Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Her í sókn!

Her í sókn!

Her í sókn!

„Við búum í nýbyggðu þorpi í Belís sem er umkringt gróðri. Um klukkan níu einn morguninn réðst her inn á heimili okkar. Maurar streymdu í þúsundatali inn um dyrnar og út úr hverri rifu í leit að bráð. Það eina sem við gátum gert var að flýja heimilið í eina til tvær klukkustundir meðan á hernáminu stóð. Þegar við komum heim aftur voru maurarnir búnir að hreinsa húsið algerlega af skordýrum.“

ATVIK SEM ÞETTA er algengt í hitabeltislöndum eins og Belís. Þetta þykir ekki með öllu illt af því að þetta er ágætis leið til að losna við skordýr, eins og kakkalakka og önnur meindýr, úr húsinu. Og maurarnir skilja ekkert drasl eftir sig.

Það er viðeigandi að þessir maurar skuli vera kallaðir hermaurar þar sem þeir líkjast mjög hermönnum í hegðun og lífsháttum. * Flökkuherinn, sem í eru hundruð þúsunda maura, býr ekki til venjuleg maurabú heldur gerir sér tímabundinn dvalarstað úr ógrynni af maurum sem krækja löppunum saman og mynda þannig lifandi net um drottninguna og ungviðið. Frá dvalarstaðnum streyma árásarflokkar í langri röð í leit að fæðu en maurarnir éta bæði skordýr og önnur smádýr eins og eðlur. Það er eins og forystumaurarnir í árásarflokknum sendi líka útrásarfylkingar til að króa bráðina af. Þetta gerist þegar þeir finna ekki lengur lyktarslóð af bráðinni og þeir hika og stöðva framrásina. Maurarnir fyrir aftan ryðjast áfram svo að það myndast breiðfylking fremst og að lokum ryðjast fram útrásarfylkingar yfir allbreitt svæði.

Hermaurar vinna í 36 daga lotum. Þeir fara í 16 daga árásarferðir en halda síðan kyrru fyrir á dvalarstað í 20 daga á meðan drottningin verpir eggjum. Síðan knýr hungrið þá til að fara aftur í árásarferð. Tíu metra breið maurafylking hrekur á undan sér kóngulær, sporðdreka, bjöllur, froska og eðlur sem öll flýja maurana. Á eftir þeim fara síðan fuglar sem veiða þessi dýr en virðast láta maurana í friði.

Maurarnir eru eitt af undrum sköpunarverksins enda kallar Biblían þá ,vitra spekinga‘. — Orðskviðirnir 30:24, 25.

[Neðanmáls]

^ Þessi grein fjallar um Eciton maurategundina í Mið- og Suður-Ameríku.

[Mynd á blaðsíðu 31]

Hermaur

[Credit line]

© Frederick D. Atwood

[Mynd á blaðsíðu 31]

Maurarnir búa til brú með því að krækja saman löppunum.

[Credit line]

© Tim Brown/www.infiniteworld.org