Saltið er dýrmætt
Saltið er dýrmætt
„ÞÉR eruð salt jarðar,“ sagði Jesús við lærisveina sína. (Matteus 5:13) Persar tala um að menn séu „saltinu ótrúir“ (vanþakklátir eða svikulir) og Íslendingar „leggja sök í salt.“ Þar sem salt er varðveisluefni hefur orðið „salt“ mjög virðulegar aukamerkingar bæði í fornmálum og nútímamálum.
Salt varð líka tákn stöðugleika og varanleika. Þess vegna segir Biblían að órjúfanlegur sáttmáli sé „helgaður með salti“ en menn borðuðu oft saman saltaðan mat til þess að innsigla sáttmála sín á milli. (4. Mósebók 18:19) Samkvæmt Móselögmálinu átti að salta fórnir sem færðar voru á altarinu, eflaust til að gefa til kynna að fórnin væri hvorki rotin né skemmd.
Áhugaverðar sögustaðreyndir
Alla mannkynssöguna hefur salt (natríumklóríð) verið talið mjög verðmætt. Stríð hafa meira að segja verið háð um það. Eitt af því sem ýtti undir frönsku byltinguna var hár saltskattur sem Loðvík 16. lagði á. Salt var líka verðmætur gjaldmiðill. Hjá márískum kaupmönnum var salt jafnvirði þyngdar sinnar í gulli og sumir ættflokkar í Afríku notuðu saltplötur sem gjaldmiðil. Grikkir borguðu fyrir þræla með salti og þaðan er komið orðtak sem þýðir „ekki salts síns virði.“
Á miðöldum spratt upp margvísleg hjátrú sem tengdist salti. Að missa niður salt var talið vita á illt. Sem dæmi má nefna að Leonardo da Vinci málaði liggjandi saltstauk fyrir framan Júdas Ískaríot í málverkinu „Síðasta kvöldmáltíðin.“ Þangað til á 18. öld gaf sætaskipan við matarborðið til kynna stöðu manna í þjóðfélaginu, það er að segja þeir sem sátu fyrir framan saltið, nær endanum, voru hærra settir en þeir sem fjær voru.
Maðurinn lærði frá fornu fari að vinna salt úr sjó, saltvatni og steinsalti. Í fornu kínversku lyfjafræðiriti eru rúmlega 40 salttegundir nefndar og lýst er tveim aðferðum við að vinna salt sem eru ótrúlega líkar nútímaaðferðum. Nefna má að sólarorka er notuð til að vinna salt úr sjó í stærstu sólarsaltverksmiðju heims en hún er á strönd í Bahía Sebastián Vizcaíno í Baja California Sur í Mexíkó.
Samkvæmt alfræðibókinni Encyclopædia Britannica telja menn að ef öll úthöf jarðar væru þurrkuð upp „yrðu eftir að minnsta kosti 19 milljónir rúmkílómetra af steinsalti. Það jafngildir um 14,5 sinnum rúmmáli alls meginlands Evrópu fyrir ofan sjávarmál miðað við meðalstórstraumsflóð.“ Og Dauðahafið er um það bil níu sinnum saltara en sjórinn!
Notagildi salts nú á tímum
Salt er enn þá talið verðmætt og það er meðal annars notað til að krydda mat, varðveita kjöt og við framleiðslu sápu og glers. En sérstaklega er athyglisvert hvernig það er notað til heilsuverndar. Í mörgum löndum er joði blandað við salt og gefið við joðskorti en hann getur orsakað skjaldkirtilsauka og í alvarlegum tilfellum andlegan vanþroska. Í sumum löndum er flúori blandað við salt til að draga úr tannskemmdum.
Salt er heilsunni nauðsynlegt því að það stillir blóðmagnið og blóðþrýstinginn. En veldur mikil saltneysla of háum blóðþrýstingi? Það er umdeilt. Læknar hafa venjulega varað þá sem eru með of háan blóðþrýsting við því að neyta mikið af salti eða natríumsambanda. Saltneysla hefur áhrif á um það bil þriðjung til helming þeirra sem eru með of háan blóðþrýsting. Staðfest hefur verið að hjá þeim lækkar blóðþrýstingurinn ef þeir minnka saltneyslu sína.
Salt bætir vissulega bragðið af matnum eins og Job gaf til kynna þegar hann spurði: „Verður hið bragðlausa etið saltlaust?“ (Jobsbók 6:6) Við getum svo sannarlega verið þakklát skapara okkar „sem lætur oss allt ríkulega í té til nautnar,“ þar á meðal hið dýrmæta salt. — 1. Tímóteusarbréf 6:17.
[Mynd á blaðsíðu 15]
Nokkrar af fjölmörgum tegundum salts: (1) Alaea sjávarsalt frá Hawaii; (2) fleur de sel frá Frakklandi; (3) náttúrlegt sjávarsalt; (4) grásalt frá Frakklandi; (5) gróft sjávarsalt; (6) dökkt steinsalt frá Indlandi.