Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Njóttu helgarinnar!

Njóttu helgarinnar!

Njóttu helgarinnar!

NÆSTUM allir hlakka til hennar og hjá mörgum er hún hápunktur vikunnar. Sumir nota hana til að ferðast, sumir til að rækja trú sína, sumir til að stunda einhverja afþreyingu en aðrir halda kyrru fyrir heima og sofa.

Við erum að tala um helgina — tímann frá því að einni vinnuviku (eða skólaviku) lýkur og önnur hefst. Í hinum vestræna heimi byrjar helgin yfirleitt síðla dags á föstudegi og stendur fram á sunnudag. En hvaðan kom hugmyndin um helgi? Og hvernig geta þeir sem vinna fimm daga vinnuviku nýtt helgina vel?

Frá hvíldardegi til helgar

Ísraelsmenn fengu löggjöf um hvíldardaginn fyrir um 3500 árum. Þar stóð: „Sex daga skal verk vinna, en sjöundi dagurinn er algjör hvíldardagur, helgaður Drottni. Hver sem verk vinnur á hvíldardegi, skal vissulega líflátinn verða.“ (2. Mósebók 31:15) Hvíldardagurinn gaf Ísraelsmönnum líka tækifæri til að sinna andlegum þörfum fjölskyldunnar.

Hvíldardagur Gyðinga hófst við sólsetur á föstudegi og lauk við sólsetur á laugardegi. En samkvæmt alfræðiorðabókinni The World Book Encyclopedia gerðu svonefndir kristnir menn „sunnudag að sérstökum tilbeiðsludegi vegna þess að þeir trúðu því að Jesús hefði risið upp á þeim degi. Á fjórðu öld viðurkenndu bæði kirkjan og ríkið sunnudaginn opinberlega sem hvíldardag í Evrópu.“

Það er athyglisvert að ekki er mjög langt síðan hvíldartíminn varð lengri en einn dagur. Bretar voru fyrstir til þess að stytta vinnuvikuna þannig að á áttunda áratug 19. aldar lauk henni á hádegi á laugardegi. Helgarfríið var þá hálfur laugardagurinn og allur sunnudagurinn. Fjölskyldan borðaði saman strax eftir hádegi á laugardegi og samkvæmt tímaritinu Atlantic Monthly „var síðan farið í hið vikulega bað í baðhúsi hverfisins“.

Í Bandaríkjunum var helgin síðan lengd upp í tvo daga. Ein heimild segir að verksmiðja í Nýja Englandi hafi verið fyrst til að innleiða fimm daga vinnuviku árið 1908. Þetta fyrirkomulag hentaði bæði Gyðingum og „kristnum“ mönnum þar sem þeir hafa hvorir sinn hvíldardag — Gyðingar laugardaga og „kristnir“ menn sunnudaga. Fimm daga vinnuvikan naut strax vinsælda. Bílaframleiðandinn Henry Ford studdi hana eindregið því að hann sá fyrir sér að fjölskylduferðir um helgar myndu auka eftirspurn eftir bílum.

Hvað ætlarðu að gera um helgina?

Tveggja daga helgi er orðin rótgróin í vestrænu samfélagi. Þegar helgin nálgast er líklegt að vinnufélagi spyrji þig: „Hvað ætlarðu að gera um helgina?“ Möguleikarnir eru margir.

Vinnuveitandinn hefur fengið að ráða tíma þínum í heila viku en helgin veitir þér tækifæri til að ráða þér sjálfur. Hún gefur þér tækifæri til að fá tilbreytingu frá hinum daglega vanagangi. Þú getur hvílt þig eða varið tíma með ástvinum. Þú gætir líka tekið þátt í einni vinsælustu helgarafþreyingunni — farið að versla. „Það er ofsalega gaman að fara í búðir,“ segir Brigitte sem býr í Þýskalandi.

Kannanir sýna að margir kjósa að nota frítíma sinn einfaldlega til að slaka á. Þeir sem eru heimakærir geta gert sér margt til afþreyingar. Þeir geta til dæmis dundað sér í garðinum eða ræktað blóm, safnað frímerkjum, spilað eða hlustað á tónlist, horft á myndbönd, eldað, skrifað bréf, lesið, saumað, prjónað, stundað íþróttir eða málað, svo að fáein dæmi séu nefnd. Sumir kjósa að gera eitthvað með maka sínum og börnum, til dæmis að púsla eða spila. *

Fordæmir Biblían slíka dægrastyttingu og hvíldariðju í tómstundum? Nei, í sjálfu sér ekki. Salómon skrifaði: „Betri er hnefafylli af ró en báðar hendur fullar af striti og eftirsókn eftir vindi.“ (Prédikarinn 4:6) Hófleg afþreying, hvíld og slökun á vissulega rétt á sér hjá kristnum mönnum.

Að fara út í öfgar

En ef maður gætir ekki hófs gæti of mikið af því góða haft þveröfug áhrif og skemmt fyrir. Líkamleg æfing getur til dæmis verið góð. (1. Tímóteusarbréf 4:8) En sumir helgaríþróttamenn stunda íþróttir næstum því með trúarákafa. Þeir eru svo staðráðnir í að verða betri en aðrir með því að læra réttu tæknina að þeir eyða miklum tíma og peningum í íþróttaútbúnað og æfingar undir umsjón þjálfara.

Það getur líka farið illa með heilsuna ef maður ofreynir sig með því að reyna að láta líkamann gera meira en hann getur. Fréttatímarit segir að sumir miðaldra helgaríþróttamenn, sem séu staðráðnir í því að endurheimta æskuna, komi heim með snúna ökkla, tognaðir eða með sár og mar. Aðrir hætta lífi og limum í einhvers konar spennu- eða áhættuíþróttum. * Ráðleggingar Biblíunnar um hófsemi eiga vel við í þeim efnum. (Títusarbréfið 2:2) Líkamleg æfing ætti að endurnæra en ekki gera mann örmagna eða stofna lífi manns í hættu.

Þess vegna kjósa sumir að stunda hættuminni líkamsæfingar. Gönguferðir eru til dæmis mjög vinsælar í Þýskalandi. Ein afþreying, sem er mjög vinsæl í Evrópu, er kölluð áskorunarganga. Í henni keppir maður ekki við aðra heldur við tímann. Hún snýst um að ganga ákveðna leið úti í náttúrunni innan settra tímamarka. Þetta er ánægjuleg leið til að fá hreyfingu og samtímis njóta fegurðar umhverfisins og getur hentað allri fjölskyldunni.

Annríki um helgar

Sumir reyna að gera svo margt um helgar að þeir hafa litla eða enga ánægju af því sem þeir gera. Þeir eru ekki endurnærðir heldur úrvinda í byrjun nýrrar viku. Þýska tímaritið Focus greindi frá könnun þar sem fram kemur að 27 prósent þátttakenda sögðu að það sem þeir gerðu sér til afþreyingar væri oft of erilsamt og stressandi.

„Hvíld er undanfari dugnaðar,“ sagði tímaritið Time. Jesús Kristur vissi líka að við þurfum að slaka á og hvílast. Hann sagði lærisveinum sínum í Markúsi 6:31: „‚Komið þér nú á óbyggðan stað, svo að vér séum einir saman, og hvílist um stund.‘ En fjöldi fólks var stöðugt að koma og fara, svo að þeir höfðu ekki einu sinni næði til að matast.“ Þó svo að það sé vissulega ágætt að stunda líkamsþjálfun, fara að versla og fleira í þeim dúr, getur verið gott að gefa sér tíma til að lesa, hvíla sig eða sofa. En það er annað sem getur gert helgina ánægjulega.

Andlegar þarfir

Jesús sagði í fjallræðunni: „Sælir eru þeir sem eru sér meðvita um andlega þörf sína.“ (Matteus 5:3, NW) Tilgangurinn með upphaflega hvíldardeginum var meðal annars sá að gefa fólki tækifæri til að sinna andlegum þörfum sínum. Er líka hægt að nota helgarnar til þess núna? Skoðum hvað vottar Jehóva gera um helgar. Flestir söfnuðir þeirra halda aðalsamkomu sína annaðhvort á laugardegi eða sunnudegi. Þeir nota helgarnar einnig fyrir fjölmennari samkomur eins og svæðismót og landsmót. Margir vottar Jehóva nota tíma sinn um helgar til að fara hús úr húsi og ræða við nágranna sína um Biblíuna.

Vottar Jehóva þurfa auðvitað að sinna vinnunni, heimilinu og fjölskyldunni eins og allir aðrir. Þegar færi gefst nota þeir líka tíma til afþreyingar fyrir sjálfa sig og með fjölskyldunni. En þeir láta andlegu málin ganga fyrir. Finnst þeim það erfitt? Sjáum hvað nokkrir einstaklingar hafa að segja um það.

Áður en þýsku hjónin Jürgen og Doris urðu vottar eyddu þau helgunum á líkamsræktarstöðvum. Melle og Helena stunduðu listasöfn. Helmut fannst helgarnar vera tilvalinn tími til að vera úti og njóta náttúrunnar. Og Silvia fór á diskótek um helgar. En eftir að þau urðu vottar Jehóva breyttust tómstundavenjur þeirra til muna.

Jürgen og Doris segja: „Tómstundavenjur okkar komu í veg fyrir að okkur leiddist en það er ekki hægt að segja að þær hafi auðgað lífið. Núna hjálpum við öðrum að skilja Biblíuna og það auðgar bæði líf þeirra og okkar.“ Hvað segja Melle og Helena? „Í Biblíunni er að finna bestu leiðbeiningarnar fyrir lífið og það er mjög ánægjulegt að segja frá þeim.“ Hvers vegna er líf Helmuts innihaldsríkara núna? „Ég veit að boðunarstarf mitt skiptir Jehóva miklu máli,“ segir hann. Og Silvia segir: „Í boðunarstarfinu hittir maður fólk og á athyglisverð samtöl við marga, og ég nýt beggja.“

Hvers vegna ekki að ræða við votta Jehóva næst þegar þeir koma í heimsókn? Stutt samtal við einn þeirra gæti verið fyrsta skrefið í áttina að því að gera líf þitt tilgangsríkara, ekki aðeins um helgar heldur alla daga.

Hvað sem þér finnst skemmtilegast að gera til afþreyingar skaltu gera eitthvað ánægjulegt og endurnærandi. Ef þú talar þýsku óskum við þér „schönes Wochenende“. Ef móðurmál þitt er spænska þá „¡Buen fin de semana!“ Ef þú ert Úkraíni gætum við sagt: „Бажаю вам приємно провести вихідні.“ Hvar sem þú býrð og hvað sem þú gerir, njóttu helgarinnar!

[Neðanmáls]

^ Finna má upplýsingar um hugsanlegar hættur ákveðinna tölvuleikja í greininni „Ungt fólk spyr . . . ætti ég að spila tölvuleiki?“ í Vaknið! janúar-mars 1996 og greinasyrpunni „Electronic Games — Is There a Dark Side?“ í Vaknið! (enskri útgáfu) 22. desember 2002.

^ Sjá greinarnar „Young People Ask . . . Thrill Sports — Should I Take a Chance?“ í Vaknið! (enskri útgáfu) 8. júlí 1994 og „Thrill Seekers — Why the Fatal Attraction?“ í Vaknið! (enskri útgáfu) 8. október 2002.

[Myndir á blaðsíðu 13]

Ánægjuleg helgi er heilnæm blanda af hvíld, afþreyingu og andlegum málum.