Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Platkrókódílar

„Áhugafiskimönnum er illa við skarfa“ enda er hver fugl sagður geta étið allt að einu kílógrammi af fiski á dag, að því er fram kemur í kanadíska dagblaðinu Calgary Herald. Blaðið segir að bændur og fiskræktendur í Norður-Ameríku hafi nú fundið nýja aðferð til að fæla frá skarfana og aðra fugla sem nærast á fiski. Hún er fólgin í fjögurra metra löngum plastkrókódílum „með tvö lýsandi endurskinsaugu sem minna á árvakra krókódíla í náttúrunni,“ að sögn blaðsins. Líffræðingur hefur komist að raun um að plastkrókódíll, sem marar í hálfu kafi, hrífur sem fuglafæla í um það bil mánuð. Eftir það fara fuglarnir að sjá við blekkingunni og meira að segja „sást bláhegri tylla sér á krókódílinn.“ En þegar krókódíllinn var færður til reyndist hann aftur áhrifarík fuglafæla.

Einelti á vinnustað

„Andleg áreitni“ er meginástæða þess að fólk er fjarverandi frá vinnu á Spáni, segir tímaritið El País Semanal. Meira en tvær milljónir Spánverja hafa orðið fyrir þrálátu einelti á vinnustað. Sálfræðingurinn Iñaki Piñuel segir að fórnarlömbin séu oft duglegir starfsmenn sem veki upp öfund hjá öðrum. Vinnufélagarnir niðurlægja kannski einstaklinginn með því að tefja verkefni hans, útiloka hann frá samræðum, þykjast ekki sjá hann, gagnrýna hann í sífellu eða bera út falskan orðróm sem grefur undan sjálfstrausti hans. „Áætlað er að fimmta hvert sjálfsmorð í Evrópu sé tengt þessu vandamáli,“ segir í greininni. Hvað er hægt að gera? Tímaritið stingur upp á eftirfarandi: „Haltu því ekki leyndu. Leitaðu að sjónarvottum. Skýrðu yfirmönnum fyrirtækisins frá málavöxtum. Kenndu sjálfum þér ekki um. Í versta falli skaltu skipta um deild [eða] vinnu.“

Geðræn vandamál barna

„Allt að 20 prósent barna í heiminum eiga við geðræn vandamál eða hegðunarvandamál að stríða sem gætu haft áhrif á þau það sem eftir er ævinnar,“ segir í Lundúnablaðinu The Independent. Í sameiginlegri skýrslu frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna er greint frá því að þunglyndi, sjálfsvíg og sjálfsmeiðingar hafi aukist „gríðarlega“ meðal unglinga. Þeir sem búa á stríðshrjáðum svæðum eða í löndum þar sem þjóðfélagslegar og fjárhagslegar breytingar eru miklar eru í mestri hættu. Samkvæmt The Independent kom fram í skýrslunni að þunglynd börn „séu líklegri til að eiga við önnur veikindi að stríða eða taka upp hættulega ávana sem gætu stytt líf þeirra.“ Þar var einnig bent á að „um 70 prósent ótímabærra dauðsfalla meðal fullorðinna megi rekja til hátternis sem mótaðist á unglingsárunum, eins og reykinga, drykkju eða eiturlyfjaneyslu.“

Félagsleg einangrun

Nýtt þjóðfélagsfyrirbæri hefur gert vart við sig í Japan, aðallega meðal unglinga og ungs fólks. Það er kallað hikikomori (alger félagsleg einangrun). Athygli almennings var vakin á því þegar rannsakaðir voru margir hrottalegir glæpir sem einangrað ungt fólk hafði framið. „Við rannsókn á lífsstíl lögbrjótanna kom í ljós að það var alls ekki óalgengt að þeir lifðu í einangrun — innilokaðir mánuðum saman í herbergi sínu með aðeins tölvuleiki eða tölvu sem félaga,“ að sögn læknatímaritsins The Lancet. Fleira bendir þó til þess að þessi félagslega einangrun valdi deyfð frekar en ofbeldishneigð. En „menn eru almennt sammála um að þessi sjúkdómur komi til vegna þeirrar tækni, auðlegðar og þæginda sem Japanir lifa við nú á tímum,“ segir læknatímaritið. „Margir sem einangra sig svona nota flestar vökustundir sínar á Netinu eða í tölvuleikjum og fá mat og drykk sendan heim til sín.“ Talið er að um ein milljón unglinga í Japan einangri sig á þennan hátt.