði breytta tíma á sviði lýðheilsu og geðheilsu.“ Miðað við núverandi þróun er búist við „að árið 2020 verði [þunglyndi] í öðru sæti á eftir hjartasjúkdómum af völdum blóðþurrðar en tíðari en allir aðrir sjúkdómar,“ að sögn stofnunarinnar. Með réttri meðferð geta sjúklingar hins vegar „lifað eðlilegu lífi og verið nýtir þjóðfélagsþegnar.“