Hvers vegna er rangt að svindla?
Ungt fólk spyr . . .
Hvers vegna er rangt að svindla?
„Allir vita að það er rangt að svindla, en það er bara svo auðvelt.“ — Jimmy, 17 ára.
HEFUR þú einhvern tíma látið freistast til að kíkja á prófblað bekkjarfélaga? Ef svo er ertu ekki sá eini. Jenna, sem er á öðru ári í framhaldsskóla, segir að margir bekkjarfélagar hennar skammist sín ekkert fyrir það að svindla: „Þeir monta sig af því hvernig þeir fara að. Þeim finnst maður vera skrítinn ef maður svindlar ekki!“
Í könnun í Bandaríkjunum viðurkenndu 80 prósent þeirra unglinga, sem fengu hæstu einkunnirnar í bekknum, að þeir hefðu svindlað og 95 prósent þeirra komust upp með það. Stofnunin Josephson Institute of Ethics gerði könnun meðal rúmlega 20.000 nemenda á aldrinum 11-18 ára og komst að þessari niðurstöðu: „Heiðarleika og ráðvendni hefur hrakað stórlega.“ Kennarar eru agndofa yfir því hve algengt það er orðið að nemendur svindli. Gary J. Niels skólastjóri segir jafnvel: „Þeir sem svindla ekki eru í minnihluta.“
Flestir foreldrar ætlast til þess að börnin sinni náminu samviskusamlega. En því miður fórna margir unglingar heiðarleika sínum og svindla. Hvaða nýjar aðferðir nota þeir til þess? Hvers vegna svindla sumir unglingar? Hvers vegna ættirðu að forðast það?
Tæknin notuð til að svindla
Svindlari beitir alls konar brögðum. Það að afrita heimaverkefni eða nota svindlmiða virðist meira að segja vera saklaust miðað við aðferðirnar sem nútímatækni býður upp á. Sem dæmi má nefna að svör við prófspurningum eru send í farsíma, viðbótarupplýsingum er komið fyrir í reiknivélum, litlar myndavélar eru faldar í fötum og notaðar til að senda spurningar til aðstoðarmanns annars staðar, skilaboð eru send með innrauðu ljósi til bekkjarfélaga í stofunni og á vefsíðum má jafnvel finna svör við prófum í flestöllum námsgreinum.
Kennarar eru að reyna að snúa þessari óheillaþróun við en það er alls ekki auðvelt þar sem nemendur og jafnvel kennarar eru ekki allir sammála um hvað teljist vera svindl. Ef nokkrir nemendur eiga til dæmis að vinna að skólaverkefni saman geta skilin milli sanngjarnrar verkaskiptingar og óheiðarlegs samráðs verið nokkuð óljós. Sumir misnota sér kannski samvinnuna og láta hina sjá um alla vinnuna. „Sumir nemendurnir eru mjög latir — þeir nenna ekki að gera neitt!“ segir Yuji sem er í háskóla. „Og svo fá þeir sömu einkunn og hinir. Mér finnst það vera svindl.“
Hvers vegna svindla þeir?
Í einni könnun kom fram að algengasta ástæðan fyrir því að margir nemendur ákveða að svindla sé ónógur undirbúningur. Sumir nemendur finna fyrir miklum samkeppnisanda í skólanum eða eiga kröfuharða foreldra , og telja sig þess vegna ekki eiga annarra kosta völ. Sam, sem er 13 ára, segir: „Foreldrum mínum finnst einkunnir skipta öllu. Ég þoli ekki þegar þau spyrja mig: ‚Hvað fékkstu í stærðfræði? Hvað fékkstu í ensku?‘“
Sumir fara að svindla út af stöðugum þrýstingi til að fá háar einkunnir. Í bókinni The Private Life of the American Teenager stendur: „Það er eitthvað að samfélagi sem gerir svo miklar kröfur að námsgleðin verður að víkja fyrir kröfunni um árangur og það stundum á kostnað heiðarleikans.“ Margir nemendur eru sammála þessu. Það vill auðvitað enginn falla á prófi, hvað þá allri önninni. „Sumir eru alveg rosalega hræddir við það að falla,“ segir Jimmy sem er í framhaldsskóla. „Jafnvel þótt þeir viti svörin svindla þeir bara til öryggis.“
Svindl getur virst skaðlaust vegna þess hve margir eru tilbúnir til að láta heiðarleikann lönd og leið. Stundum getur jafnvel virst mikill hagur í því að svindla. „Í gær sá ég ungling svindla á prófi í áfanga sem ég er í. Þegar við fengum prófið aftur í dag sá ég að hann fékk hærri einkunn en ég,“ segir Greg sem er 17 ára. Það hefur áhrif á marga að það skuli vera svona algengt að jafnaldrar þeirra svindli. „Sumum finnst þeir þurfi að svindla sjálfir fyrst allir aðrir geri það,“ segir Yuji. En er það rétt?
Lúmskur ávani
Berðu saman svindl og þjófnað. Er allt í lagi að stela fyrst margir gera það? ‚Auðvitað ekki,‘ hugsar þú kannski — sérstaklega ef verið væri að stela þínum peningum. Með því að svindla eignum við okkur heiðurinn af því sem við eigum ekki skilið og notfærum okkur jafnvel um leið þá sem eru heiðarlegir. (Efesusbréfið 4:28) „Það er einfaldlega ekki rétt að gera það,“ segir Tommy sem lauk nýlega framhaldsskóla. „Þegar maður segir: ‚Ég kann þetta,‘ þótt maður kunni það ekki í raun og veru er maður að ljúga.“ Afstaða Biblíunnar til ósanninda er augljós af Kólossubréfinu 3:9: „Ljúgið ekki hver að öðrum.“
Svindl getur orðið að ávana sem erfitt er að hætta. „Svindlarar venjast því að þurfa ekki einu sinni að læra til að ná prófum svo að þeir treysta bara á svindl. En þegar þeir þurfa að treysta á sjálfa sig vita þeir ekkert hvernig þeir eiga að fara að,“ segir Jenna.
Frumreglan í Galatabréfinu 6:7 er umhugsunarverð: „Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera.“ Sá sem svindlar í skóla getur fengið slæmt samviskubit, glatað trausti vina sinna og orðið eftir á í námsþroska af því að hann hlífði sér við því að læra. Þetta blekkingarmynstur getur, eins og illkynja krabbamein, smitað önnur svið lífsins og eyðilagt dýrmætustu vináttusambönd manns. Það hefur örugglega slæm áhrif á sambandið við Guð því að hann hefur ekki velþóknun á blekkingum. — Orðskviðirnir 11:1.
Þeir sem treysta á svindl blekkja sjálfa sig. (Orðskviðirnir 12:19) Með því að svindla sýna þeir svipað hugarfar og spilltir stjórnendur í Jerúsalem til forna sögðu í reynd: „Vér höfum gjört lygi að hæli voru og falið oss í skjóli svikanna.“ (Jesaja 28:15) En sá sem svindlar getur ekki leynt verkum sínum fyrir Guði. — Hebreabréfið 4:13.
Svindlaðu ekki!
Oft leggja unglingar mikið á sig til þess að svindla. En þeir væru betur settir ef þeir notuðu hugvitssemina til þess að afla sér menntunar á heiðarlegan hátt. Abby, sem er 18 ára, segir: „Ef þeir legðu sig jafnmikið fram við námið og þeir leggja sig fram við að svindla gengi þeim líklega mjög vel.“
Freistingin til að svindla getur auðvitað verið sterk. En þetta er siðferðileg tálgryfja sem þú verður að forðast. (Orðskviðirnir 2:10-15) Hvernig geturðu gert það? Þú getur byrjað á því að rifja upp hvers vegna þú ert í skóla. Þú ert þar til að læra. Það virðist að vísu ekki alltaf vera mikið gagn í því að læra ótal staðreyndir sem maður á kannski aldrei eftir að nota en ef maður reynir að sneiða hjá því að læra með því að svindla dregur það úr hæfni manns til að læra nýja hluti og beita þekkingunni. Maður aflar sér ekki hygginda og skynsemi án þess að leggja eitthvað á sig. Biblían segir: „Kaup þú sannleika, og sel hann ekki, visku, aga og hyggindi.“ (Orðskviðirnir 23:23) Já, þú verður að taka námið og heimalærdóminn alvarlega. „Maður verður að lesa fyrir prófin,“ segir Jimmy. „Þá verður maður öruggur og viss um að geta svarað spurningunum rétt.“
Það kann að vera að þú vitir ekki öll svörin og fáir þess vegna lægri einkunn fyrir vikið. En ef þú víkur ekki frá lífsreglum þínum sérðu skýrar hvernig þú getur tekið framförum. — Orðskviðirnir 21:5.
Yuji er vottur Jehóva. Hann útskýrir hvað hann gerir þegar bekkjarfélagarnir reyna að fá hann til að hjálpa sér að svindla: „Fyrst segi ég þeim að ég sé vottur Jehóva. Það hefur hjálpað mér mikið því að þeir vita að vottar Jehóva eru heiðarlegir. Ef einhver biður mig í prófi um að segja sér svarið við einhverri spurningu, segi ég bara nei. Svo get ég útskýrt fyrir honum seinna hvers vegna ég svindla ekki.“
Yuji er sammála því sem Páll postuli sagði í Hebreabréfinu: ‚Við viljum í öllum greinum breyta vel.‘ (Hebreabréfið 13:18) Ef þú ert heiðarlegur og víkur ekki frá góðum lífsreglum með því að svindla hafa góðar einkunnir raunverulegt gildi. Þú kemur þá heim úr skólanum með eina bestu gjöfina sem þú getur gefið foreldrum þínum — þann vitnisburð að þú sért ráðvandur í trúnni. (3. Jóhannesarbréf 4) Enn fremur varðveitirðu hreina samvisku og nýtur þess að vita að þú gleður hjarta Jehóva Guðs. — Orðskviðirnir 27:11.
Forðastu þess vegna svindl hversu algengt sem það er. Þannig geturðu varðveitt vináttu annarra og það sem mestu máli skiptir, vináttu hins sanna Guðs Jehóva. — Sálmur 11:7; 31:6.
[Innskot á blaðsíðu 15]
Sá sem svindlar áttar sig oft ekki á því að hann er í rauninni að stela.
[Innskot á blaðsíðu 15]
Svindl leiðir oft til alvarlegri óheiðarleika.
[Innskot á blaðsíðu 16]
Svindlari getur ekki leynt verkum sínum fyrir Guði.
[Mynd á blaðsíðu 16]
Góður undirbúningur fyrir próf veitir þér sjálfstraust.