Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Trúarstaðfesta í prófraunum á nasistatímanum í Evrópu

Trúarstaðfesta í prófraunum á nasistatímanum í Evrópu

Trúarstaðfesta í prófraunum á nasistatímanum í Evrópu

ANTON LETONJA SEGIR FRÁ

Tólfta mars árið 1938 fór herlið Hitlers yfir landamæri Austurríkis. Hergöngulög og pólitísk slagorð gullu í útvarpstækjunum. Ættjarðarástin flæddi yfir föðurland mitt, Austurríki.

EFTIR valdatöku Hitlers ríkti bjartsýni í Austurríki. Margir vonuðu að fátækt og atvinnuleysi yrði úr sögunni með „Þúsundáraríkinu.“ Kaþólskir prestar drógust meira að segja inn í þá ættjarðarástríðu sem greip um sig meðal þjóðarinnar og heilsuðu með hitlerskveðjunni.

Þótt ég væri aðeins 19 ára var ég ekki hallur undir loforð Hitlers. Ég hafði ekki trú á að nokkur mannleg ríkisstjórn gæti leyst vandamál mannkynsins.

Kynni af sannleika Biblíunnar

Ég fæddist 19. apríl 1919 í borginni Donawitz í Austurríki, þriðja og yngsta barnið í fjölskyldunni. Pabbi vann hörðum höndum sem kolanámuverkamaður. Árið 1923 fór hann með okkur fjölskylduna til Frakklands þar sem hann fékk vinnu í kolanámuborginni Liévin. Vegna pólitískrar sannfæringar sinnar var hann á verði gagnvart trúarbrögðum en mamma var heittrúaður kaþólikki. Hún ól okkur börnin upp í trú á Guð og fór með bænir með okkur á hverju kvöldi. Með tímanum jókst vantraust pabba svo mikið á trúarbrögðum að hann bannaði mömmu að sækja kirkju.

Síðla á þriðja áratugnum hittum við Vinzenz Platajs, sem við kölluðum Vinko, unglingspilt af júgóslavnesku bergi brotinn. Hann tengdist Biblíunemendunum eins og Vottar Jehóva voru þá kallaðir. Stuttu síðar fór einn af Biblíunemendunum að heimsækja fjölskyldu okkar. Þar sem pabbi hafði bannað mömmu að sækja kirkju spurði hún Vinko hvort hægt væri að tilbiðja Guð á eigin heimilum. Hann benti á Postulasöguna 17:24 þar sem segir að Guð ‚búi ekki í musterum, sem með höndum eru gjörð,‘ og útskýrði að heimilið væri viðeigandi staður til að tilbiðja hann. Hún var ánægð og byrjaði að sækja samkomur heima hjá Biblíunemendunum.

Pabbi krafðist þess að hún hætti þessari vitleysu eins og hann kallaði það. Til að koma í veg fyrir að við umgengjumst Biblíunemendurna heimtaði hann að við sæktum öll messu á sunnudögum. Þar sem mamma neitaði staðfastlega að fara var pabbi ákveðinn í að ég skyldi þjóna sem altarisdrengur. Þótt mamma virti óskir pabba að þessu leyti hélt hún áfram að festa meginreglur Biblíunnar í hjarta mér og huga og taka mig með sér á samkomur Biblíunemendanna.

Vinko og systir mín, Josephine — eða Pepi eins og við kölluðum hana — skírðust niðurdýfingarskírn árið 1928 til tákns um að þau væru vígð Jehóva. Seinna gengu þau í hjónaband. Árið eftir fæddist þeim dóttirin Fini í Liévin. Þremur árum síðar var þeim boðið að hefja þjónustu í fullu starfi í Júgóslavíu þar sem starf vottanna var takmörkum háð. Þrátt fyrir margs konar erfiðleika dró ekkert úr gleði þeirra og brennandi áhuga í þjónustu Jehóva. Gott fordæmi þeirra glæddi með mér löngun til að verða boðberi í fullu starfi.

Andlegur vöxtur

Því miður leiddi skoðanamunur foreldra okkar til hjónaskilnaðar árið 1932. Ég sneri aftur til Austurríkis með mömmu en eldri bróðir minn, Wilhelm (Willi), var um kyrrt í Frakklandi. Eftir þetta hafði ég lítið samband við pabba. Hann var andsnúinn okkur allt til dauðadags.

Við mamma settumst að í þorpinu Gamlitz í Austurríki. Engir söfnuðir voru í grenndinni en mamma ræddi að staðaldri við mig um efni í biblíutengdum ritum. Sem betur fer kom Eduard Wohinz hjólandi heim til okkar frá Graz tvisvar sinnum í mánuði til að veita andlega uppörvun, en vegalengdin var nærri því 100 kílómetrar hvora leið!

Í upphafi ógnarstjórnar Hitlers 1938 var bróðir Wohinz handtekinn. Við urðum harmi slegin að frétta að hann hefði verið deyddur með gasi á stofnun í Linz þar sem líknardráp voru framin. Framúrskarandi trú hans styrkti okkur í að þjóna Jehóva trúfastlega.

1938 — örlagaríkt ár

Starf vottanna hafði verið bannað í Austurríki árið 1935. Þegar herlið Hitlers fór inn í Austurríki 1938 varð boðunarstarfið mjög áhættusamt. Nágrannarnir vissu að við mamma vorum vottar Jehóva svo að við ákváðum að láta lítið á okkur bera. Ég fór meira að segja að halda til í hlöðu á næturnar til að gera nasistunum erfiðara fyrir að hafa hendur í hári mínu.

Snemma árs 1938 hafði ég lokið við grunnmenntunina og byrjað að vinna í bakaríi. Þar sem ég neitaði að segja „Heil Hitler“ eða ganga í Hitlersæskuna var ég rekinn úr starfi. En ég varð staðráðnari í því en nokkru sinni fyrr að vígja mig Jehóva Guði og skírast niðurdýfingarskírn.

Við mamma vorum skírð 8. apríl 1938. Eina nóttina söfnuðust við og sjö aðrir saman í afskekktum kofa úti í skógi. Eftir skírnarræðuna gengum við hvert af öðru, með tíu mínútna millibili, niður mjóan stíg að þvottahúsinu. Þar vorum við skírð í steinsteyptu keri.

Tíunda apríl 1938 voru haldnar sýndarkosningar um innlimun Austurríkis í Þýskaland. Ákallið „Já, fyrir Hitler“ birtist á veggspjöldum landshorna á milli. Við mamma þurftum ekki að kjósa þar sem við vorum ríkisfangslaus eftir langa dvöl í Frakklandi og það átti eftir að bjarga lífi mínu síðar. Franz Ganster frá Klagenfurt í sunnanverðu Austurríki kom reglulega með eintök af Varðturninum til okkar. Þannig gátum við fengið andlegan styrk frá orði Guðs áður en síðari heimsstyrjöldin skall á.

Willi, bróðir minn

Willi, sem var fjórum árum eldri en ég, hafði ekki haft samband við okkur mömmu frá því við fórum frá Frakklandi rúmum níu árum áður. Þótt mamma hafi lesið með honum í Biblíunni þegar hann var ungur að árum lét hann telja sér trú um að stjórnmálaáætlun Hitlers væri lykillinn að stórkostlegri framtíð. Í maí 1940 dæmdi franskur dómstóll Willi í tveggja ára fangelsi fyrir ólöglega starfsemi sem nasisti. En honum var bráðlega sleppt þegar þýskt herlið réðst inn í Frakkland. Við það tækifæri sendi hann okkur kort frá París. Það gladdi okkur að frétta að hann væri á lífi en eigi að síður fékk það á okkur að heyra hvers konar maður hann væri orðinn.

Meðan á stríðinu stóð gat Willi heimsótt okkur oft vegna góðrar stöðu sinnar innan SS-sveitanna (Schutzstaffel, sérsveita Hitlers). Hann var blindaður af hernaðarvelgengni Hitlers. Næstum allar tilraunir mínar til að beina athygli hans að biblíutengdri von okkar enduðu með því að hann sagði: „Þvaður, líttu á leifturstríð Hitlers. Þjóðverjar munu bráðlega drottna yfir heiminum!“

Í febrúar 1942, þegar Willi var í einu af fríunum heima, sýndi ég honum bókina Enemies (Óvinir) sem Vottar Jehóva gáfu út. Mér til mikillar undrunar las hann hana í einni lotu. Það fór að renna upp fyrir honum að stjórn Hitlers var dæmd til að misheppnast. Hann hafði verið að styðja ómannúðlegt kerfi og var ákveðinn í að leiðrétta villu sína tafarlaust.

Afstaða Willis til sannleika Biblíunnar

Þegar Willi heimsótti okkur mánuði seinna var hann gerbreyttur maður. Hann sagði: „Anton, ég tók ranga stefnu!“

„Willi,“ sagði ég, „það er nú fullseint að átta sig á þessu núna.“

„Nei,“ svaraði hann, „það er ekki of seint! Í Biblíunni stendur‚ að maður eigi að gera það sem maður á að gera meðan maður er á lífi, og ég lofa Guð fyrir að ég er enn á lífi!“ — Prédikarinn 9:10.

„Og hvað ætlarðu eiginlega að gera?“ spurði ég.

„Nú, ég ætla ekki að vera áfram í hernum,“ svaraði hann. „Ég ætla að slíta sambandinu við nasistana og sjá hvað gerist.“

Hann fór strax til Zagreb í Júgóslavíu til að hitta systur okkar, Pepi, einu sinni enn. Þegar hann hafði sótt óleyfilegar samkomur vottanna þar um tíma var hann skírður með leynd. Loksins hafði glataði sonurinn snúið til baka. — Lúkas 15:11-24.

Til þess að komast undan nasistunum í Frakklandi reyndi Willi að fara yfir landamæri Sviss. En hann var tekinn fastur af þýsku herlögreglunni. Hann var dreginn fyrir herdómstólinn í Berlín og 27. júlí 1942 var hann dæmdur til dauða fyrir liðhlaup. Mér var leyft að heimsækja hann í herfangelsið í Tegel í Berlín. Farið var með mig inn í lítið herbergi og innan skamms kom Willi, hlekkjaður við vörð. Ég táraðist þegar ég sá hann í þessu ástandi. Við máttum ekki faðmast og höfðum aðeins 20 mínútur til þess að kveðjast.

Willi tók eftir tárunum og sagði: „Anton, hvers vegna ertu að gráta? Þú ættir að vera glaður! Ég er svo þakklátur Jehóva fyrir að hafa hjálpað mér að finna sannleikann aftur. Ef ég ætti að deyja fyrir Hitler hefði ég enga von. En með því að deyja fyrir Jehóva er ég viss um að verða reistur upp og að við eigum eftir að hittast aftur!“

Í kveðjubréfi sínu til okkar skrifaði Willi: „Elskulegur Guð okkar, sem ég þjóna, veitir mér allt sem ég þarfnast og mun vissulega standa með mér allt til enda svo að ég standist og fari með sigur af hólmi. Ég endurtek, þið getið verið viss um að ég sé ekki eftir neinu og að ég hef verið Guði trúr.“

Willi var líflátinn daginn eftir í hegningarhúsinu í Brandenburg, nálægt Berlín, 2. september 1942. Hann var 27 ára. Fordæmi hans ber vitni um sannleikann í orðunum í Filippíbréfinu 4:13: „Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.“

Vinko var trúfastur allt til dauða

Þýski herinn hafði ráðist inn í Júgóslavíu 1941 sem varð til þess að Pepi, Vinko eiginmaður hennar og Fini dóttir þeirra, sem var 12 ára, neyddust til að fara aftur heim til Austurríkis. Þá höfðu flestir vottanna í Austurríki verið hnepptir í fangelsi eða fangabúðir. Þar sem þau voru ríkisfangslaus — með öðrum orðum, ekki þýskir ríkisborgarar — voru þau látin vinna nauðungarvinnu á bóndabæ í sunnanverðu Austurríki, í námunda við heimili okkar.

Síðar, 26. ágúst 1943, handtók Gestapó (leynilögregla nasista) Vinko. Þegar Fini reyndi að kveðja föður sinn sló yfirlögregluþjónninn hana svo harkalega að hún þeyttist í hinn enda herbergisins. Gestapó yfirheyrði Vinko oft og barði hann hrottalega og farið var með hann í Stadelheim-hegningarhúsið í München.

Lögreglan tók mig fastan 6. október 1943 þar sem ég var að vinna og ég var einnig sendur í Stadelheim-hegningarhúsið þar sem Vinko var. Þar sem ég talaði frönsku reiprennandi var ég notaður sem túlkur fyrir franska stríðsfanga. Á gönguferðum um fangelsissvæðið höfðum við Vinko tækifæri til að skiptast á fréttum.

Um síðir var Vinko dæmdur til dauða. Hann var ákærður fyrir að útvega vottunum biblíutengd rit og veita eiginkonum þeirra votta, sem voru í fangabúðum, fjárhagsaðstoð. Hann var fluttur í sama hegningarhúsið í nágrenni Berlínar og Willi hafði verið í þegar hann var tekinn af lífi. Þar var hann hálshöggvinn 9. október 1944.

Síðasti fundur Vinkos með eiginkonu sinni og dóttur var átakanlegur. Þær komu að honum hlekkjuðum og hann hafði verið lúbarinn; það var erfitt fyrir hann að taka utan um þær vegna hlekkjanna. Fini var 14 ára þegar hún sá föður sinn í síðasta sinn. Hún man enn síðustu orðin sem hann sagði: „Annastu mömmu þína, Fini!“

Eftir dauða föður síns var Fini hrifsuð frá móður sinni og henni komið fyrir hjá nasistafjölskyldu sem reyndi að „siðbæta“ hana. Hún var oft barin hrottalega. Þegar rússneskt herlið kom inn í Austurríki var þýska fjölskyldan, sem hafði leikið hana svo grátt, skotin. Þeir litu á fjölskylduna sem illræmda nasista.

Eftir stríðið hélt systir mín áfram að vera boðberi í fullu starfi. Hún starfaði við hlið seinni eiginmanns síns, Hans Förster, á svissnesku deildarskrifstofu Votta Jehóva til dauðadags 1998. Fini hefur fetað í fótspor foreldra sinna og þjónar nú hinum sanna Guði, Jehóva, í Sviss.

Loksins frelsi!

Snemma árs 1945 var fangelsi okkar í München meðal þeirra bygginga sem varð fyrir sprengjuárásum. Borgin lá í rúst. Ég hafði þegar verið hálft annað ár í fangelsi er dagurinn rann loksins upp þegar réttað var í máli mínu fyrir dómstóli. Það var aðeins tveim vikum áður en stríðinu lauk opinberlega, 8. maí 1945. Á meðan á yfirheyrslunni stóð var ég spurður: „Ertu fús til að gegna herþjónustu?“

„Fanga er hvorki leyft að klæðast einkennisbúningi né segja ‚Heil Hitler,‘“ svaraði ég. Þegar ég var spurður hvort ég væri fús til að þjóna í þýska hernum sagði ég: „Viljiði rétta mér herkvaðninguna og þá mun ég skýra ykkur frá ákvörðun minni!“

Nokkrum dögum síðar lauk stríðinu og mér var sagt að ég væri frjáls ferða minna. Skömmu síðar flutti ég til Graz þar sem stofnaður var lítill söfnuður með 35 vottum. Núna starfa átta söfnuðir í Graz og svæðunum þar í kring.

Ástrík hjálparhella

Skömmu eftir að stríðinu lauk hitti ég Helene Dunst, unga kennslukonu sem hafði verið í nasistaflokknum. Nasistahreyfingin hafði valdið henni algerum vonbrigðum. Í fyrsta samtalinu sem ég átti við hana sagði hún: „Hvernig stendur á því að einungis þið vitið að Guð heitir Jehóva en ekki aðrir?“

„Af því að flestir rannsaka ekki Biblíuna,“ svaraði ég. Síðan sýndi ég henni nafn Guðs í Biblíunni.

„Fyrst Biblían segir að nafn Guðs sé Jehóva þá ættum við að segja öllum frá því!“ hrópaði hún upp yfir sig. Helene fór að boða sannleika Biblíunnar og ári síðar gaf hún tákn um vígslu sína til Jehóva með niðurdýfingarskírn. Við gengum í hjónaband 5. júní 1948.

Fyrsta apríl 1953 urðum við boðberar í fullu starfi. Um síðir var okkur boðið að fara í 31. bekk í Biblíuskólanum Gíleað í South Lansing í New York. Þar nutum við svo sannarlega uppörvandi félagsskapar nemenda frá 64 mismunandi löndum.

Eftir að við útskrifuðumst vorum við send aftur til Austurríkis. Í nokkur ár var starf okkar fólgið í því að heimsækja söfnuði til að veita þeim andlegan styrk. Þá var okkur boðið að starfa við deildarskrifstofu Votta Jehóva í Lúxemborg. Síðar vorum við beðin um að flytja til deildarskrifstofunnar í Austurríki sem var staðsett í Vín. Árið 1972, meðan við störfuðum þar, fórum við að læra serbó-króatíska tungumálið til þess að vitna fyrir fjölda júgóslavneskra verkamanna sem höfðu flust til Vínar. Núna eru átta söfnuðir hér í Vín þar sem töluð er serbó-króatíska en fólkið þar kemur frá nærri öllum landshlutum í Evrópu.

Helene andaðist 27. ágúst 2001. Hún hafði reynst dygg og dýrmæt hjálparhella og félagi þau 53 ár sem við vorum í hjónabandi. Núna er vonin um upprisuna mér enn dýrmætari.

Ánægður í kærleika Guðs

Þrátt fyrir þá sorg sem ég hef orðið að þola er ég samt enn ánægður með starf mitt á deildarskrifstofunni í Austurríki. Nýlega hef ég fengið þau sérréttindi að greina frá persónulegri reynslu í sambandi við sýninguna „Gleymd fórnarlömb nasista.“ Frá 1997 hefur þessi sýning verið haldin í 70 borgum og bæjum í Austurríki og gefið eftirlifandi sjónarvottum, sem voru í fangelsum og fangabúðum nasista, þar með tækifæri til að segja frá þeirri trú og því hugrekki sem sannkristnir menn sýndu í ofsóknum nasista.

Ég lít á það sem sérréttindi að hafa þekkt svo trúfast fólk af eigin raun. Á eftirtektarverðan hátt bar það sannleikanum í Rómverjabréfinu 8:38, 39 vitni: „Því að ég er þess fullviss, að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt, né nokkuð annað skapað muni geta gjört oss viðskila við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú Drottni vorum.“

[Mynd á blaðsíðu 17]

Fjölskyldan árið 1930 (frá vinstri til hægri): Ég, Pepi, pabbi, Willi, mamma og Vinko.

[Mynd á blaðsíðu 18]

Willi bróðir skömmu áður en hann var tekinn af lífi.

[Mynd á blaðsíðu 19]

Við Vinko vorum báðir um tíma í Stadelheim-hegningarhúsinu í München.

[Myndir á blaðsíðu 19]

Fini, dóttur Vinko, var komið fyrir hjá hrottafenginni nasistafjölskyldu; Fini er trúföst enn í dag.

[Mynd á blaðsíðu 20]

Helene var dýrmætur félagi í 53 ára hjónabandi okkar.

[Mynd á blaðsíðu 20]

Ég að flytja fyrirlestur á sýningunni „Gleymd fórnarlömb nasista.“