Vindmyllur minna á liðna tíð
Vindmyllur minna á liðna tíð
Eftir fréttaritara Vaknið! í Hollandi
VINDMYLLUR sjást oft á landslagsmyndum eftir Jacob van Ruisadel, Meindert Hobbema, Rembrandt van Rijin og aðra fræga hollenska listamenn sem voru uppi á 17. öld. Og það er ekki að undra því að í þá daga voru um 10.000 vindmyllur á víð og dreif um landið. En þessar myndrænu byggingar voru til fleiri hluta nytsamlegar en að veita listamönnum innblástur. Frá því snemma á 15. öld og fram til síðari hluta 19. aldar gerðu þær það sem raf- og dísilvélar gera núna. Þær dældu vatni, möluðu korn, söguðu timbur og komu að ýmsum öðrum notum í iðnaði. En vindmyllur eru ólíkar nútímavélum að því leyti að þær veita afl án þess að menga.
Seglin dregin upp
Ef þú ferð til Hollands geturðu enn dáðst að þessum aldagömlu byggingum þótt ekki séu nema um þúsund vindmyllur eftir. Langar þig að vita svolítið meira um þær? Komdu með okkur að skoða 350 ára gamla vindmyllu við ána Vechte í Mið-Hollandi.
Það er fallegur vormorgunn. Mylluvörðurinn Jan van Bergeijk býður okkur upp á sjóðheitt kaffi og segir að veðrið sé tilvalið til að setja mylluna af stað. En fyrst þarf að snúa þaki myllunnar upp í vindinn. Jan útskýrir hvernig hann fer að því meðan hann stígur á þrep á viðarhjóli sem er tvöfalt stærra en hann sjálfur. Þetta hjól er tengt hatti eða þaki myllunnar. Með hjólinu snýr Jan hattinum svo að 13 metra langir spaðarnir nýti vindinn sem best. Þá er hjólið hlekkjað við jörðina til þess að það hreyfist ekki. Því næst breiðir Jan úr segldúki sem hann festir á spaðagrindurnar. Þegar hann er búinn að festa öryggiskeðjuna losar hann bremsuna og vindurinn þenur seglin þannig að spaðarnir fjórir fara að snúast hægt og hægt. Um stund horfum við með aðdáun á spaðana snúast með miklum hvin. Síðan býður Jan okkur að koma inn og sjá gangverk myllunnar.
Nánari athugun
Við förum upp brattan stiga upp í hatt myllunnar. Þar sjáum við láréttan tréöxul sem er festur við spaðana. Á þessum öxli eru tréhjól með tönnum og teinum sem snúa lóðréttum ási og er hann kallaður lóðrétti aðalöxullinn. Við tökum eftir íláti með hvítri svínafeiti þar rétt hjá. Jan segir okkur að hún sé notuð til að smyrja steininn
sem tréöxulinn snýst í. Hann notar hins vegar býflugnavax til að smyrja eikartannhjólin. Hér sjáum við líka hvernig hægt er að hægja á spöðunum. Í kringum eitt hjólið er röð af trékubbum. Þegar þeim er þrengt að hjólinu virka þeir eins og bremsa en þegar þeir eru losaðir frá fara spaðarnir aftur að snúast.Á meðan við fetum okkur varlega niður brattan stigann sjáum við aðalöxulinn vel en hann nær frá hattinum og niður eftir allri myllunni. Við finnum lyktina af gömlum viðnum og heyrum marrið í tannhjólunum. Við neðri enda aðalöxulsins er önnur tannhjólasamstæða úr tré sem knýr vatnshjól. Við nemum staðar við hjólið og hlustum heillaðir á vatnið skvettast og þytinn í spöðunum. Það er eins og við höfum ferðast aftur í tímann. Við njótum stundarinnar út í ystu æsar.
Vindmyllan sem heimili
Í sumum myllum, eins og kornmyllum, var ekkert íbúðarrými. Allt rými myllunnar var lagt undir vélbúnaðinn. Yfirleitt bjuggu mylluvörðurinn og fjölskylda hans í húsi við hliðina á myllunni. En í myllu eins og við erum að skoða væri vel hægt að búa.
Við ímyndum okkur kannski að það hljóti að hafa verið notalegt að búa í myllu en áður fyrr var það ekkert sældarlíf. Jarðhæðin var notuð sem svefnherbergi og stofa. Þar var lokrekkja fyrir tvo, eldhúskrókur og smágeymslurými. Fram á miðja 20. öldina var venjulega lítill kamar yfir skurði nálægt myllunni. Jan segir okkur að mylluverðir, sem áttu stóra fjölskyldu, stundum fleiri en tíu börn, hafi þurft að búa til svefnstæði alls staðar. Stundum svaf yngsta barnið undir rúmi foreldranna en hin sváfu annaðhvort í stofunni eða á annarri eða þriðju hæð — beint undir hávaðasömum tannhjólunum.
Sumar myllur voru notaðar til að halda sælöndum þurrum — láglendum svæðum sem höfðu áður verið undir sjó eða vatni. Þær þurftu að dæla dag og nótt. Það var næðingssamt þar sem myllurnar stóðu á bersvæði og kuldi og dragsúgur inni í þeim. Þar að auki var hætta á stormi og þrumuveðri. Það er því augljóst að þeir sem
bjuggu í vindmyllum lifðu erfiðu lífi. Enn er búið í um 150 myllum í Hollandi og í mörgum þeirra eru reyndir mylluverðir.Vindmyllur til ýmissa nota
Á meðan vindmyllan dælir vatni förum við út og setjumst á bekk. Jan fræðir okkur um þau mismunandi hlutverk sem vindmyllur hafa gegnt — kornmyllur mala korn, dælumyllur dæla vatni í á eða þró, olíumyllur vinna olíu úr fræjum, pappírsmyllur framleiða pappír, sögunarmyllur saga timbur og svo framvegis. Hann segir okkur líka að fyrsta dælumyllan hafi verið smíðuð snemma á 15. öld. Slíkar myllur voru síðar meir notaðar til að þurrka upp nokkur stöðuvötn eins og Shermer, Beemster og Wormer nálægt Amsterdam.
Núna vinna og búa hundruð þúsunda Hollendinga á landi sem var áður botn þessara vatna og annarra. Aðalflugvöllur Hollands við Amsterdam var meira að segja gerður á slíku landi. Farþegar, sem rölta um flugvöllinn, eru fjóra metra fyrir neðan sjávarmál! En ekki þarf að hafa áhyggjur af að flugferðin breytist í siglingu. Dælustöðvar, sem eru knúnar raf- og dísilvélum (arftökum vindmyllunnar), eru að allan sólarhringinn til þess að koma í veg fyrir að fólk blotni í fæturna.
Talandi vindmyllur?
Á meðan spaðarnir sveiflast fram hjá okkur spyr Jan hvort við höfum heyrt um talandi vindmyllur. „Talandi vindmyllur? Nei,“ svörum við. Hann segir okkur að á flatlendinu í Hollandi hefði oft verið hægt að sjá vindmyllur í margra kílómetra fjarlægð og mylluvörðurinn hefði því getað gefið nágrönnunum merki langar leiðir með því að stilla spaðana á ákveðinn hátt. Þegar hann gerði til dæmis stutt hlé á vinnunni stillti hann spaðana lárétt og lóðrétt (A). Ef hann var ekki að vinna hafði hann spaðana á ská (B). Þessi staða var líka valin í vondu veðri til að spaðarnir væru eins lágt á lofti og hægt var, þannig að minni líkur væru á að eldingu slægi niður í þá. Ef mylluvörðurinn stöðvaði spaðana rétt áður en spaði náði efstu stöðu táknaði það gleði og eftirvæntingu (C). Sorg og harmur voru sýnd með því að stöðva spaðana rétt eftir að spaði hafði náð efstu stöðu (D).
Það voru líka margar staðbundnar hefðir. Norður af Amsterdam voru myllur oft skreyttar á gleðistundum eins og við brúðkaup. Þá voru spaðarnir hafðir á ská, líkt og þegar mylluvörðurinn var ekki að vinna, og skraut fest á milli þeirra. Eftir að þýski herinn hafði hertekið landið í seinni heimstyrjöldinni notaði fólkið staðsetningu spaðanna til að vara fólk í felum við yfirvofandi skyndiárás hermanna. Allur þessi skemmtilegi fróðleikur um myllur gerði heimsókn okkar til Jans mjög minnisstæða.
Fyrir nokkrum árum fengu þeir sem leggja sig fram um að varðveita myllurnar góðan stuðning þegar Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna setti 19 myllur í Kinderdijk nálægt höfninni í Rotterdam á lista hjá Alþjóðaarfleifðarnefndinni. Þar af leiðandi eru myllur, sem áður voru aðeins venjulegar verksmiðjur, orðnar að menningararfleifð. Margir áhugamenn leggja sitt af mörkum til að vernda myllurnar í landinu og viðhalda þeim. Vegna framtaks þeirra geta ferðamenn hvaðanæva úr heiminum enn notið þess að horfa á sömu vindmyllurnar og veittu frægum listamönnum fortíðar innblástur.
[Rammi á blaðsíðu 25]
Útflutningsbann á vindmyllur
Fyrir um 300 árum var mikil eftirspurn eftir vindmyllutækni. Heilir bátsfarmar af mylluhlutum voru fluttir frá Hollandi. Þar að auki fóru útlendingar um landið í leit að myllusmiðum til að bjóða þeim vinnu erlendis. Áður en langt um leið var hollensk myllutækni komin til Englands, Frakklands, Þýskalands, Írlands, Portúgals, Spánar og Eystrasaltslandanna. Um miðja 18. öld var myllutæknin í Hollandi meira að segja komin í svo slæmt horf að stjórnvöld ákváðu að taka málin í sínar hendur. Í febrúar 1752 settu stjórnvöld útflutningsbann á vindmyllur. Eftir það mátti enginn aðstoða útlending við að kaupa, smíða eða flytja „nokkurn hluta úr hollenskri vindmyllu“ eða „flytja út nokkurt verkfæri sem nota mætti til að smíða þær“, að sögn hollenska sagnfræðingsins Karels Davids. Og hver sagði svo að viðskiptahömlur og tækninjósnir væru nútímafyrirbæri?
[Myndir á blaðsíðu 25]
Fyrir neðan: Jan snýr hatti myllunnar í átt að vindinum; tréhjól með tönnum og teinum; stofan
[Credit line]
Allar myndir: Stichting De Utrechtse Molens
[Mynd credit line á blaðsíðu 23]
De Saen málverk eftir Peter Sterkenburg, 1850: Kooijman Souvenirs & Gifts (Zaanse Schans Holland)