Þegar bernskunni er flýtt
Þegar bernskunni er flýtt
ÞAÐ var þungbúið loft þegar litla, eins hreyfils flugvélin jók hraðann eftir flugbrautinni og hóf sig á loft með tilheyrandi drunum. Atburðurinn hafði verið í fjölmiðlum, með fréttaumfjöllun og myndatökum. Fréttamenn höfðu látið í ljós aðdáun með spurningum sínum og yfirdrifnu hrósi. Hver dró að sér alla þessa athygli? Ekki eini réttindaflugmaðurinn sem var um borð í vélinni og ekki eini farþeginn, fullorðinn karlmaður, heldur dóttir farþegans. Hún var sjö ára.
Litla telpan átti að fljúga flugvélinni. Það átti að slá einhvers konar met og fylgja stífri áætlun. Fjölmiðlafólkið ætlaði að bíða á næsta viðkomustað. Þrátt fyrir drungalegt veður stigu þremenningarnir um borð, telpan settist á púða svo að hún gæti séð yfir mælaborðið og notaði framlengingu til að fæturnir næðu niður á fótstigin.
Flugið varð endasleppt. Vélin lenti í óvæntum stormi, snerist, ofreis og brotlenti og þremenningarnir um borð fórust. Lofið í fjölmiðlunum snerist upp í harm. Nokkrir fréttamenn og ritstjórar veltu því fyrir sér hvort fjölmiðlarnir hefðu átt þátt í harmleiknum. Háværar raddir heyrðust um að ekkert barn ætti að fljúga flugvél. Í Bandaríkjunum voru samþykkt lög þess efnis. En að baki æsifregnunum og yfirborðskenndum úrlausnum leyndust djúpstæðari mál.
Harmleikurinn vakti suma til umhugsunar um ákveðna framvindu sem á sér stað nú á tímum. Börnum er flýtt gegnum bernskuna, á unga aldri er þeim ýtt út í störf fullorðinna. Auðvitað
eru afleiðingarnar ekki alltaf svona afdrifaríkar og hörmulegar. En þær geta verið djúpstæðar og langvarandi. Lítum á nokkur dæmi sem sýna hvernig hægt er að flýta bernskunni.Menntun með hraði
Foreldrum er skiljanlega kappsmál að börnum þeirra vegni vel. En þegar kappið breytist í kvíða gætu foreldrar ofboðið börnunum, ýtt of mikið á eftir þeim og of snemma. Oft byrjar ferlið ósköp sakleysislega. Til dæmis verður það sífellt algengara að foreldrar skrái börn sín ung í aukatíma eftir að kennsludegi lýkur, allt frá íþróttum til náms í tónlist eða listdansi. Oft er sérkennslu bætt við.
Auðvitað er ekkert rangt við það að örva hæfileika barns eða áhuga. En er hætta á að ganga of langt í þeim efnum? Það er greinilegt þar sem sum börn virðast næstum því vera undir eins miklu álagi og fullorðna fólkið. Í tímaritinu Time segir: „Áður fyrr áttu börn bernsku, nú eru þau sett á námskeið; börn sem ættu að hreyfa sig af sjálfsprottnum krafti æskunnar hreyfa sig núna með einbeitni býflugunnar.“
Sumir foreldrar vonast til að börnin geti orðið undrabörn í íþróttum, tónlist eða leiklist. Áður en þau fæðast eru foreldrar búnir að skrá þau í forskóla í von um að auka líkurnar á velgengni og frama. Sumar verðandi mæður skrá sig þar á ofan í „háskóla“ sem bjóða upp á tónlistarnám fyrir börn í móðurkviði. Markmiðið er að örva þroska heilans.
Í nokkrum löndum eru börn innan sex ára aldurs metin eftir hæfileikum í lestri og stærðfræði. Það er áhyggjuefni hvort slíkt geti ekki leitt af sér tilfinningalegt tjón. Hvað verður til dæmis um barn sem „fellur“ í leikskóla? David Elkind, höfundur bókarinnar The Hurried Child, bendir á að skólum sé hætt við að setja of fljótt merkimiða á of ung börn. Elkind segir að það sé gert vegna hagræðingar en ekki í því skyni að gera kennslu barnanna árangursríka.
Er það þess virði að þrýsta svo á börnin að þau verði eins og smækkuð mynd af hæfu, fullorðnu fólki áður en þau hafa aldur og þroska til? Elkind hefur áhyggjur af því hvernig þjóðfélagið hefur tekið þeirri hugmynd opnum örmum að gera börn fær um að bera byrðar fullorðinna. Hann segir: „Það endurspeglar tilhneigingu okkar til að líta á hið vaxandi og sífellda álag á börnin sem ‚eðlilegt‘. Vissulega virðast skoðanir á því sem álitið er eðlilegt fyrir börn vera að snöggbreytast.
Áherslan á að sigra
Það virðist sem mörgum foreldrum finnist það eðlilegt, jafnvel ráðlegt, að kenna börnunum sínum að það sé fyrir öllu að sigra — sérstaklega í íþróttum. Löngunin eftir Ólympíuorðum togar í börnin. Sum börn eru knúin áfram til að flýta bernskunni eða fórna henni alveg í því skyni að baða sig í ljóma stundarsigurs og tryggja fjárhagsöryggi á fullorðinsárunum.
Lítum á feril fimleikakvenna sem dæmi. Þær byrja bráðungar á ströngum æfingum sem eru gífurlegt álag fyrir litla líkama þeirra. Þær eru árum saman að undirbúa sig andlega og líkamlega fyrir keppni á Ólympíuleikunum. Að sjálfsögðu verða aðeins fáar þeirra sigurvegarar. Ætli þeim sem tapa finnist lokaárangurinn vera þess virði að hafa fórnað mestum hluta æsku sinnar? Sigurvegararnir gætu jafnvel efast um það þegar til lengdar lætur.
Hægt er að reka tilfinningalega á eftir þessum litlu telpum á bernskuárunum með því að ala á löngun þeirra til að verða fimleikastjörnur. En ef til vill er verið að koma í veg fyrir eðlilegan líkamsþroska með svo strangri þjálfun. Hjá sumum þeirra hægir á beinvexti. Átraskanir eru algengar. Í mörgum tilfellum seinkar kynþroska — jafnvel um mörg ár. En margar stúlkur standa frammi fyrir gagnstæðum vanda: ótímabærum kynþroska. — Sjá rammagreinina hér fyrir ofan.
Börn allsnægta en án bernskuára
Ef trúa ætti skemmtiþáttum fjölmiðlanna mætti halda að fullkomin bernskuár séu fólgin í dekri með alls konar munaði. Sumir foreldrar vinna hörðum höndum til að veita börnum sínum öll hugsanleg efnisleg þægindi, meðal annars yfirhlaðið heimili, ótakmarkað afþreyingarefni og dýran klæðnað.
En mörg börn, sem alast upp á þennan hátt, fara út í neyslu áfengra drykkja og vímuefna og hegðun þeirra lýsir óánægju og uppreisnargirni. Hvers vegna? Í mörgum ólgar gremja af því að þeim finnst þau vera vanrækt. Börnin þarfnast foreldra sem eru til staðar til að veita þeim ástúð og umönnun. Foreldrar, sem eru of uppteknir til að sinna þessum þörfum, halda ef til vill að þeir séu að vinna til að tryggja börnunum hamingju — en þeir gætu allt eins verið að gera hið gagnstæða.
Dr. Judith Paphazy lýsir „foreldrum sem báðir vinna utan heimilis og eru í hópi þeirra
sem eru félagslega vel staddir og í góðum efnum,“ og segir þá oft „eftirláta við börnin af því að þeir geri sér ljóst undir niðri að kapphlaupið eftir efnislegu hlutunum sé á kostnað fjölskyldunnar“. Að hennar áliti reyni foreldrar þá að „kaupa sig undan því að vera foreldrar“.Þetta kemur oft illa niður á börnunum. Enda þótt þau eigi mikið af efnislegum munaði skortir þau það sem mestu máli skiptir á bernskuárunum, tíma og ást foreldranna. Án leiðsagnar, án aga og ráðlegginga standa þau frammi fyrir því allt of ung og lítið eða ekkert undirbúin að svara spurningum sem hæfa fullorðnum: ‚Ætti ég að neyta vímuefna? Stunda kynlíf? Beita ofbeldi þegar ég reiðist?‘ Þau munu sennilega finna svörin sjálf, fá þau frá jafnöldrunum, sjónvarpinu eða kvikmyndaleikurunum. Afleiðingarnar verða oft þær að bernskuárin fá snöggan og jafnvel sorglegan endi.
„Hitt foreldrið“
Börn þjást oft tilfinningalega þegar annað foreldrið hverfur af heimilinu vegna dauða eða skilnaðar. Auðvitað gengur mörgum einstæðum foreldrum vel að annast börnin. En sumir þeirra flýta börnunum gegnum bernskuárin.
Það er skiljanlegt að einmanaleiki sæki af og til að einstæðu foreldri. Það leiðir stundum til þess að barn, oft það elsta, er sett í hlutverk ‚hins foreldrisins‘ í fjölskyldunni. Foreldrið reiðir sig á ungan son eða dóttur, ef til vill í örvæntingu, og íþyngir barninu með vandamálum sem það er ekki í stakk búið að leysa. Sumir einstæðir foreldrar verða tilfinningalega um of háðir barninu.
Aðrir foreldrar hverfa frá allri ábyrgð og þvinga barn til að taka við hlutverki hins foreldrisins í fjölskyldunni. Carmen og systir hennar, sem áður var getið, sneru baki við slíku ástandi þegar þær gerðust útigangsbörn. Þeim hafði verið ætlað að vera eins og foreldrar yngri systkina sinna en voru sjálfar enn börn. Byrðin var þyngri en þær gátu borið.
Tvímælalaust er hættulegt að flýta bernskuárunum og það ætti að forðast ef mögulegt er. En góðu tíðindin eru þau að fullorðið fólk getur stigið ákveðin skref til að tryggja að börnin njóti hamingju bernskuáranna. Hvaða skref eru það? Við skulum líta á nokkur þrautreynd svör.
[Rammagrein á blasíðu 6]
Ótímabær kynþroski
Hefur kynþroskaaldur stúlkna lækkað? Vísindamenn eru ekki á eitt sáttir um það. Sumir segja að á miðri 19. öld hafi stúlkur að meðaltali verið 17 ára við upphaf kynþroskaskeiðsins en núna hefjist kynþroskaskeiðið fyrir 13 ára aldur. Samkvæmt könnun, sem gerð var í Bandaríkjunum árið 1997, sýndu 15 af hundraði hvítra stúlkna og 50 af hundraði svartra fyrstu merki um kynþroska átta ára gamlar. Sumir læknar rengja þessar niðurstöður og vara foreldra við að líta svo á að mjög bráðger þroski sé „eðlilegur“.
Samt sem áður skapar ótímabær kynþroski vandamál bæði fyrir foreldra og börn. Í tímaritinu Time segir: „Það sem veldur jafnvel meiri áhyggjum en líkamlegu breytingarnar eru sálræn áhrif ótímabærs kynþroska barna, sem ættu að vera að lesa ævintýrabækur en ekki að bægja frá sér kvennaflögurum. . . . Bernskuárin eru nógu stutt hvort sem er.“ Í greininni er óþægilegri spurningu varpað fram: „Hvað glatast fyrir fullt og allt ef ungar stúlkur líta út eins og fullorðnar konur áður en hjartað og hugurinn eru tilbúin?“
Það sem oft glatast er sakleysið — vegna kynferðislegrar misnotkunar. Móðir nokkur segir hispurslaust: „Stúlkur, sem eru líkamlega bráðþroska, eru eins og hunang [fyrir býflugum]. Þær laða að sér eldri drengi.“ Það er dýru verði keypt að vera þrýst út í ótímabært kynlíf á unga aldri. Ung stúlka getur misst sjálfsvirðingu, hreina samvisku og jafnvel tilfinninga- og líkamsheilsu.
[Mynd á blaðsíðu 5]
Yfirhlaðin stundaskrá getur verið til tjóns.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Börn geta misst ánægjuna af íþróttum og leikjum þegar ýtt er um of undir keppnisanda.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Efnislegar eigur koma ekki í staðinn fyrir að vera góðir foreldrar.