Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er trúin háð fornleifafræði?

Er trúin háð fornleifafræði?

Sjónarmið Biblíunnar

Er trúin háð fornleifafræði?

Árið 1873 skrifaði enski presturinn Samuel Manning um Jerúsalem: „Pílagrímar flykkjast hingað milljónum saman frá endimörkum jarðar dregnir af ómótstæðilegu aðdráttarafli. Molnandi veggirnir, sóðalegar og skítugar göturnar og moldugar rústirnar vekja djúpstæðari og lotningarfyllri áhuga en nokkur annar staður á jörðinni.“

TÖFRAR landsins helga hafa dregið að sér fólk allt frá tímum Konstantínusar keisara í Róm. * Í um það bil 1500 ár hafa pílagrímar komið og farið í leit að trúarlegum og persónulegum tengslum við landið helga. Þótt furðulegt sé var það samt ekki fyrr en snemma á 19. öld að fræðimenn fóru að slást í för með þessum pílagrímum og þar með hófst tímabil fornleifafræðinnar í biblíulöndunum — rannsókna á smíðisgripum, þjóðum, stöðum og tungumálum landsins helga til forna.

Uppgötvanir fornleifafræðinga hafa leitt til aukins skilnings á ýmsum hliðum biblíutímans. Og fornleifafundir hafa oft verið í samræmi við frásagnir Biblíunnar. En er slík þekking nauðsynleg fyrir trú kristins manns? Til að fá svar við því skulum við beina athyglinni að stað þar sem oft hefur verið grafið eftir fornleifum, Jerúsalemborg og musterinu.

„Ekki mun eftir látinn steinn yfir steini“

Ellefta nísan, vorið 33 samkvæmt gyðinglegu tímatali, fór Jesús Kristur í fylgd nokkurra lærisveina út úr musterinu í Jerúsalem í síðasta sinn. Á leiðinni til Olíufjallsins sagði einn af lærisveinunum: „Meistari, lít á, hvílíkir steinar, hvílíkar byggingar!“ — Markús 13:1.

Þessir trúföstu Gyðingar báru mikinn kærleika til Guðs og musterisins. Þeir voru hreyknir af þessari glæsilegu byggingasamstæðu og 15 alda hefðinni sem hún stóð fyrir. Svarið, sem Jesús veitti lærisveininum, var átakanlegt: „Sérðu þessar miklu byggingar? Ekki mun eftir látinn steinn yfir steini, er eigi sé niður brotinn.“ — Markús 13:2.

Hvernig gat Guð leyft að musterið yrði lagt í eyði núna þegar hinn fyrirheitni Messías var kominn? Með hjálp heilags anda myndu lærisveinar Jesú smám saman skilja til fulls hvað hann átti við. Hvað eiga þá orð Jesú skylt við fornleifarannsóknir í biblíulöndunum?

Ný ‚borg‘

Á hvítasunnunni árið 33 missti Gyðingaþjóðin velvild Guðs. (Matteus 21:43) Þar með var rudd braut fyrir það sem var miklu stórfenglegra — himneska stjórn sem færði öllu mannkyninu blessun. (Matteus 10:7) Eins og Jesús hafði spáð var Jerúsalem eytt ásamt musterinu árið 70. Fornleifafræðin styður frásöguna í Biblíunni um þennan atburð. Fyrir kristna menn er trúin samt ekki háð því hvort rústir af þessu forna musteri hafi fundist. Trú þeirra snýst um aðra Jerúsalem en hún er ólíkrar gerðar.

Jóhannes postuli, sem hafði heyrt spádóm Jesú um eyðingu Jerúsalem og musterisins og hafði lifað það að sjá uppfyllinguna, fékk eftirfarandi sýn árið 96: „Og ég sá borgina helgu, nýja Jerúsalem, stíga niður af himni frá Guði.“ Rödd frá hásætinu sagði: „Hann mun búa hjá [mönnunum], og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“— Opinberunarbókin 21:2-4.

Þessi ‚borg‘ er mynduð af trúföstum kristnum mönnum sem munu þjóna sem konungar með Kristi á himni. Þeir mynda saman hina himnesku stjórn, Guðsríki, sem mun ríkja yfir jörðinni og færa mannkyninu aftur fullkomleikann í þúsundáraríkinu. (Matteus 6:10; 2. Pétursbréf 3:13) Kristnir Gyðingar á fyrstu öld, sem yrðu í þeim hópi, skildu að ekkert, sem þeir höfðu í gyðingakerfinu, væri sambærilegt þeim sérréttindum að stjórna með Kristi á himni.

Páll postuli mælir fyrir munn þeirra allra þegar hann skrifar um fyrri ábyrgðarstöðu sína í gyðingdómnum: „En það, sem var mér ávinningur, met ég nú vera tjón sakir Krists. Já, meira að segja met ég allt vera tjón hjá þeim yfirburðum að þekkja Krist Jesú, Drottin minn.“ — Filippíbréfið 3:7, 8.

Þar sem Páll postuli bar fyllstu virðingu fyrir lögum Guðs og musterisskipulaginu benda orð hans greinilega ekki til þess að líta ætti niður á þessar guðlegu ráðstafanir. * (Postulasagan 21:20-24) Páll var blátt áfram að benda á að kristna skipulagið bæri af gyðingakerfinu.

Án efa höfðu Páll og aðrir kristnir Gyðingar nákvæma þekkingu á mörgum hrífandi þáttum í gyðingakerfinu. Þar sem fornleifafræðin varpar ljósi á liðna tíð kunna kristnir menn að meta sumt af því núna. Tökum samt eftir að hverju Páll sagði unga manninum Tímóteusi að einbeita sér aðallega: „Stunda þetta [það sem tengist kristna söfnuðinum], ver allur í þessu, til þess að framför þín sé öllum augljós.“ — 1. Tímóteusarbréf 4:15.

Það er hrósvert að fornleifarannsóknir í biblíulöndunum hafa aukið skilning okkar á forsögu Biblíunnar. Kristnir menn gera sér samt ljóst að trú þeirra ræðst af orði Guðs, Biblíunni, en ekki af sönnunargögnum sem menn grafa upp. — 1. Þessaloníkubréf 2:13; 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.

[Neðanmáls]

^ Konstantínus og móðir hans, Helena, höfðu bæði áhuga á að finna helga staði í Jerúsalem. Helena heimsótti sjálf borgina og margir aðrir fylgdu í fótspor hennar næstu aldirnar.

^ Á fyrstu öld fóru kristnir Gyðingar í Jerúsalem um tíma eftir Móselögunum að ýmsu leyti, líklega af eftirfarandi ástæðum. Lögin voru frá Jehóva. (Rómverjabréfið 7:12, 14) Þau voru orðin að rótgróinni siðvenju hjá gyðingaþjóðinni. (Postulasagan 21:20) Þau voru lögin í landinu og öll mótspyrna hefði valdið ónauðsynlegri andstöðu við hinn kristna boðskap.

[Myndir á blaðsíðu 26]

Að ofan: Jerúsalem árið 1920; rómverskur peningur sem Gyðingar notuðu, frá árinu 43; blómstrandi granattré úr fílabeini, líklega úr musteri Salómons frá áttundu öld f.o.t.

[Credit line]

Blaðsíða 26: Peningur: Mynd © Israel Museum, Jerúsalem, með góðfúslegu leyfi Israel Antiquities Authority; granateplatré: Með góðfúslegu leyfi Israel Museum, Jerúsalem.