Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Tungumál óbyggðanna — margslungin tjáskipti dýranna

Tungumál óbyggðanna — margslungin tjáskipti dýranna

Tungumál óbyggðanna — margslungin tjáskipti dýranna

EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í KENÍU

EIN verðmætasta gjöf, sem manninum hefur verið gefin, er án efa tjáskiptahæfnin. Hana notum við til að koma mikilvægum upplýsingum á framfæri við aðra, annaðhvort með orðum eða látbragði og líkamstjáningu. Málfrelsi er reyndar mjög umdeilt málefni um alla jörðina og sumir hafa ályktað sem svo að tjáskiptahæfnin sé manninum einum í blóð borin.

Rannsóknir hafa hins vegar leitt í ljós að dýr nota flóknar aðferðir til að skiptast á upplýsingum — aðferðir sem koma mönnum oft í opna skjöldu. Já, þau „tala,“ en ekki með orðum heldur með sjónrænum merkjum eins og að dingla rófu, sperra eyru eða blaka vængjum. Þau nota líka hljóð, svo sem gelt, öskur eða urr og fuglar tísta og kvaka. Sum þessara „tungumála“ eru mönnum augljós en önnur eru vart greinanleg nema með vísindalegum aðferðum.

Rándýr!

Það er miður júlí og við erum stödd í hinum víðáttumikla Serengeti-þjóðgarði í Tansaníu. Þar eru þúsundir gnýja á árlegri norðurleið í átt að Masai Mara friðlandinu í Keníu í leit að betra beitilandi. Hófadynurinn glymur um alla sléttuna. En þetta er hættuför því að víða leynast hin ýmsu rándýr eins og ljón, blettatígrar, hýenur og hlébarðar. Gnýrinn tekur líka áhættu þegar hann fer yfir Mara-ána sem er kvik af krókódílum. En hvernig fælir hann rándýr í burtu?

Gnýrinn reynir að rugla óvininn í ríminu með því að hlaupa stuttan spotta og snúa sér svo skyndilega að honum. Samtímis þessu kastar hann höfðinu til hliðanna. Síðan hoppar hann til og frá á einkennilegan hátt og setur þannig á svið hálfhlægilega sýningu. Jafnvel hin grimmustu rándýr verða furðu lostin og stoppa þegar þau sjá þennan óvenjulega dans. Ef rándýrið hættir ekki við árásina endurtekur gnýrinn alla sýninguna. Þetta getur komið árásardýrinu svo úr jafnvægi að það yfirgefur svæðið að sýningu lokinni. Þessi klunnalegi dans er ástæðan fyrir því að gnýrinn hefur fengið hið vafasama viðurnefni „trúður sléttunnar.“

Impalahirtirnir, litlu frændur gnýsins, eru þekktir fyrir gríðarlega stökkfimi. Í hugum margra eru þessi háu stökk tákn virðuleika og hraða. En þegar hætta steðjar að notar þessi antilóputegund stökktæknina til að rándýrið eigi erfiðara með að glefsa í fætur þess. Stökkin geta verið allt að 9 metra löng og þau gefa árásardýrinu skýr skilaboð: „Eltu mig bara ef þú getur.“ Fá rándýr leggja það á sig aðeins til að ná einum ófúsum impalahirti.

Matmálstími

Mörg rándýr óbyggðanna þurfa að þjálfa veiðitæknina vel til að verða góð veiðidýr. Ungu dýrin verða að fylgjast vel með þegar foreldrarnir sýna þeim hvernig þau eiga að fara að. Á afrísku friðlendi var fylgst með því þegar blettatígurinn Saba kenndi hvolpum sínum að bjarga sér. Eftir að hafa setið um Thompsons-gasellu í rúman klukkutíma stökk hún á ógæfusama antilópuna og hélt henni niðri — án þess þó að drepa hana. Stuttu seinna henti Saba vönkuðu dýrinu fyrir hvolpana sem voru furðutregir til að kasta sér á bráðina. Ungu tígrarnir vissu af hverju mamma þeirra hafði fært þeim lifandi dýr. Hún vildi að þeir lærðu að drepa gaselluna. Í hvert skipti sem bráðin reyndi að komast á fætur og hlaupa í burtu felldu æstir hvolparnir hana. Að lokum varð gasellan örmagna og gafst upp. Saba fylgdist með hvolpunum úr fjarlægð, ánægð með árangurinn.

Sum dýr sérhæfa sig í því að hafa eins hátt og þau mögulega geta á meðan þau eru í ætisleit. Þegar flokkur af blettahýenum hleypur á eftir bráðinni, öskra þær, hvæsa og flissa. Þegar búið er að drepa dýrið bjóða þær öðrum hýenum til veislunnar með illræmdum „hlátri“ sínum. Hýenur veiða sér þó ekki alltaf til matar. Í óbyggðunum eru þær á meðal hinna verstu matarræningja og beita öllum brögðum til að fæla önnur rándýr í burtu til að ná bráðinni af þeim. Þær eru meira að segja þekktar fyrir að hræða ljón í burtu frá bráð þeirra. Hvernig fara þær að? Þetta eru hávær dýr og þau æsa sig upp til að reyna að trufla ljónin á meðan þau eru að éta. Ef ljónin leiða hávaðan hjá sér verða hýenurnar enn þá æstari og djarfari. Ljónin yfirgefa þá oft hræið og fara af svæðinu þar sem hýenurnar eru hvort eð er búnar að raska ró þeirra.

Hjá býflugum er matarleit margslunginn helgisiður. Flóknar vísindarannsóknir hafa leitt í ljós að hunangsflugan dansar fyrir hinar flugurnar í búinu til að láta þær vita um staðsetningu, tegund og gæði fæðunnar sem hún var að finna. Á búknum geymir býflugan sýnishorn af fæðunni til dæmis hunangslög eða frjóduft fyrir hinar flugurnar. Býflugan getur líka sagt hinum hvar fæðan er og hversu langt hana er að sækja með því að dansa áttulaga dans. Passaðu þig! Býflugan, sem er á sveimi í kringum þig, gæti verið að safna mikilvægum upplýsingum til að fara með heim. Hún gæti haldið að ilmvatnið þitt sé næsta máltíð.

Samskipti

Fá hljóð eru jafntilkomumikil og ljónsöskur á friðsælli nóttu. Nokkrar ástæður hafa verið gefnar fyrir þessu tjáskiptaformi. Með hinu mikla öskri sínu er karlljónið að láta alla vita að það sé á svæðinu; óboðnir gestir koma á eigin ábyrgð. En þar sem ljónið er nú félagslyndur köttur öskrar það líka til að halda sambandi við önnur ljón í hópnum. Þetta er oftast mýkra öskur og ekki eins ákveðið. Eina nóttina heyrðist ljón öskra á 15 mínútna fresti þangað til annað skylt ljón svaraði í fjarska. Þau héldu áfram að „kallast á“ í aðrar 15 mínútur þangað til þau hittust. Þá hættu öskrin.

Samskipti eins og þessi stuðla ekki einungis að góðu sambandi á milli dýranna heldur veita líka vernd í slæmu veðri. Hæna gefur frá sér margs konar hljóð sem eru mismunandi skilaboð til unganna. Eitt hljóðið er samt mjög frábrugðið hinum og það er hið langa og lága kurrhljóð sem hún gefur frá sér á kvöldin til að láta vita að hún sé að fara að sofa. Þegar ungarnir heyra kall móður sinnar safnast þeir saman úr öllum áttum og koma sér fyrir undir vængjum hennar fyrir nóttina. — Matteus 23:37.

Að finna maka

Hefurðu einhvern tíma hlustað heillaður á fagran fuglasöng? Finnst þér söngfærni þeirra ekki stórkostleg? En vissirðu að þeir eru ekkert að hugsa um að skemmta þér? Þeir nota sönginn til að koma mikilvægum skilaboðum áleiðis. Þó svo að söngur sé stundum leið til að marka sér svæði er hann aðallega notaður til að laða að hugsanlega maka. Samkvæmt bókinni The New Book of Knowledge, „syngja fuglar 90 prósent minna“ eftir að karl- og kvenfugl hafa fundið hvor annan.

Stundum þarf samt meira en góðan söng til að vinna makann. Sumir kvenfuglar krefjast þess að „brúðarverð“ sé greitt áður en þeir samþykkja karlfuglinn. Karlfugl af vefaraætt þarf því að sýna fram á að hann geti búið til hreiður áður en lengra er haldið. Aðrar tegundir karlfugla sanna hæfni sína til að sjá fyrir fjölskyldu með því að mata kvenfuglinn.

Þær flóknu aðferðir, sem dýrin nota til að tjá sig, þjóna ekki aðeins líkamlegum þörfum þeirra heldur draga einnig úr áflogum og stuðla að friði í óbyggðunum. Þar sem enn er verið að rannsaka tjáskipti dýranna eigum við eflaust eftir að fá fyllri skilning á „tungumáli óbyggðanna.“ Og þó að við skiljum það ekki til fulls er það skaparanum Jehóva Guði til lofs.

[Rammagrein/mynd á blaðsíðu 26]

„Þögult hljóð“ fílanna

Á heitum eftirmiðdegi í hinum víðáttumikla Amboseli-þjóðgarði í Keníu virðist stór fílahjörð ekkert kippa sér upp við það þótt óboðnir gestir mæti á svæðið. Loftið er hins vegar fullt af „fílahljóðum“ sem geta verið allt frá lágtíðnidrunum upp í hvell lúðurhljóð, öskur, baul, köll eða fnæs. Sum hljóðin hafa svo lága tíðni að mannseyrað nemur þau ekki en jafnframt svo kraftmikil að fíll heyrir þau úr margra kílómetra fjarlægð.

Þær margbrotnu aðferðir, sem fílar nota til að koma alvarlegum boðum áleiðis, eru sífellt undrunarefni sérfræðinga í atferli dýra. Joyce Poole hefur rannsakað samskiptamunstur Afríkufílsins í 20 ár. Niðurstaða hennar er sú að þessar stóru skepnur, sem eru svo eftirsóttar fyrir skögultennurnar, sýna tilfinningar sem eru fágætar í heimi dýranna. „Það er varla hægt að horfa á einstæða hegðun fíla þegar kálfur fæðist eða þegar þeir heilsa fjölskyldumeðlimum eða öðrum fílum sem þeir þekkja vel . . . án þess að gera sér í hugarlund að þeir hafi mjög sterkar tilfinningar sem best mætti lýsa með orðum eins og gleði, hamingju, ást, vináttu, kæti, ánægju, unun, samúð, létti og virðingu,“ segir Poole.

Þegar fílar hittast aftur eftir langan aðskilnað verða mikil fagnaðarlæti, þeir halda höfðinu hátt, blaka eyrunum og hlaupa hver til annars. Stundum stinga þeir jafnvel rananum hver upp í annan. Þessar kveðjur virðast veita fílunum mikla gleði og það er eins og þeir séu að segja: „Gaman að sjá þig aftur!“ Þessi tengsl styrkja samstarfskerfi fílanna sem er þeim nauðsynlegt til að komast af.

Fílar virðast líka hafa kímnigáfu. Poole segir að stundum dragi fílarnir upp munnvikin líkt og þeir séu að brosa og dilli höfðinu eins og þeim sé skemmt. Einu sinni kom hún af stað leik sem dýrin tóku þátt í og í stundarfjórðung hegðuðu þau sér á stórfurðulegan hátt. Tveimur árum seinna virtust nokkrir fílar, sem tekið höfðu þátt í leiknum, „brosa“ til hennar, kannski vegna þess að þeir mundu að hún hafði verið með í leiknum. Fílar skemmta sér ekki bara í leikjum heldur herma þeir líka eftir hljóðum. Í einu rannsóknarverkefni heyrði Poole hljóð sem var ólíkt hinum venjulegu fílahljóðum. Þegar málið var athugað nánar kom í ljós að þeir voru sennilega að herma eftir vörubílum sem keyrðu hjá. Og þeir virtust bara gera þetta sér til gamans! Það er eins og fílarnir noti öll tækifæri til að skemmta sér.

Mikið hefur verið rætt og ritað um það hvernig fílar virðast syrgja þegar ógæfa hendir einhvern í fjölskyldunni. Poole fylgdist einu sinn með kú sem stóð í þrjá daga vörð um kálfinn sinn sem fæðst hafði andvana. Hún lýsti þessu svona: „Andlitsdrættir“ hennar „líkjast gífurlega sorgmæddri eða niðurdreginni manneskju: höfuðið og eyrun héngu niður og munnurinn myndaði skeifu.“

Þeir sem drepa fíla til að komast yfir fílabein hugleiða ekki ‚sálfræðilegt áfall‘ munaðarleysingjanna sem horfa kannski upp á móður sína drepna. Kálfarnir eru fyrstu dagana á munaðarleysingjahæli fyrir dýr þar sem þeir reyna að sigrast á „sorginni.“ Gæslumaður segist hafa heyrt munaðarleysingjana „öskra“ á morgnana. Hægt er að merkja eftirköstin mörgum árum eftir dauða móðurinnar. Poole gefur til kynna að fílar skilji jafnvel að þjáningar þeirra séu af mannavöldum. Við hlökkum til þess tíma þegar menn og dýr geta búið saman í friði. — Jesaja 11:6-9.

[Mynd á blaðsíðu 24, 25?

Höfðasúlur heilsast.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Gnýrinn setur á svið klunnalegan dans til að villa um fyrir óvininum.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Illræmdur „hlátur“ hýenunnar.

[Credit line]

© Joe McDonald

[Mynd á blaðsíðu 26]

Dans hunangsflugunnar.