Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Verða kristnir menn að vera fátækir?

Verða kristnir menn að vera fátækir?

Sjónarmið Biblíunnar

Verða kristnir menn að vera fátækir?

JESÚS sagði einu sinni við auðugan, ungan höfðingja að hann yrði að fara og selja allt sem hann ætti og gefa fátækum. Í frásögunni segir að maðurinn hafi orðið dapur í bragði við þessi orð Jesú og farið burt hryggur „enda átti hann miklar eignir.“ Þá sagði Jesús við lærisveina sína: „Hve torvelt verður þeim, sem auðinn hafa, að ganga inn í Guðs ríki.“ Og hann bætti við: „Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“ — Markús 10:21-23; Matteus 19:24.

Hvað átti Jesús við? Fara auður og sönn tilbeiðsla ekki saman? Ættu kristnir menn að finna til sektarkenndar ef þeir eiga peninga? Krefst Guð þess að þeir lifi meinlætalífi, án þæginda og munaðar?

Guð vill „að allir menn verði hólpnir“

Guð krafðist þess ekki fyrr á tímum að Ísraelsmennirnir lifðu í fátækt. Þegar þjóðin hafði numið landið sem henni var ætlað gaf hún sig að búskap og viðskiptum til að sjá fyrir sér og sínum. Efnahagsástand, veðurfar, heilsufar eða viðskiptavit hafði áhrif á hversu vel þeim tókst til í viðleitni sinni. Samkvæmt Móselögmálinu áttu Ísraelsmenn að sýna samúð ef einhverjir liðu fjárhagslega og kæmust í fátækt. (3. Mósebók 25:35-40) Hins vegar urðu sumir auðugir. Bóasi, trúuðum og ráðvöndnum manni sem varð forfaðir Jesú Krists, er lýst sem ‚ríkum manni.‘ — Rutarbók 2:1.

Eins var ástandið á dögum Jesú. Þegar hann talaði við ríka manninn, sem minnst var á í upphafi, var hann ekki að hvetja til meinlætalifnaðar heldur var hann að miðla mikilvægum lærdómi. Frá mannlegu sjónarmiði gæti það virst ómögulegt fyrir ríkt fólk að sýna auðmýkt og taka á móti hjálpræði Guðs. Eigi að síður sagði Jesús: „Fyrir mönnum eru engin ráð til þessa, en Guð megnar allt.“ — Matteus 19:26.

Á fyrstu öldinni tók sannkristni söfnuðurinn á móti „öllum“ mönnum. (1. Tímóteusarbréf 2:4) Sumir þeirra voru ríkir, aðrir höfðu viðunandi lífsviðurværi og margir voru fátækir. Verið getur að nokkrir hafi safnað auði áður en þeir urðu kristnir. Í öðrum tilfellum gætu hagstæð skilyrði og viturlegar viðskiptaákvarðanir hafa leitt til ríkidæmis síðar.

Í kristna bræðrafélaginu nú á tímum er efnahagur fólks mismunandi alveg eins og hann var þá. Þeir kosta kapps um að fylgja leiðbeiningum Biblíunnar um peningamál þar sem efnishyggja getur haft áhrif á alla. Með sögunni um ríka, unga höfðingjann, var Jesús að miðla þeim lærdómi að allir kristnir menn eigi að vera á verði gagnvart þeim sterku áhrifum sem peningar og eignir geta haft á fólk. — Markús 4:19.

Viðvörun til auðmanna

Enda þótt auðæfi séu í sjálfu sér ekki fordæmd í Biblíunni gegnir öðru máli um peningagræðgi. Biblíuritarinn Páll segir: „Fégirndin er rót alls þess, sem illt er.“ Hann bendir á að með því að missa andlegan áhuga vegna fégirndar ‚hafi nokkrir villst frá trúnni og valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum.‘ — 1. Tímóteusarbréf 6:10.

Það er athyglisvert að Páll gaf auðmönnum sérstakar leiðbeiningar. Hann sagði: „Bjóð ríkismönnum þessarar aldar að hreykja sér ekki né treysta fallvöltum auði, heldur Guði, sem lætur oss allt ríkulega í té til nautnar.“ (1. Tímóteusarbréf 6:17). Greinilega er hætta á að auðugt fólk verði stolt og því finnist það vera öðru fremra. Það gæti einnig freistast til þess að halda að auðæfi geti veitt raunverulegt öryggi en það getur aðeins Guð getur veitt að fullu.

Efnaðir kristnir menn geta varast slíkar hættur með því að vera „ríkir af góðum verkum.“ Þessi verk fela í sér að vera ‚örlát og fús að miðla öðrum.‘ (1. Tímóteusarbréf 6:18) Kristnir menn, bæði ríkir og fátækir, geta einnig notað eitthvað af fjármunum sínum til að breiða út fagnaðarerindið um Guðsríki, sem er aðalverkefni kristinna manna nú á tímum. Slíkt örlæti sýnir rétt viðhorf gagnvart fjármunum og gerir fólkið hjartfólgnara Jehóva Guði og Jesú Kristi sem elska glaða gjafara. — Matteus 24:14; Lúkas 16:9; 2. Korintubréf 9:7.

Það sem er mikilvægara

Greinilega er þess ekki krafist af kristnum mönnum að lifa í fátækt. Þeir ættu ekki heldur að ‚vilja verða ríkir.‘ (1. Tímóteusarbréf 6:9) Þeir vinna af kostgæfni til að geta séð sómasamlega fyrir sér. Árangurinn af viðleitni þeirra er mismunandi þar sem hann er háður ýmsum þáttum og því efnahagskerfi sem þeir búa við. — Prédikarinn 11:6.

Hver sem fjárhagur kristinna manna er ættu þeir að leitast við að ‚meta þá hluti rétt, sem máli skipta.‘ (Filippíbréfið 1:10) Með því að meta mest andlegu málin „safna þeir handa sjálfum sér fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna, og munu geta höndlað hið sanna líf.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:19.