Horft á heiminn
Horft á heiminn
Það kostar sitt að vinna með skóla
Sífellt fleiri unglingar í Þýskalandi vinna ekki bara þegar þeir eru í fríi heldur einnig með skólanum. „Að minnsta kosti þriðjungur þýskra barna 13 ára og eldri vinnur að meðaltali meira en þrjár klukkustundir á viku,“ að sögn tímaritsins Der Spiegel. Í þýska fylkinu Hessen eru á milli 50 og 80 prósent útskriftarnemenda í framhaldsskóla í hlutastarfi. Yfirleitt er það ekki til þess að hjálpa fjölskyldunni að láta enda ná saman heldur til að geta keypt sér tískuföt, bíla og nýjustu farsímana, og finna fyrir sjálfstæðistilfinningunni sem fylgir því að vera í vinnu. En það kostar sitt. „Það er ekki óalgengt að nemendur sofni með höfuðið á skólaborðinu vegna þess að þeir unnu mikið daginn áður eða jafnvel snemma um morguninn,“ segir Thomas Müller sem er kennari. „Þeir vilja lúxus í dag í stað menntunar fyrir morgundaginn.“ Annar kennari, Knud Dittmann, bætir við: „Þegar kaupþörfin er orðin rótgróin í huga barnanna eru þau tilbúin til að sætta sig við lágar einkunnir og jafnvel að þurfa að endurtaka skólaárið.“
Sjónvarpið mótar söguskoðun fólks
„Bretar telja dauða Díönu prinsessu vera þýðingarmesta atburð í sögu þjóðarinnar síðustu 100 ár; þýðingarmeiri en upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar eða daginn sem konur fengu kosningarétt,“ segir Lundúnablaðið The Times. Í könnun sem Sögurásin (History Channel) gerði voru yfir 1000 manns beðnir um að velja hver af 10 atburðum, sem gerst höfðu síðustu 100 ár, þeim fyndist þýðingarmestur í sögu Bretlands. Tuttugu og tveir af hundraði fannst dauði prinsessunnar þýðingarmesti atburðurinn, 21 af hundraði upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar og 15 af hundraði fannst það vera dagurinn sem konur fengu kosningarrétt. Þegar spurt var um heimsmálin völdu 41 prósent árásirnar þann 11. september, 19 prósent kjarnorkuárásina á Hírósíma og 11 prósent fall Berlínarmúrsins. „Skoðun fólks á sögunni mótast af því sem það hefur nýlega séð í sjónvarpinu,“ að sögn The Times.
„Lygar eru hörkuvinna fyrir heilann“
Vísindamenn við Pennsylvaníuháskóla hafa komist að raun um að heilinn þarf að leggja mun harðar að sér til að ljúga en segja satt. Læknirinn Daniel Langleben hefur rannsakað þetta fyrirbæri með segulsneiðmyndatæki til að staðsetja þau heilasvæði sem eru virk þegar manneskja segir ósatt. Þegar við erum spurð spurningar þarf heilinn að vinna úr henni fyrst. Síðan „hugsar lygarinn næstum ósjálfrátt um rétta svarið fyrst áður en hann upphugsar eða gefur rangt svar“, segir mexíkóska dagblaðið The News. „Ekkert fæst ókeypis í heilanum,“ segir Langleben. „Það er flóknara ferli að ljúga en segja satt og það kallar á meiri taugungastarfsemi.“ Þessi aukna taugungastarfsemi sést eins og logandi ljósapera á segulsneiðmynd. „Lygar eru hörkuvinna fyrir heilann, jafnvel hjá tunguliprasta manni,“ segir blaðið.
Slæmur undirbúningur fyrir hjónaband
Meira en 40 prósent hjóna, sem hafa verið í sambúð fyrir hjónaband, skilja áður en þau eiga 10 ára brúðkaupsafmæli, segir í dagblaðinu Daily News í New York. Tölur frá National Center for Health Statistics í Bandaríkjunum sýna líka að hjón sem búa saman fyrir hjónaband og eru gift í meira en 10 ár eru helmingi líklegri til að sækja um skilnað að lokum en þeir sem búa ekki saman fyrir hjónaband. „Ólíklegt er að par sem er í giftingarhugleiðingum [en] vill ekki búa saman fyrir giftinguna eigi eftir að sækja um skilnað,“ segir Matthew Bramlett sem vann að þessari skýrslugerð. Að sögn hjónabandsráðgjafans Alice Stephens lítur út fyrir að fólk, sem hafi búið saman fyrir hjónaband, „vilji síður leggja á sig það tilfinningalega álag sem því fylgir að leysa erfiðleikana í sambandinu“.