Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig get ég sagt skólafélögunum frá trú minni?

Hvernig get ég sagt skólafélögunum frá trú minni?

Ungt fólk spyr . . .

Hvernig get ég sagt skólafélögunum frá trú minni?

„Ég var í boðunarstarfinu og hitti allt í einu skólafélaga. Ég varð algjörlega máttlaus og sá sem var með mér í starfinu þurfti að tala fyrir mig.“ — Albert.

„Ég vissi að einn bekkjarfélagi minn bjó við þessa götu svo að ég fékk bróður minn til að tala alls staðar. Eftir smástund varð hann svolítið stressaður og bað mig um að taka næstu dyr. Ég bankaði og — ó, nei — það var bekkjarfélaginn sem kom til dyra. Ég varð ofboðslega hræddur!“ — Jakob.

ÞAÐ er ekki alltaf vinsælt hjá ungu fólki að tala um trúmál. Hins vegar kunna sannkristnir unglingar að meta þau sérréttindi, sem Guð hefur látið þeim í té, að segja öðrum frá trú sinni. Þúsundir ungra votta Jehóva taka þess vegna þátt í boðunarstarfinu hús úr húsi. En sumir þeirra eru hræddir við að hitta skólafélaga í þessu starfi. „Ég verð enn þá taugaóstyrk þegar ég hitti fólk sem var með mér í skóla,“ segir Jennifer, þó svo að nokkur ár séu liðin frá því að hún útskrifaðist úr unglingadeild.

Ef þú ert kristinn unglingur gæti þér stundum liðið þannig. Auðvitað hræðast allir höfnun svo það er fullkomlega eðlilegt að vera svolítið kvíðinn þegar kemur að því að tala um trúmál við skólafélagana. * En það er ástæðulaust að lamast af ótta. Manstu eftir manninum sem Biblían kallar „Jósef frá Arímaþeu“? Hann trúði því sem Jesús hafði kennt honum en í Biblíunni er sagt að hann hafi verið „lærisveinn Jesú, en á laun af ótta við Gyðinga.“ (Jóhannes 19:38) Hvað fyndist þér um vin sem vildi halda vináttu ykkar leyndri? (Lúkas 12:8, 9) Það er því fullkomlega eðlilegt að Guð ætlast til þess að allir kristnir menn ,játi‘ trú sína opinberlega. (Rómverjabréfið 10:10) Það felur í sér að tala við unga fólkið í skólanum þínum.

Jósef frá Arímaþeu sigraðist á óttanum, að minnsta kosti tók hann í sig kjark til að biðja um leyfi til að greftra Jesú. Hvernig getur þú sigrast á þínum ótta?

Að vera fús til að prédika

Páll postuli var engan veginn feiminn við að tala við aðra um trú sína. Í Rómverjabréfinu 1:15 segist hann hafa verið fús til að boða boðskap Biblíunnar. Hvað stuðlaði að slíkum fúsleika? Í 16. versinu segir hann: „Ég fyrirverð mig ekki fyrir fagnaðarerindið. Það er kraftur Guðs til hjálpræðis hverjum þeim sem trúir.“ Hvað um þig? Hefur þú virkilega sannprófað sannleikann fyrir sjálfum þér? (Rómverjabréfið 12:2) Ertu sjálfur sannfærður um að boðskapur Biblíunnar sé „kraftur Guðs til hjálpræðis“?

Það eitt að sækja kristnar samkomur með foreldrunum er ekki nóg. „Það er auðvelt að fara bara á samkomur,“ segir unglingsstúlka að nafni Debóra, „því að foreldrarnir segja manni að gera það. En þegar fólk spurði mig út í Biblíuna gat ég ekki svarað.“ Mi Young tekur í sama streng: „Við verðum að sanna fyrir sjálfum okkur að þetta sé sannleikurinn.“

Hvað getur hvatt þig til að miðla öðrum af þekkingu þinni á Biblíunni? Einkabiblíunám. Ungur piltur, sem heitir Sean, segir: „Þegar maður byrjar að nema Biblíuna fer maður að tileinka sér sannleikann. Maður er að nema fyrir sjálfan sig.“ En það eru ekki allir námshestar að eðlisfari. „Mér finnst leiðinlegt að lesa,“ viðurkennir Shevon. „Þess vegna fannst mér í fyrstu erfitt að lesa Varðturninn og Vaknið! eða lesa daglega í Biblíunni. En með tímanum fór ég að gera það.“

Hver er árangurinn af þess konar rækilegu námi? Páll postuli segir að ,trúin komi af heyrninni.‘ (Rómverjabréfið 10:17, Biblían 1859) Eftir því sem trú þín og sannfæring eykst geturðu verið viss um að viðhorf þitt breytist. Brasilísk unglingsstúlka, Elisângela að nafni, segir: „Það er heiður að því að vera kristin, ekki eitthvað til að skammast sín fyrir.“ Þú munt finna þig knúinn til að tala við aðra, þar á meðal skólafélagana, eftir því sem trú þín styrkist. Páll sagði: „Vér trúum . . . og þess vegna tölum vér.“ (2. Korintubréf 4:13) Hvernig geturðu þar að auki verið „hreinn af blóði“ annarra ef þú liggur á lífgefandi þekkingu sem þú gætir annars miðlað unglingunum sem þú umgengst á hverjum degi? — Postulasagan 20:26, 27, Biblían 1912.

Samt finnst sumum kristnum unglingum þeir ekki í stakk búnir til að tala við aðra um Biblíuna. „Það er ekki gaman að reyna að prédika þegar maður veit ekki hvað maður á að segja,“ segir unglingspiltur sem heitir Jósúa. Dýpri skilningur á Biblíunni hjálpar þér að ná nokkuð góðum tökum á því. (2. Tímóteusarbréf 2:15) Unglingar í söfnuði Votta Jehóva geta komið að máli við safnaðaröldungana og beðið þá um að hjálpa sér að þjálfa kennslutæknina. Mattías frá Þýskalandi segir: „Mér fór að finnast gaman í boðunarstarfinu þegar ég byrjaði virkilega að tala við fólk, ekki bara að bjóða því biblíurit.“

Síðast en ekki síst geturðu beðið Guð um að hjálpa þér að tala með djörfung. (Postulasagan 4:29) Páll postuli fékk sjálfur þess konar hjálp frá Guði. Hann segir í 1. Þessaloníkubréfi 2:2: „Guð gaf oss djörfung til að tala til yðar fagnaðarerindi Guðs, þótt baráttan væri mikil.“ Samkvæmt einu heimildarriti er einnig hægt að þýða þessa staðhæfingu: „Guð tók óttann úr hjörtum okkar.“ Hvers vegna ekki að biðja Guð um að taka óttann úr hjarta þínu?

Segðu að þú sért vottur

Þú gætir tekið mjög stórt skref í samræmi við þá bæn. Bresk unglingsstúlka að nafni Chic ráðleggur: „Segðu skólafélögunum að þú sért vottur.“ Ekki viltu vera ,lærisveinn á laun.‘ Rebekka viðurkennir að hún hafi einu sinni verið dauðhrædd við að hitta einhvern sem hún þekkti í boðunarstarfinu. En hún komst að raun um að „ef maður segir þeim að maður sé kristinn og fari hús úr húsi eiga þeir til að spyrja: ,Nú er það, hvenær ætlarðu þá að koma til mín?‘“

En hvers vegna að bíða eftir að tækifærið komi til þín? Leitaðu að tækifærum til að segja frá trú þinni í skólanum. Mundu eftir spurningum Páls postula: „Hvernig eiga þeir að trúa á þann, sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra, án þess að einhver pré­diki?“ (Rómverjabréfið 10:14) Þú ert best til þess fallinn að hjálpa bekkjarfélögunum að heyra. Unglingsstúlka, sem heitir Iraida, segir: „Skólinn er starfssvæði sem aðeins við getum starfað á.“ Margir unglingar notfæra sér aðstæður sínar með því að boða trúna óformlega.

Verkefni og umræður í tímum gefa stundum tækifæri til að segja frá biblíusannindum. Bresk stúlka, Jaimie að nafni, segir svo frá: „Það var verið að ræða um þróunarkenninguna í líffræðitíma og ég sagði frá því hverju ég trúi. Einn af strákunum gerði grín að mér og sagði að Vottar Jehóva ættu ekki skilið að vera í skólakerfinu þar sem greind þeirra væri svo lítil. En hinir krakkarnir tóku strax upp hanskann fyrir mig.“ Það var augljóslega vel þess virði að vera til fyrirmyndar sem kristinn unglingur. Jaimie heldur áfram: „Árangurinn varð sá að ég lét bekkjarsystir mína hafa eintak af bókinni Er til skapari sem er annt um okkur.“ *

Roxana, sem er 14 ára stúlka í Rúmeníu, segir frá svipaðri reynslu: „Kennari minn tilkynnti að það ætti að vera umræða í bekknum um áfengi, tóbak og eiturlyf. Ég kom því með Vaknið! fyrir 22. mars árið 2000 sem fjallaði um efnið ,Hvernig þú getur hætt að reykja.‘ Bekkjarsystir mín sá blaðið, tók það og neitaði síðan að skila því aftur. Þegar hún var búin að lesa það sagðist hún ákveðin í því að hætta að reykja.“

Viðtökurnar verða ef til vill ekki alltaf svona góðar en Prédikarinn 11:6 hvetur okkur: „Sá sæði þínu að morgni og lát hendur þínar eigi hvílast að kveldi, því að þú veist ekki, hvað muni heppnast.“ En það er alveg sama hvernig viðtökurnar verða, ef þú segir frá trú þinni í skólanum leggurðu grunninn að ánægjulegum samræðum ef þú hittir einhvern tíma skólafélaga í boðunarstarfinu hús úr húsi. Bresk unglingsstúlka, sem heitir Jessica, segir: „Það er í rauninni auðveldara að vitna fyrir skólafélögum vegna þess að maður þekkir þá nú þegar.“ Það gæti komið þér á óvart hve forvitnir sumir þeirra eru um trú þína.

Auðvitað bregðast ekki allir vel við en Jesús gaf þetta góða ráð: „Taki einhver ekki við yður né hlýði á orð yðar, farið þá úr því húsi . . . og hristið dustið af fótum yðar.“ (Matteus 10:14) Þú þarft sem sagt ekki að taka höfnuninni persónulega. Farðu heldur burt í friði og leitaðu að einhverjum öðrum sem er viljugri að hlusta. Fyrr eða síðar finnurðu hjartahreina menn sem hungrar eftir sannleikanum og eru tilbúnir til að hlusta. Væri ekki ánægjulegt ef einn þeirra væri skólafélagi þinn? Ef svo færi yrðir þú glaður að hafa sigrast á óttanum við að tala um trú þína við skólafélagana.

[Neðanmáls]

^ Sjá greinina „Ungt fólk spyr . . . En ef ég hitti skólafélaga?“ í Vaknið! apríl-júní 2002.

^ Gefin út af Vottum Jehóva.

[Innskot á blaðsíðu 20]

„Þegar maður byrjar að nema Biblíuna fer maður að tileinka sér sannleikann.“ — Sean.

[Mynd á blaðsíðu 18]

Verkefni og umræður í tímum gefa oft tækifæri til að segja frá biblíusannindum.

[Mynd á blaðsíðu 18]

Vertu ófeimin við að segja að þú sért vottur.