Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sérhæfileikar mannsins

Sérhæfileikar mannsins

Sérhæfileikar mannsins

‚Vísindamaðurinn rannsakar náttúruna vegna þess að hann hefur yndi af henni, og hann hefur yndi af henni vegna þess að hún er fögur.‘ — JULES-HENRI POINCARÉ, FRANSKUR VÍSINDAMAÐUR OG STÆRÐFRÆÐINGUR (1854-1912).

POINCARÉ dáðist mjög að fegurð náttúrunnar, sérstaklega „hinni djúpstæðari fegurð“ sem felst í þeirri reglu og því samræmi sem höfðar til vísindamannsins. En það er ekki nauðsynlegt að vera vísindamaður til að kunna að meta fegurð og samræmi umheimsins. Sálmaskáldið Davíð var djúpt snortið af sköpunarverkinu, einkum hönnun mannslíkamans. Hann sagði í bæn fyrir 3000 árum: „Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel.“ — Sálmur 139:14.

Það er aðeins maðurinn sem getur fundið til slíkrar undrunar og lotningar. Þar skilur milli hans og jafnvel greindustu dýra. En áhugi okkar á náttúrunni er djúpstæðari en þetta. Hugsandi fólk á öllum tímum hefur spurt: Hvernig eru furðuverk lífheimsins tilkomin? Hvers vegna er sköpunarverkið eiginlega til? Og hvaða hlutverki gegnum við í öllu þessu? Þótt við beitum öllu afli vísindanna og ýtrustu sjálfsskoðun fáum við ekki svör við þessum spurningum. Biblían, sem er innblásin af Guði, gefur hins vegar fullnægjandi svör. — 2. Pétursbréf 1:20, 21.

Þessi forna helgibók bendir á að hið einstæða manneðli stafi af því að við séum sköpuð „eftir Guðs mynd“ — í merkingunni að við getum endurspeglað persónueinkenni skaparans, þótt ekki sé það fullkomlega. (1. Mósebók 1:27) Þess vegna getum við sýnt djúpsæja visku þó að við höfum ekki augu arnarins. Við heyrum ekki nándar nærri jafn vel og leðurblakan en við njótum hins vegar samræðna, tónlistar og ljúfra tóna náttúrunnar. Og þó að við höfum ekki innbyggðan áttavita getum við fundið besta leiðarvísi lífsins í helgu orði Guðs. — Orðskviðirnir 3:5, 6.

Að við skulum vera sköpuð eftir mynd Guðs skýrir jafnframt hvers vegna við erum eina lífveran sem hefur andlegar þarfir. „Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði,“ sagði Jesús, „heldur á hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni.“ (Matteus 4:4) Nærist þú reglulega á hressandi orðum hans?

Ef við nærum okkar andlega mann vel með orði Guðs getum við aukið okkur skilning og innsæi, óháð þeim takmörkum sem skilningarvitum líkamans eru sett. Hvernig þá? Með því að byggja upp trú okkar. Ósvikin trú, byggð á Biblíunni, gerir okkur kleift að „sjá“ hinn ósýnilega Guð rétt eins og Móse gerði, og einnig að bera skyn á framtíðarásetning hans. — Hebreabréfið 11:1, 27.

Fögur framtíð þeirra sem „sjá“ Guð

Biblían kennir að skaparinn, Jehóva Guð, elski jörðina og allt sem lifir á henni, sér í lagi guðhrædda menn. Þess vegna hefur hann lofað að uppræta alla vonda menn, einnig þá sem ‚eyða jörðina‘ í ágirnd sinni. (Opinberunarbókin 11:18; Sálmur 37:10, 11; 2. Þessaloníkubréf 1:8) Síðan veitir hann þeim sem elska hann og hlýða honum eilíft líf. Þeir eiga svo þátt í því að breyta allri jörðinni í paradís sem verður iðandi af lífi. Þetta er fögur framtíðarsýn. — Lúkas 23:43.

Hugsaðu þér hvað þú getur gert og hvað þú getur lært þegar þú lifir endalaust og ert fullkomlega heilbrigður. „Náttúran . . . býr alltaf yfir óþrjótandi nýjungum, auðgi og fegurð,“ segir vísindamaður. Biblían orðar það þannig: „Allt hefir [Guð] gjört hagfellt á sínum tíma, jafnvel eilífðina hefir hann lagt í brjóst þeirra, aðeins fær maðurinn ekki skilið það verk, sem Guð gjörir, frá upphafi til enda.“ — Prédikarinn 3:11.

Hvernig getur þú fengið að búa í paradísinni sem Biblían lýsir? Með því að kynna þér ásetning Guðs núna og fara síðan eftir því sem þú lærir. „Það er hið eilífa líf,“ sagði Jesús, „að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ — Jóhannes 17:3.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Notaðu skilningarvitin til að læra að meta og þekkja skaparann.

[Mynd á blaðsíðu 11]

Biblíulestur er besta leiðin til að kynnast skaparanum.