Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þegar bernskuárin glatast

Þegar bernskuárin glatast

Þegar bernskuárin glatast

„Bernskan er mikilvægustu mannréttindi barna.“ — „The Hurried Child.“

ÞÚ ERT líklega sammála því að öll börn ættu að geta notið tiltölulega áhyggjulausrar og saklausrar bernsku. Engu að síður er það dapurleg staðreynd að slík bernska er utan seilingar fyrir margra drengi og stúlkur. Hugsaðu þér allar þær þúsundir, ef ekki milljónir bernskudrauma sem verða að engu þegar börnin verða fórnarlömb styrjalda. Ímyndaðu þér einnig hlutskipti allra þeirra barna sem sæta þrælkun eða misnotkun.

Flest okkar eiga erfitt með að ímynda sér hvernig barni líður sem neyðist til að búa á götunni vegna þess að því finnst það öruggara þar en heima hjá sér. Einmitt þegar börnin þarfnast allrar þeirrar ástúðar og verndar sem þau geta fengið, verða þau að læra nógu vel á götulífið til að bægja frá sér „rándýrum“ sem eru áfjáð í að níðast á þeim. Ótal börn fara á mis við bernskuna í þeim umbrotum sem einkenna okkar tíma.

„Ég vildi að ég gæti endurheimt bernskuárin“

Carmen er 22 ára og átti erfiða bernsku. * Hún og systir hennar neyddust til að búa á götunni til að flýja misnotkun föðurins og vanrækslu móðurinnar. Þrátt fyrir hætturnar, sem fylgdu slíku lífi, tókst báðum telpunum að forðast sumar af þeim gildrum sem mörg ung strokubörn falla í.

Carmen saknar samt bernskuáranna því að hún man ekki eftir að hafa átt nokkra bernsku. „Árin frá barnsaldri til 22 ára eru glötuð,“ segir hún sorgmædd. „Núna er ég gift og á barn en ég sárþarfnast að gera það sem litlar telpur gera, eins og að leika með dúkkur. Mig langar til að vera umvafin foreldraást. Ég vildi að ég gæti endurheimt bernskuna.“

Þau eru mörg börnin sem þjást á sama hátt og Carmen og systir hennar. Þau eru útigangsbörn og eru að mestu svipt bernskunni. Mörg þeirra leiðast út í afbrot til þess að lifa af. Samkvæmt blaðafréttum og hagskýrslum kemur á óvart hvað börnin eru ung þegar þau eru farin að gerast sek um afbrot. Og það sem gerir illt verra er að margar stúlkur eignast börn þegar þær eru enn á táningsaldri — þær eru sjálfar börn.

Hulið félagslegt vandamál

Það er ekki að undra að börnum fjölgi sem komið er í fóstur. Í ritstjórnargrein, sem birtist í blaðinu Weekend Australian, sagði: „Stórkostlegur vandi varðandi vistun barna hefur skapast okkur að óvörum. Fleiri og fleiri börn úr tvístruðum fjölskyldum og sundruðum heimilum hafa verið vanrækt.“ Dagblaðið nefndi einnig að „það líði mánuðir, jafnvel ár, án þess að sum fósturbörnin fái samband við félagsráðgjafa en önnur eru flutt í vistun frá einum stað til annars og finna aldrei varanlegan samastað.“

Sagt var frá dæmi um 13 ára stúlku sem hafði verið komið fyrir á 97 fósturheimilum á þriggja ára tímabili, stundum í aðeins eina nótt. Hún minnist þess núna hve sterklega hún fann fyrir afneitun og öryggisleysi. Hjá mörgum fósturbörnum eins og henni hefur bernskan glatast.

Það er því ekkert undarlegt að sérfræðingar tali um að glötuð bernska sé vaxandi vandamál. Ef þú ert foreldri og lítur á þennan miskunnarlausa veruleika, hrósar þú happi að geta veitt börnum þínum heimili og lífsnauðsynjar. En það er önnur hætta á ferðum. Það er ekki alltaf um það að ræða að bernskan glatist alveg. Stundum er henni bara flýtt. En hvernig og með hvaða afleiðingum?

[Neðanmáls]

^ Nafninu er breytt.