Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þú verður að fá nægan svefn!

Þú verður að fá nægan svefn!

Þú verður að fá nægan svefn!

Ætli nokkur mæli á móti því að góður nætursvefn eigi drjúgan þátt í því að viðhalda góðri heilsu? Sennilega ekki. Samt láta margir svefninn mæta afgangi. „En það bitnar á manni næsta dag,“ segir Shawn Currie, lækningasálfræðingur og lektor við Calgary-háskóla í Kanada. Þegar fólk fær ekki nægan svefn eru meiri líkur á að það verði geðvont og jafnvel þunglynt öðru hverju.

„Vísindamenn hafa sett fram kenningu um að svefninn hafi endurnýjandi áhrif á heilann, og að fólk haldi áfram að bæta við sig þekkingu í svefni,“ segir dagblaðið Calgary Herald. Currie segir: „Á nóttinni festir maður minningarnar í huganum og öllu því sem maður lærir yfir daginn er raðað á sinn stað. Þeir sem fá ekki þennan hvíldartíma skerða hæfileika sinn til að læra.“ Hann segir ennfremur: „Nægur svefn stuðlar sennilega að tilfinningalegu jafnvægi.“

Hvað telst þá hæfilegur svefn? Margir sérfræðingar nefna átta tíma sem almenna reglu, en Currie segir: „Fólk hefur mismikla svefnþörf.“ Þess vegna hvetur hann fólk til að reyna að ná góðum, djúpum svefni. En hvernig er það hægt, einkum ef fólk þjáist af svefnleysi? Hér eru nokkrar tillögur:

◼ Farðu í heitt bað eða sturtu áður en þú ferð í rúmið.

◼ Stundaðu hæfilega líkamsþjálfun nokkrum sinnum í viku en ekki of mikla rétt fyrir háttinn.

◼ Sjáðu til þess að það sé hljótt og dimmt í svefnherberginu og frekar svalt.

◼ Reyndu að fara á fætur á sama tíma á hverjum morgni til að hafa reglu á svefnvenjum þínum.

Í ljósi þess hve svefn er heilsusamlegur skaltu sýna skynsemi og láta hann ganga fyrir öðru.