Tíu milljónir bóka í glerhúsi
Tíu milljónir bóka í glerhúsi
Eftir fréttaritara Vaknið! í Frakklandi
MAÐUR getur ekki annað en verið dolfallinn — jafnvel lotningarfullur — er maður gengur upp tréstigann og inn á göngusvæðið og sér þessa fjóra gnæfandi glerturna. Þetta er engin venjuleg bygging heldur hið nýtískulega þjóðbókasafn Frakklands sem stendur við bakka árinnar Signu. Á vissan hátt var það aldaraðir í mótun.
Löng saga
Árið 1368 safnaði Karl vitri saman næstum 1000 handritum og kom þeim fyrir í einum turni Louvre-virkisins í París. En það var í rauninni ekki fyrr en eftir hundraðárastríðið að konungar Frakklands fóru að koma upp varanlegu safni. Þeir sem sóttust eftir konunglegum heiðri gáfu safninu bækur eða arfleiddu það að þeim. Ferðalangar og sendiherrar komu með bækur frá Evrópu og Austurlöndum fjær og hermenn komu með bækur að herfangi. Þetta auðgaði bókasafnið. Frans 1. innleiddi skylduskil á 16. öld er hann setti lög þess efnis að bókasafni konungsins skyldi látið í té eintak af öllum bókum sem gefnar væru út.
Eftir að bókasafn konungsins hafði verið hýst í hinum ýmsu byggingum hans í dreifbýlinu var það flutt aftur til Parísar, en þar var farið ránshendi um það í trúarbragðastríðunum (1562-98). Árið 1721 var safninu fundinn varanlegri staður. Því áskotnuðust hundruð þúsunda bóka, handrita og eftirprentana í kjölfar þess að bókasöfn aðalsmanna og söfn af trúarlegum toga voru gerð upptæk í frönsku byltingunni. Þessi viðbótarsöfn voru vissulega ómetanleg en um leið kom í ljós hve sár skortur var á rými í þáverandi húsnæði.
Gífurlegur vöxtur
Árið 1868 var byggður og vígður lessalur sem samanstóð af níu glerhvelfingum. Salurinn var hannaður af arkitektinum Henri Labrouste og gat hýst 360 manns. Þar voru í kringum 50.000 bækur og samliggjandi hillur rúmuðu eina milljón bóka að auki. En á innan við sex áratugum urðu bækurnar fleiri en þrjár milljónir.
Fjölmargar endurbætur og stækkanir nægðu ekki til að hægt væri að bæta við þrem kílómetrum af hillum sem þurfti á ári hverju fyrir þær bækur og tímarit sem flæddu inn. Loks, árið 1988, tilkynnti François Mitterrand forseti að byggja ætti ef til vill „stærsta og nútímalegasta bókasafn í heiminum.“ Markmiðið var að það myndi „ná yfir öll þekkingarsvið, vera öllum aðgengilegt, nota nýjustu gagnavinnslutækni og hægt átti að vera að leita í því annars staðar frá og tengjast öðrum evrópskum bókasöfnum.“
Efnt var til alþjóðlegrar hugmyndasamkeppni um hönnun nýja bókasafnsins. Nálega 250 hugmyndir bárust. Á endanum var hönnun samþykkt sem lítt þekktur franskur arkitekt, Dominique Perrault, átti. Hugmynd hans var sú að safnið yrði eins og gríðarstór sökkull með turni á hverju horni sem líktist opinni bók upp á endann. Gagnrýnendum fannst
fáránlegt að geyma bækur í glerturnum — sólarofnum, eins og þeir kölluðu þá — þar sem þær myndu verða í sólarljósi og hita. Til málamiðlunar var ákveðið að setja tréhlífar innan við rúðurnar til að vernda bækurnar, og verðmætustu handritin átti að geyma í bókahillum í sökklinum.Erfiður flutningur
Annað, sem reyndist þrautin þyngri, var að flytja um tíu milljónir bóka sem margar hverjar voru mjög viðkvæmar og sjaldgæfar, eins og til dæmis þau tvö eintök af Gutenbergsbiblíunni sem bókasafnið á. Fyrri flutningar höfðu ekki gengið snurðulaust fyrir sig. Að sögn eins sjónarvotts að flutningnum árið 1821 féllu margar bækur af kerrunum ofan í leðjuna á götunum. Í þetta skiptið átti flutningurinn að vera skipulagður á vísindalegri nótum.
Árið 1998 tók teymi sérfræðinga að sér það risavaxna verk að flytja milljónir bóka. Til að koma í veg fyrir að bækurnar skemmdust, að þeim yrði stolið eða að þær týndust, voru þær fluttar í innsigluðum skápum sem voru vatnsþéttir, eldtraustir og höggþéttir. Í næstum því eitt ár drögnuðust tíu flutningabílar gegnum umferðarteppur Parísar og fluttu um 25.000 til 30.000 bækur daglega á nýja íverustaðinn. Í öryggisskyni voru bílarnir ómerktir.
Afburðastaður til náms og lestrar
Nýja bókasafninu er skipt í tvo hluta. Efri hlutinn kallast haut-de-jardin. Þar eru 1600 sæti fyrir almenning og er greiður aðgangur veittur að 350.000 bókum. Neðri hlutinn, eða rez-de-jardin, er ætlaður rannsóknarmönnum og hefur hann 2000 sæti.
Í miðju bókasafninu er lítill trjálundur. Rauð gólfteppi, viðarþiljur og tréhúsgögn stuðla að hlýlegu og afslöppuðu andrúmslofti sem greiðir fyrir einbeitingu og námi. Í margmiðlunarherbergi er hægt að leita upplýsinga á geisladiskum, filmum, hljóðupptökum og þúsundum stafrænna ljósmynda og bóka.
Nýja bókasafnið í Frakklandi hefur nægilega mikið hillupláss til að taka við nýjum bókum næstu 50 árin. Maður getur ekki annað en velt fyrir sér þeirri miklu nákvæmnisvinnu sem þarf til að byggja og varðveita þetta mikla lærdómssetur.
[Mynd á blaðsíðu 28]
Lesherbergið árið 1868.
[Credit line]
© Cliché Bibliothèque nationale de France, París
[Mynd credit line á blaðsíðu 29]
©Alain Goustard/BNF. Arkitekt: Dominique Perrault. © 2002 Artists Rights Society (ARS), New York/ADAGP, París