Sjónarmið Biblíunnar
Ættu kristnir menn að prédika fyrir öðrum?
EF TIL VILL er ekki ætlast til í þínu uppeldis- eða menningarumhverfi að talað sé um trúmál utan heimilis eða kirkju. Þar af leiðandi verðurðu kannski ergilegur ef einhver kemur óvænt heim til þín með Biblíuna í hendinni. Sumir hafa tekið þessa afstöðu vegna ofbeldisverka í trúarbragðasögunni sem framin voru undir því yfirskini að leiða fólk til hjálpræðis.
Í sögu margra þjóða er sagt frá því að fólk hafi snúist unnvörpum til trúar, ekki af því að það hafi trúað á Krist heldur af því að það óttaðist beitta sverðseggina. Margir fóru í felur, yfirgáfu heimili og ættjörð eða týndu lífinu og sumir voru jafnvel brenndir á báli frekar en að snúast til sömu trúar og ofsækjendurnir.
Hin innblásnu rit Biblíunnar styðja ekki aðgerðir sem þvinga fólk til að snúast til trúar. Er þá útilokað að kynna trú sína fyrir öðrum? Biblían svarar því.
Kennt af myndugleika
Fyrst skulum við íhuga þá fyrirmynd sem Jesús Kristur gaf. Hann var snilldarkennari sem hafði áhrif á líf áheyrenda sinna. (Jóhannes 13:13, 15) Kennsla hans í fjallræðunni var einföld en kraftmikil. Áhrifin voru þau að áheyrendur ‚undruðust mjög kenningu hans, því að hann kenndi þeim eins og sá, er vald hefur.‘ (Matteus 7:28, 29) Enn þá, um 2000 árum síðar, gætir áhrifanna í lífi þeirra sem rannsaka kenningar hans. Hans Dieter Betz, prófessor, staðfestir þetta sjónarmið þegar hann bendir á „að áhrifa fjallræðunnar gæti yfirleitt langt út fyrir áhrifasvæði gyðingdómsins og kristindómsins eða jafnvel vestrænnar menningar.“
Rétt áður en Jesús steig upp til himna gaf hann fyrirmæli sem tryggðu að kennslustarfinu, sem hann hóf, yrði haldið áfram eftir dauða hans og það myndi jafnvel dafna. (Jóhannes 14:12) Hann sagði lærisveinum sínum að fara til fólks af öllum þjóðum ‚og kenna því að halda allt það‘ sem hann hafði boðið þeim. Megintilgangurinn með þessu boði varð augljós þegar Jesús sagði í sömu yfirlýsingunni: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum.“ − Matteus 28:19, 20; Postulasagan 1:8.
Lítum einnig á fordæmi Páls postula. Þegar hann hafði sjálfur snúist til kristni hikaði hann ekki við að kynna hina nýfundnu trú sína. (Postulasagan 9:17-19, 22) Það var venja Páls að tala í samkunduhúsum þar sem hann ‚lauk ritningunum upp og setti fyrir sjónir, að Kristur ætti að líða og rísa upp frá dauðum.‘ Af leikni „ræddi hann við þá og lagði út af ritningunum,“ til þess að „ sannfæra bæði Gyðinga og Grikki.“ Að sögn heimildarits merkir gríska orðið, sem þýtt er „sannfæra,“ að „valda hugarfarsbreytingu með rökum eða siðaboðskap.“ Árangurinn af sannfærandi rökstuðningi Páls var sá að hann ‚sneri fjölda fólks með fortölum.‘ − Postulasagan 15:3; 17:1-4, 17; 18:4; 19:26.
Þvingun eða fortölur − hvort heldur?
Á okkar tímum hefur hugtakið „að snúa fólki til annarrar trúar“ verið notað um að þvinga fólk á einn eða annan hátt til trúar. Biblían styður ekki slíkar aðferðir. Þvert á móti kennir hún að mennirnir hafi verið skapaðir með frjálsan vilja ásamt þeim sérréttindum og þeirri ábyrgð að velja hvernig þeir vilja haga lífi sínu. Þetta felur einnig í sér að ákveða hvernig eigi að tilbiðja Guð. − 5. Mósebók 30:19, 20; Jósúabók 24:15.
Jesús virti þennan rétt frá Guði með því að nota aldrei mikilfenglegan mátt sinn og vald til að þvinga eða neyða einhvern til þess að taka við því sem hann boðaði. (Jóhannes 6:66-69) Hann beitti heilbrigðri rökfærslu, dæmisögum og viðhorfsspurningum til að vekja áhuga hjá áheyrendum og ná til hjartna þeirra. (Matteus 13:34; 22:41-46; Lúkas 10:36) Jesús kenndi lærisveinunum að sýna öðrum þessa sömu virðingu. − Matteus 10:14.
Það er augljóst að Páll notaði Jesú sem fyrirmynd í boðunarstarfinu. Páll hvatti áheyrendur sína með traustum rökum út frá Ritningunni en virti jafnframt tilfinningar og sjónarmið annarra. (Postulasagan 17:22, 23, 32) Hann skildi að það yrði að vera vegna kærleika okkar til Guðs og Krists að við ynnum í þjónustu skapara okkar. (Jóhannes 3:16; 21:15-17) Það er því okkar að taka ákvörðun.
Persónuleg ákvörðun
Skynsamt fólk tekur engar mikilvægar ákvarðanir í fljótfærni, til dæmis er varðar húsnæðiskaup, vinnustað og barnauppeldi. Það kannar ýmsa möguleika, veltir fyrir sér niðurstöðum og leitar sennilega ráðgjafar. Það tekur ekki ákvörðun fyrr en það hefur velt þessu fyrir sér.
Sú ákvörðun hvernig við ætlum að tilbiðja Guð krefst meiri tíma og fyrirhafnar en nokkur önnur ákvörðun í lífi okkar. Hún hefur áhrif á það hvernig við lifum lífinu núna og, það sem mikilvægara er, hún hefur áhrif á horfur okkar á eilífu lífi í framtíðinni. Kristnir menn í Beroju á fyrstu öldinni skildu þetta mætavel. Þótt Páll postuli hafi sjálfur útskýrt fagnaðarerindið fyrir þeim þá rannsökuðu þeir vandlega ritningarnar á hverjum degi til að ganga úr skugga um hvort það sem þeim var kennt væri sannleikur. Árangurinn varð sá að „margir þeirra tóku trú.“ − Postulasagan 17:11, 12.
Nú á tímum halda Vottar Jehóva áfram því starfi sem Jesús hóf, að kenna og gera menn að lærisveinum. (Matteus 24:14) Þeir virða rétt annarra til að hafa eigin trú. En þegar um er að ræða að kynna trúarskoðanir sínar fyrir öðrum þá fylgja þeir fyrirmyndinni sem sett er fram í Biblíunni. Já, þeir rökræða heiðarlega út frá Ritningunni og líta á það sem björgunarstarf. − Jóhannes 17:3; 1. Tímóteusarbréf 4:16.