Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Girðing sem hefur áhrif á veðrið

Girðing sem hefur áhrif á veðrið

Girðing sem hefur áhrif á veðrið

EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í ÁSTRALÍU

EINU sinni skipti hún Vestur-Ástralíu í tvennt frá norðri til suðurs. Þegar girðingin var fullgerð árið 1907 var hún sú lengsta sinnar tegundar í heimi, alls 1830 kílómetrar. Opinbert heiti hennar var Kanínugirðing nr. 1.

Eins og nafnið bendir til var girðingin reist í þeim tilgangi að verjast kanínuplágu sem sótti jafnt og þétt vestur um Ástralíu síðla á 19. öld. Þessi hundrað ára gamla girðing stendur enn að mestu leyti. En á síðustu árum hafa vísindamenn sýnt henni töluverðan áhuga og ástæðan er athyglisverð. Svo virðist sem þessi manngerði tálmi hafi óbein áhrif á veðurfar á svæðinu.

Áður en við könnum hvernig girðing, sem ekki er nema réttur metri á hæð, getur haft áhrif á veðurfar skulum við kynna okkur sögu þessa merkilega mannvirkis.

Vonlaus barátta

Á árabilinu 1901 til 1907 strituðu allt að 400 verkamenn við að reisa Kanínugirðingu nr. 1. „Um 8000 tonn af efni voru flutt í birgðastöðvar, sjóleiðis og með járnbraut, og síðan var efnið flutt áfram á hestum, úlföldum og ösnum út í óbyggðirnar þar sem verið var að reisa girðinguna,“ að því er fram kemur í vefriti landbúnaðarráðuneytis Vestur-Ástralíu.

Verkamennirnir hreinsuðu gróður af þriggja metra breiðu belti beggja vegna girðingarinnar. Trjástofnar, sem til féllu, voru notaðir í girðingarstaura og þar sem engin voru trén voru fluttir að staurar úr málmi. Þegar girðingin var fullgerð myndaði hún bæði vörn gegn kanínum og eins lá meðfram henni eins konar óbyggðavegur þvert yfir meginlandið.

Girðingin beindi kanínunum inn í eins konar réttir þar sem þær drápust. Að því leytinu til verkaði hún eins og risastórt net. En straumurinn til vesturs var stöðugur og sums staðar hrúgaðist upp svo mikið af dauðum dýrum við girðinguna að aðvífandi kanínur áttu greiða leið yfir hana. Því voru reistar tvær girðingar að auki út frá aðalgirðingunni. Samanlagt voru girðingarnar þá orðnar 3256 kílómetra langar.

Lofsvert þolgæði

Fámennur hópur manna hafði þann starfa að líta eftir þessari miklu girðingu. Einn þeirra var Frank H. Broomhall. Hann segir í bók sinni, The Longest Fence in the World: „Það var hlutverk eftirlitsmannanna . . . að viðhalda girðingunni og slóðinni meðfram henni. . . . Þeir hjuggu upp runna og trjágróður svo að beltið meðfram henni væri nægilega breitt, sáu um að hliðin, sem voru með rúmlega 20 mílna [32 kílómetra] millibili, væru í góðu lagi og tæmdu gildrurnar [þar sem kanínurnar söfnuðust fyrir].“

Starf eftirlitsmannanna hlýtur að hafa verið eitthvert það einmanalegasta í heimi. Úlfaldinn var eini félaginn og eftirlitssvæðið virtist teygja sig endalaust út að sjóndeildarhring. Sumir höfðu ekki einu sinni félagsskap úlfaldans því að þeir máttu hossast á reiðhjóli meðfram girðingarpartinum sem þeim var falið að gæta. Nú er ekið á þægilegum fjórhjóladrifsbílum meðfram þeim hlutum girðingarinnar sem standa enn.

Ekki algerlega misheppnuð

Þó að girðingin mikla dygði ekki til að stöðva framrás kanínuplágunnar reyndist hún áhrifarík vörn gegn öðrum skaðvaldi — hinum stórvaxna en ófleyga emúa. Árið 1976 lögðu um 100.000 fuglar í búferlaflutning í átt til hinna frjósömu ræktarlanda vestur af girðingunni. Girðingin stöðvaði framrás þeirra og uppskerunni var borgið, þó að drepa þyrfti eina 90.000 fugla.

Síðan þetta gerðist er búið að styrkja eða færa til 1170 kílómetra af girðingunni til að verja hið viðkvæma ræktarland í Vestur-Ástralíu gegn emúum í ferðahug og villihundum sem flakka saman í hópum. * Girðingin myndar því markalínu milli snyrtilegra akranna í vestri og hinna óbyggðu víðerna austanmegin.

Óvænt áhrif á veðurfar

Hin skörpu skil milli gróðurfars vestan og austan girðingarinnar skýra ef til vill þau áhrif sem hún virðist hafa á veðurfar. Vísindatímaritið The Helix segir: „Þótt ótrúlegt kunni að virðast hefur úrkoma aukist austan við girðinguna en minnkað vestan hennar.“ Hinn náttúrlegi gróður að austanverðu býr því við stöðuga vökvun en bændurnir vestanmegin verða í æ ríkari mæli að treysta á áveitu. Tímaritið bendir á eina hugsanlega ástæðu fyrir þessum breytingum og segir: „Nytjaplönturnar á akuryrkjusvæðunum eru með grunnlægar rætur og virðast gufa út minna vatni en náttúrlegi gróðurinn sem er með djúplægar rætur.“

Tom Lyons, prófessor í loftslagsvísindum, nefnir enn einn orsakaþátt: „Við teljum að náttúrlegi gróðurinn, sem er mun dekkri en ræktarlandið, sleppi meiri varma út í andrúmsloftið sem leiði til . . . ókyrrðar í lofti og skýjamyndunar.“

Kanínuhelda girðingin megnaði að vísu ekki að verja bændur Vestur-Ástralíu fyrir kanínuplágunni, en hún virðist hafa áhrif á veðurfar. Það minnir á hve framsýni er mikilvæg í meðferð lands, og af því má hugsanlega draga ýmsa verðmæta lærdóma.

[Neðanmáls]

^ Girðingin er nú kölluð Ríkisvarnargirðingin.

[Kort á blaðsíðu 28, 29]

(Sjá uppsettan texta í ritinu)

Kanínugirðing nr. 1.

[Mynd á blaðsíðu 29]

Kanínur.

[Mynd á blaðsíðu 29]

Eftirlitsmaður á ferð snemma á 20. öld.

[Mynd á blaðsíðu 29]

Emúar.

[Mynd á blaðsíðu 29]

Kanínugirðing nr. 1 var eitt sinn lengsta samfellda girðing í heimi, alls 1833 kílómetrar. Hún skilur milli eyðimerkur og ræktarlands og hefur þar með áhrif á veðurfar.

[Mynd credit lines á blaðsíðu 29]

Allar litmyndir: Department of Agriculture, Western Australia; efst fyrir miðju: Með góðfúslegu leyfi Battye Library Image number 003582D.