Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Gildi þess að brosa

Gildi þess að brosa

Gildi þess að brosa

ÞÓTT það vari aðeins stutta stund getur minning þess fylgt þér alla ævi. Það er gífurlega verðmætt, en enginn er svo fátækur að hann geti ekki gefið það eða svo ríkur að hann geti án þess verið. Um hvað er talað? Brosið.

Þegar við brosum dragast vöðvar saman í andlitinu. Augun tindra og munnvikin færast örlítið upp á við og það lýsir ánægju. Barn brosir fyrstu vikurnar eftir fæðingu og það gleður auðvitað nýbakaða og stolta foreldrana. En oft er talað um að bros barnsins þessar fyrstu vikur séu ósjálfráð viðbrögð. Þá brosir barnið oft þegar það dreymir, að sögn sérfræðinga, og það virðist sem þessi viðbrögð tengist tilfinningum og starfsemi miðtaugakerfisins. Þessi ósjálfráðu viðbrögð geta meira að segja birst hjá fullorðnu fólki eftir máltíð eða þegar það hlustar á tónlist.

Þegar barnið er orðið sex vikna fer það að brosa þegar það sér andlit eða heyrir rödd. En ef við brosum af ásettu ráði, hvort sem við erum ungabörn eða fullorðin, þá kemur það okkur í gott skap. Sagt er að slíkt bros hafi jafnvel góð áhrif á líkamlega heilsu okkar. Talkennararnir Mirtha Manno og Rubén Delauro reka skóla sem kallast Smiling and Health (Bros og heilsa) og á að kenna fólki að bæta heilsuna til dæmis með því að brosa. Þau segja að þegar við brosum myndist rafreiti sem hefur áhrif á heiladingulinn. Hann gefur þá frá sér endorfín en það eru efnasambönd í heilanum sem vekja vellíðan.

Önnur góð ástæða til að brosa er sú að það hefur jákvæð áhrif á aðra. Við getum tjáð tilfinningar okkar án orða með einlægu brosi, hvort sem við brosum til að heilsa, sýna samúð eða hvetja. Öðru hverju getur það eitt að horfa á ljósmynd af brosandi barni komið okkur til að brosa.

Vingjarnlegt bros getur verið róandi og hjálpað okkur að ráða betur við vonbrigði og erfiðar kringumstæður. Biblían hvetur: „Synja eigi góðs þeim, er þarfnast þess, ef það er á þínu valdi að gjöra það.“ (Orðskviðirnir 3:27) Já, við getum gert sjálfum okkur og öðrum gott einfaldlega með því að brosa. Við ættum því að leggja okkur fram um að láta aðra njóta góðs af þessari ágætu gjöf og brosa hlýlega.