Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Bílar fyrr og nú

Bílar fyrr og nú

Bílar fyrr og nú

MAÐURINN hefur frá ómunatíð haft áhuga á samgöngum. Í fyrstu notaði hann dýr sem fararskjóta. En með tímanum var þörf á skilvirkari samgöngum. Lykilatriði í að bæta samgöngur var hjólið sem var svo undanfari hestvagna og hestakerra. Nýjungar á 19. öldinni gjörbyltu hins vegar samgöngum meira en nokkurn hafði órað fyrir.

Betri hreyflar

Á síðari hluta 19. aldar þróaði Þjóðverjinn Nikolaus August Otto fjórgengisgashreyfil sem að lokum reyndist betri en rafhreyflar og gufuvélar. Þjóðverjarnir Karl Benz og Gottlieb Daimler voru mikilvægir frumkvöðlar í bílaframleiðslu. Árið 1885 bjó Benz til þriggja hjóla bíl með eins strokks tvígengishreyfli sem náði 250 snúningum á mínútu. Daimler hafði smíðað aflvélar sem gengu fyrir gasi frá árinu 1872. Rúmlega áratug síðar hönnuðu hann og Wilhelm Maybach öflugan brunahreyfil með blöndungi sem gerði þeim kleift að nota bensín sem eldsneyti.

Áður en langt um leið voru þeir búnir að smíða hreyfil sem náði 900 snúningum á mínútu. Þeir bjuggu seinna til annan hreyfil sem þeir settu á reiðhjól og keyrðu í fyrsta skipti 10. nóvember 1885. Árið 1926 sameinuðust fyrirtæki Daimlers og Benz og notuðu vörumerkið Mercedes-Benz. * Athyglisvert er að þessir tveir menn hittust aldrei.

Á verkstæði sínu árið 1890 smíðuðu Frakkarnir Emile Levassor og René Panhard fjögurra hjóla bifreið með hreyfilinn á miðjum undirvagninum. Ári síðar höfðu þeir hreyfilinn að framan því að þar var betra skjól fyrir óhreinindunum af ómalbikuðum vegunum.

Bílar verða almenningseign

Fyrstu bílarnir voru talsvert dýrir og því höfðu fæstir efni á þeim. En það breyttist árið 1908 þegar Henry Ford fór að nota færibandið til að fjöldaframleiða Ford T, þekktur hér á landi sem gamli Ford. Þetta var bylting í bílaframleiðslu. Hann var ódýr, fjölhæfur og það var auðvelt að halda honum við. Fólk með meðaltekjur hafði jafnvel efni á honum. * Ford T „gerði Bandaríkjamönnum, og síðar öllum jarðarbúum, kleift að eignast bíl,“ að sögn bókarinnar Great Cars of the 20th Century.

Núna, næstum einni öld síðar, álíta margir bílinn frekar vera nauðsyn en munað. Í könnun í Lundúnablaðinu Independent kom fram að fólk noti stundum bílinn jafnvel þótt það sé að fara styttri vegalengdir en einn kílómetra.

Tækniframfarir hafa ekki aðeins gert bílana hraðskreiðari heldur einnig öruggari og í mörgum löndum hefur dauðaslysum fækkað á síðustu árum. Sumir kaupendur álíta öryggi í bílum mikilvægara en útlitið. Til dæmis hafa þeir hlutar bílsins, sem falla saman við árekstur, verið bættir þannig að þeir taka mesta höggið og sterkbyggði hlutinn í kringum bílstjórann og farþegana myndar eins konar öryggisrými. Hemlar með læsivörn auðvelda bílstjóranum að hafa stjórn á bílnum í hálku. Við árekstur halda þriggja festu belti bæði bringu og mjöðmum föstum og loftpúðar koma í veg fyrir að höfuðið skelli á stýrinu eða mælaborðinu. *

Það kemur auðvitað ekkert í staðinn fyrir góðar akstursvenjur. „Það er ekki til neins að búa til öruggari bíla ef við ökum ekki almennilega. Háþróaðasti öryggisbúnaður getur ekki einu sinni bjargað okkur ef við brjótum ákveðin náttúrulögmál,“ eins og dagblaðið El Economista í Mexíkóborg bendir á.

Sumir nútímabílar eru eins og heimili á hjólum. Í sumum bílum er geislaspilari, sjónvarp, sími og sérstillingar fyrir hljóðstyrk og hitastig í fram- og aftursætum. Í öðrum eru GPS-staðsetningartæki sem vísa ökumanninum á greiðfærustu leiðina að áfangastað og sum þeirra veita upplýsingar um umferðateppur. Í augum sumra er það auðvitað stöðutákn að eiga nýjustu árgerðina og nýjasta útbúnaðinn sem fylgir — og framleiðendur og auglýsendur hafa ekki látið það fram hjá sér fara.

Eins og við höfum séð hefur bíllinn tekið stakkaskiptum frá því að hann kom fyrst fram á sjónarsviðið fyrir rúmri öld. Ef við notum hann á ábyrgan hátt og gætum fyllsta öryggis í umferðinni getur hann gagnast okkur í vinnu og verið okkur til ánægju og yndisauka.

[Neðanmáls]

^ Emil Jellinek, sem átti stóran hlut í Daimler fyrirtækinu, stakk upp á því að bílarnir yrðu nefndir eftir dóttur sinni, Mercedes. Hann var hræddur um að þýska nafnið, Daimler, drægi úr sölu bílanna í Frakklandi.

^ Ford T kostaði upphaflega 850 bandaríkjadollara en árið 1924 kostaði glænýr Ford ekki nema 260 dollara. Ford T bílarnir voru framleiddir í 19 ár og á því tímabili voru rúmlega 15 milljónir bíla smíðaðar.

^ Ef loftpúðar eru eini öryggisútbúnaðurinn sem notaður er geta þeir verið hættulegir, sérstaklega fyrir börn og lágvaxið fólk.

[Kort/myndir á blaðsíðu 22-25]

Ártölin eru framleiðsluár

Benz-bifreið, 1885

Fyrsti hagnýti bíllinn í heiminum.

Rolls-Royce Silver Ghost, 1907-25

Hraðskreiður, kraftmikill, hljóðlátur, þægilegur og áreiðanlegur.

Ford T, 1908-27

(gamli Ford) Markaði upphaf fjöldaframleiðslu; rúmlega 15.000.000 bíla seldir.

Bakgrunnur: Ford færibandaverksmiðja.

Cadillac V16 7,4-L, 1930-7

Fyrsti og farsælasti bíllinn með 16 strokka hreyfli.

Volkswagen bjalla, 1939–

Rúmlega 20.000.000 framleiddar. Nýja bjallan (neðst til vinstri) kom á markað árið 1998.

Willis jeppi, 1941– 

Hugsanlega þekktasti bíll í heimi.

Porsche 356, 1948-65

Eftir fyrirmynd Volkswagen bjöllu. Velgengni Porsche hófst með þessum bíl.

Mercedes-Benz 300SL, 1952-7

Framúrstefnubíll sem var kallaður Gullwing. Fyrsti bíllinn með eldsneytisinnsprautun.

Citroën DS 19, 1955-68

Var fjögurra gíra og með vökvastýri. Hemlar, gírskipting og sjálfvirk hæðarstilling voru einnig vökvaknúin.

Austin Mini, 1959-

Þessi bíll var vinsæll og frumlegur og stóð sig einnig vel í rallakstri og öðrum kappakstursgreinum.

Ferrari 250 GTO, 1962-4

Mjög góður kappakstursbíll með 300 hestafla V-12 hreyfli.

Datsun 240Z, 1970-3

Áreiðanlegur sportbíll á viðráðanlegu verði.

Range Rover, 1970-

Talinn vera besti fjórhjóladrifni bíllinn sem gerður er bæði fyrir innanbæjarakstur og ógreiðfærar slóðir.

Chrysler fjölnotabíll, 1984-

Jók vinsældir fjölnotabíla.

Thrust SSC

Setti hraðamet (1228 kílómetra á klukkustund) 15. október 1997 í Black Rock eyðimörkinni í Nevada í Bandaríkjunum.

[Credit lines]

Benz-bifreið: DaimlerChrysler Classic; bakgrunnur: Brown Brothers; Ford T: Með góðfúsu leyfi VIP Classics; Rolls-Royce: Með góðfúsu leyfi Rolls-Royce & Bentley Motor Cars.

Willis jeppi: Með góðfúsu leyfi DaimlerChrysler Corporation; svört bjalla: Með góðfúsu leyfi Vintage Motors of Sarasota; gul bjalla: VW Volkswagen AG.

Citroën: © CITROËN COMMUNICATION; Mercedes Benz: PRNewsFoto.

Chrysler fjölnotabíll: Með góðfúsu leyfi DaimlerChrysler Corporation; Datsun: Nissan North America; Thrust SSC: AP Photo/Dusan Vranic.