Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Galíleó Galíleí og átök hans við kirkjuna

Galíleó Galíleí og átök hans við kirkjuna

Galíleó Galíleí og átök hans við kirkjuna

Eftir fréttaritara Vaknið! á ítalíu

MÁTTFARINN gamall maður krýpur á kné frammi fyrir rómverska rannsóknarréttinum. Hann er vísindamaður, einn sá kunnasti sinnar tíðar. Uppgötvanir hans eru byggðar á áralöngum athugunum og rannsóknum. En núna, 22. júní árið 1633, veltur líf hans á því að hann afneiti sannfæringu sinni.

Maðurinn er Galíleó Galíleí. Mál hans vakti efasemdir, spurningar og deilur sem enduróma enn, 370 árum eftir hans dag. Málið hafði varanleg áhrif á sögu trúar og vísinda. Hvers vegna allt þetta fjaðrafok? Hvers vegna hefur mál Galíleós komið til kasta fjölmiðla á okkar dögum? Er málið táknrænt fyrir „átök trúar og vísinda“ eins og blaðamaður orðaði það?

Galíleó Galíleí er af mörgum talinn „faðir nútímavísinda“. Hann var stærðfræðingur, stjörnufræðingur og eðlisfræðingur. Hann var einna fyrstur manna til að rannsaka himininn með sjónauka og túlkaði það sem hann sá þannig að það styddi kenningu sem var mjög umdeild á þeim tíma: Að jörðin gengi um sólina og væri því ekki miðdepill alheimsins. Það er því ofur eðlilegt að sumir telji Galíleó upphafsmann tilraunaeðlisfræði.

Margar uppgötvanir eru eignaðar Galíleó. Í stjörnufræðinni uppgötvaði hann meðal annars fjögur af tunglum Júpíters, fjöllin á tunglinu og kvartilaskipti Venusar, og hann uppgötvaði að Vetrarbrautin er mynduð úr stjörnum. Í eðlisfræði kannaði hann þau lögmál sem stjórna sveiflum pendúls og falli hluta. Hann fann upp eins konar reiknistokk. Hann smíðaði sjónauka eftir upplýsingum sem hann fékk frá Hollandi, og sjónaukinn opnaði honum sýn á alheiminn.

En langvinn átök við klerkaveldi kirkjunnar breyttu starfsferli þessa afburðavísindamanns í átakanlegan sjónleik. Hver var kveikja þessara átaka?

Átök við kirkjuna í Róm

Fyrir lok 16. aldar var Galíleó orðinn hallur undir sólmiðjukenningu Kóperníkusar, en kenningin er á þá lund að jörðin gangi um sólina en ekki öfugt. Hann sannfærðist um að hann hefði staðfest sólmiðjukenninguna eftir að hann fór að skoða himingeiminn með sjónauka sínum árið 1610 og uppgötvaði áður óþekkt himintungl.

Að sögn alfræðibókarinnar Grande Dizionario Enciclopedico UTET var Galíleó það ekki nóg að uppgötva þetta heldur vildi hann sannfæra „æðstu fyrirmenn samtíðarinnar (fursta og kardínála)“ um að kenning Kóperníkusar væri rétt. Hann vonaðist til þess að geta sigrast á andstöðu kirkjunnar og jafnvel fengið stuðning hennar, og hann vænti þess að áhrifaríkir vinir legðu sér lið.

Galíleó hélt til Rómar árið 1611 þar sem hann hitti háttsetta kennimenn. Hann sýndi þeim með sjónaukanum hvað hann hefði uppgötvað í stjörnufræði. En það fór öðruvísi en Galíleó hafði gert sér vonir um og árið 1616 sætti hann opinberri rannsókn.

Guðfræðingar rómverska rannsóknarréttarins stimpluðu sólmiðjukenninguna „heimskulega og fáránlega frá sjónarhóli heimspekinnar og formlega villutrú, því að víða stangast hún beinlínis á við málsgreinar Heilagrar ritningar samkvæmt bókstaflegri merkingu þeirra, almenna útlistun og skilning hinna helgu feðra og guðfræðinga“.

Galíleó átti fund með Robert Bellarmine kardínála sem álitinn var mesti guðfræðingur kaþólskra á þeim tíma og kallaður „trúvillingabaninn“. Bellarmine áminnti Galíleó formlega um að hætta að halda fram skoðunum sínum um sólmiðjukerfi.

Frammi fyrir rannsóknarréttinum

Galíleó reyndi að fara að öllu með gát en hélt þó áfram að styðja kenningu Kóperníkusar. Sautján árum síðar, árið 1633, var Galíleó kallaður fyrir rannsóknarréttinn. Bellarmine kardínáli var nú látinn og höfuðandstæðingur Galíleós var Úrban páfi áttundi sem hafði áður verið honum hliðhollur. Blaðamenn hafa kallað réttarhöldin einhver frægustu og ranglátustu réttarhöld fortíðar, jafnvel á borð við réttarhöldin yfir Sókratesi og Jesú.

Hvað varð þess valdandi að Galíleó var kallaður fyrir réttinn? Hann hafði skrifað bók sem nefndist Dialogo sopra i due massimi sistemi del mondo, tolemaico e copernicano (Samræða um helstu heimskerfin tvö). Bókin aðhylltist sólmiðjukenninguna. Galíleó var fyrirskipað að gefa sig fram við réttinn árið 1632 en hann frestaði því, enda næstum sjötugur að aldri og sjúkur. Hann hélt til Rómar árið eftir og hafði þá verið hótað fangavist og nauðungarflutningi. Að skipun páfa var hann yfirheyrður og honum var jafnvel hótað pyndingum.

Mönnum kemur ekki saman um það hvort hinn aldraði og sjúki maður hafi verið pyndaður í raun og veru. Í hinu skráða dómsorði er tekið fram að Galíleó hafi sætt „strangri rannsókn“. Italo Mereu, sem er sérfróður um sögu ítalskra laga, segir að þetta sé fagheiti sem notað hafi verið um pyndingar. Margir fræðimenn taka undir með honum.

Hvað sem því líður var Galíleó dæmdur í nöturlegum sal í Róm hinn 22. júní árið 1633. Hann var fundinn sekur um að „aðhyllast og trúa falskenningu er stríðir gegn heilagri og guðlegri ritningu, að sólin . . . gangi ekki frá austri til vesturs og að jörðin sé á hreyfingu og sé ekki miðdepill heimsins“.

Galíleó vildi ekki verða píslarvottur og var því tilneyddur til að afneita kenningum sínum. Eftir að dómurinn var kveðinn upp kraup hinn aldraði vísindamaður á kné, klæddur iðrunarklæðum, og lýsti yfir: „Ég afneita, formæli og fyrirlít hinar fyrrnefndu ávirðingar og trúvillu [kenningu Kóperníkusar], og almennt öllum öðrum ávirðingum, trúvillu eða sértrú er gengur í berhögg við hina helgu kirkju.“

Munnmæli herma að eftir að Galíleó afneitaði kenningu Kóperníkusar hafi hann stappað í gólfið og hrópað: „Hún snýst nú samt!“ Engar óyggjandi heimildir eru þó fyrir þessu. Fræðimenn segja að sú auðmýking að þurfa að afneita uppgötvunum sínum hafi kvalið hinn aldna vísindamann til dauðadags. Hann var dæmdur til fangavistar en dómnum var breytt í ævilangt stofufangelsi. Hann missti sjónina smám saman og bjó nánast í algerri einangrun síðustu æviárin.

Átök trúar og vísinda?

Margir telja að átök Galíleós og kirkjunnar sanni að það sé ógerlegt að sætta trú og vísindi. Meðferð kirkjunnar á honum hefur reyndar gert marga afhuga trúarbrögðum á þeim öldum sem liðnar eru síðan hann var uppi. Hún hefur sannfært margan manninn um að trúarbrögðin séu í eðli sínu þrándur í götu vísindalegra framfara. En er raunin sú?

Úrban páfi áttundi og guðfræðingar rómverska rannsóknarréttarins fordæmdu vissulega kenningu Kóperníkusar og fullyrtu að hún stangaðist á við Biblíuna. Fjandmenn Galíleós vísuðu í orð Jósúa er hann sagði: „Sól statt þú kyrr,“ og túlkuðu þau svo að það bæri að taka þau bókstaflega. (Jósúabók 10:12) En stangast Biblían á við kenningu Kóperníkusar? Alls ekki.

Það var alröng túlkun á Biblíunni sem stangaðist á við vísindin, og Galíleó sá málið í því ljósi. Hann skrifaði nemanda sínum: „Ritningin getur ekki farið með rangt mál en þeim sem túlka hana og skýra getur skjátlast á ýmsa vegu. Ein mistökin, sem eru bæði mjög alvarleg og mjög algeng, eru þau að þeir vilja alltaf einskorða sig við hina bókstaflegu merkingu.“ Allir einlægir biblíunemendur hljóta að taka undir það. *

Galíleó gekk skrefi lengra. Hann hélt því fram að Biblían og bók náttúrunnar væru báðar skrifaðar af sama höfundi og geti ekki stangast á. Hann bætti þó við að það sé ekki hægt „að fullyrða með vissu að allir túlkendur séu guðinnblásnir“. Líklegt er að það hafi verið litið á þessa óbeinu gagnrýni á opinbera túlkun kirkjunnar sem ögrun, og það hafi orðið til þess að rómverski rannsóknarrétturinn sakfelldi vísindamanninn. Hvernig dirfðist óbreyttur leikmaður að skipta sér af því sem heyrði undir kirkjunnar menn?

Nokkrir fræðimenn hafa vísað í málið gegn Galíleó og lýst efasemdum sínum um að kirkjan og páfinn séu óskeikul. Kaþólski guðfræðingurinn Hans Küng segir að „fjölmargar og óumdeilanlegar“ villur „í opinberri kenningu kirkjunnar“ veki vafa um að kirkjan sé óskeikul eins og trúarsetning hennar hljóðar upp á. „Dómurinn yfir Galíleó“ sé dæmi um það.

Fær Galíleó uppreisn æru?

Jóhannes Páll páfi annar vonaðist til þess að staða Galíleós yrði endurskoðuð í nóvember 1979, ári eftir að hann var kjörinn. Páfi viðurkenndi að Galíleó „hefði þjáðst mjög . . . af hendi manna og stofnana kirkjunnar“. Árið 1992, þrettán árum síðar, viðurkenndi nefnd skipuð af páfa: „Vissir guðfræðingar, samtíðarmenn Galíleós, . . . áttuðu sig ekki á hinni djúpstæðu og óbeinu merkingu Ritningarinnar er hún lýsir eðlisgerð hins skapaða alheims.“

En guðfræðingar voru ekki einir um að gagnrýna sólmiðjukenninguna. Úrban páfi áttundi, sem gegndi mikilvægu hlutverki í þessu máli, krafðist þess með þrákelkni að Galíleó stillti sig um að grafa undan hinni aldagömlu kenningu kirkjunnar að jörðin sé miðpunktur alheimsins. Þessi kenning var ekki ættuð frá Biblíunni heldur gríska heimspekingnum Aristótelesi.

Eftir að hin páfalega nefnd hafði farið vandlega yfir mál Galíleós kallaði páfi dóminn yfir honum „fljótfærnislegan og óheppilegan úrskurð“. Fékk vísindamaðurinn þá uppreisn æru? „Það er fáránlegt að tala um að Galíleó hafi fengið uppreisn æru, eins og sumir segja,“ skrifar rithöfundur einn, „því að sagan fordæmir ekki Galíleó heldur hinn kirkjulega dómstól.“ Sagnfræðingurinn Luigi Firpo segir: „Það er ekki hlutverk ofsóknarmanna að veita fórnarlömbum sínum uppreisn æru.“

Biblían er ‚ljós sem skín á myrkum stað‘ og Galíleó varði hana gegn rangri túlkun. (2. Pétursbréf 1:19) Kirkjan gerði hið gagnstæða. Hún kaus að verja erfikenningar manna á kostnað Biblíunnar.

[Neðanmáls]

^ Heiðarlegum lesanda Biblíunnar er það ljóst að orðin „Sól statt þú kyrr“ eru ekki hugsuð sem vísindaleg skýring heldur sem einföld athugasemd um það sem bar fyrir augu manna. Stjörnufræðingar tala um að sól, stjörnur og reikistjörnur rísi og setjist. Þeir eiga hins vegar ekki við það að himintunglin snúist bókstaflega um jörðina heldur eru þeir að lýsa því hvernig þau virðast ganga um himininn séð frá jörð.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 20]

Ævi Galíleós

Galíleó Galílei fæddist í Písa árið 1564 og nam læknisfræði við háskólann þar, en faðir hans var frá Flórens. En læknisfræðin höfðaði ekki til hans og sneri hann sér þá að eðlisfræði og stærðfræði. Árið 1585 flutti hann aftur heim til fjölskyldunnar án þess að hafa lokið prófi. Honum tókst þó að ávinna sér virðingu helstu stærðfræðinga samtíðarinnar og fékk stöðu stærðfræðikennara við háskólann í Písa. En fjárhagurinn var bágur svo að hann neyddist til að flytja til Padúa eftir að faðir hans féll frá, og fékk ábatasamari stöðu sem prófessor í stærðfræði við háskólann þar í borg.

Galíleó bjó í 18 ár í Padúa og eignaðist þar þrjú börn með ungri konu frá Feneyjum en giftist henni aldrei. Hann sneri aftur til Flórens árið 1610 og við það vænkaðist hagur hans svo að hann gat varið meiri tíma til rannsókna en áður — en á móti glataði hann nokkru af því frjálsræði sem hann hafði notið í Feneyjalýðveldinu. Stórhertoginn í Toscana skipaði hann „yfirheimspeking og stærðfræðing“ sinn. Galíleó lést í Flórens árið 1642 þar sem hann bjó í stofufangelsi eftir dóm rannsóknarréttarins.

[Credit line]

Úr bókinni The Library of Original Sources, VI. bindi, 1915.

[Mynd á blaðsíðu 18]

Sjónauki Galíleós sem hann notaði til að staðfesta að jörðin væri ekki miðpunktur alheimsins.

[Credit line]

Scala/Art Resource, NY.

[Mynd á blaðsíðu 18]

Jarðmiðjukenningin.

Sólmiðjukenningin.

[Credit line]

Bakgrunnur: © 1998 Visual Language.

[Mynd credit line á blaðsíðu 17]

Mynd: Úr bókinni The Historian’s History of the World.