Þegar bernskan er ljúf
Þegar bernskan er ljúf
GÓÐ bernska er að mestu leyti undir góðum foreldrum komin. En hvað er átt við þegar talað er um góða foreldra? Þú hefur vafalítið heyrt ráðleggingar í þeim efnum. Helgaðu börnum þínum tíma. Hlustaðu á þau. Veittu þeim hollar leiðbeiningar. Settu þig í spor þeirra, taktu þátt í gleði þeirra og sorgum. Vertu sannur vinur þeirra án þess að afsala þér foreldravaldinu. Síendurteknar reglur í þessum anda hjálpa foreldrunum auðvitað að sinna starfi sínu vel. En fyrst og fremst verða önnur grundvallaratriði og mikilvægari að koma til.
Milljónir foreldra út um allan heim hafa komist að raun um að til þess að vera góðir foreldrar verða þeir að fylgja grundvallarreglum Biblíunnar. Hvers vegna? Vegna þess að fjölskylduskipanin er komin frá höfundi Biblíunnar, Jehóva Guði. (1. Mósebók 1:27, 28; 2:18-24; Efesusbréfið 3:15) Það er því eðlilegt að best sé að leita leiðsagnar um barnauppeldi í innblásnu orði hans. Hvernig getur gömul bók eins og Biblían varpað ljósi á þann ríkjandi tíðaranda að flýta bernskuárunum? Lítum á nokkrar viðeigandi grundvallarreglur í Biblíunni.
„Eins og börnin geta farið“
Jakob, sonur Ísaks, átti á annan tug barna. Í Biblíunni eru skráð vitur orð hans um fjölskylduferðalag: „Börnin eru þróttlítil . . . Fari herra minn [Esaú, eldri bróðir Jakobs] á undan þjóni sínum, en ég mun halda á eftir í hægðum mínum . . . eins og börnin geta farið.“ — 1. Mósebók 33:13, 14.
Jakob vissi að börn hans voru ekki litlir jafnokar fullorðna fólksins. Þau voru „þróttlítil“ — minni, veikbyggðari og þurftu á fullorðnum að halda. Í stað þess að þvinga þau til að fara á hraða hans hægði hann ferðina miðað við getu þeirra. Að þessu leyti endurspeglaði hann viskuna sem Guð sýnir mennskum börnum sínum. Himneskur faðir okkar þekkir takmörk okkar. Hann væntir ekki meira af okkur en sanngjarnt er. — Sálmur 103:13, 14.
Þessi viska birtist sums staðar í dýraríkinu því að Guð hefur gert sum dýr að ‚vitrum spekingum‘. (Orðskviðirnir 30:24) Til dæmis hafa náttúrufræðingar tekið eftir því að heil fílahjörð lagar gönguhraðann að fílskálfinum á meðal þeirra og fer hægt yfir þangað til sá litli getur haldið í við hjörðina.
Nokkur hluti þjóðfélagsins hefur misst sjónar á visku Guðs. En þú þarft ekki að gera Orðskviðirnir 17:17.
slíkt hið sama. Hafðu hugfast að barnið þitt er „þróttlítið“ — getur ekki borið byrðar fullorðinna né axlað ábyrgð þeirra. Ef þú ert til dæmis einstætt foreldri og átt við erfitt persónulegt vandamál að stríða, sem þér finnst freistandi að trúa barninu fyrir, skaltu standast freistinguna. Leitaðu heldur til þroskaðs, fullorðins vinar sem getur hjálpað þér að greiða úr málunum — helst af öllu til einhvers sem hjálpar þér að fara eftir viturlegum ráðum Biblíunnar. —Á sama hátt skaltu ekki gera líf barnsins svo ásetið og þaulskipulagt að öll æskugleðin fari út í veður og vind. Stilltu hraðann eftir því sem hentar barninu, ekki þeim hraða sem fylgt er eftir í blindni í umheiminum. „Hegðið yður eigi eftir öld þessari,“ ráðleggur Biblían. — Rómverjabréfið 12:2.
„Sérhver hlutur . . . hefir sinn tíma“
Önnur grundvallarregla í Biblíunni er á þessa lund: „Öllu er afmörkuð stund, og sérhver hlutur undir himninum hefir sinn tíma.“ Vissulega er tími fyrir vinnuna. Börnin hafa mikið að gera — sinna skólanámi, heimilisstörfum og andlegum verkefnum. En samt segir einnig í sama biblíukafla að það hafi sinn tíma að hlæja og sinn tíma að dansa. — Prédikarinn 3:1, 4.
Börn hafa sérstaka þörf fyrir að leika sér, hlæja og fá útrás fyrir orku æskunnar á tiltölulega áhyggjulausan hátt. En sé hverju augnabliki, sem þau vaka, ráðstafað í skólavinnu, aukatíma eftir skóla og í önnur ábyrgðarfull störf þá gæti svo farið að leikþörfinni yrði ekki fullnægt. Það gæti síðan valdið þeim gremju og jafnvel gert þau döpur. — Kólossubréfið 3:21.
Lítum á hvernig sama biblíulega grundvallarreglan á við á enn annan hátt. Reglan er að allir hlutir hafa sinn tíma. Bendir það ekki til þess að bernskuárin séu tíminn til að vera barn? Þú svarar því sennilega játandi en börnin eru ekki alltaf sammála. Börn af báðum kynjum langar mjög oft til að gera það sem þau sjá hjá fullorðnum. Ungum telpum finnst kannski freistandi að klæða sig og snyrta eins
og þær væru fullorðnar konur. Vera má að ótímabær kynþroski þrýsti þeim frekar út í að sýnast eldri en þær eru.Skynsamir foreldrar skynja hættuna við þessa þróun. Í þessum hnignandi heimi eru börn sýnd í sumum auglýsingum og skemmtiatriðum sem kynferðislega meðvituð og bráðþroska. Það er sífellt algengara að sjá börn förðuð, með skartgripi og klædd á ögrandi hátt. En er ástæða til að gera þau meira freistandi fyrir öfugugga sem leitast við að notfæra sér þau kynferðislega? Þegar foreldrar hjálpa börnunum að klæða sig í samræmi við aldur þeirra eru þeir að fara eftir enn annarri grundvallarreglu Biblíunnar: „Vitur maður sér ógæfuna og felur sig.“ — Orðskviðirnir 27:12.
Hér er annað dæmi: Þegar íþróttir eru látnar sitja í fyrirrúmi, vera fremst í forgangsröðinni hjá barninu, getur líf þess farið úr jafnvægi þar sem sérhver hlutur hefur ekki lengur sinn tíma. Biblían bendir á að ‚líkamleg æfing sé nytsamleg í sumu, en guðhræðslan sé til allra hluta nytsamleg og hafi fyrirheit bæði fyrir þetta líf og hið komanda‘. — 1. Tímóteusarbréf 4:8.
Láttu ekki börnin þín trúa því að ‚það sé fyrir öllu að sigra‘. Margir foreldrar draga úr allri ánægju af íþróttum og leikjum með því að keyra börnin áfram og kynda undir keppnisandann, að sigra hvað sem það kostar. Sumum börnum finnst þau knúin til að hafa rangt við eða jafnvel meiða aðra leikmenn til þess að geta unnið. En vissulega er sigurinn aldrei svo mikils virði!
Að læra sjálfstjórn
Börn eiga oft erfitt með að læra að allt hafi sinn tíma. Það er ekki auðvelt fyrir þau að bíða þolinmóð þegar þau langar í eitthvað. Og til þess að bæta gráu ofan á svart virðist mannfélagið leitast við að fá löngunum sínum fullnægt tafarlaust. Skilaboðin frá skemmtanaiðnaðinum eru oft: „Fáðu það sem þig langar í og fáðu það strax!“
Láttu ekki slíkt hafa þau áhrif á þig að þú látir of mikið með börnin og spillir þeim. „Það er mikilvægur þáttur tilfinningagreindar að geta beðið með að fullnægja löngunum sínum,“ segir í bókinni The Child and the Machine. „Sjálfsögun og félagslegt jafnvægi virkar eins og sterkt mótvægi gegn vaxandi ofbeldi sem á sér stað meðal barna, bæði innan og utan skóla.“ Biblían inniheldur þessa gagnlegu grundvallarreglu: „Dekri maður við þræl sinn frá barnæsku, vill hann að lokum verða ungherra.“ (Orðskviðirnir 29:21) Þótt hér sé verið að segja hvernig eigi að fara með ungan þræl hafa margir foreldrar komist að raun um að sama grundvallarreglan getur komið börnum þeirra að miklu gagni.
Biblían talar um að það sé mikilvægt að börnin fái „aga og umvöndun Drottins“. (Efesusbréfið 6:4) Kærleiksríkur agi hjálpar börnunum að þroska eiginleika eins og sjálfstjórn og þolgæði sem hjálpa þeim að finna hamingju og lífsfyllingu alla ævi.
Þegar bernskunni er ekki lengur ógnað
Þú veltir því ef til vill fyrir þér hvort hinn alvitri, gæskuríki Guð, sem innblés þessar gagnlegu grundvallarreglur, hafi ætlað heiminum að verða eins og hann er? Ætlaði hann börnum að alast upp í heimi þar sem hættur leynast oft á hverju strái en umhyggjan situr á hakanum? Það er huggun í því að vita að Jehóva Guð og sonur hans, Jesús Kristur, bera innilegan kærleika til mannkynsins, þar á meðal barna á öllum aldri. Þeir munu innan tíðar losa jörðina við alla guðlausa. — Sálmur 37:10, 11.
Langar þig til að sjá fyrir þér þennan friðsama og hamingjuríka tíma? Dragðu þá upp mynd í huganum af þessari fallegu lýsingu í Biblíunni: „Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum, kálfar, ung ljón og alifé ganga saman og smásveinn gæta þeirra.“ (Jesaja 11:6) Í heimi þar sem bernskuárin eru oft eyðilögð á grimmilegan hátt eða þeim flýtt miskunnarlaust er mikil huggun í því að vita til þess að Guð lofar svona bjartri framtíð fyrir mannkynið á jörðinni. Greinilega ætlast Guð ekki til þess að bernskuárin glatist né þeim sé flýtt heldur að þau séu lánsöm og ljúf.
[Mynd á blaðsíðu 8]
Segðu einhverjum fullorðnum frá persónulegum vandamálum þínum í stað þess að íþyngja barni þínu með þeim.
[Mynd á blaðsíðu 9]
Börn þurfa að leika sér.