„Brattasta gatan“?
„Brattasta gatan“?
◼ Hvað er svona sérstakt við Baldwinstræti í Dunedin á Nýja-Sjálandi? Íbúar Dunedin hafa löngum haldið því fram að þessi gata sé sú brattasta í heimi. Þótt sú staðhæfing hafi verið véfengd er eitt víst: Baldwinstræti er óvenjulega bratt.
Þessi vel þekkta gata hefur dregið að ferðamenn hvaðanæva úr heiminum. Þú þarft ekki að vera fjallgöngugarpur til að komast á toppinn. Þú getur farið upp þessa 359 metra löngu götu á tveimur jafnfljótum en ökumönnum er hins vegar ráðið frá því að reyna að keyra upp hana.
Komdu með
Sólin er hátt á lofti þegar ég og tveir ferðafélagar mínir horfum á götuna í allri sinni lengd þar sem hún teygir sig upp brattann fyrir framan okkur. Fljótlega eftir að við hefjum gönguna byrjum við að blása af mæði og við höllum okkur fram á við til að halda jafnvægi. „Þetta er eins og að klífa steinvegg,“ segir einhver móður. Þá sjáum við bekk á alveg hárréttum tíma og tökum okkur hvíld.
Við höldum áfram að klífa og erum bráðlega komnir upp á topp. Við virðum fyrir okkur útsýnið um leið og við köstum mæðinni. Fyrir neðan eru vel hirtir garðar og hús. Við sjóndeildarhringinn sjáum við meðal annars dökkgrænan villigróður sem liggur meðfram gróskumiklum beitilöndum og er fagurblár himinninn í bakgrunninum.
Við höfum ekki slegið nein hraðamet á leið okkar upp á toppinn. En þegar við komum niður stoppum við til að taka mynd af því sem við höfum afrekað og náum í viðurkenningu sem segir að við höfum klifið „bröttustu götu heims“. — Aðsent.