Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Trúarleiðtogar halda til Assisi í leit að friði

Trúarleiðtogar halda til Assisi í leit að friði

Trúarleiðtogar halda til Assisi í leit að friði

„Aldrei framar ofbeldi! Aldrei framar stríð! Aldrei framar hryðjuverk! Megi öll trúarbrögð, í nafni Guðs, koma á réttlæti og friði, fyrirgefningu og lífi, kærleika! — Jóhannes Páll Páfi II.

ASSISI, ÍTALÍU, 24. janúar 2002 — Fulltrúar kirkju- og trúfélaga voru saman komnir þar til að biðja fyrir friði, friði sem stendur ógn af hryðjuverkum, umburðarleysi og óréttlæti. Páfi boðaði til þessa fundar um tveimur mánuðum eftir að tvíburaturnarnir í New York hrundu. Margir trúarleiðtogar tóku boði Páfagarðs fagnandi.

Tvisvar áður — árið 1986 og síðan aftur árið 1993 — hefur páfi boðað bænadag í þessu sama ítalska þorpi. * Yfir þúsund fréttamenn alls staðar að úr heiminum komu til að fylgjast með fundinum árið 2002. Mörg trúfélög sendu fulltrúa til bænafundarins — þar á meðal kirkjudeildir kristna heimsins (kaþólskir, lúterskir, biskupakirkjumenn, rétttrúnaðarmenn, meþódistar, baptistar, hvítasunnumenn, mennonítar, kvekarar og aðrir), fulltrúar íslams, hindúa, konfúsíusarmanna, síka, jaina, tenrikyoa, búddhatrúarmanna, gyðinga, hefðbundinna afrískra trúarbragða, sjintótrúarmanna og zaraþústramanna. Fulltrúar frá öðrum trúarbrögðum og frá Alkirkjuráðinu voru einnig viðstaddir.

Friðaryfirlýsingar

Dagurinn hófst klukkan 8:40 þegar „friðarlestin“ lagði af stað frá litlu lestarstöðinni í Páfagarði. Í lestinni voru sjö vagnar sem búnir voru öllum helstu þægindum. Tvær þyrlur fylgdu lestinni og voru henni til verndar. Eftir tveggja tíma ferðalag voru páfinn og aðrir trúarleiðtogar komnir til Assisi. Öryggiseftirlit var mjög strangt — um eitt þúsund lögreglumenn voru í viðbragðsstöðu.

Trúarleiðtogarnir komu saman í risastóru hátíðartjaldi á aldagömlu torgi. Inni í tjaldinu sátu fulltrúar trúfélaganna á stóru vaff-laga sviði með páfann í miðjunni. Við hliðina á sviðinu stóð ólífutré — tákn friðar. Fyrir framan sviðið sátu rúmlega 2000 vandlega valdir gestir. Í fremstu sætaröðinni voru margir af hæstsettu embættismönnum Ítalíu. Stórir og miklir kórar sungu friðarsálma á milli fyrirlestra. Annars staðar í bænum komu þúsundir manna saman, aðallega ungt fólk, og sungu friðarsöngva og veifuðu slagorðum gegn styrjöldum á fjölda tungumála. Margir héldu á ólífugreinum.

Þegar páfinn hafði tekið sér sæti á sviðinu bauð hann talsmenn trúfélaganna velkomna. Eftir að búið var að syngja latneskan sálm byggðan á Jesaja 2:4 — sem boðar þann tíma þegar „engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð“ — gáfu tólf fulltrúar, klæddir auðkennandi trúarklæðum, hátíðlega friðaryfirlýsingu. Hér koma nokkur dæmi.

„Á þessari sögulegu stundu verður mannkynið að sjá friðarviðleitni og heyra vonarorð.“ — François Xavier Nguyên Van Thuân, kardínáli.

Guð „er ekki Guð styrjalda og átaka heldur Guð friðar.“ — Bartholomeus I, alkirkjupatríarki.

„Trúarlegur skoðanamunur ætti ekki að fá [fólk] til að hunsa eða jafnvel hata þá sem eru annarrar skoðunar.“ — Dr. Setri Nyomi, frá heimsbandalagi siðabótakirkna.

„Réttlæti og bróðurkærleikur eru tveir ómissandi stólpar raunverulegs friðar manna á milli.“ — Amadou Gasseto, fulltrúi hefðbundinna afrískra trúarbragða.

„Aðeins friður er heilagur, stríð er aldrei heilagt.“ — Andrea Riccardi, frá kaþólsku kirkjunni.

Sumir fulltrúanna viðurkenndu að trúarbrögðin ættu stóran þátt í að ýta undir umburðarleysi og styrjaldir. Talsmaður Lúterska heimssambandsins sagði heiminn „skelfdan yfir þeirri grimmd og því hatri sem trúarlegir bókstafsmenn kynda undir.“ Fulltrúi Gyðinga sagði: „Trúarbrögðin hafa ýtt undir fjölda hræðilegra og blóðugra styrjalda.“ Sendimaður hindúa lýsti yfir: „Sagan sýnir okkur fjölmörg dæmi þess að þeir sem segjast vera trúarlegir bjargvættir noti trúarbrögðin til að drottna yfir fólki og sundra því.“

Eftir að búið var að fordæma hryðjuverk og styrjaldir drógu fulltrúanefndirnar sig í hlé og fóru hver á sinn stað til að biðja guði sína um frið.

Bænir um frið

Fulltrúar kristna heimsins báðu saman í neðri basilíku heilags Frans nálægt grafhvelfingunni sem kirkjan er nefnd eftir. Athöfnin hófst með því að páfinn og þrír aðrir sendimenn ákölluðu þríeinan Guð. Inn á milli bæna voru sungnir sálmar, farið með bænarávörp þar sem friður var lofaður og lesin vers úr Biblíunni tengd þessu sama stefi. Í einni bæninni var beðið um „sameinaða trú.“ Við lok athafnarinnar sungu þátttakendur faðirvorið á latínu sem byggt er á 6. kaflanum í Matteusi frá versi 9 til 13.

Samtímis báðust talsmenn hinna trúarhópanna fyrir annars staðar. Múslímar krupu á teppum í sal sem sneri í átt að Mekka og ákölluðu Allah. Zaraþústramenn báðu nálægt jainum og konfúsíusarmönnum og kveiktu helgan eld. Fulltrúar afrísku trúarbragðanna báðu til anda forfeðra sinna. Hindúarnir báðu guði sína um frið. Allir ákölluðu guði sína samkvæmt eigin hefð.

Sameiginlegt friðarheit

Fulltrúarnir komu síðan aftur saman inni í tjaldinu þar sem athöfninni var svo lokið. Munkar afhentu öllum logandi lampa — tákn friðarvonarinnar. Þetta var myndræn sjón. Síðan lásu nokkrir úr fulltrúanefndunum sameiginlegt friðarheit með yfirlýsingum hvers og eins.

„Til að koma á friði verðum við að elska náungann.“ — Bartholomeus I, alkirkjupatríarki.

„Ofbeldi og hryðjuverk samræmast ekki sönnum anda trúarbragðanna.“ — Dr. Konrad Raiser, talsmaður Alkirkjuráðsins.

„Við heitum því að kenna fólki að virða og kunna að meta hvert annað.“ — Bhai Sahibji Mohinder Singh, fulltrúi síkatrúarinnar.

„Friður án réttlætis er ekki sannur friður.“ — Vasilios, rétttrúnaðarbiskup.

Að lokum las páfinn orðin sem er að finna í inngangi þessarar greinar. Þessum samtrúarlega fundi lauk með því að fulltrúarnir féllust í faðma til tákns um frið. Háleit og vandlega valin orð höfðu verið flutt við mikla viðhöfn. En hver voru viðbrögð manna við þessum tilkomumikla fundi?

‚Ef verk fylgja orðunum‘

Dagblöð og sjónvarpsstöðvar fögnuðu frumkvæði páfans. Sumir kölluðu hann meira að segja „talsmann allra kristinna manna.“ Dagblað Páfagarðs, L’Osservatore Romano, sagði daginn í Assisi marka „þáttaskil í uppbyggingu friðarsamfélags.“ Fyrirsögn í dagblaðinu Corriere dell’Umbria hljóðaði svo: „Assisi kveikir von um frið.“

Þeir sem fylgdust með fundinum voru hins vegar ekki allir jafnhrifnir. Sumir voru efablandnir vegna þess að þrátt fyrir friðarbænadagana árið 1986 og 1993 er enn verið að heyja stríð í nafni trúarinnar. Trúarhatur hefur kynt undir blóðug átök í Úganda, fyrirverandi Júgóslavíu, Indónesíu, Pakistan, Miðausturlöndum og á Norður-Írlandi.

Ítalska dagblaðið La Repubblica vakti athygli á því að sumir gagnrýnendur töldu fundinn „aðeins vera sjónarspil.“ Þingmaður á Evrópuþinginu sagði að til að koma á friði þyrfti trúað fólk að „fara eftir fagnaðarerindinu“ — það er að segja, hlýða orðunum um að „elska óvini sína og bjóða hina kinnina.“ En „enginn gerir það“ að hans mati.

Formaður Ítalska Gyðingasamfélagsins sagði að það yrði „athyglisvert að sjá hvað gerist núna, það er að segja hvort raunveruleg verk og breytingar fylgi orðunum.“ Talsmaður ítalskra búddhatrúarmanna tók í sama streng og sagði að „tryggja þyrfti að friðarumleitanir yrðu annað og meira en góður ásetningur.“ Fréttamaður hjá ítalska tímaritinu L’Espresso hélt því fram að fundurinn í Assisi hafi þjónað öðrum tilgangi fyrir kristnu trúfélögin sem áttu fulltrúa á fundinum. Hann kallaði þetta „sameiginlega baráttu gegn trúarlegri óánægju, agaleysi og vantrú,“ og tilraun til að berjast gegn „veraldarhyggjunni“ sem sækir mjög á í Evrópu þrátt fyrir „kristna sögu“ álfunnar.

Meðal hörðustu gagnrýnendanna voru íhaldssamir kaþólikkar sem óttast að verið sé að útvatna kirkjulegar kenningar þeirra. Þekktur kaþólskur rithöfundur, Vittorio Messori, sagði í sjónvarpsviðtali að sú hætta væri fyrir hendi að fundurinn í Assisi gerði muninn á trúarbrögðunum óljósan. Kirkjuleg yfirvöld höfðu auðvitað gert ýmsar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að þetta liti út eins og verið væri að blanda trúarbrögðunum saman. Páfinn gaf sjálfur út yfirlýsingu til að hrekja slíkar fullyrðingar. En þrátt fyrir það fannst sumum eðli þessa fundar gefa til kynna að hin ólíku trúarbrögð væru aðeins mismunandi leiðir til að nálgast sömu æðri máttarvöldin.

Trúarbrögð og friður

En hvað geta kirkju- og trúfélög gert til að koma á friði? Sumum finnst þessi spurning ákaflega kaldhæðnisleg þar sem trúarbrögðin virðast gera meira til að ýta undir styrjaldir en koma í veg fyrir þær. Sagnfræðingar hafa vakið athygli á því hvernig veraldleg öfl hafa notað trúarbrögðin til að æsa til styrjalda. En þá vaknar spurningin: Hvers vegna hafa trúarbrögðin leyft veraldlegum öflum að nota sig?

Trúarbrögðum kristna heimsins hefur í það minnsta verið gefin helg lífsregla sem hefði getað hjálpað þeim að forðast þá sekt sem fylgir styrjöldum. Jesús sagði að fylgjendur sínir yrðu „ekki af heiminum.“ (Jóhannes 15:19; 17:16) Ef trúarbrögð kristna heimsins hefðu lifað eftir þessum orðum hefðu þau ekki tekið höndum saman við pólitísk öfl og lagt blessun sína yfir hermenn og styrjaldir.

Til að lifa raunverulega í samræmi við þau góðu orð sem töluð voru í Assisi þyrftu trúarleiðtogar að halda sig frá pólitískum öflum. Þar að auki þyrftu þeir að kenna fylgjendum sínum að ganga veg friðarins. Sagnfræðingar benda hins vegar á að meðal þeirra sem vinni ofbeldisverk í heiminum séu fjölmargir sem trúi á Guð — eða segist að minnsta kosti gera það. Nýleg ritstjórnargrein í dagblaði sagði: „Stuttu eftir 11. september skrifaði einhver þessi hrollvekjandi en jafnframt umhugsunarverðu orð á vegg í Washington: ‚Góði Guð, verndaðu okkur frá þeim sem trúa á þig.‘“

Mörgum erfiðum spurningum var ekki svarað á þessum mikla og hátíðlega fundi í Assisi. En í hugum margra trúaðra manna er kannski engin spurning jafnmikilvæg — eða jafntruflandi — og þessi: Af hverju virðist Guð ekki enn þá hafa svarað þeim friðarbænum sem trúarbrögð heims hafa beðið?

[Neðanmáls]

^ Nánari upplýsingar um bænadaginn 1986 er að finna í Vaknið! (enskri útgáfu) 8. júní 1987.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Fulltrúar halda á logandi lömpum til tákns um friðarvonina.

[Credit line]

AP Photo/Pier Paolo Cito

[Mynd credit line á blaðsíðu 5]

AP Photo/Pier Paolo Cito