Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig get ég staðist hópþrýsting?

Hvernig get ég staðist hópþrýsting?

Ungt fólk spyr . . .

Hvernig get ég staðist hópþrýsting?

„Hópþrýstingur er alls staðar.“ — Jesse, 16 ára.

„Eitt af því erfiðasta sem ég stóð frammi fyrir í uppvextinum var hópþrýstingur frá skólafélögum mínum.“ — Jónatan, 21 árs.

ÞAÐ er ljóst að hópþrýstingur er afl sem þarf að horfast í augu við. En þú getur samt sem áður staðið gegn honum. Þú getur meira að segja stjórnað honum og jafnvel notað hann þér í hag. En hvernig?

Í síðasta tölublaði Vaknið! var rætt um fyrsta mikilvæga skrefið: Að gera sér grein fyrir því hve mikil áhrif hópþrýstingur getur haft og hvar þú ert veikur fyrir. * Hvað geturðu gert auk þess? Þú þarft á góðri leiðsögn að halda og hana er að finna í orði Guðs. Orðskviðirnir 24:5 segja: „Fróður maður [er] betri en aflmikill.“ Hvaða fróðleikur og þekking getur styrkt þig og gert þér kleift að standast hópþrýsting? Áður en við leitum svara við þeirri spurningu skulum við fjalla um vandamál sem getur gefið hópþrýstingi vald yfir þér.

Öryggisleysi — hætta á ferðum

Stundum finnst unglingum, sem eru vottar Jehóva, hópþrýstingur mjög erfiður viðureignar því að lífsstefna þeirra útheimtir að þeir segi öðrum frá trú sinni. (Matteus 28:19, 20) Finnst þér stundum erfitt að segja öðrum unglingum frá trú þinni? Ef svo er ertu ekki einn á báti. Melanie, sem er 18 ára, segir: „Það var mun erfiðara en ég hélt að segja krökkunum að ég væri vottur.“ Hún bætir við: „Um leið og ég var búin að safna kjarki til að segja að ég væri vottur varð ég aftur hrædd.“ Svo virðist sem neikvæður hópþrýstingur hafi haldið aftur af henni.

Biblían segir frá því að jafnvel menn og konur, sem höfðu einstaka trú, hafi verið hikandi að tala um Guð. Hinn ungi Jeremía vissi til dæmis að hann þyrfti að þola háðsglósur og ofsóknir ef hann hlýddi boði Guðs um að tala af hugrekki. Hann skorti einnig sjálfsöryggi og sagði við Guð: „Sjá, ég kann ekki að tala, því að ég er enn svo ungur.“ Var Jehóva sammála því að Jeremía væri óhæfur að tala sökum ungs aldurs? Nei, Jehóva hughreysti hann og sagði: „Seg ekki: ,Ég er enn svo ungur!‘“ Jehóva hélt sínu striki og lét þennan unga mann fá þýðingarmikið verkefni þrátt fyrir óöryggi hans. — Jeremía 1:6, 7.

Það getur verið mjög erfitt að standa gegn hópþrýstingi ef okkur skortir sjálfstraust eða við erum óörugg með okkur. Rannsóknir hafa gefið þetta til kynna. Vísindamaður að nafni Muzafer Sherif stýrði til dæmis frægri tilraun árið 1937. Hann lét fólk vera í dimmu herbergi, sýndi því ljósdepil og spurði það síðan hve langt ljósdepillinn færðist til.

Ljósdepillinn hafði í raun ekkert færst til, þetta var aðeins sjónvilla. Þegar fólkið var prófað einslega sagði það frá því hve langt það héldi að depillinn hefði færst til. En síðan var það prófað í hóp og beðið um að segja upphátt hvað því fannst. Hvernig fór? Fólkið hafði áhrif hvert á annað þar sem það treysti ekki alveg sinni eigin skynjun. Það var prófað aftur og aftur og smám saman urðu svör þess sífellt líkari þar til hópurinn hafði komið sér saman um ákveðið meðalgildi. Þessir einstaklingar voru síðan prófaðir aftur einslega og voru þá jafnvel enn undir áhrifum af sameiginlegri skoðun hópsins.

Þessi tilraun undirstrikar mikilvægt atriði. Þegar við erum óörugg eða okkur skortir sjálfstraust verðum við næmari fyrir hópþrýstingi. Þetta er umhugsunarvert. Hópþrýstingur getur nefnilega haft áhrif á fólk þegar kemur að mjög mikilvægum málum svo sem viðhorfi þess til kynlífs fyrir hjónaband, fíkniefnaneyslu og jafnvel markmiðum þess í lífinu. Ef við tileinkum okkur ,meðalgildi hópsins‘ í þess konar málum gæti það haft mikil áhrif á framtíð okkar. (2. Mósebók 23:2) Hvað er til ráða?

Hvernig heldurðu að þér hefði gengið á prófinu hefðir þú vitað fyrir víst að ljósdepillinn var hreyfingarlaus? Líklega hefðirðu ekki orðið fyrir áhrifum af hópnum. Við þurfum augljóslega að hafa hæfilegt traust á sjálfum okkur. En við þurfum líka að treysta Guði.

Treystu á Jehóva

Þú heyrir ef til vill mikið talað um að byggja upp sjálfstraust. Það eru hins vegar ekki allir sammála um það hvernig það er gert, og hversu mikið sjálfstraust maður þarf. Í Biblíunni er að finna þessar öfgalausu leiðbeiningar: „Ég [segi] yður hverjum og einum að hugsa ekki hærra um sig en hugsa ber, heldur í réttu hófi.“ (Rómverjabréfið 12:3) Önnur biblíuþýðing segir: „Ég segi hverjum og einum ykkar að meta sig ekki ofar raunverulegu gildi sínu, heldur að leggja skynsamlegt mat á sjálfan sig.“ — Charles B. Williams.

„Skynsamlegt mat“ á „raunverulegu gildi“ þínu forðar þér frá því að verða hégómlegur, sjálfsánægður eða yfirmáta montinn. Á hinn bóginn felur það í sér að þú treystir að vissu marki á hæfni þína til að hugsa, álykta og taka skynsamlegar ákvarðanir. Skaparinn gaf þér hæfileikann til að rökhugsa og það er ekki lítil gjöf. (Rómverjabréfið 12:1, NW) Með því að hafa það í huga áttu auðveldara með að forðast tilhneiginguna að láta aðra taka ákvarðanir fyrir þig. En það er annars konar traust sem verndar þig jafnvel enn meira.

Davíð konungi var innblásið að skrifa: „Þú ert von mín, þú, Drottinn, ert athvarf mitt frá æsku.“ (Sálmur 71:5) Davíð setti allt sitt traust á himneskan föður sinn og það hafði hann gert frá barnæsku. Hann var aðeins „ungmenni,“ kannski táningur, þegar Filistarisinn Golíat skoraði á ísraelska hermenn í einvígi. Hermennirnir urðu hræddir. (1. Samúelsbók 17:11, 33) Ef til vill kom upp neikvæður hópþrýstingur meðal þeirra. Eflaust hafa menn talað af svartsýni um stærð hans, hreysti og hugrekki. Enginn heilvita maður tæki slíkri áskorun. Davíð lét þess konar þrýsting ekki hafa nein áhrif á sig. Hvers vegna?

Taktu eftir því sem Davíð sagði við Golíat: „Þú kemur á móti mér með sverð og lensu og spjót, en ég kem á móti þér í nafni Drottins allsherjar, Guðs herfylkinga Ísraels, sem þú hefir smánað.“ (1. Samúelsbók 17:45) Davíð var ekki blindur fyrir stærð, styrk og vopnabúnaði Golíats. En það var nokkuð sem hann vissi eins vel og nótt fylgir degi. Hann vissi að Golíat var ekkert í samanburði við Jehóva. Hvers vegna ætti Davíð að hræðast Golíat ef Jehóva var með honum? Davíð var öruggur vegna þess að hann treysti á Guð. Hópþrýstingur, í hvaða mæli sem var, gat ekki haft áhrif á hann.

Treystir þú Jehóva á svipaðan hátt? Hann hefur ekkert breyst síðan á dögum Davíðs. (Malakí 3:6; Jakobsbréfið 1:17) Því meira sem þú lærir um hann, þeim mun sannfærðari verður þú um allt sem hann segir þér í orði sínu. (Jóhannes 17:17) Þar er að finna óbreytanlega og áreiðanlega staðla sem leiðbeina þér í lífinu og hjálpa þér að standa gegn hópþrýstingi. En það er nokkuð annað sem þú getur gert auk þess að treysta á Jehóva.

Veldu þér góða ráðgjafa

Orð Guðs leggur áherslu á nauðsyn þess að leita eftir góðri leiðsögn. „Hinn hyggni nemur hollar lífsreglur,“ segja Orðskviðirnir 1:5. Foreldrum þínum er afar umhugað um velferð þína og þeir geta gefið þér holl og góð ráð. Indira þekkir þetta mætavel. Hún segir: „Ástæðan fyrir því að ég geng núna á vegi sannleikans er sú að foreldrar mínir notuðu alltaf Biblíuna þegar þeir rökræddu við mig og gerðu Jehóva raunverulegan fyrir mér.“ Mörgum unglingum er svipað innanbrjósts.

Ef þú tilheyrir kristna söfnuðinum geturðu fengið mikinn stuðning frá útnefndum umsjónarmönnum eða öldungum, ásamt öðrum þroskuðum safnaðarmönnum. Ung stúlka, Nadia að nafni, segir: „Ég leit mjög mikið upp til öldunganna í söfnuðinum mínum. Ég man eftir því þegar umsjónarmaður í forsæti flutti ræðu sem var sérsniðin fyrir unglingana. Eftir samkomuna voru ég og vinkona mín mjög ánægðar því að okkur fannst við vera að ganga í gegnum það sama og fram kom í ræðunni.“

Annað vopn í baráttunni gegn neikvæðum hópþrýstingi er jákvæður hópþrýstingur. Ef þú velur þér góða vini geta þeir hjálpað þér að halda fast í verðug markmið og rétta staðla. Hvernig getum við valið vel? Hafðu eftirfarandi ráðleggingar í huga: „Haf umgengni við vitra menn, þá verður þú vitur, en illa fer þeim, sem leggur lag sitt við heimskingja.“ (Orðskviðirnir 13:20) Nadia valdi sér vitra vini í skólanum, trúsystkini sín sem fylgdu sömu siðferðisstöðlum og hún. Hún segir: „Þegar strákarnir í skólanum komu til að ,tala‘ við okkur reiddum við okkur á stuðning hvert annars.“ Góðir vinir geta kallað fram það besta í okkur. Það þarf að leggja nokkuð á sig til að finna þá en það er þess virði.

Þú getur því verið fullviss um að standast hópþrýsting ef þú treystir á Jehóva, sækist eftir leiðsögn þroskaðra safnaðarmanna og velur vini þína viturlega. Og þú getur meira að segja átt þátt í jákvæðum hópþrýstingi og þannig hjálpað vinum þínum að halda sig á veginum til lífsins ásamt þér.

[Neðanmáls]

^ Sjá greinina „Hópþrýstingur — hefur hann einhver áhrif?“ í Vaknið! janúar-mars 2003.

[Innskot á blaðsíðu 14]

Aflaðu þér góðra vina sem elska Guð og staðla hans líkt og þú gerir.

[Myndir á blaðsíðu 14]

„Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ — 1. Korintubréf 15:33.

„Haf umgengni við vitra menn, þá verður þú vitur.“ — Orðskviðirnir 13:20.