Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Njóttu þess að geispa!

Ófætt barn byrjar að geispa aðeins 11 vikum eftir getnað segir í spænska vikutímaritinu Salud. Svo virðist vera sem flest spendýr, auk nokkurra fugla og skriðkvikinda, geispi ósjálfrátt. Það er ekki vitað nákvæmlega hvers vegna við geispum en vísindamenn hafa komist að því að við teygjum okkur yfirleitt um leið. Þeir segja að þessar hreyfingar „auki blóðþrýsting og hjartslátt og slaki að auki á vöðvum og liðamótum.“ Þegar við bælum niður geispa með því að klemma saman kjálkana förum við á mis við kostina sem eru því samfara. Rannsóknarteymið mælir þess vegna með því að ef aðstæður leyfa ættum við að „teygja eðlilega úr kjálkum og andlitsvöðvum“ þegar við geispum. Það er aldrei að vita nema góður geispi geti lífgað upp á daginn hjá þér!

Myrkfælni

„Börn eru myrkfælnari en foreldrar þeirra voru vegna þess að þau eru mikið í rafljósi en sjaldan í algjöru myrkri,“ samkvæmt frétt í Lundúnablaðinu The Times. Sálfræðingurinn og rithöfundurinn Aric Sigman vann úr rannsókn sem sýndi að næstum því tvö af hverjum þrem börnum undir tíu ára aldri vilja sofa með ljósið kveikt. Hann heldur því fram að ímyndunarafl þeirra fái ekki að njóta sín þar sem þau eru of lítið í myrkri — jafnvel í rúminu á nóttunni. „Ímyndunarafl barna verður að fá tækifæri til að þroskast,“ segir í fréttinni. „Það getur verið mjög örvandi fyrir þau að leika sér í myrkri því að myndirnar sem koma upp í huga þeirra verða allar einstæðar.“ En nú á tímum „eru tilbúnar myndir úr sjónvarpi, kvikmyndahúsum og tölvuleikjum greyptar í huga barnanna“ og þær skelfa þau. Dr. Sigman segir: „Það hljómar kannski svolítið gamaldags að segja: ‚Lestu meira og horfðu minna á sjónvarp,‘ en það þarf samt að hamra á því.“

Bílbelti í aftursætum bjarga mannslífum

„Farþegar í aftursætum, sem spenna ekki beltin, fimmfalda hættuna á að farþegar í framsætum með spennt belti deyi við árekstur,“ að sögn Lundúnablaðsins The Guardian. Rannsakendur í Háskólanum í Tókýó fóru yfir skýrslur um rúmlega 100.000 bílslys sem urðu á fimm árum í Japan og komust að raun um að hægt hefði verið að koma í veg fyrir dauða næstum 80 prósent framsætisfarþega í bílbeltum ef farþegar í aftursætum hefðu verið með bílbelti. Þeir sem ekki hafa beltin spennt við árekstur kastast fram af svo miklum krafti að það stóreykur hættuna á að farþegar í framsætum slasist alvarlega eða kremjist jafnvel til dauða. Kannanir sýna að um það bil 40 prósent fullorðinna í Bretlandi nota ekki bílbelti í aftursætum þó svo að það hafi verið skylt síðan 1991.

Líkamshreysti og veikindadagar

Líkamsrækt fækkar veikindadögum samkvæmt rannsókn finnsku heilbrigðissamtakanna. Margir atvinnurekendur í Finnlandi notfæra sér þessa vitneskju til að halda starfsfólkinu í vinnu. „Helmingur allra vinnandi Finna starfar hjá fyrirtækjum sem hafa líkamsræktaráætlun fyrir starfsmennina,“ segir í blaðinu Finnfacts sem bandalag iðnaðar og atvinnurekenda í Finnlandi gefur út. „Mörg fyrirtæki halda námskeið sem hjálpa starfsmönnum að léttast og hætta reykingum og standa fyrir ýmiss konar líkamsræktarhópum.“ Finnskir atvinnurekendur verja meira en 5,8 milljörðum íslenskra króna árlega í líkamsrækt fyrir starfsmenn þar sem þeir vita að þeir fá það margfalt til baka með færri fjarvistum.

Versta farsótt sögunnar

„Alnæmi á örugglega eftir að verða versta farsótt sögunnar, verri en svartidauði,“ segir í tímaritinu New Scientist. „Á 14. öld geisaði svartidauði um Evrópu og Asíu og felldi um 40 milljónir manna. Núna, um 700 árum seinna, er sagan að endurtaka sig.“ Samkvæmt frétt í tímaritinu British Medical Journal verða 65 milljónir manna látnar af völdum HIV-veirunnar við lok þessa áratugar. Þó að fleira fólk sé nú smitað af berklum og malaríu er fjárhags- og þjóðfélagslegt tjón af völdum þessara sjúkdóma ekki talið eins mikið og af alnæmi.