Hungursneyðin mikla á Írlandi — saga landflótta og dauða
Hungursneyðin mikla á Írlandi — saga landflótta og dauða
EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Á ÍRLANDI
ÓVENJULEGT skip stendur í skugga Croagh Patrick * sem er hið „helga“ fjall Írlands. Það líkist litlu nítjándu aldar seglskipi og snýr stefninu til vesturs í átt að Atlantshafi. En þetta skip lætur aldrei úr höfn. Það stendur á steinsteyptum stalli og inn á milli siglutrjánna má sjá stílfærðar eftirlíkingar af beinagrindum.
Skipið er stórt listaverk úr málmi og var afhjúpað árið 1997 til að minnast einhvers mesta harmleiks í sögu Írlands — hungursneyðarinnar miklu. Skipið og beinagrindurnar eru tákn hins mikla mannfellis og landflótta sem varð á árunum 1845-50.
Hungursneyð hefur svo sem herjað á fleiri lönd en Írland. Mörg önnur lönd hafa kynnst hungri og dauða, en hungursneyðin mikla á Írlandi var þó að mörgu leyti sérlega átakanleg. Um átta milljónir manna bjuggu á Írlandi
árið 1845 en árið 1850 hafði líklega um ein og hálf milljón orðið hungurmorða. Ein milljón manna flutti af landi brott í leit að betra lífi, aðallega til Bretlands og Bandaríkjanna. Þetta var hungursneyð án hliðstæðu í sögu Írlands.Hvað olli því að hungursneyðin varð svo skæð sem raun bar vitni? Hvaða hjálp fengu fórnarlömbin? Hvaða lærdóm má draga af þessum harmleik? Til að skilja svörin er nauðsynlegt að átta sig á lífsskilyrðum fólks á Írlandi á árunum fyrir hungursneyðina.
Fyrir hungursneyðina miklu
Bretland réð yfir stórum hluta heims í byrjun nítjándu aldar, meðal annars Írlandi. Stór hluti landsins var í eigu enskra jarðeigenda sem bjuggu margir á Englandi. Þessir fjarstöddu landeigendur innheimtu háa leigu af hinum írsku leiguliðum og greiddu þeim lúsarlaun fyrir vinnuna.
Þúsundir kotbænda bjuggu við sárustu örbirgð. Fólk hafði hvorki efni á kjöti né mörgum öðrum matvælategundum og ræktaði því kartöflur sér til lífsbjargar sem var auðveldast að rækta, ódýrast og kjarnbest miðað við aðstæður.
Mikilvægi kartöflunnar
Kartaflan barst til Írlands um árið 1590. Hún var kjörin til ræktunar í röku og mildu loftslagi eyjarinnar og gat vaxið í mjög rýrum jarðvegi. Hún var notuð bæði til manneldis og sem skepnufóður. Um miðbik nítjándu aldar var rétt tæplega þriðjungur alls ræktarlands notaður til kartöfluræktar. Næstum tveir þriðju hlutar uppskerunnar fóru til manneldis. Dæmigerður írskur karlmaður át kartöflur alla daga — og lítið annað!
Þar eð svo margir áttu lífsafkomuna algerlega undir kartöflunni voru öll skilyrði fyrir hendi til að hörmungar gætu dunið yfir. Hvernig færi ef uppskeran brygðist?
Fyrsti uppskerubresturinn
Kartöfluuppskeran hafði brugðist stöku sinnum áður. Fólki var þá fleytt yfir versta kaflann með tímabundnu hjálparstarfi og erfiðleikarnir voru ekki teljandi ef góð uppskera fékkst næsta ár. Yfirvöld gerðu sér því litlar áhyggjur þegar uppskeran brást árið 1845.
En nú var miklu skæðari plága á ferðinni en áður hafði verið. Við vitum núna að uppskerubresturinn árið 1845 stafaði af kartöflumyglu (phytophthora infestans). Sveppasýkingin barst hratt með vindinum frá einum kartöflugarði til annars. Smitaðar kartöflur rotnuðu niðri í moldinni og kartöflur, sem voru í geymslu, hreinlega „leystust í sundur“ eins og það var orðað. Aðeins eitt afbrigði af kartöflum var ræktað á Írlandi svo að öll uppskeran sýktist. Og þar eð útsæði næsta árs var tekið af uppskeru líðandi árs var mikil vá fyrir dyrum.
Annar uppskerubresturinn
Það rýra útsæði, sem hægt var að bjarga, var sett niður næsta ár, 1846, en kartöflumyglan eyðilagði þá uppskeru einnig. Og nú var
ekkert eftir til að stinga upp þannig að landbúnaðarverkamenn misstu vinnuna unnvörpum. Landeigendur höfðu hreinlega ekki efni á að greiða þeim laun.Stjórnvöld gripu til margs konar hjálparstarfs og réðu fjölda þessa fátæka fólks til vinnu, aðallega vegagerðar, til að það gæti séð fjölskyldum sínum farborða.
Sumir fengu aðeins vinnu í þurfamannahúsum sem svo voru kölluð en þetta voru stofnanir sem réðu bjargarlaust fólk í vinnu. Fyrir vinnuna fékk fólkið fæði og húsnæði. Vinnan var erfið, maturinn oft skemmdur og húsnæðið mjög bágborið. Sumir lifðu það ekki af.
Þessar hjálparaðgerðir komu að nokkru gagni. En hörmungarnar áttu eftir að versna. Veturinn 1846-7 var óhemjukaldur svo að lítið var hægt að vinna utan dyra. Ýmsar opinberar stofnanir útbýttu ókeypis matvælum. En að tveim árum liðnum var lítið eftir í hjálparsjóðum og sú hjálp, sem hægt var að veita, nægði hvergi nærri til að halda lífinu í æ fleiri máttvana borgurum. Og þá kom enn eitt reiðarslagið.
Hinir fjarstöddu jarðeigendur voru margir skuldum vafðir og héldu áfram að krefjast leigunnar. Margir leiguliðarnir voru féþrota og voru því bornir út af jörðum sínum í þúsundatali. Sumir yfirgáfu hreinlega jarðirnar og héldu í þéttbýlið í von um betra líf. En hvert áttu þeir að fara, félausir, húsnæðislausir og matarlausir? Margir sáu ekkert annað úrræði en að flytja úr landi.
Stórfelldur landflótti
Það var ekkert nýtt að fólk flyttist úr landi. Allt frá byrjun nítjándu aldar hafði verið hægur en nokkuð jafn straumur fólks frá Írlandi til Bretlands og Ameríku. En eftir veturinn 1845 breyttist straumurinn í flóðbylgju. Árið 1850 voru Írar orðnir 26 prósent íbúa í New York — fleiri en í Dyflinni, höfuðborg Írlands.
Fimm þúsund ferðir voru farnar með fólk yfir Atlantshaf þau sex ár sem hallærið stóð. Þetta var 5000 kílómetra sigling og hættuleg. Mörg skipanna voru komin til ára sinna. Sum voru fyrrverandi þrælaflutningaskip og það var ekkert nema neyðin sem hélt þeim gangandi. Farþegum var troðið í þröngar vistarverur sem höfðu lítið batnað frá tímum þrælaflutninganna. Hreinlætisaðstaða var engin og farþegar urðu að bjargast við afar nauman kost.
Farþegar veiktust þúsundum saman enda veikburða fyrir sökum hallærisins. Margir dóu á leiðinni og árið 1847 var farið að kalla skipin, sem sigldu til Kanada, líkkistuskip. Af hér um bil 100.000 manns, sem þau fluttu, dóu fleiri en 16.000, annaðhvort í hafi eða skömmu eftir komuna til Kanada. Í bréfum til ættingja og vina á Írlandi segja vesturfararnir frá háska og hættum en straumurinn heldur áfram engu að síður.
Fáeinir landeigendur komu fyrrverandi leiguliðum sínum til hjálpar. Einn leigði til dæmis þrjú skip og greiddi fyrir flutningi þúsund fyrrverandi leiguliða sinna. En flestir vesturfaranna urðu að bjarga sér sjálfir. Algengt var að aðeins einn eða tveir úr fjölmennri fjölskyldu hefðu efni á því að fara vestur um haf. Maður getur ímyndað sér hugarangist margra á hafnarbakkanum
þar sem ættingjar kveðjast þúsundum saman — vitandi að þeir munu sennilega aldrei sjást framar.Sjúkdómar og þriðji uppskerubresturinn
Enn eitt áfallið reið yfir eftir að kartöfluuppskeran hafði brugðist tvisvar í röð og fólk verið borið út af jörðum sínum í þúsundatali. Nú voru það sjúkdómar! Taugaveiki, iðrakreppa og skyrbjúgur lögðu fólk í gröfina hópum saman. Margir þeirra sem eftir lifðu hafa eflaust hugsað með sér að varla gæti ástandið versnað úr þessu. En þeim skjátlaðist.
Árið 1847 hafði fengist þokkaleg uppskera og það var bændum hvati til að þrefalda kartöfluræktina árið 1848. En þá kom enn eitt reiðarslag. Sumarið var með eindæmum votviðrasamt og kartöflumyglan lagðist á einu sinni enn. Uppskeran brást í þriðja sinn á fjórum árum. Stjórnvöld og líknarstofnanir voru næstum komin í þrot. Og þó var það versta ekki afstaðið enn því að árið 1849 létust 36.000 manns af völdum kóleru.
Eftirköstin
En straumhvörf urðu eftir að þessi farsótt var gengin yfir. Kartöfluuppskeran var góð næsta ár og ástandið batnaði smám saman. Sett voru ný lög þess efnis að allar skuldir, sem rekja mátti til hungursneyðarinnar, skyldu felldar niður. Fólki tók að fjölga á nýjan leik. Þó að kartöflumygla kæmi upp í fáein skipti eftir þetta komst hún aldrei í námunda við þann hrylling sem varð þess valdandi að íbúum Írlands fækkaði um meira en fjórðung á fáeinum árum.
Hálfhrundir steingarðar og húsarústir út um allt Írland eru þögull minnisvarði um hin hörðu ár sem urðu kveikja þess að fólk flúði land í stórum stíl. Meira en 40 milljónir Bandaríkjamanna eru af írskum ættum. John F. Kennedy, fyrrverandi forseti, og bílakóngurinn Henry Ford voru beinir afkomendur fólks sem flutti vestur um haf frá Írlandi meðan hungrið svarf að.
Endurtekinn uppskerubrestur var auðvitað aðalástæðan fyrir þeim mikla mannfelli og landflótta sem átti sér stað á þessum árum. En einn af biblíuriturunum nefnir annað sem átti sinn þátt í hörmungunum. Hann sagði að ‚einn maðurinn drottni yfir öðrum honum til ógæfu.‘ (Prédikarinn 8:9) Til allrar hamingju er því lofað í Biblíunni að skapari himins og jarðar og alls sem á henni vex ætli að koma á paradís á jörð með varanlegum friði og velsæld handa öllum. (2. Pétursbréf 3:13) Og sálmaritari fortíðar boðaði: „Gnóttir korns munu vera í landinu, á fjallatindunum.“ — Sálmur 72:16.
[Neðanmáls]
^ Sjá Varðturninn (enska útgáfu), 15. apríl 1995, bls. 26-8.
[Mynd á blaðsíðu 22]
Minnismerki um hungursneyðina miklu.
[Mynd á blaðsíðu 23]
Leitað að kartöflum. Mynd úr „Illustrated London News,“ 22. desember 1849.
[Mynd á blaðsíðu 24]
Fötum útbýtt til örsnauðra fjölskyldna.
[Credit line]
og bls. 23: Úr fréttablaðinu The Illustrated London News, 22. desember 1849.
[Mynd á blaðsíðu 25, 26]
„Skip útflytjendanna“ (Málverk Charles J. Stanilands, um 1880)
[Credit line]
Bradford Art Galleries and Museums, West Yorkshire, UK/Bridgeman Art Library.
[Mynd á blaðsíðu 25]
Rústir húsa eru þögull minnisvarði um hin hörðu ár hungursneyðarinnar.
[Mynd credit line á blaðsíðu 22]
Teikning efst á síðunni: Með góðfúslegu leyfi vefsetursins „Views of the Famine,“ http://vassun.vassar.edu/˜sttaylor/FAMINE.