Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Undraverð skilningarvit dýranna

Undraverð skilningarvit dýranna

Undraverð skilningarvit dýranna

MÚSIN telur sig óhulta er hún skýst um í myrkrinu í leit að æti. En hún reiknar ekki með holusnáknum sem getur „séð“ varmaútgeislunina frá heitum líkama hennar. Mistökin kosta músina lífið. Flyðra liggur falin undir sandi í botninum á stóru hákarlabúri. Hungraður hákarl kemur syndandi í áttina til hennar. Hann staðnæmist skyndilega þó að hann sjái ekki flyðruna, rekur trýnið ofan í sandinn og gleypir bráð sína.

Holusnákurinn og hákarlinn eru dæmi um dýr með sérhæfð skynfæri sem við mennirnir höfum ekki. Mörg dýr eru hins vegar með skynfæri sem líkjast skynfærum okkar en eru næmari eða með breiðara skynsvið en okkar. Augun eru gott dæmi um það.

Augu sem sjá ólíkan heim

Það litasvið, sem mannsaugað nemur, er aðeins agnarlítið brot af rafsegulrófinu. Við sjáum til dæmis ekki innrauða geislun sem er með lengri bylgjulengd en rautt ljós. Holusnákar eru hins vegar með tvö líffæri á milli augnanna og nasanna sem nema innrauða geislun. * Þess vegna geta þeir miðað nákvæmlega út smádýr með jafnheitt blóð og veitt þau, jafnvel í myrkri.

Handan við fjólubláa enda sýnilega litrófsins er útfjólublá geislun. Mörg dýr, meðal annars fuglar og skordýr, sjá útfjólubláa geislun þó að mannsaugað greini hana ekki. Býflugur staðsetja sig miðað við sól, og jafnvel þegar hálfskýjað er og ekki sést til sólar geta þær skynjað mynstur frá útfjólublárri geislun á skýlausum bletti á himni. Margar blómplöntur eru með mynstur sem sést aðeins í útfjólubláu ljósi, og til eru blóm sem eru jafnvel með „leiðarmerki“ til að vísa skordýrum á hunangslöginn. Leiðarmerkin eru þannig gerð að vissir fletir á krónublöðunum endurkasta mjög litlu útfjólubláu ljósi í samanburði við aðra fleti. Til eru ávextir og fræ sem auglýsa sig fyrir fuglum með áþekkum hætti.

Fuglar sjá útfjólubláa geislun sem eykur ljómann af fjaðrabúningi þeirra þannig að þeir eru sennilega skrautlegri í augum hver annars en í augum okkar. Þeir hafa „svo næmt litaskyn að við getum ekki ímyndað okkur það,“ segir fuglafræðingur. Hugsanlegt er að útfjólubláa sjónin auðveldi sumum hauka- og fálkategundum að finna akurmýs. Hvernig þá? Tímaritið BioScience bendir á að „þvag og saur karldýra akurmúsarinnar innihaldi efni sem drekka í sig útfjólubláa geislun, og að akurmýsnar merki slóð sína með þvagi.“ Þannig geta fuglarnir „fundið svæði þar sem mikið er af akurmús“ og einbeitt sér að þeim.

Hvers vegna er sjón fuglanna svona skörp?

Fuglar hafa einstaklega skarpa sjón. „Aðalástæðan er sú að fuglar eru með fleiri sjónfrumur í sjónhimnu augans en önnur dýr,“ að sögn bókarinnar All the Birds of the Bible. „Fjöldi sjónfrumnanna ræður því hve smáa hluti augað getur séð í fjarska. Í sjónhimnu mannsaugans eru um 200.000 sjónfrumur á hvern fermillimetra en flestir fuglar eru með þrefalt fleiri. Haukar, gammar og ernir eru með milljón frumur eða fleiri á fermillimetra.“ Og sumir fuglar eru með tvær sjónugrófir í hvoru auga — bletti þar sem sjónin er næmust — og það gefur þeim einstaklega næmt fjarlægðar- og hraðaskyn. Fuglar, sem veiða fljúgandi skordýr, eru með sams konar augu.

Fuglar eru einnig með óvenjumjúkan augastein þannig að skerpustillingin er mjög hröð. Þú getur rétt ímyndað þér hve hættulegt það væri fyrir fugla að fljúga, ekki síst í skógum og skógarþykkni, ef þeir sæju allt í móðu. Það er ljóst að augu fuglanna eru hönnuð af miklu hugviti. *

Rafskynjun

Fyrr í greininni var minnst á hákarl sem fann flyðru grafna í sandinum. Atvikið átti sér stað í tilraun sem vísindamenn gerðu til að kanna hvort hákarlar og skötur skynji hið ofurveika rafsvið sem myndast kringum lifandi fiska. * Til að kanna þetta földu þeir rafskaut í sandbotninum í hákarlabúri og hleyptu hæfilegri spennu á. Og viti menn. Hákarlinn réðst með offorsi á rafskautin um leið og hann kom að þeim.

Hákarlar eru með svonefnda hlutlausa rafskynjun sem er fólgin í því að þeir skynja rafsvið rétt eins og eyrað nemur utanaðkomandi hljóð. Raffiskar eru hins vegar með virka rafskynjun, ekki ósvipað og leðurblakan sem gefur frá sér hljóðmerki og nemur svo bergmálið. Virk rafskynjun er fólgin í því að fiskurinn gefur frá sér rafbylgjur eða taktföst merki (breytilegt eftir tegundum) og sérstök skynfæri nema síðan truflanir sem verða á rafsviðinu. * Þannig geta raffiskarnir staðsett hindranir, leitað uppi hugsanlega bráð eða jafnvel fundið sér maka.

Innbyggður áttaviti

Þér yrði áreiðanlega ekki villugjarnt ef þú værir með innbyggðan áttavita. Vísindamenn hafa fundið smásæja kristalla úr náttúrlegum seguljárnsteini í fjölmörgum dýrum, þeirra á meðal býflugu og silungi. Frumurnar, sem innihalda þessa kristalla, eru tengdar taugakerfinu. Sýnt hefur verið fram á að býflugur og silungar geta skynjað segulsvið. Býflugur nýta sér meira að segja segulsvið jarðar til að rata og til að gera vaxkökur.

Vísindamenn hafa einnig fundið seguljárnstein í ákveðinni gerlategund sem lifir í botnseti sjávar. Þegar botnsetið þyrlast upp verkar segulsvið jarðar á seguljárnsteininn þannig að gerlarnir geta stýrt heim í örugga höfn niðri á sjávarbotni. Að öðrum kosti myndu þeir deyja.

Hugsanlegt er að mörg flökkudýr hafi segulskyn, þeirra á meðal fuglar, skjaldbökur, laxar og hvalir. Þau virðast þó ekki stýra eingöngu eftir því heldur nota fleiri skilningarvit. Laxinn notar sennilega afar næmt lyktarskyn til að þefa uppi ána þar sem hann klaktist út. Evrópski starinn ratar eftir sólinni og sumar fuglategundir eftir stjörnum. En „það vantar augljóslega mikið upp á að við skiljum þennan leyndardóm náttúrunnar og aðra,“ eins og Howard C. Hughes, prófessor í sálfræði, segir í bókinni Sensory Exotica — A World Beyond Human Experience.

Öfundsverð heyrn

Mörg dýr eru með ótrúlega næma heyrn í samanburði við manninn. Við heyrum hljóð á tíðnibilinu 20 til 20.000 rið, hundar geta heyrt hljóð á bilinu 40 til 46.000 rið og hestar á bilinu 31 til 40.000 rið. Fílar og nautgripir geta heyrt hljóð á lægri tíðni en mannseyrað nemur, allt niður í 16 rið. Lágtíðnihljóð berast lengra en hátíðnihljóð þannig að fílar geta hugsanlega skipst á boðum um fjögurra kílómetra leið. Sumir vísindamenn segja að nota mætti viðbrögð þessara dýra til að vara við yfirvofandi jarðskjálftum og óveðri, en hvort tveggja gefur frá sér hljóð á lægri tíðni en mannseyrað greinir.

Skordýr eru einnig með mjög vítt heyrnarsvið. Sum heyra meira en tveim áttundum hærra en mannseyrað og önnur heyra lægri tíðni en mannseyrað. Fáein skordýr heyra með þunnum, flötum himnum, eins konar hljóðhimnum sem er að finna á öllum líkamshlutum þeirra nema höfðinu. Önnur heyra með hjálp fíngerðra hára sem nema bæði hljóð og flesta veika loftstrauma, til dæmis strauma sem myndast við hreyfingu mannshandar. Þessi næmni skýrir hvers vegna flugum tekst svo oft að forða sér undan höggi.

Hugsaðu þér að geta heyrt fótatak skordýrs! Leðurblakan — eina fljúgandi spendýrið — hefur svona næma heyrn. Leðurblökurnar þurfa auðvitað sérhæfða heyrn til að geta ratað í myrkri og veitt skordýr með bergmálsmiðun eða ómsjá. * Prófessor Hughes segir: „Hugsaðu þér fullkomnari ómsjá en er að finna í best búnu kafbátum. Og hugsaðu þér að ómsjáin sé notuð af leðurblöku sem er svo smá að hún rúmast hæglega í lófa þér. Það þarf mikla útreikninga til að mæla fjarlægð og hraða skordýrs og jafnvel tegundargreina það, og allir þessir útreikningar eiga sér stað í heila sem er smærri en þumalnögl!“

Nákvæm bergmálsmiðun er einnig háð eiginleikum hljóðmerkisins sem sent er. Leðurblökur notfæra sér það og „hafa slíka stjórn á tónhæðinni að óperusöngvari yrði grænn af öfund,“ segir heimildarrit. * Sumar tegundir eru með húðflipa á nefinu sem virðast gera þeim kleift að miða hljóðinu í geisla. Svo fullkomin er þessi ómsjá að hún getur búið til „hljóðmynd“ af fíngerðum hlutum á borð við mannshár!

Auk leðurblakna nota að minnsta kosti tvær fuglategundir bergmálsmiðun. Þetta eru salanganar í Asíu og Ástralíu og olíufuglar í hitabelti Ameríku. Hins vegar virðast þeir aðeins nota þessa hæfni til að rata í dimmum hellum þar sem þeir eiga náttból.

Ómsjár í hafdjúpunum

Tannhvalir nota einnig ómsjá en vísindamenn vita ekki enn með vissu hvernig hún virkar. Höfrungar gefa frá sér greinileg smellihljóð sem virðast eiga upptök sín í nösunum fremur en barkanum. Stór fituhnúður á enni höfrunganna miðar hljóðinu í geisla sem „lýsir upp“ svæði fyrir framan dýrið. Höfrungar virðast ekki heyra bergmálið með eyrunum heldur með neðri kjálkanum og tengdum líffærum sem tengjast miðeyranu. Á þessu svæði er sams konar fituvefur og í ennishnúðnum.

Ómsjársmellir höfrunga eru ótrúlega líkir stærðfræðilegu bylgjuformi sem kallast Gabor-fall. Prófessor Hughes segir Gabor-fallið sanna að höfrungarnir noti „næstum stærðfræðilega fullkomin ómsjármerki.“

Höfrungarnir geta breytt styrkleika ómsjármerkisins, allt frá hvísli upp í 220 desíbela hvell. Hversu hár hvellur er það? Hávær rokktónlist getur verið 120 desíbel og fallbyssuskot 130 desíbel. Með svona gríðarlega öflugri ómsjá geta höfrungar fundið hlut sem er ekki nema átta sentímetrar í þvermál í 120 metra fjarlægð, og hugsanlega lengra í burtu í kyrrum sjó.

Við getum ekki annað en fyllst undrun, lotningu og auðmýkt yfir hinum undraverðu skilningarvitum sem er að finna í náttúrunni. Upplýstu fólki er yfirleitt þannig innanbrjósts — sem leiðir okkur aftur að þeirri spurningu hvernig við séum úr garði gerð. Skilningarvit okkar eru stundum lítilfjörleg í samanburði við skilningarvit sumra dýra og skordýra. En við ein erum snortin af því sem við sjáum í ríki náttúrunnar. Hvers vegna höfum við slíkar tilfinningar? Og hvers vegna sækjumst við bæði eftir því að skilja hvernig lifandi verur eru úr garði gerðar og hvaða tilgangi þær þjóna — og við einnig?

[Neðanmáls]

^ Til eru um 100 tegundir holusnáka, þeirra á meðal koparnöðrur, skröltormar og vatnamokkasínur.

^ Vilji lesendur velta fyrir sér spurningunni um sköpun eða þróun er þeim bent á bókina Lífið — varð það til við þróun eða sköpun? gefin út af Vottum Jehóva.

^ Allar lifandi verur, þeirra á meðal menn, mynda veikt en mælanlegt rafsvið í vatni.

^ Þeir raffiskar, sem hér um ræðir, framleiða afar lága rafhleðslu. Það má ekki rugla þeim saman við fiska sem gefa frá sér margfalt hærri spennu, svo sem hrökkviskötu og hrökkál sem gefa frá sér rafmagnshögg, annaðhvort í varnarskyni eða til veiða. Hrökkálar geta jafnvel drepið hest!

^ Leðurblökur skiptast í um það bil 1000 tegundir. Gagnstætt því sem almennt er haldið hafa þær allar góða sjón en það eru ekki allar tegundir með ómsjá. Sumar, til dæmis stórblökur (flughundar), eru með afar næma nætursjón og nota hana við fæðuleit.

^ Leðurblökur gefa frá sér flókið merki með mörgum tíðniþáttum á bilinu 20.000 til 120.000 rið eða hærra.

[Rammagrein/myndir á blaðsíðu 9]

Skordýr í hættu!

„Dag hvern, er tekur að rökkva, gerist furðulegur atburður undir aflíðandi hæðunum í grennd við San Antonio í Texas,“ segir í bókinni Sensory Exotica — A World Beyond Human Experience. „Séð úr fjarlægð er engu líkara en að ógurlegt, kolsvart ský stígi upp úr iðrum jarðar. En það er ekki rykský sem myrkvar kvöldhimininn heldur eru 20 milljónir gúanóblakna að taka flugið út úr djúpum Bracken-hellis.“

Samkvæmt nýrra mati eru leðurblökurnar í Bracken-helli taldar vera 60 milljónir. Þær fljúga upp í 3000 metra hæð til að gæða sér á skordýrum sem eru eftirlætisbráð þeirra. Ætla mætti að hátíðniskrækirnir í öllum þessum leðurblökuskara séu ærandi en þó er engin ringulreið þar því að hvert einasta dýr er með háþróaðan heyrnarbúnað til að nema sitt eigið bergmál.

[Mynd]

Bracken-hellir.

[Credit line]

Með góðfúslegu leyfi Lise Hogan

[Mynd]

Gúanóblökur — ómsjá.

[Credit line]

© Merlin D. Tuttle, Bat Conservation International, Inc.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Býflugur — sjón og segulskyn

[Mynd á blaðsíðu 7]

Gullörn — sjón

[Mynd á blaðsíðu 7]

Skötur — rafskyn

[Mynd á blaðsíðu 7]

Starar — sjón

[Mynd á blaðsíðu 7]

Lax — lyktarskyn

[Credit line]

U.S. Fish & Wildlife Service, Washington, D.C.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Skjaldbökur — hugsanlega segulskyn

[Mynd á blaðsíðu 7]

Hákarlar — rafskyn

[Mynd á blaðsíðu 8]

Fílar — lágtíðniheyrn

[Mynd á blaðsíðu 8]

Hundar — hátíðniheyrn

[Mynd á blaðsíðu 9]

Höfrungar — ómsjá