Þegar smávægileg mistök valda stórslysum
Þegar smávægileg mistök valda stórslysum
SJÖTTA júlí árið 1988 voru starfsmenn á borpallinum Piper Alpha, sem er úti á Norðursjó, að gera við dælu fyrir fljótandi gas. Þeir luku ekki viðgerðinni og starfsmenn á næstu vakt settu dæluna í gang vegna þess að ekki var nægilega gott samráð milli teymanna. Eldur braust út og 167 manns létu lífið af því að það var engin undankomuleið svo hátt yfir sjónum.
Tólf árum síðar, hinn 25. júlí árið 2000, er Concorde þota að hefja sig til flugs á Charles de Gaulle flugvellinum í París. Hún er kominn á mikinn hraða þegar lítið títaníumstykki á flugbrautinni veldur því að dekk springur með þeim afleiðingum að gat kemur á eldsneytistank í væng vélarinnar. Vinstri hreyflarnir missa afl er eldsneyti streymir inn í þá og úr verður 60 metra langur eldhali. Um það bil tveim mínútum síðar brotlendir vélin á hóteli. Allir um borð láta lífið ásamt nokkrum á jörðu niðri.
James Chiles segir í bók sinni, Inviting Disaster — Lessons From the Edge of Technology, um þess konar slys: „Í heimi nútímans erum við umkringd alls kyns tækjum, sem geta stundum orðið stjórnlaus. Við verðum því að gera okkur grein fyrir þeim mikla skaða sem mannleg mistök geta haft í för með sér.“ Tímaritið Science segir í gagnrýni um bók Chiles: „Hinar einstöku og sífellt hraðari framfarir á sviði vísinda og tækni síðustu alda hafa verið mjög spennandi. Okkur finnst við hafa ótakmarkaða möguleika til að skilja efnisheiminn og hafa áhrif á hann. Við höfum [hins vegar] enga ástæðu til að ætla að við gerum færri mistök nú en áður.“
Tímaritið segir um tækni sem reynst getur hættuleg í meira lagi: „Jafnvel hin minnsta hætta [á yfirsjón] er einum of. Við verðum að krefjast fullkomleika þegar þessi tækni á í hlut.“ En gefur mannkynssagan til kynna að hægt sé að ná fullkomleika? Síður en svo. Stórslys af ýmsu tagi, sem rekja má til mistaka, munu því efalaust halda áfram að eiga sér stað.
En þannig verður það ekki um alla eilífð. Guðhrætt fólk getur hlakkað til framtíðarinnar þegar lífið endar ekki á voveiflegan hátt út af mistökum eða takmörkunum manna. Ástæðan er sú að himneskt ríki Guðs mun útrýma öllu sem veldur dauða, sorg og sársauka. — Matteus 6:9, 10; Opinberunarbókin 21:3, 4.
[Mynd credit line á blaðsíðu 18]
Ljósmynd: AP/Toshihiko Sato