Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Loftskipin — fljúgandi ferlíki

Loftskipin — fljúgandi ferlíki

Loftskipin — fljúgandi ferlíki

„FAÐIR minn var loftskeytamaður á loftskipi og naut þess út í ystu æsar,“ sagði Ingeborg Waldorf í samtali við Vaknið! Loftskipin vöktu mikla hrifningu og aðdáun hvar sem þau komu, og segja má að heimsbyggðin hafi staðið á öndinni yfir þessum ferlíkjum sem flugu um loftin blá á fyrri hluta 20. aldar.

Gullöld risaloftskipanna var á fyrri hluta 20. aldar. Glæsileg afrek þeirra — og hræðileg slys — hertóku athygli heimsbyggðarinnar hvort á sinn veg. Skeiði risaloftskipanna lauk svo skyndilega þegar Hindenburg fórst í Lakehurst í New Jersey í Bandaríkjunum árið 1937. Saga þeirra er engu að síður athyglisverð.

Frá hitaloftbelgjum til loftskipa

Uppfinningamenn höfðu öldum saman reynt að finna leiðir til að láta menn fljúga. Frakkarnir Joseph-Michel og Jacques-Étienne Montgolfier, sem voru uppi á 18. öld, veittu því eftirtekt að reykur steig upp og ályktuðu sem svo að reykur hlyti að vera gæddur sérstökum eiginleika sem maðurinn gæti hugsanlega notfært sér til að fljúga. Þeir bjuggu því til gríðarstóran poka úr pappír og tauefni og héldu honum yfir eldi. Þorpsbúar höfðu safnast saman til að fylgjast með tilrauninni og horfðu agndofa á pokann stíga til himins. Þetta var í júnímánuði árið 1783. Montgolfier-bræður höfðu fundið upp hitaloftbelginn. Fimm mánuðum síðar flugu menn í fyrsta sinn í loftbelg frá Montgolfier-bræðrum.

Loftbelgirnir höfðu hins vegar þann ókost að þeir bárust með vindinum og það var ekki hægt að stýra þeim í ákveðna átt. Til að hægt væri að stýra loftbelg þurfti að finna aðferð til að knýja hann áfram. Frakkinn Henri Giffard var fyrstur manna til að fljúga loftskipi með hreyfli. Það var árið 1852. Giffard notaði gufuhreyfil og í staðinn fyrir heita loftið notaði hann vetni, sem er léttara en loft, til að mynda lyftikraftinn.

Um tíu árum síðar ferðaðist þýskur herforingi til Norður-Ameríku til að fylgjast með Þrælastríðinu. Báðir aðilar stríðsins notuðu loftbelgi til að njósna um liðsflutninga óvinarins. Svo hrifinn varð hann er hann flaug í fyrsta sinn yfir Mississippi-ánni að nafn hans átti eftir að tengjast loftskipum órjúfanlegum böndum. Foringinn var Ferdinand von Zeppelin greifi.

Risaloftskip Zeppelins greifa

Sumar heimildir herma að Zeppelin hafi fengið teikningu af loftskipi með styrktargrind úr áli frá króatískum uppfinningamanni er David Schwarz hét. Zeppelin hreifst af þeirri hugmynd að smíða loftskip sem væri nógu stórt til að geta flutt allmarga farþega eða þungan farm. Loftskip hans voru eins og vindill í laginu og skáru sig úr sökum lögunar og stærðar. Þau voru með styrktargrind úr málmi sem klædd var dúk. * Áhafnarrýmið var inni í bolnum eða í húsi neðan á honum. Vistarverur farþega voru annaðhvort í húsinu neðan á loftfarinu eða byggðar inn í bolinn. Inni í grindinni voru allmargir belgir fylltir vetni sem gaf lyftikraftinn. Loftskipið var knúið áfram með hreyflum sem voru áfastir grindinni. Zeppelin greifi var álitinn fífldjarfur sérvitringur er hann var að gera tilraunir sínar með loftskipin. En tími hans átti eftir að koma.

Zeppelin greifi hætti störfum hjá hernum og einbeitti sér að hönnun og smíði loftskipa. Fyrsta loftskipið hans flaug í júlí árið 1900 í grennd við Friedrichshafen í Þýskalandi. Fjöldi fólks var saman kominn á strönd Bodenvatns til að horfa á aflangt loftskipið, sem var 127 metrar á lengd, fljúga yfir vatninu í 18 mínútur. Stofnað var fyrirtæki um smíði loftskipa, Luftschiffbau Zeppelin GmbH, og fleiri loftskip litu dagsins ljós. Nú var greifinn ekki lengur álitinn sérvitringur heldur var hann heimsfrægur maður. Keisarinn kallaði hann mesta Þjóðverja tuttugustu aldar.

Fyrsta farþegaflug í heimi

Zeppelin greifi sá það fyrir sér að risaloftskipin sín gætu gefið Þýskalandi yfirburði í lofti. Í fyrri heimsstyrjöldinni notaði þýski herinn loftskip til að njósna um óvinasvæði og einnig til að varpa sprengjum. Alvarlegasta loftárásin í fyrri heimsstyrjöldinni var gerð með loftskipi sem flaug yfir Lundúnir.

Áhugamenn um loftferðir sáu hins vegar möguleikann á farþegaflutningum í lofti og það varð til þess að Loftskipaflutningafélag Þýskalands (Deutsche Luftschiffahrts-Aktien-Gesellschaft) var stofnað árið 1909, fyrsta flugfélag heims til að annast farþegaflutninga. Síðar náðu farþegaflutningarnir til landa utan Evrópu. Loftskipin Graf Zeppelin og Hindenburg flugu þá milli Þýskalands og Rio de Janeiro og Lakehurst.

Mikill áhugi á loftskipaflutningum greip um sig í Bandaríkjunum. Coolidge forseti hljóp út á grasflöt Hvíta hússins til að sjá risaloftskipið Graf Zeppelin fljúga yfir, eftir jómfrúrferð þess yfir Atlantshaf, frá Friedrichshafen til austurstrandar Bandaríkjanna árið 1928, en loftskipið varð fyrir skemmdum í þessari ferð. New York búar kunnu sér ekki læti. Þar var áhöfn loftskipsins heiðruð með skrúðgöngu og kastað var mislitum pappírsræmum yfir hana.

Um borð í Hindenburg

Flugferð með loftskipi var talsvert ólík flugferðum okkar tíma. Ímyndaðu þér að þú stígir um borð í Hindenburg sem er þrefalt lengra en júmbóþota og samsvarar 13 hæða byggingu á hæðina. Þér er ekki vísað til sætis heldur til klefa með rúmi og hreinlætisaðstöðu. Þú þarft ekki að festa sætisólar fyrir flugtak heldur geturðu látið fara vel um þig í klefanum, slakað á í setustofunni eða gengið um útsýnissvæði sem er jafnvel með opnanlegum gluggum. Allri aðstöðu farþega er komið fyrir neðst í hinum gríðarstóra bol loftskipsins.

Að sögn bókarinnar Hindenburg — An Illustrated History var rúm fyrir 50 farþega í matsalnum. Borðin voru sveipuð hvítum dúkum og borðbúnaðurinn var úr silfri og fínu postulíni. Á dæmigerðu flugi yfir Atlantshaf voru notuð 200 kílógrömm af kjöti, 800 egg og 100 kílógrömm af smjöri. Eldhúsið var búið rafmagnseldavél, ofnum, ísvél og kæliskáp. Lítill flygill stóð í setustofunni þar sem flugfreyja sinnti þörfum farþega.

Hindenburg var fyrst og fremst smíðað með þægindi í huga en ekki hraða. Flughraðinn var tæplega 130 kílómetrar miðað við klukkustund og flogið var í 200 metra hæð. Hraðamet Hindenburg á leiðinni yfir Atlantshaf var rétt tæpar 43 klukkustundir. Það var sett árið 1936. Flugferðin var þægileg að öllu jöfnu. Kona gekk einu sinni um borð í loftskipið í Lakehurst og var svo þreytt að hún lagðist til hvíldar í klefa sínum. Síðar kallaði hún á flugþjóninn og vildi fá að vita hvenær loftskipið legði af stað. Flugþjónninn var eilítið undrandi og sagði konunni að loftskipið hefði verið á flugi í meira en tvær klukkustundir. „Ég trúi þér ekki,“ hvæsti konan. Hún lét ekki sannfærast fyrr en hún kom í setustofuna og gat horft á strönd Nýja-Englands 200 metrum fyrir neðan.

Frægasta loftskip sögunnar

Gullöld loftskipanna náði hámarki árið 1929 þegar Graf Zeppelin flaug umhverfis hnöttinn. Flugið hófst opinberlega í Lakehurst og síðan flaug loftskipið umhverfis jörðina frá vestri til austurs á 21 degi, með viðkomu í Friedrichshafen, Tókýó — þar sem 250.000 manns fögnuðu því — og einnig í San Fransisco og Los Angeles. Graf Zeppelin gerði garðinn frægan á nýjan leik tveim árum síðar er það flaug til fundar við rússneskan ísbrjót langt norður í Íshafi. Loftskipið hafði viðkomu á Íslandi sama ár og flutti þá póst frá landinu. Þetta var í fyrsta sinn sem póstur fór flugleiðis frá Íslandi til útlanda. Bókin Hindenburg — An Illustrated History segir: „Graf Zeppelin hafði nú skapað sér næstum ævintýralegan orðstír og vakti gríðarlega athygli hvert sem það fór. Óhætt mun að fullyrða að það sé frægasta loftfar sögunnar — að Concorde meðtalinni.“

Aðrar þjóðir töldu einnig mikla framtíð í loftskipaútgerð. Bretar áformuðu að koma sér upp loftskipaflota til að sameina hið víðfeðma heimsveldi sitt með áætlunarflugi til Indlands og Ástralíu. Bandaríska loftskipið Shenandoah var fyrsta loftskipið með styrktargrind þar sem notað var helíum til að gefa lyftikraft í stað hins eldfima vetnis. Litlar flugvélar gátu tekið á loft frá loftskipunum Akron og Macon og lent meðan loftskipin voru á flugi. Flugvélarnar var svo hægt að geyma inni í bol loftskipsins. Macon var með radíómiðunarbúnaði og var fyrsta alvöru flugmóðurskip sögunnar sem sveif um loftin blá.

Hrikaleg slys

„Já, faðir minn naut þess mjög að fljúga,“ segir Ingeborg Waldorf sem nefnd var í upphafi greinarinnar. „En áhættan angraði hann.“ Faðir hennar flaug í fyrri heimsstyrjöldinni en jafnvel á friðartímum var hvergi nærri hættulaust að fljúga loftskipi — þrátt fyrir öll flugafrekin. Hvernig þá?

Veðrið var einn versti óvinur loftskipanna. Átta af fyrstu 24 loftskipum, sem Zeppelin greifi og fyrirtæki hans smíðuðu, eyðilögðust af völdum veðurs. Árið 1925 rifnaði bandaríska loftskipið Shenandoah í tvennt í stormi. Og tvö önnur loftskip fórust í óveðrum, Akron árið 1933 og Macon tæplega tveim árum síðar. Þar með hættu Bandaríkjamenn að gera tilraunir með risaloftskip með stuðningsgrind.

Bretar bundu vonir sínar við loftskipið R 101. Á fyrstu ferð sinni árið 1930 frá Bretlandi til Indlands lenti það í illviðri í Frakklandi og fórst þar. Rithöfundur segir að „ekkert slys síðan Titanic fórst árið 1912 hafi fengið jafnmikið á breskan almenning.“ Blómaskeiði bresku loftskipanna var lokið.

Miklar vonir voru engu að síður bundnar við loftskipaútgerð í Þýskalandi. En þá varð slysið sem skelfdi heimsbyggðina. Hindenburg var að koma frá Frankfurt í maí 1937 og kom inn til lendingar í Lakehurst-flugstöðinni í New Jersey. Skyndilega sást örlítill logi efst á ytra byrði loftskipsins, rétt framan við stélið. Andartaki síðar breyttist loftskipið í eitt eldhaf er kviknaði í vetninu í geymunum. Þrjátíu og sex manns fórust.

Í fyrsta sinn voru fréttamenn viðstaddir til að kvikmynda stórslys. Loftskipið var aðeins 34 sekúndur að brenna — frá fyrsta loganum þangað til ferlíkið skall til jarðar — og fréttamynd sem tekin var af slysinu var sýnd um heim allan ásamt lýsingu fréttamanns sem segir með hálfkæfðri röddu: „Það brennur, það er alelda . . . Ó, mannkyn og allir farþegarnir!“ Tími risaloftskipanna stóð í meira en 30 ár en í vissum skilningi lauk honum á 34 sekúndum.

Ný kynslóð loftskipa

Loftskip eru enn í miklu uppáhaldi í Friedrichshafen. Í Zeppelinsafninu geta gestir horfið aftur í tímann og stigið um borð í endurgerðan hluta af Hindenburg. Leiðsögumaður á safninu sá Hindenburg á Ólympíuleikunum í Berlín árið 1936. Hann sagði Vaknið!: „Það var ólýsanleg tilfinning að sjá loftskip. Það var yfirþyrmandi.“

Ný kynslóð loftskipa er sögð vera í burðarliðnum og beitt er nýjustu tækni við gerð þeirra. Nýju loftskipin eru smærri en forverarnir og eru hugsuð fyrir „þægilega og umhverfisvæna ferðaþjónustu handa efnafólki.“ Tíminn á eftir að leiða í ljós hvort þessi nýju loftskip ná sama hátindi og fljúgandi ferlíki fortíðarinnar.

[Neðanmáls]

^ Þessi gerð loftskipa, sem er með styrktargrind, er nefnd zeppelin á mörgum tungumálum. Önnur gerð loftskipa er belglaga og án styrktargrindar en loftþrýstingurinn inni í belgnum þenur hann út. Þriðja gerðin er án styrktargrindar en er með föstum kili neðan á gasbelgnum. Loftskipum er það sameiginlegt að þau eru knúin hreyflum þannig að það er hægt að stýra þeim, ólíkt loftbelgjum.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Ferdinand von Zeppelin greifi.

[Credit line]

Myndir á bls. 10: Archiv der Luftschiffbau Zeppelin GmbH,

[Mynd á blaðsíðu 11]

Boeing 747

Hindenburg

Titanic

[Myndir á blaðsíðu 12, 13]

Talið frá vinstri: „Graf Zeppelin“ yfir Fíladelfíu, stjórnklefinn, setustofa farþega.

[Credit line]

Archiv der Luftschiffbau Zeppelin GmbH.

[Myndir á blaðsíðu 14]

Segja má að tími risaloftskipanna hafi endað með átakanlegum hætti þegar „Hindenburg“ fórst í Lakehurst árið 1937.

[Credit line]

Ljósmyndir: Brown Brothers.