Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hin Undurfagra þjóðleið 1

Hin Undurfagra þjóðleið 1

Hin Undurfagra þjóðleið 1

Eftir fréttaritara Vaknið! í Noregi

ÁHVERJU kvöldi árið um kring leggur skip úr höfn frá borginni Björgvin á suðvesturströnd Noregs. Framundan er 4500 kílómetra sigling sem tekur 11 daga. Það siglir fram hjá þúsundum eyja, um fjölmarga firði og flóa og kemur við í borgum, bæjum og þorpum sem liggja meðfram stórbrotinni og fagurri strönd Noregs.

Þótt siglingaleiðin meðfram Noregsströnd sé að mati margra ein sú fegursta í heimi gegnir hún líka mjög mikilvægu hlutverki. Farið er með varning, póst og farþega milli staða alla leið til endastöðvarinnar í Kirkenes sem liggur langt fyrir norðan heimskautsbaug.

Hvernig er hægt að sigla um þessar norðlægu slóðir á veturna þegar hafís lokar flestum siglingaleiðum á heimskautssvæðinu? Lega Noregs gerir það að verkum að landið verður fyrir áhrifum frá hlýjum Norður-Atlantshafsstraumnum og mildum vestanvindum. Hvort tveggja temprar loftslag Noregs og gerir það að verkum að það er mildara en ætla mætti af legu landsins. Hafnir Noregs eru því nánast lausar við ís, jafnvel á veturna.

Sjóleiðin verður til

Þegar hugað var að því seint á 19. öld að bæta samgöngur við strandbyggðir Noregs var veðjað á strandferðir frekar en vega- eða járnbrautarsamband. Sjóleiðin var þó vandfarin á þeim tíma því að það var alls ekki hættulaust að sigla á nóttunni og í slæmu veðri jafnvel þótt sjórinn sjálfur væri ekki ísi lagður.

Reglulegum siglingum var komið á hinn 2. júlí 1893 og var það einkum að þakka hugvitssemi og einbeitni Richards Withs skipstjóra. Þann dag lagði fyrsta skipið úr höfn frá Þrándheimi og stefndi á endastöðina Hammerfest sem er nyrsta borg Evrópu. Siglingin var vel heppnuð þrátt fyrir svartsýnisspár. Seinna var bætt við 34 viðkomustöðum milli Björgvinjar og Kirkeness sem eru upphafs- og endastöðvar sjóleiðarinnar enn þann dag í dag. Íbúar meðfram strandlengjunni kalla þetta þjóðleið 1 og það vitnar sennilega betur en nokkuð annað um mikilvægi hennar og vinsældir.

Nú á dögum sigla 11 skip með sólarhrings millibili á þjóðleið 1. En vegna mikilla umbóta á vega- og járnbrautarkerfi, sem tengir marga bæina meðfram strandlengjunni, hefur hlutverk sjóleiðarinnar færst meira í áttina að ferðaþjónustu og sést það vel á hönnun skipanna.

Land í víðsjá

Siglingaleiðin liggur að mestu leyti um lygnan sjó. Farþegarnir fá því í 11 daga að njóta þess besta útsýnis sem Noregur hefur upp á að bjóða. Þar á meðal eru vinaleg smáþorp á gróskumiklum beitilöndum, fiskimannaþorp, jöklar, firðir, snæviþaktir tindar, klettar með óteljandi sjófuglum, tignarlegir fossar og jafnvel hvalir.

Í kaupauka geta farþegarnir farið frá borði til að fara í skoðunarferðir þegar skipið leggst að bryggju. Frá bænum Molde er til dæmis stórkostlegt útsýni yfir 87 snæviþakta tinda Romsdal-alpanna. Í Álasundi og Þrándheimi gæti jafnvel gefist tími til að rölta um götur og skoða sérstæða byggingarlist staðanna. Í sumum bæjum leigja farþegar bíl og ganga um borð á ný í næstu höfn.

Eftir að farið er frá Bodø er siglt fram hjá Vestfirði og stefnt að Lofoten. Lofoten er 175 kílómetra langur eyjaklasi sem hefur af að státa fjölmörgum fjallstindum og vinalegum sjávarþorpum. Sumar ystu eyjar Lofoten eru aðeins rif, smáeyjar og klettar sem standa upp úr sjónum og er viti eða leiðarljós á sumum þeirra. Á eyjaklasanum eru líka sum af heimsins stærstu kjörlendum sjófugla, þar á meðal máva, kríu, æðarfugls, lunda, langvíu, skarfs, ritu og álku, og einstaka sinnum sést til svölu. Fuglarnir teljast í milljónum.

Sjórinn kringum Lofoten iðar af lífi á hverjum vetri þegar fiskibátar koma til þorskveiða sem Norðmenn kalla skrei. Þarna er líka mikið um hval. Maður getur rétt ímyndað sér hversu spenntir farþegarnir eru þegar þeir sjá þessi risastóru spendýr spýta sjó og hendast í heljarstökkum hátt í loft örstutt frá skipinu.

Á sumrin tekur skipið á sig krók inn í Trollfjörð. Leiðin inn í fjörðinn er mjög þröng og eru þverhníptir klettar á báðar hendur. Það er engu líkara en maður geti teygt sig yfir borðstokk skipsins og snert bergvegginn. Stýrimaðurinn þeytir ekki skipsflautuna á þessum stað þar sem það gæti hrundið af stað grjótskriðu. Snæviþaktir tindar prýða þennan hluta strandlengjunnar og er hann því draumur hvers ljósmyndara.

Eftir að hafa komið við í nokkrum bæjum og sjávarþorpum til viðbótar er haldið í austur í áttina að þeim hluta strandlengjunnar sem er í hugum margra farþeganna hámark ferðarinnar. Í Honningsvåg geta farþegarnir farið í skoðunarferð til Nordkapp. Þar rís bergið næstum lóðrétt í um 300 metra hæð upp úr Norður-Íshafi og skapar þannig fagurt útsýni.

Skipið tekur höfn í Kirkenes sem er endastöðin í norðri, og snýr svo aftur áleiðis til Björgvinjar eftir aðeins nokkurra klukkustunda viðdvöl. Á leiðinni suður geta farþegar notið þess landslags sem fór kannski fram hjá þeim á meðan þeir sváfu á leiðinni norður. Við heimskautsbaug er til dæmis hægt að sjá Svartisen sem er annar stærsti jökull Noregs, um 370 ferkílómetra að stærð. Síðan er siglt fram hjá fallegum fjallgarði sem kallast Systurnar sjö og lágu og kúlulaga fjalli, Torghatten. Í gegnum Torghatten liggja göng, gerð af náttúrunnar hendi þannig að fjallið lítur út eins og hattkúfur með gati. Milli bæjanna Måløy og Florø er siglt fram hjá fjalli sem rís um 860 metra upp úr sjónum og kallast Hornelen. Stýrimaðurinn þeytir heldur ekki skipsflautuna þar því að fjallið er snarbratt og hætta á grjóthruni.

Miðnætursólin og heimskautanætur

Þeir sem sigla þessa leið að sumri til geta upplifað samfellda dagsbirtu nánast alla ferðina. Reyndar liggur meiri hluti þjóðleiðar 1 um „land miðnætursólarinnar“, norðan við heimskautsbaug. Við Nordkapp gengur sólin ekki til viðar í næstum 12 vikur.

Vetrarferðalangar upplifa hins vegar hið gagnstæða — langar heimskautanætur. En veturinn býr yfir sinni sérstæðu fegurð þegar himinn, haf og snæviþaktir tindar glampa í daufu skini sólar sem nálgast sjóndeildarhring en nær ekki að rísa yfir hann. Dökkur veturhiminninn er hið fullkomna baksvið fyrir eina af mikilfenglegustu sýningunum — norðurljósin. Straumar rafhlaðinna agna frá sólinni svífa um heimskautahimininn og mynda græn, gulgræn og stundum rauðleit ljós sem dansa um stjörnuprýddan himin og mynda hrífandi tjöld og boga sem sveigjast, flökta og bylgjast eftir eigin takti.

En auðvitað þarftu ekki að sigla meðfram strandlengjunni til að sjá þessi heillandi náttúruundur. Vegna þess að vega- og járnbrautarkerfið hefur þanist út er líka hægt að njóta þess sem Noregur hefur upp á að bjóða með því að ferðast um í lest eða í bíl. Þess konar ferðamáti gæti reynst hagkvæmari fyrir þá sem vilja ferðast ódýrt. En hvaða leið sem valin er þá er eitt víst — maður þreytist aldrei á fegurð hinnar óviðjafnanlegu strandlengju Noregs sem breytist með hverjum kílómetra og hverri árstíð.

[Kort á blaðsíðu 21]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

FINNLAND

SVÍÞJÓÐ

NOREGUR

ÓSLÓ

Sjóleiðin

▿ ▵ Björgvin

▿ ▵ Florø

▿ ▵ Måløy

▿ ▵ Álasund

▿ ▵ Molde

▿ ▵ Þrándheimur

HEIMSKAUTSBAUGUR

Landamerki við heimskautsbaug

▿ ▵ Bodø

▿ ▵ Lofoten

Trollfjörður

▿ ▵ Tromsø

▿ ▵ Hammerfest

▿ ▵ Honningsvåg

▿ ▵ Kirkenes

[Credit line]

Byggt á korti frá Hurtigruten.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Umkringd fjallstindum í Trollfirði.

[Credit line]

TO-FOTO AS, Harstad.

[Myndir á blaðsíðu 23]

Lofoten er heimkynni margra sjófugla eins og máva, stuttnefju og lunda.

[Mynd á blaðsíðu 24]

Þjóðleið byrjar í Björgvin.

[Mynd á blaðsíðu 24]

Landamerki við heimskautsbaug.

[Mynd á blaðsíðu 24]

Miðnætursól.

[Credit line]

TO-FOTO AS, Harstad.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Systurnar sjö.

[Credit line]

Per Eide.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Sjávarþorp um hávetur.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Norðurljós.

[Credit line]

© TO-FOTO AS, Harstad.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Sjóferðin endar í Kirkenes.

[Credit line]

Hallgeir Henriksen.

[Mynd credit line á blaðsíðu 21]

Nancy Bundt.