Dvergmörgæsir ganga á land!
Dvergmörgæsir ganga á land!
EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í ÁSTRALÍU
MANNFJÖLDINN bíður spenntur. Allir eru hljóðir og skima út í fjarskann eftir „stjörnum“ kvöldsins. Skyndilega kviknar líf á upplýstu sviðsmyndinni þegar lítil vera birtist í flæðarmálinu. Spenna grípur um sig meðal fólksins þegar fleiri litlar verur bætast í hópinn. Kvöldsýningin er hafin. Dvergmörgæsirnar frá Phillipey ganga nú á land.
Mörgæsir komu fyrst fram í sviðsljósið þegar hinir frægu landkönnuðir Vasco da Gama og Ferdinand Magellan sigldu um Suðurhöfin miklu á 16. öld. Í fyrstu vafðist fyrir mönnum hvers konar skepna mörgæsin væri. Hún var með fjaðrir eins og fugl, synti eins og fiskur og gekk á landi eins og landdýr. Að lokum voru það fjaðrirnar sem réðu úrslitum. Aðeins fuglar hafa fjaðrir — fugl skyldi hún því vera. Í mörgæsafjölskyldunni eru 18 mismunandi tegundir ófleygra fugla, allt frá keisaramörgæsinni og aðalsmörgæsinni við Suðurheimskautslandið til Galapagos-mörgæsarinnar við miðbaug.
Langar þig að heimsækja sambú mörgæsa í sínu náttúrlega umhverfi? Komdu þá til Phillipeyjar sem er aðeins 140 kílómetra suðaustur af stórborginni Melbourne í Ástralíu. Um 500.000 manns heimsækja eyjuna á ári hverju og heillast af þessum litlu og undraverðu skepnum. En hvað gerir dvergmörgæsina á Phillipey svona heillandi?
„Sætar en mjög gáskafullar“
Svartar og hvítar dvergmörgæsirnar minna á kjólklædda veislugesti og heilla fljótt alla sem fylgjast með þeim. Þær eru minnsta mörgæsategundin, aðeins um 30 sentímetrar á hæð og 1 kílógramm að þyngd. En láttu ekki smæðina villa um fyrir þér. Þótt þær séu ekki háar í loftinu eru þær mjög seigar og þolnar.
„Dvergmörgæsir eru sætar en mjög gáskafullar,“ segir prófessor Mike Cullen sem hefur rannsakað sambú mörgæsa á Phillipey í yfir 20 ár. Og þótt þessi mörgæsategund sé sú minnsta er hún líka sú háværasta. Á nóttunni ómar sambúið af alls konar knurri, köllum, hrínum og skrækjum þegar mörgæsirnar eru að vernda hreiðrin sín fyrir óvelkomnum gestum, leita að maka eða stunda „kóræfingar“ með félögum sínum.
Þegar dvergmörgæsinni var fyrst lýst, árið 1780, fékk hún hið viðeigandi gríska heiti Eudyptula minor sem þýðir „duglegur lítill kafari.“ Sléttar og vatnsheldar fjaðrirnar, bægslin sem þær hafa í stað vængja og straumlínulagaður búkurinn sem minnir á tundurskeyti, gerir það að verkum að þær virðast bókstaflega fljúga í gegnum sjóinn.
Fullkomið „björgunarvesti“
Þegar dvergmörgæsir leita að æti synda þær allt að 100 kílómetra á dag
og eru oft marga daga eða vikur í sjónum ef þess þarf. En hvernig sofa þær í sjónum? Svarið er að finna í einstakri hönnun fjaðranna. Mörgæsir hafa þykkt dúnlag og þakfjaðrir sem eru þrisvar til fjórum sinnum þéttari en fjaðrir fleygra fugla. Loftið, sem festist undir þakfjöðrunum, veitir fuglinum einangrun og náttúrlegan flotkraft — ekki ósvipað björgunarvesti. Þannig getur mörgæsin auðveldlega sofið í sjónum þar sem hún flýtur um eins og korkur með bægslin útrétt til að halda jafnvægi, og með gogginn fyrir ofan sjávaryfirborðið.Þykkur fjaðurhamur mörgæsanna væri auðvitað ekki til neinnar verndar ef hann væri gegnblautur af köldum sjónum sem fuglinn syndir í þegar hann leitar að æti. En þetta er ekkert vandamál fyrir mörgæsina. Rétt fyrir ofan stélið er sérstakur kirtill sem framleiðir olíu. Þegar mörgæsin snurfusar sig notar hún gogginn til að smyrja olíu á fjaðrirnar og þannig haldast þær vatnsheldar, hreinar og heilbrigðar. Kafari væri fullsæmdur af búningi á borð við þann sem mörgæsin hefur.
Hvernig kemst dvergmörgæsin af úti á sjó þar sem ekki er ferskt vatn að fá? Kirtlar rétt fyrir ofan hvort auga eru sérstaklega hannaðir til að afselta sjó. Mörgæsin losar sig við saltið út um nasirnar með því að hrista gogginn.
Auk þess eru augu mörgæsarinnar sérstaklega hönnuð þannig að þær sjá jafn vel ofansjávar og neðan. Þessi litla vera er greinilega búin öllu sem þarf til að lifa í sjónum. En okkur til mikillar ánægju eyðir dvergmörgæsin ekki öllum sínum tíma á hafi úti.
Líf þeirra á landi
Strandlínan á Phillipey og meginlandinu í grenndinni er hrjóstrug og sendin, þakin þéttu grasi og laufríkum gróðri. Þetta er kjörlendi fyrir sambú 26.000 dvergmörgæsa. Líf mörgæsanna hefst í vandlega gerðu hreiðri sem foreldrarnir hafa grafið í sandhól við ströndina. Áður en útungun hefst má nýorpið egg vera kalt í nokkra daga. Báðir foreldrarnir skiptast samviskusamlega á að unga því út. Fuglar, sem liggja á eggi, eru með sérstakan varpblett neðarlega á kviðnum sem er mjög blóðríkur. Við útungun verður bletturinn þrútinn af heitu blóði og heldur þannig egginu nægilega heitu til að það klekist út. Inn á milli vakta dregur úr blóðstreyminu og fjaðrirnar í kringum blettinn þéttast aftur og gera fuglinum kleift að fara út á sjó í ætisleit.
Unginn vex geysilega hratt eftir að hann er kominn úr egginu. Á aðeins átta til tíu vikum er hann orðinn jafnstór fullvaxta mörgæs og tilbúinn til að fara út á haf. „Það er hreint ótrúlegt að ungfuglar
fari í langferðir út á sjó með aðeins frábær lífeðlisferli . . . og eðlishvötina að vopni,“ segir í bókinni Little Penguin — Fairy Penguins in Australia.Næstu eitt til þrjú árin ferðast ungu mörgæsirnar þúsundir kílómetra og eru mikið til á hafi úti. Þær sem lifa af koma yfirleitt heim aftur í gamla sambúið og verpa innan við 500 metrum frá upprunalegum fæðingarstað sínum. Hvernig rata þær aftur heim? Sumir segja að mörgæsir taki mið af sólinni og noti innbyggða lífklukku til að vega upp á móti hreyfingum sólar. Aðrir telja að mörgæsir muni eftir landfræðilegum kennileitum. Hvað sem því líður sækir fólk hópum saman út í Phillipey til að sjá sjófarana koma aftur í land eftir langa sjóferð eða erfiðan veiðidag.
Landgangan
Þegar rökkva tekur koma hundruð áhugasamra gesta sér fyrir, tilbúnir að horfa á nætursýningu mörgæsanna. Mörgæsirnar hafa löngu áður safnast saman í stórum hópum skammt undan landi. Í hverjum hópi eru hundruð fugla. Ströndin er flóðlýst. Það er hæg gola og léttar öldur leika um fjöruna. Áhorfendur bíða í ofvæni. Hvar eru mörgæsirnar? Ætli þær komi á land? Einmitt þá koma fyrstu dvergmörgæsirnar í sjónmál og ráfa óöruggar um í flæðarmálinu. Allt í einu verður þeim bilt við og þær hverfa aftur út í öldurnar. Mörgæsir eru mjög varar um sig þar sem þær eru varnarlausar gagnvart rándýrum eins og örnum. Fljótlega koma þær aftur í ljós og smám saman safna þær kjarki. Að lokum stígur ein hugrökk mörgæs á land, kjagar rösklega upp fjöruna og leitar skjóls innan um sandhólana. Hinar elta hana fljótt. Þær veita ljósunum og áhorfendunum enga athygli þegar þær arka upp fjöruna og athöfnin minnir á líflega skrúðgöngu.
Þegar þær eru komnar í öruggt skjól sandhólanna slaka þær augljóslega á og safnast saman í stærri hópa til að snyrta fjaðrirnar. Hver hópurinn á fætur öðrum kemur upp fjöruna með sama móti, dokar aðeins við til að „spjalla“ við nágrannana og heldur síðan heim á leið. Sumar verða að kjaga, hoppa og klöngrast upp 50 metra aflíðandi klettavegg til að komast heim í holurnar sínar.
Litlar mörgæsir — stórar spurningar
Ótal hættur steðja að dvergmörgæsunum, líkt og öðrum dýrum alls staðar í heiminum, og margar eru af mannavöldum. Þar á meðal eru ógnir eins og olíulosun skipa, minnkandi kjörlendi vegna framkvæmda og innflutt rándýr, bæði refir og gæludýr.
Margt hefur verið gert til að reyna að bæta úr þessum málum og það er vissulega hrósvert. Á undanförnum árum hefur tala dvergmörgæsa á friðlandinu á Phillipey haldist stöðug. „Við erum að sigra í baráttunni . . . hægt og bítandi,“ segir prófessor Cullen. Hann bætir við: „Stærsta vandamál okkar núna er að vernda fæðuforða dvergmörgæsanna . . . og hann er háður örlögum hafsins og mannkynsins í heild.“ Vísindamenn rannsaka nú af fullum krafti hvaða áhrif upphitun jarðar og veðurfarsfyrirbæri eins og El Niño hafa á fæðuforða hafsins.
Niðurstöður þessara rannsókna munu eflaust vekja með okkur aðdáun og auka skilning okkar á þessari fjölbreyttu en jafnframt viðkvæmu plánetu sem við byggjum. Vegna þeirrar umhyggju sem dýralífinu á Phillipey hefur verið sýnd getur þú kannski fengið tækifæri til að vera meðal áhugasamra gesta sem hvísla spenntir: „Nú ganga dvergmörgæsirnar á land.“
[Kort á blaðsíðu 15]
(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)
PHILLIPEY
[Myndir á blaðsíðu 16, 17]
Áhorfendur, sæti og flóðlýsing — sviðið er tilbúið fyrir skrúðgöngu mörgæsanna.
[Mynd á blaðsíðu 17]
Það tekur ungana aðeins tíu vikur að ná fullum vexti.
[Mynd credit line á blaðsíðu 15]
Myndir: Photography Scancolor Australia
[Mynd credit line á blaðsíðu 16]
Myndir á blaðsíðu 16 og 17: Photography Scancolor Australia