Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hin undarlegu sjávarföll við Evrípos

Hin undarlegu sjávarföll við Evrípos

Hin undarlegu sjávarföll við Evrípos

EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í GRIKKLANDI

Í GRIKKLANDI austanverðu, rétt hjá borginni Kalkíðu, liggur mjótt sund milli meginlandsins og eyjarinnar Evvíu. Þetta er Evrípos-sund. Sundið er um 8 kílómetra langt og breiddin er frá 1,6 kílómetrum niður í 40 metra þar sem það er þrengst. Grynnst er sundið aðeins 6 metrar. Nafnið Evrípos merkir „stríður straumur“ og lýsir vel eðli sjávarins í sundinu þar sem straumhraðinn getur farið upp í næstum 20 kílómetra miðað við klukkustund. En svo undarlegt sem það er dettur straumurinn niður suma daga og stöðvast jafnvel. Margir sem koma til Kalkíðu ganga út á litla brú yfir sundið til að virða fyrir sér þessa óvenjulegu sjávarfallastrauma.

Sjávarföllin stafa af aðdráttarkröftum sólar og tungls á höfin. Flóð og fjara skiptast á eftir afstöðu sólar og tungls til jarðar. Þegar tungl er nýtt liggja sól og tungl sömu megin við jörð en hvort sínum megin þegar tungl er fullt. Í báðum tilfellum leggjast aðdráttarkraftar sólar og tungls saman og valda stórstreymi.

Flóð og fjara er að jafnaði tvisvar á sólarhring í Evrípos-sundi. Straumurinn stendur í aðra áttina í 6 stundir og 13 mínútur, stöðvast stutta stund, snýr síðan við og flæðir í hina áttina. Þessi regla helst í 23 eða 24 daga. En straumurinn hegðar sér óvenjulega síðustu fjóra eða fimm daga tunglmánaðarins. Suma daga er hann stöðugur í aðra áttina en aðra daga getur hann skipt um stefnu allt að 14 sinnum á sólarhring!

Tilraunir til að skýra fyrirbærið

Sjávarfallastraumarnir í Evrípos-sundi hafa verið mönnum ráðgáta um þúsundir ára. Samkvæmt vinsælli arfsögn á Aristóteles, sem var uppi á fjórðu öld f.o.t., að hafa stokkið í sjóinn og drukknað sökum örvæntingar yfir því að honum tókst ekki að ráða gátuna. En sannleikurinn er sá að Aristóteles freistaði þess að skýra fyrirbærið í stað þess að drekkja sér. Í verki sínu, Meteorologica, skrifaði hann: „Svo virðist sem sjórinn streymi um þröngt sundið sökum hreyfinga á landinu umhverfis. Sveiflur jarðarinnar valda því að hann streymir úr smærra hafi í stærra.“ Aristóteles hélt ranglega að jörðin sveiflaðist eftir bylgjuhreyfingum sjávar og vegna tíðra jarðskjálfta á svæðinu. Gríski stjörnufræðingurinn Eratosþenes áttaði sig á því um einni öld síðar að ‚sjávarborðið var mishátt við enda sundsins.‘ Hann taldi straumana stafa af þessum hæðarmun sjávarborðsins.

Enn skilja menn ekki að fullu orsakir hinna óreglulegu sjávarfalla við Evrípos. Víst er þó talið að hinir reglulegu straumar stafi af því að sjávarborðið er hærra við annan enda sundsins en hinn og sjórinn streymir þá þangað sem sjávarborðið er lægra. Hæðarmunurinn getur verið allt að 40 sentímetrar og sést vel af brúnni við Kalkíðu.

Af hverju er sjávarborðið mishátt?

Hvernig er hægt að skýra muninn á sjávarborðinu við enda sundsins? Sjávarfallabylgja Miðjarðarhafs kemur úr austri og klofnar í tvennt er hún kemur að Evvíu. Vestari kvíslin fer inn um suðurenda sundsins en eystri kvíslin þarf að fara kringum eyna áður en hún kemst inn í sundið úr norðri. Þessi langa leið austurkvíslarinnar seinkar komu hennar að Evrípos-sundi um fimm stundarfjórðunga. Þar af leiðandi er sjávarborðið hærra og þrýstingurinn mun meiri öðrum megin við sundið. Þessi þrýstingur magnar svo upp hina reglubundnu sjávarfallastrauma um Evrípos.

En hvað um óreglulegu straumana? Á fyrsta og síðasta kvartili tungls vinnur aðdráttarafl sólar gegn aðdráttarafli tungls í stað þess að styrkja það. Samtímis og tunglið veldur fjöru reynir sólin að valda flóði þannig að munurinn á sjávarhæð norðan við sundið og sunnan við það minnkar. Þá dregur úr straumnum. Vindar geta svo haft þau áhrif að straumurinn stöðvast með öllu.

Það mætti auðvitað segja margt fleira um hina forvitnilegu og leyndardómsfullu strauma í Evrípos-sundi. Ef þú sækir Grikkland heim ættirðu að gera þér ferð til Evvíu og sjá hin sérstæðu sjávarföll í Evrípos-sundi með eigin augum.

[Kort á blaðsíðu 28]

(Sjá uppsettan texta í ritinu)

MIÐJARÐARHAF

EYJAHAF

EVVÍA

Kalkíða

Evrípos-sund

GRIKKLAND

AÞENA

[Credit line]

Mountain High Maps® Copyright © 1997 Digital Wisdom, Inc.

[Mynd á blaðsíðu 29]

Loftmynd af Evrípos-sundi.