Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lengstu veggöng í heimi

Lengstu veggöng í heimi

Lengstu veggöng í heimi

Eftir fréttaritara Vaknið! í Noregi

EF ÞIG langar að sjá tignarleg fjöll og mikilfenglega firði skaltu fara til Vestur-Noregs. Þú fyllist lotningu! Þar að auki eru hinir mjóu og bugðóttu vegir og hin mörgu jarðgöng til vitnis um snilligáfu mannsins. Ekki alls fyrir löngu var lokið við ný jarðgöng — verkfræðiundur sem ber af öllu öðru á því sviði. Þetta eru Lærdalsgöngin, lengstu veggöng heims. Þau eru 24,5 kílómetrar, boruð gegnum klett. Hugsaðu þér að aka inn í gangamunnann og eftir aðeins örfáar mínútur er meira en 1000 metra hátt fjall fyrir ofan.

Hvers vegna var þörf á svona löngum jarðgöngum? Þetta er mikilvægur hlekkur í aðalsamgönguleiðinni milli tveggja stærstu borga Noregs, Óslóar (höfuðborgarinnar í austri) og Björgvinjar (á vesturströndinni). Aðrir fjallvegir milli þessara borga eru illfærir að vetri til vegna snjóa og vinda. Því var mikil þörf á nýrri leið sem væri greiðfær í vondu veðri. Árið 1992 ákvað ríkistjórn Noregs að á nýja þjóðveginum yrðu göng milli litlu sveitarfélaganna Aurlands og Lærdals. Göngin voru formlega opnuð í nóvember árið 2000 en þá höfðu framkvæmdir staðið yfir í fimm ár. Hvernig unnu menn þetta verkfræðiafrek? Hversu örugg eru göngin? Hvernig er að aka um þau? Athugum málið.

Vandamál sem þurfti að leysa

Göngin tengja saman Lærdal og Aurland en verkamennirnir byrjuðu í raun að grafa samtímis á þrem stöðum. Tvö teymi byrjuðu hvort á sínum endanum en þriðja teymið hófst handa við 2 kílómetra löng loftræstigöng sem áttu að tengjast aðalgöngunum 6,5 kílómetra frá gangamunnanum Lærdalsmegin. Hvernig gátu þessi þrjú teymi samræmt gröftinn þannig að þau myndu örugglega mætast djúpt í iðrum fjallsins? Staðsetning hvers teymis fyrir sig var ákvörðuð með hjálp gervihnatta og stefnu borunarinnar var stýrt með leysigeislum. Þessir leysigeislar stjórnuðu hreyfingum tækjanna sem boruðu holurnar fyrir sprengiefnið svo að þau væru nákvæmlega rétt staðsett.

Fyrir hverja sprengingu voru um 100 holur boraðar og var hver 5,2 metrar að dýpt. Holurnar voru fylltar sprengiefni sem vó samtals 500 kíló. Um 500 rúmmetrar af grjótmulningi þurfti síðan að fjarlægja með vörubílum eftir hverja sprengingu. Áður en hægt var að byrja aftur að bora þurfti að styrkja loft og veggi ganganna. Langir stálboltar voru festir í bergið og yfirborðið sprautað með trefjasteypu. Hverju teymi miðaði 60-70 metra áfram í hverri viku. Í september árið 1999 rann stóra stundin upp þegar teymin, sem unnu að aðalgöngunum, hittust og nam skekkjan um 50 sentímetrum. Fjórtán mánuðum síðar voru göngin opnuð samkvæmt áætlun. Á þeim tímapunkti var kostnaðurinn kominn upp í nálega 11 milljarða íslenskra króna.

Hvernig var séð fyrir loftræstingu?

Jarðgangaverkfræðingum reynist alltaf erfitt að tryggja gott loft. Þar sem það tekur um 20 mínútur að aka í gegnum Lærdalsgöngin er mikilvægt að loftið sé það hreint að hægt sé að anda því að sér. Hvernig var þessu komið í kring?

Hin tveggja kílómetra löngu loftræstigöng eru 6,5 kílómetra frá Lærdalsmunnanum og ná út í nærliggjandi dal. Þau þjóna sem reykháfur eða útblástursrás. Ferskt loft er dregið inn í göngin um báða endana og mengaða loftið fer út um loftræstigöngin. Tvær öflugar viftur í loftræstigöngunum eru notaðar til að auka loftstreymið þegar mengunin er mjög mikil. Þessar viftur geta samanlagt blásið 1,7 milljónum rúmmetra af lofti á klukkustund. Þetta kerfi sér fyrir nægu hreinu lofti Lærdalsmegin í göngunum. Hins vegar þurfti að gera eitthvað meira Aurlandsmegin þar sem sá hluti er lengri. Því var komið fyrir 32 litlum viftum í loft ganganna til að auka streymið að loftræstigöngunum. En loftið þarf að fara langa vegalengd frá munnanum Aurlandsmegin og að munna loftræstiganganna og verður því mengaðra eftir því sem nær dregur. Hvernig var þetta vandamál leyst?

Ákveðið var að setja upp lofthreinsistöð í 100 metra löngum hliðargöngum 9,5 kílómetra frá Aurlandsmunnanum. Þessi göng tengjast aðalgöngunum í báða enda. Loftinu í aðalgöngunum er beint inn í þessi hliðargöng þar sem allt að 90 prósent af ryki og niturdíoxíði er hreinsað burt.

Loftræstikerfið og hreinsibúnaðurinn í Lærdalsgöngunum getur annað allt að 400 bílum á klukkustund. Skynjarar fylgjast með ástandi loftsins og stýra virkni loftræstikerfisins. Ef mengunin verður of mikil er göngunum lokað. Hingað til hefur þess þó ekki þurft.

Hversu örugg eru þau?

Sumir eru smeykir við að aka í gegnum göng. Með þessa staðreynd að leiðarljósi og þau alvarlegu slys og eldsvoða, sem orðið hafa í nokkrum evrópskum göngum nýlega, var öryggið aðalatriðið í Lærdalsgöngunum. Hvað hefur verið gert til að stuðla að öryggi í göngunum?

Stjórnstöð í Lærdal hefur stöðugt eftirlit með ýmsum öryggiskerfum í göngunum og ef hætta er á ferðum er þeim lokað. Margar varúðarráðstafanir hafa verið gerðar til að hægt sé loka göngunum og rýma þau með skjótum hætti. Neyðarsími er með 250 metra millibili og tvö slökkvitæki með 125 metra millibili. Stjórnstöðin fær sjálfkrafa upplýsingar um staðsetningu slökkvitækis sem er fjarlægt. Ef eitt tæki er fjarlægt loga rauð umferðarljós, sem vara ökumenn við því að fara inn í göngin, og merki og ljós inni í göngunum vísa ökumönnum örugga leið út, í burtu frá hættunni. Ökumenn geta snúið bílum sínum við á þar til gerðum svæðum á 500 metra fresti og stærri ökutækjum er hægt að snúa við á 15 stöðum. Göngin eru einnig búin loftnetskerfi sem gerir kleift að veita ökumönnum upplýsingar í gegnum bílútvarpið. Fylgst er með allri umferð inn og út úr göngunum með teljurum og myndavélum. Gatnamálayfirvöld telja öryggið mjög gott miðað við hlutfallslega litla umferð.

Að hvaða leyti eru þessi göng sérstök?

Hvernig er að aka um göngin? Verkfræðingar lögðu mikla áherslu á að það væri ánægjulegt að aka í gegnum göngin og að ökumenn fyndu til öryggis og myndu einnig aka varlega. Göngin voru því hönnuð í samráði við umferðarsálfræðinga á rannsóknastofnun og ljósasérfræðinga og fleiri, og einnig með aðstoð ökuhermis.

Hver varð árangurinn? Göngin eru ekki alveg bein. Smábeygjur koma í veg fyrir að höfgi sígi á ökumenn en samt sjá þeir 1000 metra fram fyrir sig. Beygjurnar auðvelda líka ökumönnum að ákvarða hve langt er í umferð úr gagnstæðri átt. Þrjár stórar hvelfingar gefa tilbreytingu á þessu einhæfa ferðalagi. Þetta verður til þess að manni finnst maður fara um fjögur minni göng í staðinn fyrir ein stór. Í þessum hvelfingum er sérstök lýsing með gulum eða grænum ljósum á gólfinu og bláu ljósi fyrir ofan og það virkar eins og dagsbirta og sólarupprás. Þetta, ásamt góðri lýsingu eftir endilöngum göngunum, gerir það að verkum að flestum ökumönnum líður vel og finnst þeir öruggir.

Nú geta ferðalangar hlotið þá einstöku upplifun að fara um lengstu veggöng heims. Þetta verkfræðiundur hefur tengt Austur- og Vestur-Noreg með öruggu vegasambandi. Þetta sannar svo ekki verður um villst hvað maðurinn er fær um að gera þegar hann notar hæfileika sína á jákvæðan hátt.

[Skýringarmynd/mynd á blaðsíðu 25]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

Lega ganganna

Laerdal ← → Aurland

[Skýringarmynd/Kort á blaðsíðu 27]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

Lærdalsgöngin

Þjóðvegir

↑ Til Lærdals

→ E16 til Óslóar

* Á þessum stöðum eru viftur

Stefna loftstreymis

hvelfing

Viftubúnaður → loftræstigöng

*

hvelfing

*

lofthreinsistöð

*

hvelfing

*

*

Stefna loftstreymis

Aurland

↓ E16 til Björgvinjar

1 míla

1 kílómetri

[Rétthafi]

Statens vegvesen, Sogn og Fjordane

[Kort á blaðsíðu 24]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

NOREGUR

Lærdalsgöngin

Björgvin E16 ÓSLÓ

[Mynd á blaðsíðu 25]

Lærdalsmunninn.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Teikning af lofthreinsistöð.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Þverskurðarmynd sem sýnir hvernig stálboltar styrkja veggi og loft.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Í göngunum eru 100 neyðarsímar og næstum 400 slökkvitæki.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Í göngunum eru þrjár hvelfingar með sérstakri lýsingu.

[Mynd Credit lines á blaðsíðu 24]

Loftmynd: Leiv Bergum; Lofthreinsistöð: ViaNova A/S; Allar aðrar ljósmyndir á blaðsíðu 24-26: Statens vegvesen, Sogn og Fjordane